Það er yfirleitt ekkert stórmál þótt fólk fái smásár á hörundið. Sárið grær á skömmum tíma og skilur sjaldnast eftir sig nein ummerki. En þetta er reyndar dálítið einstaklingsbundið.
T.d. geta sár gróið bæði hægar og lakar þegar í hlut á fólk með treggengari blóðrás, svo sem sykursjúkir og gamalt fólk. Í mjög slæmum tilvikum getur niðurstaðan orðið aflimun. En vísindin eru nú að komast áleiðis með nýjar aðferðir til úrbóta þegar sár gróa seint og illa.
Rafstraumur í sárið
Sænskir vísindamenn hjá Chalmers-tækniháskólanum hafa þróað tækni til að hraða því til muna að sár grói. Þeir hleypa einfaldlega rafstraumi á húðina til að hraða græðslunni.
„Sár sem ekki vilja gróa eru vandamál sem sjaldnast er mikið rætt. Við höfum nú fundið aðferð sem getur allt að þrefaldað hraða græðsluferlisins og það getur auðveldað lífið mikið fyrir eldra fólk og sykursjúka sem iðulega lenda í því að sár vilja ekki gróa,“ segir Maria Asplund aðstoðarprófessor við Chalmers-tækniháskólann en hún veitti verkefninu forstöðu.
Vísindamennirnir hófu starfið á grunni þeirrar gömlu tilgátu að örva megi skaddaða húð með rafstraumi þannig að hún geri við sig sjálf. Þetta byggist á því að húðfrumur hafi stöðurafmagn og dragist að segulsviði.
Í tilraunaskyni var gerð eins konar lífræn örflaga til að rækta á húðfrumur. Síðan voru skorin lítil sár eða rispur í þá húð sem hafði myndast. Því næst var prófað hvort munur væri á því hve hratt sárið greri eftir því hvort rafstraumur væri á flögunni eða ekki. Í ljós kom að sárið greri þrefalt hraðar ef rafstraumurinn var á.
Af hverju klæjar mann í sár?
Það virðist órökrétt að finna þörf til að klóra í sár af því að þá er hætta á að þau rifni upp. Hvers vegna klæjar mann í sár?
Lausn framtíðarinnar fyrir hæg gróandi sár
Vísindamennirnir hafa nú fengið fjárveitingu til að stækka rannsóknina og þróa vonandi í fyllingu tímans einstaklingsmiðaðar sáragræðsluvörur fyrir sjúklinga sem á þurfa að halda.
Við erum nú að skoða hvernig mismunandi húðfrumur bregðast við raförvun til að nálgast betur það sem gerist í raunverulegum sárum. Markmiðið er að þróa aðferð sem geri kleift að „skanna“ sár og ákvarða styrk rafstraums með tilliti til þess hverrar gerðar sárið er. Við erum sannfærð um að þetta sé rétta leiðin að því marki að geta í framtíðinni hjálpað fólki sem glímir við sár sem gróa seint og illa,“ segir Maria Asplund.