Sjáið heiminn með augum hunda

Sjón dýranna er afar frábrugðin okkar sjón en hvernig skynja býflugur, hundar og kræklingar eiginlega umhverfi sitt? Svarið fæst hér.

BIRT: 23/05/2023

LESTÍMI:

6 mínútur

Hundar geta ekki greint á milli græns og rauðs litar, þ.e. eru með rauð-græna litblindu

Þeir geta greint smáatriði í mikilli fjarlægð en á hinn bóginn sjá hundar ekki sérlega marga liti.

Ekki er rétt að hundar geti ekki séð liti, heldur geta þeir einfaldlega ekki greint jafnmarga liti og við mennirnir. Á hinn bóginn sjá þeir betur í rökkri og eiga auðvelt með að greina örlitlar hreyfingar.

 

Sjón hunda hefur verið rannsökuð meira en sjón flestra annarra dýra og margir hafa sennilega heyrt því fleygt að hundar sjái allt í svart-hvítu. Þó svo að hundar sjá færri liti en við er þó alveg ljóst að þeir sjá liti og geta meira að segja greint allt að 40.000 litbrigði. Við mennirnir getum hins vegar greint ríflega eina milljón litbrigða.

 

Hundsaugu eru útbúin sams konar litnæmum frumum, svonefndum keilum, og við mannfólkið höfum yfir að ráða. Við erum reyndar með þrjár ólíkar gerðir en hundar aðeins tvær. Keilur hundanna eru næmar fyrir annars vegar bláu og gulu ljósi og þeir geta fyrir bragðið greint blátt frá gulu en ekki rautt frá grænu.

 

Vísindamenn geta sér þess vegna til um að hundar sjái heiminn líkt og fólk sem ekki getur greint rautt frá grænu og að þeir sjái þessa tvo liti líkt og grá litbrigði.

 

Þá má geta þess að hundar sjá slælegar það sem er nálægt þeim en við á um menn og eru síður næmir fyrir breytingum á birtustigi. Sjáöldur hunda geta hins vegar stækkað meira en við á um okkur mennina, auk þess sem þeir eru með endurspeglandi yfirborð í sjónhimnunni sem nefnist glærvoð (tapetum lucidum). Hvort tveggja bætir sjónina í rökkri.

 

Hundar hafa enn fremur yfir að ráða fleiri gerðum skynfruma sem nefnast stafir en við mennirnir. Stafirnir greina einungis grá litbrigði en eru jafnframt ákaflega ljósnæmir og geta greint örlitlar hreyfingar í mikilli fjarlægð.

Sniglar rétt greina umhverfið

Sjón garðsnigilsins er fremur þokukennd en hann getur engu að síður greint óvini í grenndinni, auk þess að koma auga á fæðu, svo sem eins og salathöfuð.

Garðsniglar hafa einkar takmarkaða sjón en þó nægilega til að þeir geti leitað skjóls í kuðungi sínum ef ógn steðjar að.

 

Smágerði garðsnigillinn sem fyrirfinnst svo víða, er útbúinn augum yst á fálmurunum. Erfitt er að greina augu hans en þau líkjast mest tveimur litlum svörtum punktum.

 

Sjónin er fremur takmörkuð, því þó svo að augun séu útbúin augasteini fremst í vökvafylltu holrúmi vantar alveg vöðva til að stjórna augasteininum með. Þetta gerir það að verkum að sniglar eru ófærir um að skerpa sjónina. Vísindamenn telja þess vegna að sniglar greini lögun og skugga umfram það að sjá myndir af því sem fyrir augun ber.

 

Sniglar geta sem dæmi skynjað að annar snigill er í grenndinni þegar þeir skríða um, verða varir við hreyfingar í umhverfinu, svo og skugga sem fellur á þá sem nægir þeim til að leita skjóls inni í kuðungnum.

 

Augu garðsnigilsins hafa heldur ekki að geyma neinar ljósnæmar sjónfrumur. Hann sér aðeins grá litbrigði og getur einungis greint birtu frá myrkri. Getan til að greina birtumagn gerir það að verkum að sniglar leita skjóls á dimmum stöðum þegar þeir þurfa að felast langtímum saman, t.d. á veturna.

 

Þrátt fyrir slælega sjón ber samt að geta þess að sjón garðsnigla er skárri en sjón flestra annarra lindýra en undir þá fylkingu falla m.a. kræklingar og kolkrabbar.

Bænarækjan getur greint stefnu ljóssins

Bænarækjan er meðal fárra dýrategunda sem sjá skautað ljós sem kemur upp um í hvaða átt ljósið hreyfist og veitt getur upplýsingar um hreyfingar bráðarinnar.

Ekkert þekkt dýr hefur eins skarpa sjón og bænarækjan. Heili þessa smágerða krabbadýrs hefur stækkað til að unnt sé að vinna úr öllum gögnum sjónarinnar.

 

Bænarækjan er með fullkomnari sjón en önnur dýr sem vísindamönnum er kunnugt um. Augun hreyfast óháð hvort öðru og hafa að geyma skynfrumur sem greina allt að tólf ólíka liti, þ.e. fjórfalt fleiri liti en menn sjá. Þá er bænarækjan einnig fær um að sjá hvernig ljósið er skautað.

 

Ljós og aðrar rafsegulmagnaðar bylgjur sveiflast ávallt hornrétt á stefnu útbreiðslunnar og skautunin leiðir í ljós í hvaða átt þær sveiflast og þá jafnframt hvort hugsanleg bráð eða óvinur sé að nálgast eða fjarlægjast bænarækjuna. Skautunin sér bænarækjunni þannig fyrir sérlega nákvæmum upplýsingum er snerta sjónina þegar dýrið er á veiðum, nú eða þá á flótta.

 

Það næsta sem við getum komist þessari sjón er með notkun skautunargleraugna eða skautunarlinsa á myndavélum. Ljósið sem lendir á augum okkar sveiflast í allar áttir. Síunin gerir það að verkum að stefna sem stafar af endurkasti sólarljóss á vatnsyfirborði er þá síuð frá sem gerir okkur kleift að horfa ofan í vatnið.

Maðurinn sér mörg litbrigði

Augu bænarækjunnar hafa yfir að ráða tólf ólíkum litnæmum frumum. Þó svo að um sé að ræða fjórfalt fleiri ljósnema en við mennirnir getum státað af, þá erum við útbúin heila sem gerir sjón okkar fullkomnari en við á um bænarækjuna.

Maðurinn: Þrír litir mynda öll litbrigði

Augu okkar eru næm fyrir ljósi með bylgjulengdir á bilinu 400-700 nanómetrar. Innan þessa litrófs sjáum við ljósið sem ýmist blátt, grænt eða rautt. Í heilanum er svo unnið úr styrkmun litanna þriggja þannig að úr verða ríflega milljón litbrigði.

Bænarækjan: 12 aðskildir litir

Augu bænarækjunnar nema ljósbylgjur á bilinu 300-720 nanómetrar. Innan þess litrófs getur rækjan séð tólf ólíka liti en heilinn er ekki fær um að sameina þá. Fyrir bragðið aðgreinir bænarækjan litbrigði 4-20 sinnum slælegar en við á um menn.

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.

Risakræklingur kíkir í laumi

Brúnin á möttli kræklingsins er þakin örsmáum augum sem kallast augnflekkir sem dýrið getur notað til að greina birtu frá myrkri og skynja þegar óvinur nálgast.

Risakræklingurinn sem vegur 200 kg, sér umheiminn sem lýsandi punkta gegnum ógrynni smásærra augna.

 

Risakræklingurinn er stærsta lindýr heims. Sum dýranna verða eldri en eitt hundrað ára, verða 1,2 metrar í þvermál og vega 200 kg. Þetta risavaxna dýr er jafnframt með einhver þau allra einföldustu augu sem fyrirfinnast í gjörvallri þróunarsögunni en augu þessi kallast augnflekkir.

 

Hver augnflekkur samanstendur af holrúmi með opi sem gegnir hlutverki ljósops en aftasti hluti holrúmsins er aftur á móti þakinn mörg hundruð ljósnæmum frumum. Kræklingurinn getur greint þrjá ólíka liti en þó ekki sameinað þá í litbrigði.

 

Til þess að þetta einfalda auga geri sitt gagn verður risakræklingurinn að vera útbúinn mörgum slíkum augum. Brúnin á svonefndum möttli risakræklingsins er fyrir vikið þakin mörg hundruð augnflekkjum sem hver um sig er um 0,5 mm í þvermál.

 

Þessir frumstæðu augnflekkir gera risakræklingnum kleift að bregðast við birtu og skugga. Rannsóknir hafa enn fremur sýnt fram á að risakræklingurinn getur brugðist við hreyfingu og lögun, t.d. áður en rándýr varpar skugga sínum beint á hann.

 

Þegar ástralskir vísindamenn sýndu fyrstir fram á að risakræklingurinn byggi yfir sjón árið 1986 kom þeim á óvart að hann skyldi vera fær um að greina afbrigði í ljósstyrk á hinum ýmsu hlutum sjónsviðsins.

Býflugur sjá útfjólubláan lit

Augu býflugunnar gera henni kleift að sjá betur frævla blómanna og gegna í raun hlutverki eins konar lendingarljósa.

Fljúgandi hunangsframleiðendur eru með tvær gerðir augna sem gagnast þeim til að finna þau blóm sem mest hunang leynist í.

 

Býflugurnar sjá með tveimur samsettum augum sem samanstanda af 4.500-5.500 óhagganlegum einstökum augum sem kallast smáaugu. Samsett augun tryggja býflugum litasjón sem hefur allt aðra virkni en sjón okkar mannanna.

 

Við erum með skynfrumur fyrir blátt, grænt og rautt ljós en býflugur hins vegar fyrir blátt, grænt og útfjólublátt. Býflugur geta með öðrum orðum ekki greint rautt og appelsínugult ljós en sjá hins vegar bláan og grænan lit afar vel. Þær geta jafnframt séð útfjólublátt ljós, þ.e. ljós með stuttar bylgjulengdir sem eru ósýnileg okkur mönnunum.

 

Mörg blóm notfæra sér einstaka sjón býflugna með því að vera útbúin röndum á krónublöðunum, svonefndum safamerkjum sem benda flugunum á hunangið. Með þessu móti geta býflugurnar fundið þau blóm sem eru tilbúin til að láta fræva sig.

 

Auk samsettu augnanna hafa býflugur einnig yfir að ráða þremur svonefndum augnflekkjum ofan á höfðinu. Augnflekkirnir greina m.a. breytingar í ljósstyrk og geta jafnframt greint skuggann af óvinum sem hyggjast ráðast á býflugur ofan frá.

 

Vísindamenn hafa enn fremur fundið svokallaðar stefnutaugafrumur í heila býflugunnar. Stefnutaugafrumur vinna úr gögnum sérstakra sjónfæra sem gera býflugum kleift að sjá í hvaða átt ljósið svignar en þetta kallast einnig skautun.

 

Skautaða ljósið myndar lýsandi rák þvert yfir himininn sem býflugurnar nota til að rata eftir. Býflugurnar koma auga á rákina, jafnvel þótt sólin leynist á bak við þykka skýjahulu.

BIRT: 23/05/2023

HÖFUNDUR: NIELS HALFDAN HANSEN

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: © Shutterstock. © Shutterstock & Smithsonian. © Shutterstock & Bjørn Rørslett/SPL.

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is