Lifandi Saga

Norrænu goðin: Hér er listinn yfir þau helstu.

Þór, Óðinn og Freyja eru líklega þekktustu norrænu goðin en kannastu við hin goðin? Fáðu yfirsýn yfir helstu heiðnu goðin.

BIRT: 27/06/2023

Fornmenn tilbáðu marga guði. Vitneskju sagnfræðinga um norrænu goðin er m.a. að finna í Íslendingasögunum, dróttkvæðum og Eddukvæðunum. Í Sæmundar-Eddu er að finna kvæði um hina heiðnu norrænu guði en í Snorra-Eddu er að finna frásagnir af norrænu goðunum.

 

Gjafir til goðanna

Ritaðar heimildir kveða á um að víkingar hafi blótað hrossum og nautgripum við sérlegar hátíðir sem haldnar voru í sal undir handleiðslu merkustu manna héraðsins.

 

Ef marka má Ynglingasögu sem rituð var af Snorra Sturlusyni, blótuðu víkingarnir við upphaf vetrar og um hann miðjan til að tryggja sér frjósemi og svo aftur seint að vori til að tryggja sigur í styrjöldum.

 

Í sögu Hákonar goða er sagt frá jólablóti þar sem þátttakendur snæddu hrossakjöt og skáluðu fyrir Óðni, Nirði og Frey. Fórnargjafir til goðanna var einnig hægt að skilja eftir á tilteknum stöðum úti í náttúrunni.

 

Yfirsýn: Helstu norrænu goðin 

 

Óðinn:

Eineygður og alvitur ás:

Konungi norrænna guða, Óðni, er lýst í Eddukvæðum og dróttkvæðum sem gömlum, vitrum og eineygðum manni. Einstaka visku sína á hann að hafa öðlast gegn því að fórna öðru auganu í brunn hins vitra jötuns Mímis.

 

Óðinn bjó í höll einni á efsta tindi Ásgarðs og ofan úr hásæti sínu, Hliðskjálfi, gat hann séð allt sem gerðist í heiminum.

 

Þaðan bauð hann jafnframt velkomna þá stríðsmenn sem fallið höfðu í orrustu. Í Valhöll gátu þeir sem létu lífið í bardaga og kölluðust einherjar barist daglangt en að kvöldi risið upp og sest að drykkju.

 

Óðinn reið hinum áttfætta Sleipni og tveir úlfar fylgdu honum, þeir Geri og Freki. Einnig átti hann tvo hrafna, Hugin og Munin sem fluttu honum tíðindi. Sagt er að menn hafi stundum komið auga á Óðin.

 

Í Hávamálum er sagt frá því að Óðinn sjálfur hafi fyrstur fengið rúnirnar.

 

Hann lærði rúnirnar þegar hann hékk og svelti sjálfan sig í níu nætur í Aski Yggdrasils, stunginn síðusári, þar til rúnirnar birtust honum. Hann tók þær upp og féll síðan niður úr trénu.

 

Fornmenn áttu til rösklega 200 viðurnefni fyrir goðið Óðinn og var eitt þeirra Valfaðir. Heitið er talið gefa til kynna að hann hafi fyrst og fremst verið stríðsguð.

 

Áður en til bardaga kom tíðkaðist oft að færa Óðni fórnir. Algengt var að herforinginn riði fram og kastaði vopni Óðins, spjótinu, inn fyrir raðir óvinarins, jafnframt því sem hann hrópaði:

 

„Óðinn á ykkur alla!“

 

Þrátt fyrir gífurlegt vald Óðins telja sagnfræðingar hann hafa notið mestra vinsælda meðal mikilmenna og jarla en að bændur hafi frekar haft Þór í hávegum.

 

Óðinn átti marga skósveina

Þar sem Óðinn gegndi því hlutverki að vera æðstur heiðinna guða hvíldi margt á herðum hans og hann hafði þörf fyrir marga skósveina. Alls kyns verur gögnuðust þessum æðsta guði á ferðum hans, jafnframt því sem þeir leituðu upplýsinga og tryggðu Óðni virðingu meðal þeirra mennsku sem lifðu í Miðgarði.

 

 • Huginn og Muninn: Hrafnarnir tjáðu Óðni hvert kvöld hvers þeir höfðu orðið varir úti í heiminum.

 

 • Sleipnir: Hestur Óðins hét Sleipnir og hafði átta fætur. Honum reið Óðinn um loftin á geysihraða.

 

 • Höfuð Mímis: Mestu þekkingu sína fékk Óðinn hjá afhöggnu höfði Mímis.

 

 • Geri og Freki: Úlfar Óðins, Geri og Freki, vöktu óhug hvar sem þeir komu en þeir fylgdu honum jafnan þar sem hann ferðaðist fótgangandi.

 

Hengt fólk var álitið vera fórnir færðar Óðni en þess má geta að gamli íslenski vikudagurinn Óðinsdagur var nefndur Óðni til heiðurs.

Þór

Skapari þrumuveðurs naut mikilla vinsælda

Þegar þrumuveður brast á töldu fornmenn að þar væri Þór á ferð yfir himininn í vagni sem tveimur geitum var beitt fyrir, í því skyni að berjast við jötnana með hamri sínum, Mjölni.

 

Þór naut meiri vinsælda meðal bænda og sjófarenda en faðir hans Óðinn en þeir tilbáðu hann sakir getu hans til að hafa hemil á vindi og veðrum. Gamli íslenski vikudagurinn Þórsdagur er svo nefndur honum til heiðurs og bærinn Þórshöfn er einnig nefndur í höfuðið á honum.

 

Hamar gegn brúði

Í Þrymskviðu kemst Þór að raun um að jötunninn Þrymur hafði rænt hamri hans. Þór fer ásamt Loka til jötunsins sem kveðst ekki munu skila hamrinum nema gegn því að fá frjósemisgyðjuna Freyju að launum. Þegar hún neitar að fylgja Þór til jötnanna neyðist hann til að klæðast dulargervi og látast vera Freyja. Þegar svo brúðurin karlmannlega fær afhentan hamarinn er úti um Þrym.

 

Geitur snæddar og lífgaðar við

Samkvæmt Eddukvæðum fengu Þór og Loki eitt sinn húsaskjól hjá mennskri fjölskyldu. Um kvöldið slátraði Þór geithöfrum sínum sem nefndust Tanngnjóstur og Tanngrisnir og bauð fjölskyldunni að snæða með sér geitakjöt gegn því að þau hétu að brjóta ekki bein geitanna. Þegar Þór hugðist lífga geithafrana við næsta morgun haltraði annar hafurinn. Þór reiddist mjög en hjónin báðu sér griða og hann féllst á að taka börn þeirra, Þjálfa og Röskvu, sér til þjónustu.

 

Miðgarðsormurinn beit á agnið

Einhverju sinni fór Þór með jötninum Hymi út á sjó í þeim tilgangi að takast á við Miðgarðsorminn, erkióvin Þórs. Þór varpaði uxahöfði í hafið sem fest hafði verið við akkeri.

 

Ormurinn beit á hjá honum en þegar Þór hugðist draga skrímslið upp úr sjónum og drepa það fylltist Hymir ofsahræðslu og hjó á akkerisreipið. Þór varð svo reiður að hann kastaði Hymi í sjóinn og urðu það endalok hans.

 

Styrkur Þórs var ekki einungis meðfæddur
 • Belti hans, megingjarðirnar, færðu honum gífurlegan styrk.

 

 • Járnglófar Þórs áttu einnig þátt í að auka á styrk hans.

 

 • Hamarinn Mjölnir geigaði aldrei þegar goðið kastaði honum mót andstæðingum sínum.

Fornmenn báru lítinn Þórshamar um hálsinn til að leita verndar hjá þrumuguðinum Þór.

Freyr

Goðið tryggði frjósemi

Þegar fornmenn vildu tryggja sér vænlega uppskeru eða að þungun tækist, færðu þeir iðulega goðinu Frey fórnir. Líkt og systirin Freyja var Freyr frjósemisguð og hann er stundum sýndur með reistan lim.

 

Freyr var einn af mikilvægustu guðunum, ásamt Óðni og Þór. Munkurinn Adam frá Bremen lýsti því að Svíar tilbæðu styttur fyrrgreindra þriggja goða í hofi nokkru í Uppsölum í kringum árið 1050.

 

Í Eddukvæðinu Skírnismáli er sagt frá því þegar Freyr fer á fjörurnar við tröllkonuna Gerði sem eftir bæði loforð og hótanir fellst á að ganga að eiga hann. Hann átti jafnframt töfrakennt skip sem kallaðist Skíðblaðnir en skipið var hægt að leggja saman þannig að það varð nánast að engu.

Ef marka má Eddukvæðin notaði hann göltinn Gullinbursta til að draga vagn sinn.

Frigg

Konan réði á heimilinu

Af öllum norrænum gyðjum var Frigg sú mikilvægasta. Hún var gift Óðni og gamla íslenska dagaheitið Frjádagur var einmitt henni til heiðurs.

 

Þar sem konur tóku allar ákvarðanir á heimilum víkinga virðist Frigg hafa verið afar mikilsverð fyrir konur á víkingaöld. Andstætt því sem við átti um raunverulegar konur gat Frigg, t.d. ef húsmóðurstörfin reyndust henni ofviða, flogið út í heim í valsham sínum.

 

Frigg bjó yfir þeirri getu að geta séð fyrir örlög allra en hún þagði oftast yfir því sem hún vissi. Samkvæmt Ynglingasögu var hún um skamma hríð gift bræðrum húsbónda síns, þeim Vilja og Vé, því hún óttaðist að Óðinn sneri aldrei aftur úr ferðum sínum.

Í Snorra-Eddu er Frigg sögð vera dóttir jarðgyðjunnar Fjörgynjar.

Freyja

Gyðja hlaut skartgrip fyrir kynlíf

Freyja var gyðja ásta og frjósemi og var einkar mikilvæg í lífi víkinganna. Í Eddukvæðinu Oddrúnargrátur hétu konurnar á bænum á Freyju og báðu hana um að vernda móður eftir erfiða tvíburafæðingu.

 

Í Snorra-Eddu er Freyja sögð gift guðinum Óð og er helsta einkennistákn hennar hálsmenið Brísingarmen sem fjórir dvergar áttu að hafa fært henni að gjöf fyrir að fá að sænga með henni.

 

Margir þráðu þessa lostafullu gyðju og í Eddukvæðinu sem nefnist Lokasenna vænir Loki hana um að hafa sængað með öllum goðunum.

 

Þegar svo þursakonungurinn Þrymur krefst þess að fá hana sem greiðslu gegn því að afhenda stolinn hamar Þórs hafnar hún ósk Þórs öskureið, samkvæmt Þrymskviðu:

 

Mig veistu verða

vergjarnasta

ef eg ek með þér

í Jötunheima.

 

Þór endurheimti síðan hamar sinn með því að klæðast dulargervi og látast vera Freyja.

 

Samkvæmt sumum heimildum gátu þeir stríðsmenn sem ekki enduðu hjá Óðni í Valhöll notið lífsins eftir dauðann á heimili hennar, Fólkvangi og fyrir bragðið var gyðjan oft tengd dauðanum.

Freyja var dóttir goðsins Njarðar og systir frjósemisguðsins Freys.

Týr

Víkingarnir fórnuðu sverðum og spjótum

Stríð skipuðu mikilvægan sess í lífi fornmanna og fræðimenn álíta að Týr hafi snemma á víkingaöld verið orðinn stríðsguð í augum manna. Í stöðuvatninu Tissø (Týsvatn) hafa fornleifafræðingar fundið sverð og spjót sem líkast til hafa verið fórnargjafir til stríðsguðsins.

 

Í Eddukvæðunum var Týr sagður vera sonur Óðins og eru margir eiginleikar þess síðarnefnda jafnframt tileinkaðir Tý, m.a. voru þeim báðum færðir menn að fórn með því að þeir voru hengdir.

 

Þegar heiðnu goðin hugðust fjötra Fenrisúlfinn ávann Týr sér traust úlfsins með því að leggja hönd sína upp í gin hans. Þegar úlfurinn svo komst að raun um að hann gæti ekki losað sig úr fjötrunum beit hann hönd Týs af honum og fyrir bragðið er goðið iðulega sýnt einhent.

Þriðjudagur hét áður fyrr Týsdagur í höfuðið á Tý.

Loki

Fríður og klókur en stöðugt til vandræða

Loki öðlaðist sess sem vandræðagepill og óróaseggur í norrænni goðafræði. Fræðimenn greinir þó enn á um hvort Loki hafi jafnframt verið guð eldsins, vindsins eða einhvers annars. Til eru myndir af Loka á steini og krossi frá víkingaöld sem gefa til kynna að um mikilvægt goð hafi verið að ræða.

 

Faðir Loka var Fárbauti jötunn og Loki tengdi fyrir vikið jötnana við goðin. Með tröllkonunni Angurboðu átti hann Fenrisúlfinn, Miðgarðsorminn og gyðjuna Hel sem ríkti yfir dauðaríkinu Hel.

 

Seinna er hann sagður hafa kvænst gyðjunni Sigyn og getið með henni synina Narfa og Vála.

 

Í Eddukvæðum er honum lýst sem sjálfselskum vindhana:

 

„Loki er fagur ásýndum en illkvittinn og aldrei samur við sig“.

 

Þó svo að hann hafi iðulega verið fylgisveinn Þórs og ráðgjafi hans var honum ætíð trúandi til að svíkja og baktala önnur goð ef það hentaði hagsmunum hans; sem dæmi má nefna að hann klippti hárið af Sif, stal hálsmeni Freyju, Brísingameni og aðstoðaði jötuninn Þjassa við að nema Iðunni og töfraepli hennar á brott.

 

Loki var meistari dulargervanna
 • Loki lést vera hryssa sem lét fola fylja sig. Merar-Loki kastaði síðan Sleipni, hesti Óðins

 

 • Til að koma í veg fyrir að dvergsmiðirnir tveir, Sindri og Brokkur, ynnu veðmál lét Loki breyta sér í stingandi flugu

 

 • Þegar Loki flýði frá hinum goðunum í hinsta sinn breytti hann sér í lax en Þór tókst reyndar að veiða hann með berum höndum úti í á.

Þegar heimurinn færist, þ.e. þegar til ragnaraka kæmi, skyldi Loki leiða her þeirra dauðu frá Hel.

Heimdallur

Fullkominn varðmaður með árvökul skynfæri

Samkvæmt Snorra-Eddu var því trúað á víkingaöld að Heimdallur gætti regnbogabrúarinnar Bifrastar sem lá frá Ásgarði til annarra heima.

 

Heimdallur var með gulltennur og skynfæri hans voru svo árvökul að hann gat heyrt grasið gróa og séð það sem var í hundrað mílna fjarlægð.

 

Goðið reið hesti sínum Gulltoppi og hafði með sér gjallarhorn sem einfaldlega kallaðist Gjallarhornið og hljómað gat um gjörvallan heiminn. Þegar ragnarök nálguðust gat Heimdallur kallað öll goðin saman til bardaga með Gjallarhorninu. Þar áttu hann og Loki báðir eftir að láta lífið í einvígi.

 

Í fornkvæðinu „Heimdallargaldri“ segist goðið sem var sonur Óðins, hafa verið getinn af níu meyjum sem allar voru systur.

 

Í Rígsþulu sem er eitt af Eddukvæðunum, segir frá Heimdalli þegar hann ferðast undir nafninu Rígur og verður forfaðir þriggja meginstétta, jarla, bænda og þræla. Í kvæðinu er stéttaskiptingu samfélagsins lýst og sagt frá ólíkum lífsháttum og verkaskiptingu stéttanna.

Heimdallur gætti regnbogabrúarinnar Bifrastar með árvökulum skynfærum sínum.

Njörður

Sjávarguðinn lifði af víkingaöldina

Sjávarguð fornmanna hafði vald yfir náttúruöflunum, ef marka má Snorra-Eddu. Hann var sagður ráða yfir sjó, vindi og eldi.

 

Í Snorra-Eddu segir að sjóþvegnir fætur Njarðar hafi komið honum í fangið á tröllkonunni Skaða. Faðir hennar, Þjassi, hafði verið brenndur til dauða á báli í Ásgarði og sem sárabætur fékk hún að velja einhvern guðanna sem eiginmann.

 

Goðin röðuðu sér upp á bak við hengi þannig að einungis fætur þeirra voru sýnilegir. Þegar Skaði sá hreina fætur Njarðar hélt hún að þeir hlytu að tilheyra fallega guðinum Baldri og valdi fyrir vikið sjávarguðinn.

 

Hjónabandið var afar skammlíft: Í fjöllum Skaða saknaði Njörður hafsins en Skaða varð hins vegar ekki svefnsamt við sjóinn sökum hláturs mávanna.

 

Fræðimenn benda á að Njörður hafi skipt svo miklu máli fyrir siglingaþjóðirnar í norðri að hann hafi lifað af kristnitökuna. Allt þar til á 18. öld færðu sjómenn í Vestur-Noregi til dæmis Nirði þakkir fyrir góðan afla.

Sjávarguðinn Njörður var faðir frjósemisguðanna Freys og Freyju.

Hel

Sjúkir og aldraðir enduðu á refsingarstað

Gyðjan Hel var dóttir Loka og Angurboðu og réð hún ríkjum í dauðaríkinu Hel sem bar sama heiti og hún. Samkvæmt Eddukvæðum var dauðagyðjan Hel dóttir Loka og tröllkonunnar Angurboðu og fyrir bragðið systir skrímslanna Fenrisúlfs og Miðgarðsormsins.

 

Helmingur af líkama Heljar var blár á lit, líkt og rotnandi lík. Þegar Hel fæddist, kastaði Óðinn henni niður í undirheima og segja má að þau Óðinn hafi haft með sér vissa verkaskiptingu:

 

Hann og Freyja tóku á móti föllnum stríðsmönnum en hún fékk hins vegar vald yfir öllum þeim sem létust á annan hátt, t.d. af völdum sjúkdóma eða fyrir elli sakir.

 

Lýsingin á Hel í Snorra-Eddu sem leiðinlegum og dapurlegum „refsingarstað“ á hugsanlega rætur að rekja til kristinna áhrifa.

 

Trú fornmanna á dauðaríkið sést enn í hugtökum á borð við „helvíti“, „að svelta í hel“ og „milli heims og helju“.

Þeir fornmenn sem létust af völdum sjúkdóma fóru til Heljar.

Iðunn

Epli færðu eilífa æsku

Eiginkona Braga, skálds goðanna, er sögð hafa verið tilbeðin sem frjósemisgyðja. Í Sæmundar-Eddu er henni lýst sem gyðju eilífrar æsku. Hún hélt hinum goðunum jafnframt ungum með því að gefa þeim epli sem komu í veg fyrir að ellin færðist yfir þau.

 

Í einu af Eddukvæðunum aðstoðar Loki jötuninn Þjassa við að nema gyðjuna á brott. Án æskueplanna veslast hin goðin upp þar til Óðinn er sagður hafa þvingað Loka til að leita Iðunni uppi í Jötunheimum.

 

Þar breytir Loki henni í hnetu sem hann hafði með sér heim í Ásgarð í valsham. Jötunninn Þjassi klæðist arnarhami og eltir þau en er að lokum brenndur á báli.

Án epla Iðunnar myndu goðin eldast og deyja

Baldur

Öfund leiddi af sér dráp

Baldur var sonur Óðins og Friggjar og var sagður vera fegurstur og vitrastur allra heiðnu goðanna. Hann eignaðist soninn Forseta, guð réttlætisins, með konu sinni Nönnu.

 

Þó svo að ekki sé vitað fyrir víst hvert hlutverk hans var meðal goðanna er hann álitinn hafa verið guð birtunnar. Sumir fræðimenn tengja hann jafnframt við sólstöður og árstíðirnar.

 

Eddukvæðin segja Baldur hafa verið þjakaðan af martröðum. Þegar völva ein spáir fyrir um andlát þessa sonar Óðins lætur Frigg allt og alla sverja að þeir muni þyrma Baldri, að undanskildum litlum mistilteini.

 

Gleymska þessi verður til þess að Baldur er veginn með mistilteini en Loki hafði narrað bróður Baldurs, Höð, til verknaðarins.

 

Annar bróðir Baldurs, Hermóður, reið því næst til Heljar til að freista þess að bjarga bróður sínum. Hel samdi við hann um að ef allir hlutir heimsins myndu gráta Baldur gæti hann fengið að snúa aftur til lífsins.

 

Loki fór þá í líki tröllkonunnar Þakkar og neitaði að gráta Baldur.

Í Völuspá er því lýst að Baldur verði endurborinn á nýrri jörð eftir ragnarök

Höður

Blindur guð narraður til að myrða

Fræðimenn greinir á um hvaða merkingu hinn blindi Höður hafði fyrir víkingana en ef marka má heimildir er Höður þekktastur fyrir það að hafa orðið Baldri sem kallaður var hinn hvíti ás, að bana.

 

Samkvæmt Eddukvæðum narraði Loki Höður hinn blinda til að skjóta mistilteini að Baldri en það var einmitt það eina sem vitað var að gæti grandað honum.

 

Óðinn eignaðist þá soninn Vála sem drap Höð bróður sinn til að hefna Baldurs. Ekki var talið að um bróðurmorð væri að ræða því Váli var aðeins dagsgamall er hann framdi verknaðinn.

Nafnið Höður merkir líklega bardagamaður.

Sif

Gylltir lokkar freistuðu

Gyðjan er þekkt fyrir sítt, gullið hár sitt. Sumir fræðimenn telja Sif hafa verið gyðju uppskerunnar. Sé það rétt, er hár hennar tákn um þá mikilvægu uppskeru akranna sem sjá fornmönnum fyrir brauði og öli.

 

Samkvæmt Snorra-Eddu skar Loki gullna lokkana af höfði hennar á meðan hún svaf. Í því skyni að blíðka öskureiðan eiginmann hennar, þrumuguðinn Þór, lét Loki nokkra dverga útbúa gullna hárkollu fyrir Sif.

 

Um leið og hún setti hárkolluna á höfuð sér breyttist hún á undraverðan hátt í raunverulegt gullhár.

Sif átti soninn Ull úr fyrra sambandi en eignaðist hins vegar dótturina Þrúði með Þór.

Allar teikningar af norrænu goðunum í þessari grein eru fengnar að láni úr teiknimyndaheftum Peters Madsens, „Valhöll“ sem fjalla um heiðnu goðin.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: BJØRN BOJESEN

© Peter Madsen og Carlsen útgáfufélagið

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

NÝJASTA NÝTT

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Lifandi Saga

Ísraelski vígamaðurinn: Vill lifa í friði með Palestínumönnum

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Lifandi Saga

Ísraelski vígamaðurinn: Vill lifa í friði með Palestínumönnum

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Lifandi Saga

Af hverju er rússneskur bær í Noregi?

Lifandi Saga

Af hverju er rússneskur bær í Noregi?

Jörðin

Leiða loftslagsbreytingar til fleiri jarðskjálfta?

Maðurinn

Heilsa okkar ræðst af blóðinu

Náttúran

Topp 5: Hvaða dýr stunda lengsta mökun?

Lifandi Saga

Sósíaldarwinistarnir lýstu yfir stríði gegn fátækum

Vinsælast

1

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

2

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

3

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

4

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

5

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

1

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

2

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

3

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

4

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Lifandi Saga

Bretar knúðu fram frjálsa verslun með fallbyssum

Lifandi Saga

Nasistaveiðar meðal óvina 

Lifandi Saga

Nasistar leituðu arísks menningarheims í Tíbet

Glæpir

Newton upprætti peningafölsun í Englandi

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

Maðurinn

Við getum lifað án heilastofns

Náttúran

Vísindamenn kortleggja nú heimshöfin

Heilsa

41 næringarríkustu fæðutegundir jarðar

Menning og saga

Leynirými í 4.400 ára gömlum egypskum pýramída

Heilsa

Vísindamenn hafa fundið mikilvægan eiginleika sem er sameiginlegur öllum sem náð hafa 100 ára aldri.

Lifandi Saga

Belgía biður Kongó afsökunar – með tönn

Er veganmatur óhollur börnum?

Mér hefur verið sagt að börn sem fá bara veganfæði verði vannærð og skorti mikilvæg prótín og vítamín. Er það satt?

Maðurinn

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is