Krabbamein getur myndast nánar hvar sem er í líkamanum og með 9,6 milljón mannslíf á samviskunni árlega er þetta næstalgengasta dánarorsök fólks.
Vísindamenn um allan heim keppast því við að finna út hvað það er sem fer úrskeiðis í þeim tilgangi að finna nýjar aðferðir til að berja niður þennan ævaforna sjúkdóm.
Og læknar hjá Harvardháskóla hafa nú fundið krabbameinsmyndandi ferli sem var algerlega óþekkt.
Það var Megan Insco sem uppgötvaði krabbameinshindrandi gen sem kallast CDK13, þegar hún var að rannsaka sebrafisk. Breytingar á þessu geni virðast ýta undir þróun sérstakrar gerðar húðkrabba, melanoma sem getur borist til annarra hluta líkamans.
Þegar Megan Insco og félagar hennar báru niðurstöðurnar saman við krabba í mönnum kom í ljós að í 21% tilvika melanom-æxla fundust stökkbreytingar í geninu CDK13 hjá viðkomandi einstaklingi eða í prótínum sem genið kóðaði fyrir.
Ástæðunnar er líkast til að leita í hlutverki gensins. Við nánari skoðun kom í ljós að CDK13 á þátt í eins konar hreinsunarferli sem felst í því að fjarlægja ónýta erfðaboðbera, hinar svonefndu RNA-sameindir. Stökkbreyting í geninu virðist stöðva þessa hreinsun.
Gull afhjúpar krabbamein
Enn geta læknar ekki fundið krabbamein með neinni einni einfaldri prófun en svo gæti farið að blóðprufa með gulleindum uppgötvi meinið á frumstigi.
Skilningur á slíkum örferlum sem geta valdið krabba er afar mikilvægur en þó bara fyrsta skrefið.
Næst hyggjast vísindamennirnir skoða hvort unnt sé að finna aðferð til að koma í veg fyrir stökkbreytingar í CDK13-geninu.