Segulmagn ver okkur gegn aldauða
Segulsviðið skiptir öllu máli fyrir afkomu okkar hér á jörðu.
Jörðin er nefnilega stór segull með norðurpól og suðurpól og segulsvið jarðar ver okkur gegn skaðlegum öreindageislum sólar og geimsins.
Ef þessi geislun yrði ekki bremsuð af í segulsviði jarðar myndi hún drepa lífið eins og við þekkjum það á plánetu okkar.
Öfluga sólstorma sem segulsvið jarðar bremsar af, er mögulegt að sjá með berum augum. Nærri pólunum getum við greint sveigju agnanna í norðurljósum og suðurljósum.
Segulsvið jarðar myndast í iðrum jarðar, nánar tiltekið ytri kjarna sem er afar óreiðukennt kerfi. Þess vegna skipta norðurpóll og suðurpóll stundum um sæti í svonefndum pólskiptum.
Mælingar sem gerðar voru með þremur dönskum Swarm-gervihnöttum sýna að segulsvið jarðar er að veikjast um þessar mundir sem bendir til þess að pólskipti geti hafist innan næstu 2.000 ára.
Hvað er segulmagn?
Í grófum dráttum stafar segulsvið af rafhlöðnum ögnum á hreyfingu. Efni er segulvirkt ef það eru óparaðar rafeindir í kringum atómkjarna. Þessi staðreynd var þó lengi vel ráðgáta fyrir vísindin.
Í upphafi 19. aldar náðu vísindin betri skilningi á segulmagni, enda höfðu menn uppgötvað rafmagn á þeim tíma.
Helstu eðlisfræðingar þess tíma töldu hins vegar ekki að rafmagn og segulmagn hefðu nokkuð hvort með annað að gera.
Hvað er rafsegulsvið?
Sú skoðun breyttist með einfaldri tilraun sem danski eðlisfræðingurinn Hans Christian Örsted framkvæmdi árið 1820 með einfaldri rafhlöðu.
Fyrir framan mannsöfnuð við Kaupmannahafnarháskóla hélt Örsted á kompás nærri rafhlöðu sinni og tengdi við straum. Þegar hann hreyfði kompásnálina, sveiflaðist segulmögnuð nálin til.
Tilraunin sýndi að rafmagn og segulmagn eru tvö birtingarform sama náttúrukrafts sem Örsted nefndi rafsegulmagnið.
Rafsegulmagn færði heiminum rafmagn
Síðar þetta sama ár var tilraunin endurtekin í París og franski eðlisfræðingurinn André Marie Ampére flýtti sér heim frá sýningunni og tók sjálfur að gera ýmsar tilraunir.
Á fáeinum vikum komst hann að því að það má segulmagna járnstöng með því að setja rafspólu utan um hana.
Árið 1831 sýndi enski eðlisfræðingurinn Michael Faraday að fyrirbæri þetta virkar einnig öfugt, þegar hann sýndi að segulsvið geta magnað upp rafspennu og rafmagn í járni.
Rafsegulkrafturinn er einn grundvallarkraftur náttúrunnar og um leið grunnurinn að nánast allri nútímatækni, eins og t.d. harða disknum í tölvunni, segulómtækinu á sjúkrahúsinu eða rafölum í bílum.