Af öllum konungum miðalda voru endalok Vilhjálms sigursæla vafalítið hvað viðbjóðslegust.
21 ári eftir að hann lagði England undir sig árið 1066 fékk hann holundarsár á kviðinn í útreiðartúr. Eftir tveggja mánaða legu á sjúkrabeði lést hann á heimili sínu nærri Rúðuborg í Frakklandi.
Tveir eldri synir konungs voru staddir erlendis og yngsti sonurinn vant við látinn, svo þjónarnir rændu heimili Vilhjálms, sviptu hann klæðum og skildu líkið eftir nakið á gólfinu. Þar lá það svo dögum skipti áður en aðalsmaður nokkur lét aka líkinu í kerru til klaustursins í Caen.
Grafaræningjar dreifðu jarðneskum leifum Vilhjálms, en lærleggurinn er enn grafinn í Saint-Ètienne klaustrinu í Caen.
Líkið var varla komið inn í klaustursgarðinn þegar kviknaði í klaustrinu.
Konungur, hvers líkami var nú orðinn vel „þroskaður“, var því geymdur í nokkra daga áður en munkarnir fóru með það inn í kirkjuna til greftrunar.
Gröf var tekin undir kirkjugólfinu og normanski aðallinn boðaður til jarðarfararinnar.
Þegar leggja átti líkið í steinkistuna hafði það bólgnað upp. Nokkrir munkar reyndu að troða því ofan í kistuna en þá sprakk kviðurinn á konungi og upp gusu úldin innyflin sem dreifðust yfir kirkjugólfið.
Fnykurinn var svo skelfilegur að gestirnir flúðu út. Munkunum tókst þó á endanum að koma líkinu fyrir í kistunni og Vilhjálmur sigursæli fékk loks að hvíla í friði.