Lifandi Saga

Leiðindi hröktu riddara út í blóðug slagsmál

Hundraðárastríðinu lauk árið 1351 en það kom þó ekki í veg fyrir að enskir og bretónskir riddarar héldu bardögum áfram. Undirbúin voru blóðug slagsmál sem skyldu leiða í ljós hvoru megin bestu stríðsmennirnir leyndust.

BIRT: 09/06/2022

Enski riddarinn Robert Brandebourch stöðvaði hest sinn við stóra eikartréð, sem gekk undir heitinu „Hálfrarleiðartréð“, og gras og mold þeyttust upp í loftið. Brandebourch var staddur í austurhluta Bretaníu með 29 enska og þýska riddara og skjaldsveina sér við hlið, sem hugðust berjast fyrir enska konunginn.

 

Dag þennan, þ.e. hinn 26. mars 1351, hafði hann mælt sér mót við bretónska marskálkinn í þjónustu Frakka, Jean de Beaumanoir. Andstæðingarnir voru enn ekki sýnilegir en stríðsmennirnir 30 stigu af baki og gerðu sig klára.

 

Þar sem þeir biðu, kallaði Brandebourch út yfir gróðursnauða flatneskjuna:

 

„Beaumanoir, hvar ertu? Mér virðist þú ekki ætla að koma. Ef við hefðum farið að berjast, hefðir þú hvort eð er tapað!“

 

Um leið og Brandebourch hrópaði þessi háðungarorð birtust Bretónarnir á hestum sínum. Líkt og Brandebourch hafði Beaumanoir einnig smalað saman 29 af bestu stríðsmönnum sínum, sem börðust fyrir hönd Frakkakonungs. Samkomulagið var ljóst: 30 skyldu berjast gegn 30, þar til uppgjöf, limlestingar eða dauðinn stöðvaði þá.

 

Áður en dagur var að kvöldi kominn átti þessi furðulegi bardagi eftir að skrifa nöfn allra 60 stríðsmannanna á blöð sögunnar.

Daginn fyrir bardagann báðu riddararnir frá báðum hliðum fyrir lífi sínu og að bardaginn yrði þeim til sóma.

Bretanía dróst inn í hundraðárastríðið

Bardaginn á milli Brandebourch og Beaumanoir var eins konar angi af hundraðárastríðinu milli Frakklands og Englands, sem braust út árið 1337. Stríðið breiddist óumflýjanlega út til nærliggjandi hertogadæma og árið 1341 var Bretanía, þar sem nú er vesturhluti Frakklands, orðin að þungamiðju bardaganna, sökum þess að hertoginn, Jóhannes 3., hafði andast án þess að skilja eftir sig ótvíræðan erfingja.

 

Hálfbróðir hertogans, Jóhannes af Montfort, greip strax tækifærið og lagði undir sig stærstu borgir og virki hertogadæmisins. Yngri frænka Jóhannesar var gift náfrænda franska konungsins, Charles de Blois, sem fyrir vikið gat gert kröfu til þessa litla ríkis úti við sjóinn.

 

Þegar frönsku hersveitirnar marséruðu inn í Bretaníu til að aðstoða de Blois neyddist Montfort til að gera bandalag við enska konunginn og þannig atvikaðist það að erfðaþræturnar drógust inn í deilurnar milli Englands og Frakklands.

 

Harðvítugir bardagar geisuðu í ein tíu ár þar til samið var um eins konar vopnahlé árið 1351. Hvorugur aðili var ótvíræður sigurvegari stríðsins og Bretanía var í þeirri aðstöðu að allt í kring voru virki og svæði sem sýndu þessum eða hinum hertoganum hollustu sína. Engin lausn virtist vera í sjónmáli.

Bretónska erfðastríðið stóð frá 1341 til 1365 og leiddi til þúsunda dauðsfalla á báða bóga.

Áskorun sem ekki var hægt að hafna

Í austurhluta Bretaníu var að finna virkin Ploërmel, sem Englendingar réðu yfir, og Josselin, sem Bretónar höfðu yfirráð yfir. Dag einn meðan á vopnahléinu stóð fékk bretónski kastalastjórinn í Josselin, að nafni Jean de Beaumanoir, sig fullsaddan af leiðigjörnum hversdagsleikanum sem ríkti meðan á vopnahléinu stóð.

 

Hann fór því til Ploërmel og krafðist þess að fá áheyrn hjá enska kastalastjóranum, Robert Brandebourch. Beaumanoir skoraði á Englendinginn að taka þátt í riddaralegri stríðskeppni sem fólst í því að þrír úr hvoru liði skyldu taka þátt í burtreiðum.

 

Keppnin skyldi eiga sér stað líkt og hefðbundnar burtreiðar á friðartímum en burtstangirnar skyldu vera oddhvassar þannig að kappleikurinn ætti sér stað með lífið að veði. Keppninni var ætlað að leiða í ljós í eitt skipti fyrir öll hvor aðilinn byggi yfir betri herafla og ef jafnframt tækist að drepa andstæðinginn, var það einungis kostur.

 

Robert Brandebourch var ekki af jafn eðalbornum ættum og Beaumanoir og hafði fyrir vikið ekki sömu reynslu af burtreiðum og hinn. Áhættan var mikil, en Englendingar gátu samt engan veginn hafnað tilboðinu til þess að líta ekki illa út í augum andstæðingsins.

Árið 1911 var stytta af Jean de Beaumanoir reist í hinum sögulega bretónska bæ Dinan til að heiðra staðarhetjuna.

Brandebourch sendi fyrir bragðið gagntilboð til hinna eðalbornu Bretóna: „Þú velur 30 menn úr herdeildinni ykkar og ég vel jafnmarga úr minni. Við mætumst síðan á flatneskju þar sem enginn getur truflað okkur eða stöðvað“.

 

Þarna var Beaumanoir tekinn í bólinu. Hann hafði engu reynslu af vopnuðum fjöldaslagsmálum, ekki fremur en flestir aðrir á miðöldum. Að þessu sinni var ekki einvörðungu um að ræða tvo kastalastjóra og örfáa menn til viðbótar, heldur 60 riddara og skjaldsveina sem hætta skyldu lífinu.

 

Þeir úr hópi tapliðsins sem lifðu af yrðu teknir í gíslingu og látnir borga hátt lausnargjald, líkt og tíðkaðist í eiginlegum bardögum.

 

Bretóninn hafði sjálfur átt upptökin að burtreiðunum og samkvæmt óskrifuðum lögum riddaranna varð hann að taka áskoruninni til að halda ærunni.

Riddarar sem lögðu stund á „pas d’armes“ sátu iðulega um ferðalanga við brýr eða þrönga vegi.

Riddarar lokuðu brúm og vegum

Á 14. og 15. öld létu riddarar sér detta í hug nýtt snjallræði: Þeir lokuðu vegum, brúm eða hliðum og skoruðu alla ferðalanga á hólm.

 

Riddaramennska stóð í blóma meðal aðalsmanna á 14. öld og í lok aldarinnar leit dagsins ljós nýtt fyrirbæri, sem kallaðist „pas d’armes“.

 

Fyrirbæri þetta fólst í því að einn eða fleiri riddarar lokuðu brú, vegi eða hliði og skoruðu á hólm alla þá riddara sem komast vildu leiðar sinnar, eða hvöttu þá til keppni. Með þessu móti gátu riddararnir bætt orðspor sitt og öðlast aukinn heiður.

 

Sagnfræðingar hafa á takteinum þúsund frásagna af riddurum sem heftu för ferðalanga í því skyni að leggja stund á „pas d’armes“. Eitt þekktasta dæmið er sagan af riddaranum Suero de Quiñones, sem lýsti yfir „pas d’armes“ ásamt 10 félögum sínum árið 1434 við brúna yfir Órbigo-fljótið í Kastilíu.

 

Menn Sueros sóru að þeir myndu halda kyrru fyrir við brúna þar til þeir hefðu brotið 300 burtspjót í bardaga. Eftir 166 bardaga gátu Suero og menn hans ekki lengur barist sökum örmögnunar og lýstu því yfir að þessu „pas d’armes“ væri lokið.

Hermennirnir söfnuðu kröftum í hálfleik

Hinn 26. mars árið 1351 mættust tveir 30 manna hópar við stóra eikartréð milli Josselin og Ploërmel. Báðar fylkingar höfðu meðferðis heilan skara af skjaldsveinum, þjónum, áhorfendum og vitnum, sem skyldu verða vitni að þessum óvanalega atburði og hvetja sína menn til dáða.

 

Þjónarnir höfðu meðferðis vistir, ekki hvað síst áfenga drykki. Reglur bardagans voru ákveðnar fyrirfram: Barist skyldi til dauða eða þar til annar aðilinn gæfist upp og stranglega bannað var að flýja af vígvellinum, óháð því hvað kynni að gerast, og áhorfendur mátt alls ekki hafa afskipti af bardaganum.

 

Eftir að Frakkarnir birtust leið ekki á löngu áður en 60 riddarar og skjaldsveinar fóru að skáskjóta augunum hver til annars með vopn og skildi sér við hönd. Einn og einn Breti var meira að segja vopnaður stórum stríðshamri. Sögur herma að hermennirnir í glansandi brynjum sínum með litrík skjaldarmerkin hafi verið stórfengleg sjón.

„Ég álít vald þitt og göfgi vera minna virði en eitt hvítlaukslauf“,

sagði Brandebouch við keppinaut sinn Beaumanoir.

Leiðtogarnir tveir stigu fram fyrir fylkingar sínar. Brandebourch byrjaði á því að niðurlægja andstæðinginn hvað mest hann mátti:

 

„Beaumanoir, mér finnst með ólíkindum að þú viljir láta drepa hermenn þína, því eftir að þeir drepast áttu aldrei eftir að finna jafnoka þeirra í þessu hertogadæmi“.

 

Beaumanoir stóðst ekki háðsglósurnar, hann varð að verja heiður sinn svo hann svaraði:

 

„Ég hef hér með mér alveg einstaka riddara sem flýja hvorki lífið né dauðann. Allir hafa þeir svarið frammi fyrir Guði, syninum og Maríu mey að þú munir deyja í vansæmd frammi fyrir öllum hópnum“.

 

Brandebourch svaraði honum reiðilega:

 

„Ég álít vald þitt og göfgi vera minna virði en einn hvítlauksgeira“.

 

Enski herforinginn sneri sér að mönnum sínum og hrópaði:

 

„Herrar mínir, deyðið þá alla og gætið þess að enginn, hvorki hár né lágur, komist undan!“

 

Riddararnir 60 réðust nú hver mót öðrum öskrandi.

Bardaginn milli riddaranna og skjaldsveinanna 60 var einkar blóðugur og sagður hafa staðið yfir tímunum saman.

Hvorug fylkingin hafði gert nokkra hernaðaráætlun og bardaginn snerist fljótt upp í glundroða af stáli og blóði. Englendingunum vegnaði betur framan af og innan tíðar lá einn Bretóni örendur á jörðinni og annar meðvitundarlaus. Sá þriðji fékk að kenna á stríðhamri Englendinganna og lést af sárum sínum skömmu síðar.

 

Hermennirnir lúskruðu hver á öðrum tímunum saman og sársaukavein og sigurhróp hljómuðu sitt á hvað á meðan fossandi blóðið breyttist í dökka leðju undir fótum mannanna.

 

Erfitt var að ráða niðurlögum brynvarinna riddara, mennirnir þreyttust og vopnaskakið varð smám saman hægara í báðum fylkingum. Mennirnir börðust engu að síður áfram og neituðu að missa æruna með því að hætta.

 

Þegar hinn særði Beaumanoir bað um vatnssopa að drekka, svaraði einn hans eigin manna:

 

„Drekktu blóð þitt, Beaumanoir, það mun slökkva þorsta þinn!“

 

Undir það síðasta var baráttuandinn orðinn afar naumur og orkan af skornum skammti svo deiluaðilarnir ákváðu að taka sér hlé. Fjórir úr liði Frakkanna og tveir Englendingar lágu örendir á jörðinni. Flestir aðrir höfðu fengið djúp sár eða beinbrot sem þeir nýttu hléið til að binda um. Riddararnir fengu síðan hressingu, sem aðallega fólst í stórum skömmtum af áfengi til að deyfa sársaukann.

Kúrdíski herstjórinn Saladín (1138-1193) var sagður hafa búið yfir öllum dyggðum Múhameðstrúarmanna.

Múslímar kynntu riddaramennsku fyrir aðalsmönnum

Riddarar miðalda voru ekki ávallt riddaralegir. Hugtakið „riddaramennska“, sem notað var yfir stríðsmenn á hestbaki, var fengið að láni úr heimi Múhameðstrúarmanna.

 

Út alla 11. öldina voru riddarar ríðandi afrekshermenn í þungum herklæðum, oftast af aðalsættum, sem börðust fyrir land sitt og fé, ekki heiður og virðingu. Launin voru oft þau að þeir höfðu tök á að leggja undir sig landsvæði óvinarins.

 

Frá því um 1100 fór ný hugmyndafræði að láta á sér kræla, en hún var sú að riddarar skyldu m.a. verja konur og þá sem minna máttu sín. Þessi riddaramennska var m.a. órjúfanlegur hluti af frásögnunum um Artúr konung, en áttu reyndar rætur að rekja til múslímskra bókmennta.

 

Þegar Márar lögðu undir sig Íberíuskagann kynntust kristnir Evrópubúar klassískum arabískum frásögnum, þar sem aðalpersónan var iðulega eins konar riddari, svonefndur „färis“. Márarnir lofsömuðu dyggðir á borð við virðingu, mælsku og mildi í „färis“ en hann varð jafnframt að vera reiðmaður góður og leikinn í vopnaburði.

 

Sögur af „färis“-persónum þessum bárust um alla Evrópu með farandsöngvurum og skáldum, sem kynntu þau fyrir kristnum hirðum. Rólandskvæði er eitt þekktasta hetjukvæði franskra bókmennta, frá því um 1100, en það segir frá hetjulegri baráttu greifans Rólands við ofurefli Mára á Spáni.

Úrræðagóður skjaldsveinn útkljáði bardagann

Englendingarnir höfðu nýtt hléið til að útbúa bardagaáætlun. Þegar bardagarnir hófust aftur mynduðu þeir þétta röð og hófu varnarstríð. Þeim tókst að halda Bretónunum undan og ef þeir nálguðust um of fengu þeir að kenna á öxum, sverðum og stríðshömrum.

 

Brandebourch hrópaði háðsglósur á eftir Beaumanoir þegar greinilegt varð að Bretónarnir komust ekki í gegnum ensku raðirnar.

 

Þá fékk bretónski skjaldsveinninn Guillaume de Montauban ljómandi góða hugdettu. Hann hljóp á brott frá vígvellinum í átt að hrossunum. Hinir Bretónarnir héldu að hann væri lagstur á flótta og hrópuðu ókvæðisorð á eftir honum. Skjaldsveinninn var hins vegar alls ekki að reyna að flýja, heldur stökk upp á hest og hleypti honum á harðastökki í geðveikislegri leiftursókn gegn Englendingunum.

Bardaginn átti sér stað við „Hálfrarleiðartréð“, sem var að finna miðju vegu milli virkjanna Josselin og Ploërmel.

Furðu lostnir riddararnir urðu öldungis forviða þegar hesturinn rauf varnir þeirra. Margir þeirra köstuðust til jarðar og Bretónarnir gátu ruðst gegnum gatið sem skjaldsveinninn snarráði hafði myndað. Nokkrir Englendingar létust, m.a. Brandebourch, og hinir neyddust til að gefast upp.

 

Þegar gert var uppgjör á vígvellinum kom í ljós að níu Englendingar höfðu látist og sex Bretónar. Bardagarnir höfðu verið svo harðvítugir að margir dóu af sárum sínum næstu daga á eftir. Englendingarnir sem teknir voru til fanga voru ekki látnir lausir fyrr en allverulegt lausnargjald hafði verið greitt.

Þó blóðið streymdi á vígvellinum áttu riddararnir ekki að slaka á hinum góðu kristnu dyggðum.

Nöfn allra 60 skrifuð á blöð sögunnar

Bardaginn við eikartréð skipti ekki sköpum fyrir erfðaréttarstríðið, en því lyktaði þannig bróðursonur Jóhannesar hertoga var gerður að hertoga árið 1365, en frásögnin um riddarana í bardaganum var gerð ódauðleg í kveðskap og sögum samtímans.

 

„Bardagi þeirra þrjátíu“ þótti vera það æðsta sem hent gat riddara sökum þess að um var að ræða skipulagða keppni milli tveggja jafnvígra aðila þar sem sömu reglur giltu um báða. Heiðurinn var ekki fólginn í því hvor aðilinn færi með sigur af hólmi, heldur því að bardaginn fór fram undir eftirliti, þrátt fyrir að hann skyldi háður með dauðann að veði.

 

Farandsöngvarar sungu um riddarana hugprúðu og glæsta bardaga skjaldsveinanna, auk þess sem margir sagnaritarar, m.a. Frakkarnir Jean le Bel og Jean Froissart, skrifuðu um atburðinn og glæddu mörgum smáatriðum.

 

Þær miklu vinsældir sem bardaginn öðlaðist áttu sennilega rætur að rekja til þess að hið blóði drifna hundraðárastríð hafi vakið vissar efasemdir um riddarana sem ímyndir fullkomnunar. Í stað hefðbundinna nærbardaga höfðu 1.500 franskir riddarar verið felldir með notkun langboga í bardaganum við Crécy árið 1346 og þessi kostnaðarsama styrjöld, einkum hvað áhrærði laun leiguliðanna, var aðallega kostuð með því að ræna íbúa héraðsins.

Á bardagavellinum í austurhluta Bretaníu er að finna broddsúlu eina, sem reist var árið 1822 til heiðurs frönsku sigurvegurunum.

Konungbornir og aðallinn óskuðu þess að styrkja gamlar dyggðir, m.a. með því að að setja á laggirnar riddarasveitir undir áhrifum hetjusagnarinnar um Artúr konung. Þannig varð enska Sokkabandsreglan til árið 1348, svo og franska Stjörnureglan árið 1351. Kóngafólk og riddarar vildu sanna að þar færu ekki tilfinningalausir ofbeldismenn, heldur sómakærir menn.

 

Bardaginn við „Hálfrarleiðartréð“ var fullkomin sönnun þess og þátttakendur beggja fylkinga, lifandi sem látnir, voru heiðraðir við hirð konunga sinna. Tuttugu árum eftir fjöldaburtreiðarnar fór enn svo gott orð af riddurunum að Frakkakonungur, Karl 5., bauð einum þeirra Bretóna sem lifðu bardagann af að vera heiðursgestur við háborð sitt.

 

Bardaginn var enn í hávegum hafður allt fram á 19. öld þegar Napóleón Bónaparte vakti athygli á honum og talaði um hann sem siðferðislegan sigur yfir innrásarher Englendinga.

 

Breskir sagnfræðingar fóru hins vegar að grufla í sannleiksgildi þess að Frakkar hefðu sigrað með áhlaupi skjaldsveinsins á hestinum en við þeirri spurningu hefur enn ekki fengist neitt einhlítt svar.

Lestu hér meira um „bardaga hinna þrjátíu“

 Steven Muhlberger: The Combat of the Thirty, Freelance Academy Press, 2013

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Jonas Terney Arason og Bue Kindtler-Nielsen

© Tom Taylor, Ballads and Songs of Brittany, 1865, © Loyset Liédet, © Gzen92, Shutterstock, © The Picture Art Collection/Imageselect, © Granger/Imageselect & Shutterstock, © Print Collector/Getty Images & Shutterstock, © Print Collector/Getty Images, © XIIIfromTOKYO,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Lifandi Saga

Af hverju er rússneskur bær í Noregi?

Jörðin

Leiða loftslagsbreytingar til fleiri jarðskjálfta?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is