Í tæpa tvo áratugi fylgdust sjónvarpsáhorfendur um heim allan með lögfræðingnum Perry Mason (1957-1966) og leynilögreglumanninum í hjólastólnum, Robert T. Ironside (1967- 1975), senda lögbrjóta í fangelsi. Leikarinn Raymond Burr fór með bæði þessi hlutverk.
Árið 1956 áskotnaðist Burr hlutverkið sem Perry Mason, eftir að höfundur þessa vinsæla glæpasagnaflokks, Erle Stanley Gardner, hafði horft á áheyrnarprufu með Burr.
„Þetta er Perry Mason!“ hrópaði rithöfundurinn í hrifningu.
Um 30 milljónir fylgdust með frumsýningu hvers þáttar og hinum vinsæla Burr bárust í hverri viku um 3.000 aðdáendabréf, einkum frá konum.
Mörg bréfanna fólu í sér bónorð, eftir að konurnar höfðu lesið um dapurlega ævi leikarans í vikublöðunum:
Þar kom nefnilega fram að hann byggi einn eftir að hafa misst fyrst eina eiginkonu og því næst aðra, svo og einn son.
Burr sagði frá því að fyrri eiginkonan, Annette Sutherland, hefði farist í flugslysi í síðari heimsstyrjöld og að tíu ára gamall sonur þeirra, Michael, hefði látist af völdum hvítblæðis.
Árið 1959 sagðist Burr hafa misst seinni konu sína, Lauru Andrina Morgan.
„Ég giftist ungri konu vegna þess að hún var að deyja úr krabbameini. Hún átti þá ósk heitasta að giftast áður en hún dæi,“ sagði hann.

Fjölmargar fallegar konur í sjónvarpsþáttaröðinni Ironside áttu að eyða orðrómum um að Raymond Burr væri samkynhneigður.
Samkynhneigð var illa þokkuð
Sannleikurinn var í raun af allt öðrum toga: Burr var samkynhneigður en af ótta við að starfsframi hans liði fyrir sannleikann skáldaði hann upp tvær látnar eiginkonur í von um að geta falið raunverulega kynhneigð sína.
Sannleikurinn hafði næstum komið í ljós árið 1960. Meðan á upptökum á Ironside stóð veittu margir á tökustaðnum því athygli að ungur maður kom þangað reglulega þó svo að leikarinn Robert Benevides gegndi engu hlutverki í þáttaröðinni.
Þýskaland var uppúr 1920 heimkynni fyrir litríka menningu samkynhneigðra en nasistar fyrirlitu slíkt frjálsræði og lýstu brátt yfir stríði gegn hommum og lesbíum.
Burr tókst að þagga niður allar sögusagnir með því að gera Benevides að meðframleiðanda sínum.
Þegar fram liðu stundir varð samkynhneigð sífellt meira viðurkennd og þegar sjónvarpsstjarnan lést árið 1993 arfleiddi hann Benevides að auðævum sínum. Örvæntingarfullar lygar Burrs voru þá afhjúpaðar.