Á hinum víðlendu norðurslóðum, þar sem árstíðirnar koma að hluta í stað dags og nætur, hefur sérkennilegt veðurfyrirbrigði lengi haldið vísindamönnum við efnið.
Fyrirbrigðið er einskonar tvívindakerfi sem illa hefur gengið að skýra en lýsir sér í skiptandi en oft áralöngu vindamynstri sem hefur áhrif á það hve mikið af tiltölulega hlýjum sjó Atlantshafsins berst í Norður-Íshafið.
Nú virðast þessir vindar hægja á bráðnun hafíss, jafnvel þótt hitastig í gufuhvolfinu fari hækkandi.
Samkvæmt nýlegri rannsókn geta þessar aðstæður breyst á fáum árum og það gæti leitt af sér mjög hraðfara bráðnun hafíss á Norður-Íshafinu.
Reglubundið vindamynstur
Í rannsókninni var reynt að kortleggja vindamynstrin.
Frá 1979 til 2006 blésu vindar miklu magni af hlýrri sjó úr Atlantshafi út í Norður-Íshafið. Þetta segja vísindamennirnir hafa leitt af sér gríðarlegt ístap yfir sumartímann þegar um milljón ferkílómetrar af ís bráðnuðu á hverjum áratug.
Árið 2007 breyttust vindáttir og minna hlýsjávarstreymi olli því að ísbráðnunin fór niður í 70.000 ferkílómetra á hverjum tíu árum.
Niðurstöðurnar sýna að vindamynstrin hafa meiri áhrif á norðurslóðir en talið hefur verið og innan tíðar gætum við aftur farið að sjá mjög hraða bráðnun hafíssins.
„Þessi mildari fasi hefur staðið yfir í um 15 ár. En nú gæti hann verið á enda, ef marka má samanburð við fyrirbrigðið á eldri tímabilum,“ segir Igor Polyakov hjá Fairbanksháskóla í Alaska.
Vindakerfin við norðurskautið
Vindakerfin eru loftslagskerfi á norðurslóðum þar sem háþrýstisvæði er yfir norðurpólnum en lægðir fara um Evrópu og Asíu.
Af þessu leiðir að hlýrra loft berst á norðurslóðir með lægðum og því fylgir ísbráðnun.
Vísindamenn greina á milli jákvæðra og neikvæðra fasa. Í jákvæðum fasa blása öflugri vindar og bera með sér meira af hlýju lofti sem eykur bráðnun. Í neikvæðum fasa eru hlýir vindar ekki jafn öflugir og ísmyndun meiri.
Fyrirbrigðið uppgötvaðist í fyrsta sinn nokkru eftir síðustu aldamót.
Breytist þetta veðrakerfi gæti ísinn sem sagt tekið að bráðna á ógnvekjandi hraða.
Stöðugt aukin áhrif af hnattrænni hlýnun af mannavöldum skapar líka sjálfkrafa ákveðinn vítahring því eftir því sem auður sjór verður stærri í Norður-Íshafinu, því hraðar bráðnar sá ís sem eftir er.
Djúpstraumarnir við Suðurskautslandið gætu glatað um 40% af afli sínu á næstu 30 árum sem hefði alvarlegar afleiðingar fyrir loftslagið og vistkerfi hafanna.
Fyrir loftslags- og veðurfræðinga skiptir miklu að öðlast betri skilning á þessum merkilegu vindakerfum, því breytingar af völdum fyrirbrigðisins geta haft mjög víðtæk áhrif um allan heim.
Mest eru þó áhrifin á norðurslóðum en þar hlýnar hraðar en annars staðar á hnettinum.
Rannsóknin var eingöngu um hafís á norðurslóðum og því er ekkert minnst á áhrif af breyttu vindmynstri á íshelluna á Suðurskautinu.