Þjáist þú af heilsufarsvandamálum? Eða finnurðu bara fyrir því hvernig líkaminn hrörnar smám saman? Þá gætir þú notið góðs af fyrirbærinu „lífhökkun“.
Hugtakið nær yfir fjölbreytt úrval aðferða t.d. til að styrkja líkamann, bæta andlega getu heilans eða hægja á öldrun í frumunum. Sumar þessara aðferða eru hrein gervivísindi – en aðrar eru byggðar á traustum grunni studdar af vísindum.
Hér eru fimm aðferðir byggðar á vísindarannsóknum sem þú getur nýtt þér strax í þínu daglega lífi.
KULDI
Hoppaðu í sjóinn á veturna
Áhrif: Styrkir ónæmiskerfið, svo og andlega heilsu.
Hvers vegna?
Líkaminn verður heilsusamlegri og fær aukinn viðnámsþrótt ef við stundum sjósund. Þetta kemur í ljós í yfirlitsgrein frá árinu 2020, þar sem rýnt er í ýmsar vísindarannsóknir. Meðal vænlegra áhrifa á líkamann nægir að nefna lægri blóðþrýsting, styrkara ónæmiskerfi og áhrif sem vega upp á móti þunglyndi. Styrkara ónæmiskerfi gerir það að verkum að sjósundköppum er 40% síður hætt við sýkingum í öndunarfærum en við á um annað fólk. Ástæða áhrifanna kann að vera sú að kuldi breytir magni tiltekinna hormóna í blóðinu.
Hvernig?
Vatn, og þar með einnig sjór, telst vera kalt sé það undir 15 gráðum. Reyndir sjósundkappar ráða mæta vel við að synda í sjó sem er talsvert kaldari en sem svo en þess ber að geta að mjög kaldur sjór getur reynst byrjendum hættulegur. Kaldur sjórinn getur haft í för með sér líkamlegt lost þannig að sundfólk hættir að geta stjórnað andardrættinum, auk þess sem púls og blóðþrýstingur hækka. Þeir sem ekki eru vanir kuldanum geta fyrir vikið fundið fyrir hættulegum hjartsláttartruflunum. Fyrir vikið mæla vísindamenn með að fólk venjist kuldanum smátt og smátt og fari aldrei einsamalt í sjóinn.
HUGLEIÐSLA
Heilanum leyft að yfirgefa stund og stað
Áhrif: Heilinn eldist hægar.
Hvers vegna?
Tilraunir hafa leitt í ljós að hugleiðsla hefur áhrif á heilastarfsemina en þess má geta að virknin í hvirfilblaðinu minnkar með þeim afleiðingum að öll skynhrif samhæfast og við missum tíma- og staðarskyn. Jafnframt þessu eykst virknin í vinstra ennisblaði sem gerir það að verkum að við kætumst. Þessi áhrif eru vænleg fyrir heilann, ef marka má rannsókn frá árinu 2020. Þá komust vísindamenn að raun um að öldrun heilans í tíbetskum munki varð talsvert hægari en við átti um heila í venjulegu fólki sem ekki lagði stund á hugleiðslu.
Hvernig?
Hugtakið hugleiðsla er notað um ýmsar aðferðir sem eiga það yfirleitt sameiginlegt að láta heilann einblína á stakan hlut, skynhrif, orð eða viðlíka. Hugmyndin er sú að beina athyglinni frá hugsunum sem framkalla streitu og að öðlast ró í líkamanum. Sem dæmi er unnt að beina athyglinni alfarið að önduninni eða að reyna að gera sér mynd í huganum af friðsamlegum stað. Margir hugleiða í 20-40 mínútur í senn en hefjast má handa með 5-10 mínútna hugleiðslu fyrst í stað.
FASTA
Slepptu máltíðum
Áhrif: Frumurnar ráða betur við streitu.
Hvers vegna?
Þegar fastað er reglulega neyðist líkaminn til að brenna fitubirgðum þar sem ekki er stöðugt verið að neyta aðgengilegra hitaeininga. Jafnframt þessu breytast efnaskiptin og ýmsar rannsóknir gefa til kynna jákvæð áhrif á m.a. blóðsykur og insúlínframleiðslu. Frumur og líffæri líkamans verða enn fremur færari um að vinna bug á streitu og eldast fyrir vikið hægar. Til lengri tíma litið leiðir reglubundin fasta til betra viðnáms gegn sjúkdómum og jafnvel lengra lífs.
Hvernig?
Reglubundin fasta getur m.a. verið á þann veg að fæðu er einungis neytt á tilteknum tímum dags, t.d. milli klukkan 13 og 21 og að fastað sé það sem eftir lifir dags. Önnur aðferð felst í því að takmarka hitaeininganeyslu til muna, t.d. að innbyrða aðeins 500 hitaeiningar á dag tvo daga vikunnar og að borða hefðbundið magn hina dagana. Fasta getur haft í för með sér aukaverkanir í líkingu við höfuðverk, þreytu eða harðlífi en mörg þessara einkenna virðast raunar hverfa þegar líkaminn aðlagar sig nýju venjunum. Sum einkennanna má forðast með því að drekka ríkulega.
SVEFN
Bættu svefninn
Áhrif: Frumurnar verndaðar gegn skemmdum.
Hvers vegna?
Góður nætursvefn skiptir sköpum fyrir vænlega heilsu. Á meðan sofið er hreinsast úrgangsefni úr heilanum sem að öðrum kosti gætu leitt til heilahrörnunar. Þá eykst að sama skapi framleiðsla vaxtarhormóna og testósteróns þannig að skemmdar vöðvatrefjar eru byggðar upp á nýjan leik og ónæmiskerfið vaknar til lífsins og ræðst til atlögu við skaðlegar sýkingar. Þá getur svefnleysi enn fremur aukið hættu á alvarlegum heilsufarsvandamálum á borð við sykursýki, of háan blóðþrýsting, offitu, þunglyndi og skemmdir á erfðaefni frumnanna.
Hvernig?
Ef marka má bandaríska svefnsérfræðinginn Anne-Marie Chang gefst best að bæta nætursvefninn með því að slökkva á öllum skjáum minnst tveimur tímum fyrir háttatíma. Í rannsókn einni sem gerð var árið 2015 sýndu Anne-Marie og starfsfélagar hennar fram á að líkamsklukka okkar ruglar miklu magni blárrar birtu í skjáum saman við sólarljós og fyrir vikið telja líkaminn og heilinn að úti sé hábjartur dagur. Tilraunir leiddu í ljós að fjögurra tíma notkun snjallsíma fyrir háttatíma seinkar svefninum sem nemur einni og hálfri klukkustund.
LEIKIR
Spilaðu tölvuleiki í símanum
Áhrif: Andleg geta bætt.
Hvers vegna?
Líkaminn byrjar að hrörna þegar við eldumst. Tilteknir hlutar heilans skreppa saman og fyrir vikið eigum við erfiðara með að læra og ráða við flóknar hugsanir. Annars staðar í heilanum fara taugaboð og þar með hugsanirnar, að berast hægar. Þróun þessi er algerlega eðlileg, einnig meðal fólks sem er hraust og heilsugott að öðru leyti en unnt er að hægja á þróuninni með því að halda uppi virkni í heilanetunum. Þetta er m.a. hægt að gera með því að leggja stund á flókna tölvuleiki sem virkja tilteknar heilastöðvar.
Hvernig?
Í belgískri rannsókn frá árinu 2020 kom í ljós að margir tölvuleikir hafa jákvæð áhrif á heilann. Sem dæmi er mælt með leiknum „Lumosity“, þar sem leikmenn þurfa að leggja á minnið nokkra hluti eða að forðast hindranir á skjánum en hvort tveggja leiðir af sér bætta athygli, hraðari hugsun og betri rýmistilfinningu. Aðrir leikir á borð við „CogniFit“ og „MyBrainTrainer“ bæta hins vegar til muna starfsminni sem til dæmis gagnast okkur við að leggja á minnið símanúmer um leið og við veljum þau.