Það er ekkert nýtt að möndulhalli jarðar breytist á löngum tíma. Það er einmitt möndulhallinn sem veldur árstíðum á hnettinum.
En nú hefur möndulhallinn breyst hraðar en venja er til og það stafar af því að við dælum upp grunnvatni sem við notum, m.a. til matargerðar og veitum á akra.
Þetta er niðurstaða fjölþjóðlegs hóps vísindamanna á vegum Seúlháskóla í Suður-Kóreu. Hópurinn rannsakaði gögn um hreyfingar vatnsmassa á jörðinni og möndulhallann á árabilinu 1993-2010. Hallinn hefur breyst um allt að 80 sentimetra og það telja vísindamennirnir að geti haft áhrif á loftslag í framtíðinni.
Ef við ímyndum okkur hnöttinn sem skopparakringlu sem snýst um sjálfa sig, leiðir af sjálfu sér að hinn ósýnilegi snúningsás breytist í takt við tilfæringar vatnsmassa á ýmsum stöðum á jörðinni.
Þetta hefur verið þekkt síðan 2016 en er á hinn bóginn tiltölulega nýtt rannsóknarsvið. Í mörg ár hafa menn talið bráðnun ísmassa helstu orsök þess að vatnsmassar færast.
Vísindamennirnir hófu því rannsókn sína á því að athuga tengslin milli breytinga á möndulhallanum og tilflutnings vatns vegna bráðnunar jökla og íshellna.
Fyrri loftslagslíkön sýna að á tímabilinu 1993-2010 dældi mannkynið 2.150 gígatonnum af grunnvatni upp á yfirborðið og það hefur valdið 6,24 millimetra hækkun sjávarborðs á tímabilinu.
Þegar þessum áhrifum var bætt inn í líkönin reyndist heildartilflutningur vatns koma heim og saman við breytingu á möndulhallanum.
Vísindamennirnir gátu séð að landfræðilegur norðurpóll hnattarins færðist til austurs að meðaltali um 4,36 cm á ári á tímabilinu 1993-2010. Af þessu draga þeir nú þá ályktun að möndulhallinn hafi breyst um 78,5 cm frá 1993 til dagsins í dag.
„Það er ánægjuefni að hafa fundið þessa áður óútskýranlegu ástæðu fyrir breytingu möndulhallans,“ segir Ki-Weon Seo sem er meðal vísindamannanna, í fréttatilkynningu.
Gömul kenning afskrifuð: Svona kom vatn til jarðar
Ný rannsókn sýnir að vatn hefur verið á jörðinni allt frá upphafi.
„Á hinn bóginn veldur það mér sem íbúa jarðar bæði undrun og áhyggjum að sjá að uppdæling grunnvatns skuli reynast viðbótarskýring á hækkun sjávarborðs.“
Hvaða beinu áhrif þessi tilfærsla mannkyns á möndulhallanum kann að hafa, vita vísindamennirnir ekki en uppgötvunin vekur grun um að til lengri tíma litið gætu áhrifin sést bæði á hitastigi og hækkandi sjávarborði.