Stjörnufræðingar um allan heim hafa lengi undrast hvað hafi orðið af leifum allra sprengistjarna sem sprungið hafa í okkar eigin stjörnuþoku.
Það ætti nefnilega að mega greina leifar eftir mörg þúsund sprengistjörnur en hingað til hafa aðeins fundist ummerki um örlítið brot af þeim fjölda.
Nú hefur fjölþjóðahópur stjörnufræðinga skapað nákvæmar myndir af Vetrarbrautinni og þar afhjúpast leifar af heilum 28 sprengistjörnum.
Nánar tiltekið eru það stóru stjörnurannsóknaverkefnin EMU og PEGASUS sem hafa lagt saman krafta sína til að finna þessa drauga Vetrarbrautarinnar.
Til vinstri sést upphafleg útvarpbylgjumynd frá ASKAP-sjónaukanum þar sem greina má brotakenndar leifar af sprengistjörnum. Til hægri hafa gögn Parkes-sjónaukans verið lögð yfir ASKAP-myndina og við sjáum skýrt og greinilega hvernig vetnisgasskýin draga fram ummerki sprengistjarnanna.
Tengdar hafa verið saman athuganir frá tveimur stórum útvarpssjónaukum í Ástralíu, ASKAP og Parkes en CSIRO, Vísindastofnun Ástralíu, rekur þá báða.
Hubble-sjónaukinn tekur myndir á hinu sýnilega sviði ljósrófsins en myndir Webb-sjónaukans eru á innrauða sviðinu. Útvarpsbylgjusjónaukar greina aðrar bylgjulengdir ljósrófsins en þessir tveir – sem sé útvarpsbylgjulengdir.
ASKAP-sjónaukinn er gerður úr 36 litlum loftnetsdiskum sem hver um sig er 12 metrar í þvermál en að samanlögðu þekja þeir sex kílómetra svæði og virka þannig saman sem einn gríðarstór útvarpssjónauki sem nær myndum í hárri upplausn en á erfiðara með að greina gasský.
LESTU EINNIG
Til að bæta þeim upplýsingum við notuðu vísindamennirnir Parkes-sjónaukann sem er einn hinna stærstu og heilir 64 metrar í þvermál.
ASKAP-sjónaukinn nær miklu magni útvarpsbylgna með sínum 36 diskum og nær sömuleiðis góðri upplausn.
Aftur á móti fæst meiri þéttni með hinum gríðarstóra diski Parkes-sjónaukans og um leið nákvæmni í smáatriðum sem ekki næst gegnum ASKAP-sjónaukann.
Hér má sjá nokkra af þeim 36 útvarpssjónaukum sem saman mynda ASKAP sjónaukann. Saman ná þeir yfir 6 kílómetra landsvæði þar sem þeir geta tekið mjög nákvæmar myndir af himinngeimnum í mikilli upplausn.
Þegar myndirnar hafa verið settar saman sýna þær mikið af skýjum og þokumyndunum sem snúast hver kringum aðra og tengjast með vetnisgasi sem breiðist um geiminn milli stjarna Vetrarbrautarinnar.
Útvarpsbylgjur ná að greina vetnisgas sem ekki er sýnilegt með öðrum gerðum geimsjónauka.
Þess vegna verða nú þessar heitu gasbólur, leifar sprengistjarnanna, sýnilegar milli deyjandi stjarna og þær stuðla líka að myndun nýrra stjarna.
Nýja myndin er þó aðeins upphafið að umfangsmeiri leit að ummerkjum eftir sprengistjörnur í Vetrarbrautinni, þar sem talið er að leifar af kringum 1.500 sprengistjörnum bíði enn uppgötvunar. Til lengri tíma litið geta þessar leifar upplýst okkur talsvert nánar um okkar eigin stjörnuþoku og sögu hennar.