Heilsa

Kírópraktík: Getur hnykkur í hrygginn linað verki þína? 

Milljónir sjúklinga leggja vongóðir hrygg sinn í sterkar hendur kírópraktora. Og þessir vinsælu hnykkjarar eiga langa háskólagöngu að baki. En kírópraktíkin hefur þó ekki ennþá sannað að hún virki betur en að gera ekki neitt.

BIRT: 26/10/2024

Prófessor Edmund S. Crelin horfir einbeittur á meðan gaffallagaður málmhlutur nálgast hryggjarsúlu hins látna. Málmhluturinn situr á borstandi – verkfæri sem getur skilað miklum þrýstingi.

 

Þegar hluturinn lendir á beininu einblínir Crelin á þau taugabúnt sem standa út milli bilanna í hryggjarsúlunni.

 

Hann togar hægt í handfang borstandsins og lítur á mælinn sem sýnir hversu fast málmhluturinn þrýstist að hryggjarliðnum.


Crelin er umhugað um að skera úr um einn hlut: Hvort kenningin á bakvið hið útbreidda meðferðarform kírópraktík sé rétt eður ei.

1800 mia. krónur – svo mikið notuðu Bandaríkjamenn árið 2015 í kírópraktík. Vænst er að upphæðin hafi hækkað á síðustu árum.

 

Samkvæmt kírópraktíkinni koma margir sjúkdómar líkamans fram þegar hryggjarliðirnir skekkjast þannig að taugar klemmast. En er það í raun og veru tilfellið?

 


Mælirinn sýnir nú að borstandurinn skilar meira en 50 kg þrýstingi á hryggjarsúlu hins látna. Hryggjarsúlan bognar eilítið þannig að bilin á milli hryggjarliðanna minnka og nálgast smám saman taugarnar. Síðan brotnar beinið undan þrýstingnum.

 

Crelin endurtekur tilraunina á mismunandi stöðum á hryggjarsúlunni á fimm öðrum látnum manneskjum. Aldrei ber svo við að hryggjarliðirnir þrýsti á taugar – þrátt fyrir að þrýstingurinn á beinið sé svo mikill að þeir séu við það að brotna.

 

Ástæðan er sú að það er ævinlega nægjanlegt pláss fyrir taugarnar í hryggjarsúlunni.

Taugarnar í hryggnum (gular) koma út úr mænunni um op á milli hryggjarliða.

Tilraun Crelins frá 1973 afhjúpar galla í grunnstoð kírópraktíkur. Skakkir hryggjarliðir snerta ekki taugarnar. En það þýðir ekki nauðsynlega að meðferðin sé haldlaus – kannski hjálpar þrýstingur kírópraktorsins á hryggjarsúlu þína með önnur vandamál í bakinu sem eiga þátt í að valda verkjum og sjúkdómum.

 

Fjölmargar rannsóknir styðja þá staðhæfingu. Þær virðast sýna marktækan bata í einkennum sjúklinga eftir eina meðferð hjá kírópraktor.

 

Vandinn er að langflestar tilraunirnar eru fullar af grundvallargöllum sem gera niðurstöður þeirra meira eða minna ónothæfar. Vísindamenn eru því tilneyddir að feta varlega í gegnum aragrúa tilrauna þegar þau leita eftir sannleikanum um virkni kírópraktíkur.

 

Kírópraktorar hafna kenningu

Faðir kírópraktíkur, Daniel David Palmer, var sannfærður um að nánast allir sjúkdómar líkamans ættu uppruna sinn í hryggjarsúlunni – og að alla þessa sjúkdóma mætti meðhöndla með því að vinna með hryggjarsúluna.

 

Palmer byggði kenningu sína á því að taugar frá hryggjarsúlunni ná út til allra líffæra líkamans og að virkni tauganna virtist verða fyrir áhrifum ef hryggjarliðirnir sátu skakkir.

 

Jafnvel með því að hnykkja hryggjarliðum lítillega til – svo lítillega að núna gætum við ekki séð það á CT – skanna – hafði þær afleiðingar samkvæmt Palmer að valda þrýstingi á taugar hryggjarsúlunnar.

1895 var árið þegar hinn kanadíski Daniel David Palmer fann upp kírópraktík. Á undan því starfaði hann sem svokallaður segulheilari.

Hann taldi að 95% allra sjúkdóma stöfuðu af svokallaðri „vertebral subluxation“ – en það er meint mein í starfandi virkni hreyfibilaðra hryggjarliða – meðan hin 5% stöfuðu af tilfærslum í öðrum liðum beina líkamans.


Margir svokallaðir hefðbundnir kírópraktorar aðhyllast ennþá þessi 125 ára gömlu fræði Palmers og það er hægt að finna hnykkjara sem bjóða meðferð á hryggnum með það markmið að vinna á kvillum eins og höfuðpínu, háum blóðþrýstingi, lágum blóðþrýstingi, skertri virkni lungna, bældu ónæmiskerfi og magakvillum.

„Þrýstingur á hrygginn losar klemmdar taugar“

Með því að ýta hryggjarliðum á sinn stað verður þú heilbrigður. Samkvæmt kírópraktíkinni stafa bakverkir, og kannski fleiri kvillar, oftast af því að skakkir hryggjarliðir trufla boðsendingar tauganna. Þessi kenning á sér samt engan vísindalegan grunn.

,,Skakkir hryggjarliðir þrýsta á taugar”

Smávægileg frávik milli liða hryggsins fá hryggþófa til að þrýsta á taugar. Þetta hefur áhrif á boðsendingar tauganna til annarra hluta líkamans.

 

Sönnun: Engin

,,Þrýstingur á hryggjarliði losar um taugar”

Kíróprakturinn þrýstir á hryggjarsúluna þannig að hryggjarliðir renna á sinn stað. Það losnar um klemmdar taugar og þetta verður til þess að mögulegir verkir í hryggnum hverfa.

 

Sönnun: Engin

,,Læknandi áhrif dreifast út í líkamann”

Taugarnar senda nú boð til heilans, hjartans og annarra hluta líkamans og meðferðin getur þannig dugað við margs konar kvillum hvarvetna í líkamanum.

 

Sönnun: Engin

„Þrýstingur á hrygginn losar klemmdar taugar“

Með því að ýta hryggjarliðum á sinn stað verður þú heilbrigður. Samkvæmt kírópraktíkinni stafa bakverkir, og kannski fleiri kvillar, oftast af því að skakkir hryggjarliðir trufla boðsendingar tauganna. Þessi kenning á sér samt engan vísindalegan grunn.

,,Skakkir hryggjarliðir þrýsta á taugar”

Smávægileg frávik milli liða hryggsins fá hryggþófa til að þrýsta á taugar. Þetta hefur áhrif á boðsendingar tauganna til annarra hluta líkamans.

 

Sönnun: Engin

,,Þrýstingur á hryggjarliði losar um taugar”

Kíróprakturinn þrýstir á hryggjarsúluna þannig að hryggjarliðir renna á sinn stað. Það losnar um klemmdar taugar og þetta verður til þess að mögulegir verkir í hryggnum hverfa.

 

Sönnun: Engin

,,Læknandi áhrif dreifast út í líkamann”

Taugarnar senda nú boð til heilans, hjartans og annarra hluta líkamans og meðferðin getur þannig dugað við margs konar kvillum hvarvetna í líkamanum.

 

Sönnun: Engin

Núna finnast engar sannanir fyrir því að smávægileg frávik í hryggjarsúlunni geti verið sjúkdómsvaldandi. Og margir kírópraktorar hafna hugmyndum Palmers. Sumir takmarka sig við að halda því fram að hnykkingar geti minnkað staðbundna verki í bakinu.

 

Þessi útgáfa af kírópraktík ræður ríkjum m.a. í fimm ára námi hnykkjara í Danmörku og fjórum öðrum Evrópulöndum – háskólamenntun sem á mörg sameiginleg fög með læknisfræði.

 


Þessir vel menntuðu kírópraktorar stunda meðferð sína á bakverkjum við spítala og á einkastofum. Og í mörgum Evrópulöndum fá sjúklingar þeirra niðurgreidda meðferð frá hinu opinbera – óháð því hvort þeir séu með tilvísun frá lækni. En það ríkir ekki einu sinni sátt um þessa hófsamari útgáfu hnykkinga og tilraunir sem geta réttlætt kírópraktík eru fábrotnar og stopular.

 

Mannfáar tilraunir magna upp áhrif


Bandaríski kírópraktorinn Sean Hannon skrifaði árið 2004 yfirlitsgrein þar sem hann fór í gegnum hundruði „rannsókna“ þar sem virkni kírópraktíkur var könnuð. Niðurstaða greinarinnar var sú að kírópraktík hafi skýra og jákvæða virkni, og hefur síðan verið vitnað oft í þessa grein af hnykkjurum um heim allan.

 

Við nánari eftirgrennslan varðar greinin einungis um 15 rannsóknir, sem voru nákvæmlega valdar til að styrkja sannfæringu Hannons. En þegar betur er aðgætt standast tilraunirnar enga skoðun.

 

Í einni þeirra áttu þrír af fjórum þátttakendum að hafa fengið bættar ónæmisvarnir eftir kírópraktíska meðferð, meðan önnur tilraun staðhæfði minnkandi kólesteról hjá sjö af tíu þátttakendum sem voru reyndar allir sjálfir kírópraktorar.

Leiðsögn um góða vísindamennsku: Tilraun verður að hafa marga þátttakendur

Stærð tilrauna: 30 þátttakendur eða 300? Meðferðina skal reyna á nægjanlega stóru úrvali manna. Þetta krefst margra og helst einnig margbreytilegra þátttakenda.

Rangt

Smáar tilraunir eru fórnarlömb hendingar

Vísindamenn kveða til lítinn hóp sjúklinga, t.d. níu manns, og kanna meðferðina á þeim. Í svona lítilli tilraun er lítil hætta á að þátttakendur bregðist af hendingu betur við meðferðinni en meðaltal sýnir. Auk þess er erfitt að draga tölfræðilega marktæka niðurstöðu þegar viðkomandi meðferð er borin saman við annars konar meðferð.

Rétt

Fjölmennar tilraunir gefa nothæfar niðurstöður

Vísindamenn reikna út hversu marga þátttakendur þarf til að draga tölfræðilega marktækilega niðurstöðu. Fjöldinn ræðst meðal annars af forsögnum um áhrif meðferðar og breytileika milli þátttakenda. Best væri ef vísindamenn gætu einnig valið persónur sem hafa sams konar breytileika hvað varðar kyn og aldur, eins og í hópi sjúklinga.

Vægi

Litlar tilraunir eru bágbornar

Kínverskir vísindamenn uppgötvuðu árið 2013 að tilraunir með undir 100 þátttakendum ýktu að jafnaði áhrif meðferðar um 40%, miðað við tilraunir með meira en 100 manns. Meginmunur í niðurstöðum tilraunanna stafar þó ekki af sjálfum fjölda þátttakenda, heldur að smærri tilraunir eru jafnan langtum verr útfærðar en þær stærri.

Tilraunir með svo fáa þátttakendur eru algjörlega ótrúverðugar því að þær eru alltof viðkvæmar gagnvart tilfallandi breytum sem að hafa ekkert með sjálfa meðferðina að gera. Þegar fleiri persónur taka þátt í tilraununum öðlumst við nákvæmari mynd af áhrifum meðferðarinnar og sú mynd er oft afar frábrugðin þeim niðurstöðum sem fámennar tilraunir koma fram með.

 


Bandaríski læknirinn Paul Shekelle skoðaði nánar vandamál með of fáa þátttakendur í slíkum tilraunum árið 2017. Hann fór gaumgæfilega í gegnum 26 vísindalegar tilraunir þar sem áhrif hnykkinga á bráða verki í mjóbaki, þ.e.a.s. bakverki, sem ekki höfðu staðið lengur en í sex vikur.

 

Einungis 12 tilraunanna fylgdu sjúklingunum eftir í meira en tvær vikur að meðferð lokinni og mældu verki þeirra á nothæfum skala. Tilraunirnar 12 höfðu að meðaltali 118 þátttakendur sem skipt var í tvo hópa – einn sem kírópraktorar meðhöndluðu og annar sem hlutu annars konar meðferð.

 

Til samanburðar þurfa lyf jafnan að vera prófuð á milli 300 og 3000 þátttakendum áður en þau öðlast viðurkenningu. 118 manns er ekki tölfræðilega sterkur grunnur og nánari skoðun á tölunum afhjúpar greinilega tilhneigingu.

19.400.000 Bandaríkjamenn leita árlega til kírópraktora, en það samsvarar 8,4% íbúanna. Þetta sýnir rannsókn frá árinu 2012.

Að jafnaði var niðurstaða tilraunanna 12 sú að kírópraktík væri aðeins betri en hin meðferðin sem hún var borin saman við. En munur á verkjastillingu réðist meira af því hversu margir þátttakendur væru með í tilrauninni, heldur en af því hvaða meðferð kírópraktík var borin saman við.

 

Ein tilraun með 29 þátttakendum komst að þeirri niðurstöðu að kírópraktík minnkaði verki 23% betur en markvissar bakæfingar. Ein tilraun með 239 þátttakendum komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að kírópraktík minnkaði verki einungis um 2% betur en fullkomlega verkunarlaus lyfleysumeðferð.

 

Foreldrar hafa áhrif á börn sín

Fámennar tilraunir eru alls ekki eini vandi kírópraktíkur. Þegar meta skal áhrif meðferðar er  mikilvægt að hafa réttan grunn til samanburðar.

 

Árið 2018 framkvæmdi Tobias Sandberg frá hinni virtu rannsóknarstofnun Karolinska Institutet í Stokkhólmi sem dæmi rannsókn sem náði til 246 sjúklinga kírópraktora – en enga sjúklinga sem ekki höfðu fengið kírópraktíska meðferð. Rannsóknin sýndi að sjúklingar upplifðu umtalsverðan bata á bakverkjum eftir meðferðina.

 

Þetta hljómar eins og gríðarlega mikill árangur, en er það eiginlega ekki þegar rannsóknin er skoðuð í ljósi þess að margir sjúklingar með bakverki fengu fullan bata af sjálfu sér – óháð því hvort þeir fengu meðferð eður ei. Ef tilraunin hefði einnig náð til sjúklinga sem fengu enga meðferð gætu vísindamenn dregið marktækari niðurstöður.

Vísindin kveða upp dóm : Mikill þrýstingur hjálpar einungis meðfram hryggjarsúlu

Kírópraktík er uppfull af illa útfærðum tilraunum og niðurstöðurnar oft mótsagnakenndar. Engu að síður virðast þær teikna upp eina mynd sem er nokkuð trúverðug: Þrýstingur kírópraktors á hryggjarliðina hefur kannski smávægileg áhrif á verki meðfram hryggnum, en engin áhrif á aðra kvilla í líkamanum.

 

  • Trúlega engin áhrif

     

  • Hár blóðþrýstingur

  • Tíðaverkir

  • Þvagleki

  • Astmi

  • Svefnleysi

  • Barnleysi

 

  • Skortur á sönnunargögnum

     

  • Mígreni og höfuðverkur

  • Gigt

  • Barnamagakveisa

 

  • Líkleg áhrif
  • Lið – og vöðvaverkir
  • Hálsverkir

  • Mjóbaksverkir

 

  • Vel staðfest áhrif
  • Engin sjúkdómur

Rannsókn Sandbergs átti auk þess við annað vandamál að stríða. Það var ekki aðeins að hún mældi einungis sjúklinga sem fengu meðferð hjá kírópröktum – heldur mældi hún einungis þá sjúklinga sem fóru í gegnum fjögurra vikna meðferð. Þeir sjúklingar sem duttu út innan fjögurra vikna voru hundsaðir.

 

Vandinn er að fólk hættir oft við meðferð þegar því finnst hún ekki virka – og í rannsókn Sandbergs voru það heil 44% sem hættu meðferðinni. Ef allir þeir hefðu verið teknir með í útreikningana hefðu niðurstöðurnar að líkindum verið allt aðrar.
Best færi ef meðferðin væri borin saman við aðra meðferð, t.d. lyfleysumeðferð – og að vísindamenn geti gert ráð fyrir þeim þátttakendum sem hætta við í báðum meðferðarhópum.

100.000 menntaðir kírópraktorar meðhöndla sjúklinga um heim allan. Langflestir, um 70.000, starfa í BNA.

Slíkar tilraunir verða enn haldbærari ef vísindamenn sjá til þess að engin sjúklinganna viti hvora meðferðina þeir fá, því þannig geta væntingar þeirra ekki haft áhrif á niðurstöðurnar. Þetta er erfitt í framkvæmd með meðferð sem felst því að þrýsta fast á hrygginn og því hafa fæstar tilraunir getað gert það.

 

Ein greining sem kírópraktorinn Don Dodson framkvæmdi árið 2012 horfði til fimm tilrauna þar sem áhrif kírópraktíkur á magakveisu barna var könnuð. Þetta er kvilli sem fær ungabörn til að gráta tímunum saman hvern einasta dag.

 

Greining hans sýndi að væntingar til meðferðarinnar – í slíkum tilvikum væntingar foreldranna – höfðu mikil áhrif á niðurstöður tilraunarinnar. Helstu ályktanir frá þeim tilraunum voru þær að börnin grétu um 1,2 tímum minna á degi hverjum að mati foreldra þegar þau fengu meðferð hjá kírópraktor, miðað við þau börn sem fengu enga meðferð.

 

En þegar Dodson kannaði betur þær tvær tilraunir þar sem foreldrara voru ekki vissir um hvaða meðferð börn þeirra fengu voru niðurstöðurnar ekki eins góðar. Í annarri tilrauninni grétu börnin sem fengu ekki nokkra meðferð minna heldur en börnin sem fengu meðferð hjá kírópraktor.

 

Kírópraktík veitir vellíðan

Heildarmyndin lítur því ekkert sérlega vel út fyrir kírópraktík. Kírópraktorinn og vísindamaðurinn Sydney Rubinstein við Vrije Universitet í Amsterdam í Hollandi framkvæmdi árið 2012 nákvæma greiningu á 20 tilraunum þar sem áhrif kírópraktíkur voru rannsökuð á slæma mjóbaksverki og náðu þær til 2647 þátttakenda.

 

Rubinstein komst að því að kírópraktík bætti ekki ástand sjúklinganna meira en lyfleysumeðferð.

 

Í annarri greiningu fór Christine Goertz frá bandaríska Palmer College of Chiropractic – en hún var stofnuð af sjálfum föður kírópraktíkur, Daniel David Palmer –  yfir 38 rannsóknir á áhrifum kírópraktíkur á bakverki.

 

Hún fann smávægileg jákvæð áhrif meðferðarinnar, en ályktaði einnig að rannsóknarsvið þetta ætti að setja sér skýrari línur fyrir tilraunirnar svo hægt væri að draga öruggar og trúverðugar ályktanir.

Hverjir leita til kírópraktors

Rannsókn á kírópraktíksjúklingum í Evrópu, BNA og Ástralíu frá árinu 2008 sýndi að 41% þeirra fannst þeir vera veikir, en óskuðu þess þó að fá meðhöndlun við heilbrigðisvanda sínum án hjálpar frá læknum.

Manneskjur sem segjast vera veikar og hafa farið til læknis
Heilbrigðar manneskjur sem leita í vellíðan og heilbrigði
Manneskjur sem finnst þær vera veikar en hafa ekki leitað til læknis
Heilbrigðar manneskjur sem vilja fyrirbyggja sjúkdóma

Áhrif meðferðarinnar á kvilla sem eru lengra frá hryggjarsúlunni eru enn vafasamari. Greining frá árinu 2006 með vísindamanninn Michelle Proctor í fararbroddi fann engar trúverðugar sannanir um að kírópraktík hjálpi gegn tíðarverkjum. Og kírópraktórinn Guillaune Goncalves ályktaði árið 2018 að kírópraktík gagnist ekkert gegn kvillum eins og skertri lungnastarfssemi, nærsýni, háum blóðþrýstingi og veiku ónæmiskerfi.


Allt í allt sýna rannsóknirnar að kírópraktík er tiltölulega óskilvirkt meðferðarform sem kann þó mögulega að vera betra en ekki neitt hvað varðar bakverki. Hins vegar finna margir fyrir vellíðan hjá kírópraktorum þegar þeir ýta í og hnykkja við hryggjarsúlunni.

 

Stór rannsókn sýnir að 14% þeirra sem leita til kírópraktora gera það fyrst og fremst vegna slíkrar vellíðunar. Og þar sem hættulegar aukaverkanir eru afar sjaldgæfar – en finnast þó – er það kannski ánægjunnar virði.

Snerting leysir út þægileg taugaboð

1

Efni dreifa gleði

Mannleg snerting í formi nudds og að líkindum einnig kírópraktíkur getur leyst út taugaboð með efnum eins og dópamíni og oxítósíni sem vekja gleði í heilanum.

2

Þrýstingur veitir skammvinna verkjastillingu

Öflugur þrýstingur á hryggjarsúluna getur fengið miðtaugakerfið til að losa endorfín sem veita skammvinn en þægileg verkjastillandi áhrif.

3

Meðferðin virkar á stress

Nudd, spa og að líkindum einnig kírópraktík getur dregið úr stressi með því að minnka seytingu stresshormónsins kortisóls frá nýrnahettunum.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Gorm Palmgren

Shutterstock,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Læknisfræði

Nýtt lyf við getuleysi: Eitruð könguló getur bjargað kynlífi þínu 

Alheimurinn

Ofurleiðaraefni að finna í loftsteinum

Lifandi Saga

Krossferðaherinn sigraður með timburvögnum

Lifandi Saga

Kína verður aldrei aftur auðmýkt

Tækni

Hvers vegna sofum við?

Heilsa

Létt þjálfun er áhrifaríkari

Maðurinn

Fimm hollráð vísindamanna: Þannig má breyta leiða í styrk

Tækni

Sólarsellur flytja út í geim 

Heilsa

Algengt meðferðarúrræði fyrir konur á breytingaskeiði er talið hafa í för með sér alvarlegar aukaverkanir

Maðurinn

Er skaðlegt að halda sér vakandi alla nóttina?

Heilsa

Yfirsýn: Svona bjargar blóðið þér

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is