Lifandi Saga

Listamaðurinn sem lifði af Treblinkabúðirnar

Samuel Willenberg barðist gegn sovéskri innrás inn í Pólland. Hann tók þátt í Varsjáruppreisninni gegn þýsku hernámsliði - vel að merkja, eftir að hafa náð að flýja úr útrýmingarbúðum nasista í Treblinka

BIRT: 14/08/2023

Þann 20. október 1942 stendur Samuel Willenberg innilokaður í gripaflutningavagni í járnbrautarlest ásamt öðrum síðustu íbúum í gyðingagettóinu í Opatów í Póllandi, sem nú er allt á valdi Þjóðverja.

 

Lestin stefnir í norðurátt en áfangastaðurinn er ókunnur.

Börnin glöddust við þessa sýn – þau höfðu engan grun um hvað beið þeirra.“ 
Samuel Willenberg

„Í vagninum lyftu mæður börnum sínum upp að litlum glugga til að leyfa þeim að sjá furutrén. Í gettóinu voru engin tré, í gettóinu var ekki neitt. Börnin glöddust við þessa sýn – þau höfðu engan grun um hvað beið þeirra,“ sagði Willenberg síðar.

 

Af um 6.500 manns sem Þjóðverjar höfðu þjappað saman í lestarvögnunum, var Samuel Willenberg sá eini sem enn var á lífi nokkrum klukkustundum síðar.

 

Willenberg var aðeins 19 ára, en sem pólskur gyðingur og fyrrum hermaður hafði hann þegar upplifað sinn skerf af bæði stríði og kúgun.

 

Þegar þýski herinn réðist inn í Pólland frá vestri haustið 1939 og Rauði herinn bættist við austanfrá skömmu síðar, hafði hinn ungi Willenberg skráð sig til herþjónustu.

 

Hann hafði barist við Rússa og horft upp á marga félaga sína falla áður en hann særðist sjálfur í orrustu við bæinn Chelm.

 

Þótt særður væri tókst honum að flýja af sjúkrahúsinu, þar sem Rússar höfðu lokað pólska stríðsfanga inni, og komast heim til fjölskyldunnar.

 

Síðar höfðu svo Þjóðverjar lagt allt landið undir sig og lokað meira en tvær milljónir pólskra gyðinga af í sérstökum hverfum, svonefndum gettóum, þar sem bæði sultur og sjúkdómar herjuðu.

 

Í ársbyrjun 1942 var tekið að tæma gettóin. Íbúarnir voru reknir inn í gripaflutningavagna og þeir fluttir burt.

 

Nasistar sögðu fólkinu að verið væri að flytjað það í vinnubúðir „fyrir austan“ en orðrómur um fjöldadráp var kominn á kreik og þann orðróm höfðu gyðingarnir sem voru í vagninum ásamt Willenberg líka heyrt.

 

Flest fólk leit þó á þessar sagnir sem hræðsluáróður. Vissulega beittu nasistarnir ósegjanlegri hörku, ekki síst gagnvart pólskum gyðingum, en að drepa þá alla – fleiri milljónir? Tilhugsunin virtist flestöllum allt of ótrúleg til að geta verið raunveruleg.

Lestarstöðin í Treblinka var það fyrsta sem gyðingarnir sáu þegar þeir komu í búðirnar.

Lestin nam staðar á lítilli brautarstöð þar sem sjá mátti þýska SS-menn ganga um á palli og þar stóð líka hópur gyðinga til að taka á móti hinum nýkomnu.

 

Handan við pallinn voru stórir haugar af fötum og skóm. Á skilti las Samuel Willenberg nafn brautarstöðvarinnar: Treblinka.

 

Dánartíðnin 99,9%

Þjóðarmorð Þjóðverja á evrópskum gyðingum í gasklefunum vekur nú flestum minningar um vel þekktar svart-hvítar ljósmyndir frá hinum risastóru búðum í Auschwitz og nánast endalausum röðum langhúsa úr timbri ásamt útsveltum föngum.

 

Það var þó ekki í Auschwitz sem flestir voru teknir af lífi í gasklefum, heldur í litlum fangabúðum, sem ekki tóku meira rými en sem svarar tveimur fótboltavöllum.

 

Í Auschwitz voru bæði útrýmingarbúðir og fangabúðir þar sem pláss var fyrir meira en hundrað þúsund fanga sem notaðir voru í nauðungarvinnu. Búðirnar í Treblinka ásamt samskonar búðum í Belzec og Sobibór voru hins vegar aðeins útrýmingarbúðir.

Treblinka, Sobibór og Belzec voru hreinar útrýmingarbúðir – byggðar með tilraunabúðirnar Chelmo sem fyrirmynd. Kassi: Vinnubúðir Hringur: Útrýmingarbúðir

Þessi búðaþrenning var þekkt sem „Aktion Reinhard-búðirnar“ og nefndar eftir Reinhard Heydrich, hátt settum nasista, sem var einn helstu höfunda áætlunarinnar um útrýmingu evrópskra gyðinga.

 

Tékkneskir andspyrnumenn drápu Heydrich sumarið 1942 og félögum hans þótti við hæfi að minnast hans með því að nefna þjóðarmorðsáætlunin eftir honum.

 

Stór hluti starfsliðs Aktion Reinhard-búðanna kom frá svonefndri Aktion T4-áætlun, sem Hitler stofnaði til í september 1939 í þeim tilgangi að útrýma fötluðum í Þýskalandi.

 

Þessi sveit manna hafði því eina hlutverki að gegna að aflífa fólk og í henni voru iðnaðarmenn, ófaglærðir, lögreglumenn og fyrrum starfsmenn búða fyrir fatlaða. Þessir menn áttu ekkert sameiginlegt annað en að vera í nasistaflokknum eða einhverjum undirsamtökum hans og oft réð því tilviljun ein hverjir voru ráðnir til þessara starfa.

Stór hluti starfsliðs Treblinka kom frá Aktion T4-áætluninni sem hafði þann tilgang að útrýma fötluðum þýskum almenningi.

Ekkert bendir til að þátttakendur í Aktion T4 hafi verið sérvaldir til fjöldamorða á saklausum og varnarlausum fórnarlömbum á þeim grundvelli að þeir hafi haft einhverjar hvatir til pyndinga eða morða.

 

Engu að síður varð endirinn sá að þeir sem voru teknir inn í T4 tóku bæði þátt í að drepa fatlaða Þjóðverja tugþúsundum saman og síðar mörg hundruð þúsund gyðinga.

 

Í Treblinka, Belzec og Sobibór voru 99,9% þeirra sem þangað komu myrtir innan nokkurra klukkutíma eftir komuna.

 

Aðeins nokkur hundruð gyðingar sluppu lifandi í fyrstu umferð. Þeir voru látnir hjálpa til í útrýmingarferlinu, halda búðunum við og þjónusta SS-liðana. Listamaðurinn Samuel Willenberg lenti í þeim hópi.

 

Þóttist vera múrari

Stuttu eftir að lestin kom til Treblinka voru dyr vagnsins opnaðar og á farþegunum dundu háværar og stöðugar skipanir Þjóðverjanna um að flýta sér og þeim var smalað inn í allstóran sal.

 

Þar var öllum skipað að afklæðast hverri spjör. Meðal gyðinganna sem fyrir voru þekkti Willenberg mann frá heimabæ sínum, Czestochowa í suðurhluta Póllands, bernskuvin sinn Alfred Boehm.

,,Hér eru allir sendir í gasklefann.”
Alfred Moehm, pólskur gyðingur

Boehm þekkti Willenberg líka og bað hann um að segjast vera múrari. Willenberg skildi hvorki upp né niður en gerði þetta engu að síður þegar einn SS-liðanna sneri sér að honum.

 

SS-maðurinn sparkaði Willenberg inn í lokað herbergi og það sá hann gegnum kvistgat að samferðafólki hans til Treblinka var smalað áfram til óþekkts áfangastaðar.

 

Í æviminningum sínum lýsir Willenberg því þegar hann fór til vinar síns, Alfreds Boehm, til að fá að vita hvað gerðist í búðunum.

 

„Alfred leit á mig með meðaumkvun í svip. Hann baðaði út handleggjunum eins og hann væri að sýna mér ríki sitt og sagði: Samek, þú ert staddur í útrýmingarbúðunum Treblinka. Þetta er öflugt, tæknivætt og vel smurt sláturhús,“ svaraði vinur hans og útskýrði síðan starfshættina.

 

„Eftir að nýkomnir hafa afklæðst eru allir látnir hlaupa yfir í annan hluta búðanna, við hliðina á stóra sandhryggnum. Þar er „Teutlager“ – dauðasvæðið. Þar eru allir settir inn í gasklefa. Þegar allir eru dauðir er líkunum fleygt niður í stórar fjöldagrafir og mokað yfir. Þegar ein er full er önnur grafin. Þar enda allir saman í kös, frá hverju þorpinu á fætur öðru,“ lauk Boehm máli sínu. Willenberg kom ekki upp orði, en honum var ljóst að hann var staddur í fordyri vítis.

Þrír kaldrifjaðir morðingjar stóðu að útrýmingarbúðum

Í Treblinka, Sobibór og Belzec störfuðu þrír menn sem allir höfðu áður átt drjúgan þátt í fjöldamorðum á gyðingum og fötluðum.

Kurt Franz

Eftir að hafa starfað m.a. við Aktion T4-verkefnið og í Belzec-útrýmingarbúðunum varð Kurt Franz næstráðandi í Treblinka, þar sem hann var mest ógnvekandi allra, enda skemmti hann sér við að skjóta fanga fyrir minnstu yfirsjónir.

Christian Wirth

Þessi fyrrum lögreglumaður gegndi forystuhlutverki við útrýmingu fatlaðra Þjóðverja. Eftir það þróaði hann aftökukerfið í útrýmingarbúðum Þjóðverja og var æðsti yfirmaður búðanna Belzec, Sobibór og Treblinka.

Reinhard Heydrich

Þessi háttsetti nasisti fékk 1941 það hlutverk að skipuleggja útrýmingu evrópska gyðinga. Þegar hann var myrtur 1942 fékk útrýmingarverkefnið heitið Aktion Reinhard, en þar gengdu Treblinka, Sobibór og Belzec einmitt lykilhlutverki.

Engin leið að sleppa

Áður en Willenberg lenti í Treblinka höfðu aðstæður hans verið nokkuð sérstakar. Þótt móðir hans, sem var uppalin í kristni, hefði játast undir gyðingatrú þegar hún gifti sig, litu nasistar ekki á hana sem gyðing. Þeir litu svo að gyðingdómurinn væri í blóðinu og hún gat þess vegna lifað í sæmilegu öryggi.

 

Öðru máli gegndi um eiginmann hennar og þrjú börn. Faðir Samuels, Perec Willenberg, var þekktur listamaður og kennari í Czestochowa og þar gat hann ekki með nokkru móti komist hjá að þekkjast og verða handtekinn.

 

Hann sá því ekki aðra leið en að láta sig hverfa og fór til Varsjár þar sem hann þóttist vera venjulegur Pólverji og alls ekki af gyðinglegum uppruna. Eftir það gat hann ekki haft neitt samband við fjölskyldu sína.

 

,,Okkur var samstundis ljóst að ég hafði misst báðar systur mínar  og móðir mínar báðar dætur sínar.“
Samuel Willenberg

Willenberg og systur hans tvær, 23 og fjögurra ára, bjuggu áfram hjá móður sinni og börnin fengu öll falsaða pappíra sem áttu að tryggja að þau yrðu ekki flutt burtu.

 

Það fór þó ekki eins og til stóð, því dag einn þegar Willenberg og móðir hans sneru heim á gistiheimilið í kristna bæjarhlutanum, eftir að hafa sinnt einhverjum erindum, gripu þau í tómt.

 

„Við fóru inn í innganginn og börðum á aðaldyrnar. Leigusalinn opnaði einungis rifu og sagði að stelpurnar væru ekki heima.

 

Mamma spurði hvort þær hefðu farið í göngutúr. Svarið: Þær voru handteknar fyrir að vera gyðingar. Maður sem leigði annað herbergi hafði einnig verið tekinn.

 

Síðan var dyrunum skellt aftur. Þarna stóðum við, hjálparvana og sem lömuð í myrku og illþefjandi innganginum. Okkur var samstundis ljóst að ég hafði misst báðar systur mínar  og móðir mínar báðar dætur sínar.“

Árið 1939 voru um 3,3 milljónir gyðinga í Póllandi eða um 10% þjóðarinnar. Ekkert annað evrópskt land hafði svo marga gyðinga.

Móðirin fyrirskipaði Samuel að fylgja fordæmi föður síns og flytja burt úr bænum, en sjálf hugðist hún gera allt sem unnt væri til að fá dætur sínar lausar úr fangelsinu í Czestochowa, þar sem þær sátu innilokaðar ásamt öðrum gyðingum, sem biðu brottflutnings og óvissra örlaga.

 

Willenberg yfirgaf nú fæðingarbæ sinn og fluttist til Opatów í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð. En það reyndist ekki til neins. Skömmu síðar var hann sendur til Treblinka ásamt öðrum gyðingum í bænum.

 

Í skugga gasklefanna

Í Treblinka voru aðstæður aðrar en í flestum öðrum búðum nasista. Þeir fáu gyðingar, sem eins og Wallenberg fengu að halda lífi, voru ekki skyldaðir til að bera röndótta fangabúninga.

 

Þvert á móti gátu þeir valið sér passleg og iðulega dýr föt af þeim sem líflátnir höfðu verið. Og meðan fangar voru fluttir til búðanna var enginn skortur á mat.

 

Þeir höfðu aðgang að ríkulegu úrvali matvæla sem fórnarlömb gasklefanna höfðu tekið með sér. Willenberg komst að raun um þetta strax fyrsta kvöldið:

 

„Ég bar upp að vörunum skeiðarfylli af bygggraut með eggjum, vafalaust elduðum af áhyggjufullri móður og kannski fyrir síðustu peningana sem átti í eigu sinni. Bæði olía og egg voru vel úti látin og grauturinn mjög næringarríkur. Ætlunin hafði verið að einhverjum nýttist þessi grautur til að lifa af einhvers staðar fyrir austan, en þangað komst sá hinn sami aldrei.“

Treblinka var endastöð lífsins

Sagnfræðingar telja að allt að 900.000 gyðingar hafi verið líflátnir í Treblinka. Búðirnar voru jafnaðar við jörðu á á síðustu mánuðum stríðsins.

 

Skipuleggjendur Aktion Reinhard völdu staðsetningu Treblinka af mikill kostgæfni. Staðurinn var afskekktur og úti í skógi, ekki langt frá þorpinu Wolka Okraglik. Skógurinn kom í veg fyrir nokkur sæi álengdar hvað þar fór fram.

 

Um tveimur kílómetrum norðar höfðu nasistar byggt vinnubúðir árið 1941 og nefnt þær Treblinka.

 

Þegar útrýmingarbúðirnar voru reistar árið eftir fengu þær nafnið Treblinka II. Búðirnar náðu yfir svæði á stærð við 34 fótboltavelli og voru girtar með gaddavír.

 

Þegar Rauði herinn nálgaðist svæðið 1944 jöfnuðu nasistar búðirnar við jörðu áður en þeir flúðu. Teikningar af þessum búðum byggjast því algerlega á minningum þeirra sem lifðu af.

Þótt lífskjörin væru stórum betri en í mörgum öðrum búðum var fyrirlitning SS-mannanna á föngunum ekkert minni.

 

Vinnujúðarnir í Treblinka gátu hvenær sem var átt von á grimmúðlegum árásum án nokkurs tilefnis. Einkum var næstráðandi búðanna, Kurt Franz, stöðug ógn í garð fanganna.

 

Franz var lærður matreiðslumaður og hafði starfað sem kokkur í allnokkrum T4-búðum þar sem fatlaðir Þjóðverjar voru líflátnir.

 

En í Treblinka sýndi hann mikla hæfileika sem fjöldamorðingi og vann sig upp í stöðu næstráðanda á skömmum tíma.

Samuel Willenberg teiknaði Treblinka-búðirnar að stríðinu loknu.

Úr lestinni

Gyðingum var hleypt út úr lestarvögnunum á stöðinni. Þarna var þeim yfirleitt tilkynnt að þetta væri millistöð og hér væri fólk látið fara í bað og sótthreinsun, en fengi síðan að borða. Gyðingarnir áttu því að afklæðast fyrst.

Kynjaskiptingin

Af lestarpöllunum voru gyðingarnir látnir fara inn í húsagarð þar sem konur og karlar voru skilin að. Í húsalengjunum var fólk látið afklæðast og hárið klippt af.

Fataflokkun

Munir og föt fórnarlambanna voru flokkuð af handvöldum „vinnujúðum“ handan við húsalengjurnar. Á meðan voru naktir gyðingar látnir ganga að „baðklefunum“ innst í búðunum.

Fjöldagrafir

„Böðin voru í raun og veru gasklefar þar sem fórnarlömbin voru tekin af lífi. Líkin voru svo grafin í fjöldagröfum. Frá 1943 voru líkin brennd.

Samuel Willenberg teiknaði Treblinka-búðirnar að stríðinu loknu.

Úr lestinni

Gyðingum var hleypt út úr lestarvögnunum á stöðinni. Þarna var þeim yfirleitt tilkynnt að þetta væri millistöð og hér væri fólk látið fara í bað og sótthreinsun, en fengi síðan að borða. Gyðingarnir áttu því að afklæðast fyrst.

Kynjaskiptingin

Af lestarpöllunum voru gyðingarnir látnir fara inn í húsagarð þar sem konur og karlar voru skilin að. Í húsalengjunum var fólk látið afklæðast og hárið klippt af.

Fataflokkun

Munir og föt fórnarlambanna voru flokkuð af handvöldum „vinnujúðum“ handan við húsalengjurnar. Á meðan voru naktir gyðingar látnir ganga að „baðklefunum“ innst í búðunum.

Fjöldagrafir

„Böðin voru í raun og veru gasklefar þar sem fórnarlömbin voru tekin af lífi. Líkin voru svo grafin í fjöldagröfum. Frá 1943 voru líkin brennd.

Franz hafði engilhreina ásjóna og fékk gælunafnið „Lalka“ sem á pólsku merkir dúkka, en hann var einstaklega grimmlyndur.

 

Willenberg lýsir því hvernig Kurt Franz barði mann til bana þegar honum þótti maðurinn of seinn að flokka föt og skemmti sér síðan við að ráðast á fanga sem þurftu að ganga örna sinna á opnu salerni búðanna.

 

„Hann sneri sér að klósettunum og nálgaðist með leiknum og yfirdrifnum hreyfingum einhvers konar ófreskju um leið og hann byrjaði að skjóta milli fóta fangans sem þar sat.

 

Síðan hljóp hann á staðinn til að athuga hvernig hann hefði hitt og með kurteislegu brosi á vörum skipaði hann síðan fórnarlambinu að snúa aftur til vinnu sinnar. Þegar vesalings maðurinn hafði snúið baki í hann og gekk af stað til að hlýðnast skipuninni, skaut Lalka hann í hnakkann og lét svo líkið liggja þar sem það var komið.“

 

Það kemur kannski nokkuð á óvart að tónlist skyldi vera mikils metin í Treblinka eins og annarsstaðar.

 

SS-liðunum þótti gaman að láta fangana syngja tilfinningaþrungið pólskt þjóðkvæði um „hinn raunamædda hálending“. Og haustið 1942 kom Artur Gold, einn vinsælasti tónlistarmaður og tónskáld millistríðsáranna til Treblinka.

,,Engu skipti hversu örmagnaðir við vorum , við skyldum standa í réttstöðu og hlýða á tónlistina.“
Samuel Willenberg

Hann þekktist og var gerður að hljómsveitarstjóra í þriggja manna búðahljómsveit, sem framvegis átti að skemmta SS-liðunum í klúbbi, sem nefndist Casino, þar sem SS-menn sátu í makindum á kvöldin.

 

En fangarnir voru líka látnir hlusta á hljómsveitina þegar var skipað í réttstöðu við fangatalninguna sem fram fór á hverju kvöldi.

 

„Þar sem við stóðum í réttstöðu hélt Gold okkur hugföngnum með gamalþekktum lögum sem hann töfraði fram með fiðluboganum – mitt í sætþefjandi fnyk af rotnandi líkum. Eftir einn konsertinn komust Þjóðverjarnir að þeirri niðurstöðu að spilararnir litu ekki nógu vel út. Fötin voru of stór og buxunum haldið uppi með mismunandi beltum,“ skrifar Willenberg og hélt áfram:

 

„Þeir fyrirskipuðu skraddaranum okkar að sauma jakka úr skærbláu efni og sauma út stór fiðrildi í kragana. Nú voru þeir ekki lengur klæddir sem fangar, heldur trúðar, en héldu áfram að spila fyrir okkur við talninguna alla daga. Engu skipti hversu örmagnaðir við vorum eftir tólf tíma vinnudag, við skyldum standa í réttstöðu og hlýða á tónlistina.“

Stytta Willenbergs af gyðingakonunni Ruth Dorfmann, sem hárið var klippt af áður en hún fór í gasklefann.

Föt systranna birtust

Á köldum vetrarmorgni komst Willenberg að því hvað orðið hafði um systur hans tvær.

„Ég beygði mig niður og tók upp lítinn, brúnan jakka sem Tamara, litla systir mín hafði átt.“
Willenberg um föt systra sinna.

Honum var skipað að flokka föt fanga sem skömmu áður höfðu afklæðst og farið í gasklefana.

 

„Ég sá kunnuglegan lit meðal fatanna sem lágu á víð og dreif á jörðinni. Ég beygði mig niður og tók upp lítinn, brúnan jakka sem Tamara, litla systir mín, hafði átt.

 

Pils sem Itta, stóra systir mín, hafði átt var fest við jakkann – líkt og í faðmlagi. Þarna hélt ég á jakka og pilsi sem systur mínar höfðu átt.

 

Mamma hafði lengt jakkaermarnar með grænu efni og mér varð ljóst að tilraunir hennar til að fá systur mínar lausar úr varðhaldinu í Czestochowa höfðu mistekist,“ skrifaði Willenberg.

Minningarsteinn u.þ.b. 900.000 gyðingar sem voru myrtir í Treblinka. Í minnisvarðanum segir á nokkrum tungumálum: „Aldrei aftur“.

Fyrir kom að fórnarlömb sem vissu hvaða örlög biðu þeirra í Treblinka réðust á Þjóðverjana. Nótt eina heyrðu vinnujúðarnir, þar sem þeir voru læstir inni, byssuskot og háreist köll Þjóðverjanna. Skýringuna fengu þeir um morguninn.

 

„Í dagrenningu komumst við að raun um að lest frá Grodno hafði komið um nóttina. Gyðingarnir höfðu skriðið út úr vögnunum og áttað sig á hvað beið þeirra í búðunum.

 

Þegar þeim var svo skipað að afklæðast, réðust þeir á SS-mennina með hnífum og flöskum. Það voru 2.000 manns í lestinni, þeirra á meðal margar konur og börn.

 

Á endanum var auðvitað allt fólkið skotið niður. Líkin lágu eins og hráviði úti um allt. Særðir SS-menn voru fluttir á sjúkrahús. Þegar við komum út úr kofunum um morguninn sáum við allsstaðar lík við lík, þakin nýföllnu, þunnu snjólagi.“

 

Vinnujúðarnir lögðu sjálfir á ráðin um að gera uppreisn gegn böðlunum og flýja. Til þess opnaðist möguleiki þegar lásasmiðnum í hópnum var skipað að ganga frá læsingum á nýbyggðri vopnageymslu.

 

Hann gerði það – og smíðaði líka lykla fyrir hina leynilegu andspyrnuhreyfingu í búðunum, sem lengi hafði verið að undirbúa uppreisn.

 

Fangarnir tryggðu sér nægilega marga riffla og 2. ágúst klukkan 15:45 réðust þeir á fangaverðina og kveiktu í fjölmörgum byggingum ásamt bensínbirgðum Treblinka-búðanna.

,,Svo setti ég hlaupið upp að gagnauga hans og hleypti af.“
Samuel Willenberg

Flestir uppreisnarmenn voru skotnir niður á flóttanum, en Willenberg og nokkur hundruð öðrum tókst þó að brjóta sér leið út úr búðunum.

 

Willenberg sá Alfred Boehm, sem hafði verið nánasti vinur hans þá tíu mánuði sem hann hafði verið þarna.

 

Boehm hafði fengið það verkefni að safna saman rusli og tómum flöskum í handkerru og þess vegna hafði hann leyfi til að fara óhindraður um allar búðirnar. Einmitt það gegndi stóru hlutverki við samhæfingu uppreisnarinnar.

 

„Ég sá kerru liggja á hliðinni og þekkti þar kerru Alfreds og fór að svipast um eftir vini mínum. Hann lá við girðinguna, endilangur eins og hann væri tilbúinn að skjóta. Ég náði að skutla mér til hans og sá þá að höfuðið hallaðist og úr því streymdi mikið blóð.“

 

Skömmu síðar varð annar vinur Willenbergs fyrir skoti og féll til jarðar. Þessi maður var kallaður presturinn vegna þess að hann hafði snúist til kristni. „

 

Ég hljóp til hans og augu okkar mættust. Hann sýndi engin óttamerki, heldur aðeins viljastyrk þegar hann bar fram eina ósk. Varirnar skulfu,“ þegar hann sagði við Willenberg:

 

„Katzap (Gælunafn Willenbergs í búðunum), viltu binda enda á þetta, í nafni hans sem þú trúir ekki á“.

 

„Ég benti í átt að búðunum. Horfðu á þetta, sagði ég. Þarna eru konan þín og börnin. Svo setti ég hlaupið upp að gagnauga hans og hleypti af.“

 

Slapp lifandi úr víti

Eftir uppreisnina og flóttann komst Willenberg til Varsjár og þar tókst honum að hafa uppi á föður sínum, sem hafði lánast að halda uppruna sínum leyndum með því að þykjast vera mállaus teiknari sem teiknaði og málaði fallegar myndir af Jesú og Maríu guðsmóður.

 

Móðir Willenbergs hafði unnið í vopnaverksmiðju í annarri borg en kom til Varsjár skömmu síðar.

„Þarna var mamma. Hún horfði á mig eins og hún héldi að þetta væri draumur en ekki veruleiki, nuddaði augun og hvíslaði svo: Ert þetta þú, Samek?“
Samuel Willenberg um heimkomuna.

Báðir foreldrarnir höfðu fyrir löngu slegið því föstu að öll börnin þrjú hefðu látið lífið í Treblinka. Enginn sem þangað fór kom nokkru sinni til baka.

 

„Þarna var mamma. Hún horfði á mig eins og hún héldi að þetta væri draumur en ekki veruleiki, nuddaði augun og hvíslaði svo: Ert þetta þú, Samek?

 

Ég sá að hún riðaði til og studdi hana inn. Hún hélt fast utan um mig og við grétum saman í þéttu faðmlagi.

 

Svo spurði hún þeirrar spurningar sem ég óttaðist mest: Sástu systur þínar þarna? Ég hafði áður logið að föður mínum og nú endurtók ég sömu lygina við hana. Ég vissi ekkert um hvað orðið hafði af systrum mínum, sagði ég.“

 

Samuel Willenberg sagði foreldrum sínum aldrei frá því að hann hefði fundið föt systranna í Treblinka.

 

Í Varsjá hefði Willenberg getað haft hægt um sig og verið í felum þar til nasistar hefðu verið yfirbugaðir og trúlega hefði enginn láð honum það.

 

En hann kaus frekar að ganga til liðs við pólsku andspyrnuhreyfinguna gegn nasistum og ári eftir uppreisnina í Treblinka tók hann aftur þátt í uppreisn – að þessu sinni var það tilraun pólsku andspyrnuhreyfingarinnar til að frelsa Varsjá áður en Rauði herinn kæmi.

1944 gerðu pólski andófsmenn uppreisn gegn þýska hersetuliðinu í Varsjá. Ætlunin var að nýta framrás Rauða hersins í Póllandi til að koma nasistum á óvart og frelsa borgina. Uppreisnin var á endanum barin niður af hörku.

Hann barðist af hörku við þýsku hersveitirnar vikum saman og slapp með naumindum við að vera tekinn til fanga þegar pólsku frelsishetjurnar biðu ósigur fyrir ofureflinu í október 1944 eftir 63 daga bardaga.

 

Steypti minningar í brons

Skömmu eftir stríð kynntist Samuel konunni sem hann síðar giftist. Ada spurði hann hvort hann þekkti einhvern sem vildi leigja út herbergi.

 

Samúel svaraði í gamansemi að hann væri sjálfur alveg til í að leigja henni herbergi, en þó því aðeins að hún giftist sér. Tveimur árum síðar giftu þau sig og árið 1950 fluttust þau til Ísraels.

Samuel Willenberg vildi sjá til þess að heimsbyggðin gleymi ekki fórnarlömbum helfararinnar.

Gleymdi aldrei fórnarlömbunum

Eftir stríðið flutti Samuel Wittenberg til Ísraels þar sem hann menntaði sig í landmælingum og listum. Minningar frá Treblinka fylgdu honum alla ævi.

 

Aðeins er vitað með vissu um 67 gyðinga sem lifðu af dvöl í Treblinka og Samuel Willenberg var einn þeirra.

 

Eftir stríðið hjálpaði hann samtökum gyðina árum saman við að hafa uppi á gyðingabörnum sem pólskum fjölskyldum hafði tekist að bjarga frá nasistum.

 

Árið 1950 ákvað Willenberg að setjast að í Ísrael. Þar lærði hann landmælingar og starfaði síðan út starfsævina fyrir endurbyggingarráðuneytið.

 

Hann gleymdi þó aldrei Treblinka og reyndi að sjá til þess að heimsbyggðin gleymdi heldur ekki fórnarlömbunum sem voru bæði óteljandi og flest nafnlaus.

 

2013 var dóttir Samuels, Orit Willenberg Giladi, útnefnd arkitekt að því minjasafni um helförina sem á að rísa þar sem Treblinka-búðirnar saman.

Willenberg hafði teiknað frá blautu barnsbeini enda undir sterkum áhrifum af föður sínum. Nú teiknaði hann einkum nákvæmar nákvæmustu myndir og uppdrætti af Treblinka, sem nokkur eftirlifendanna hefur gert.

 

Meðal teikninganna má sjá Artur Gold og hljómsveitina og svo bernskuvininn Alfred Boehm með handkerruna sína fulla af rusli.

 

Ein af þeim myndastyttum sem hann gerði sýnir unga stúlku, Ruth Dorfmann, en Willenberg var skipað að klippa af henni hárið áður en hún fór í gasklefana. Hún bað hann ákaft að muna nafnið sitt og um það sveikst hann ekki.

 

Samuel Willenberg var orðinn 93 ára þegar hann lést 2016. Nokkrum árum fyrr hafði hann verið sæmdur æðstu heiðursorðu pólska hersins fyrir hetjudáðir í orrustum: Virtuti Militari. 

Pólska Virtuti Militari-orðan á rætur aftur til ársins 1792.

Allt fram í andlátið lét hann í ljósi þá ósk að styttum hans yrði í framtíðinni komið fyrir á safni í búðunum sem honum tókst svo nauðuglega að flýja.

 

Og nýtt safn er nú að rísa í Treblinka. Gert er ráð fyrir að það verði opnað árið 2023, á 80 ára afmæli uppreisnarinnar.

 

Við opnun sýningar á einstæðum myndastyttum Samuels Willenberg í Varsjá 2020 sagði aðstoðarmenningarráðherra landsins: „Besti staðurinn fyrir þessar styttur er þar sem þetta gerðist allt saman, staðurinn sem honum tókst að flýja – Treblinka. Og þar verða þær.“

Lestu meira um Treblinka og Willenberg

Samuel Willenberg: Surviving Treblinka, Wiley–Blackwell, 1989

 

Y. Arad: Belzec, Sobibor, Treblinka, John Wiley & Sons, 1987

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Mikkel Andersson

© Imageselect, Shutterstock,© CBW/Imageselect,© Instytut Wydawniczy PAX/Süddeutsche Zeitung,© Little Savage/Wikimedia,© Tomer Appelbaum/Haaretz Newspaper,© world history Archive/imageselect,© Ritzau Scanpix,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Lifandi Saga

Af hverju er rússneskur bær í Noregi?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is