Sjö góðar ástæður fyrir að eiga hund

,,Besti vinur mannsins” er oft sagt um hunda - og fyrir því eru góðar ástæður. Því vísindin hafa sannað að hundaeigendur eru hamingjusamari, heilsuhraustari og félagslyndari.

BIRT: 25/07/2023

LESTÍMI:

4 mínútur

Tryggur og verndandi félagi sem er alltaf glaður að sjá þig. Hundurinn hefur verið félagi mannsins í 18.000 ár og ekki að ástæðulausu.

 

Ef þú átt hund eða ef þú ert að velta því fyrir þér hvort það sé yfirhöfuð sniðugt að eiga gæludýr færðu hér öflugan stuðning vísindanna.

 

1. Hundur fær þig til að hlæja

Hundaeigendur hlæja einfaldlega oftar, sýnir rannsókn sem Robin Maria Valeri vann og birt var í Society & Animals árið 2015. Skýrslan byggir á spurningakönnun þar sem fjórir aðskildir hópar þurftu að skrá hversu oft þeir hlógu yfir daginn.

 

Einn hópurinn samanstóð af hundaeigendum, annar hópurinn samanstóð af kattaeigendum, í þriðja hópnum voru eigendur bæði katta og hunda, en síðasti hópurinn samanstóð af fólki sem hvorki áttu kött né hund.

 

Niðurstaðan var sú að hundaeigendur og þeir sem áttu bæði kött og hund hlógu oftar en einstaklingar í hinum tveimur hópunum.

 

2. Hundur bætir heilsu þína

Ryk frá hundi getur valdið jákvæðum breytingum á þarmaflórunni og styrkt börn gegn sýkingum og ofnæmi, sýnir rannsókn.

Börn sem alast upp á heimili með hund frá unga aldri geta verið í minni hættu á að fá astma og ofnæmi en börn sem alast upp á heimili án hunds.

 

Og vísindin geta jafnvel útskýrt hvers vegna.

 

Rannsókn á músum unnin af vísindamönnum frá háskólanum í Kaliforníu í San Francisco árið 2013 sýnir að útsetning fyrir ryki á heimili þar sem einn eða fleiri hundar búa veldur breytingum á bakteríuflórunni í meltingarvegi músanna.

 

Mýsnar höfðu meira magn baktería sem eru mikilvægar til að vernda öndunarveginn gegn ofnæmisvöldum og öndunarfærasýkingum.

 

3. Hundur gerir þig félagslyndari

Vísindamenn frá háskólanum í Liverpool og háskólanum í Bristol, birtu skýrslu árið 2007 sem segir að hundaeigendur tengist meira öðru fólki en þeir sem ekki eiga hund.

 

Í skýrslunni kemur meðal annars fram sem möguleg ástæða að hundaeigendur fara í göngutúra með hundinn sinn og hitti aðra hundaeigendur í sömu erindagjörðum. Þar myndast því oft persónuleg tengsl.

 

4. Hundur veitir þér aukna sjálfsvirðingu

Eldri rannsókn frá árinu 2001 sýnir að hundaeigendur upplifa t.d. minni kvíða en þeir sem eiga ekki hunda.

Rannsókn frá árinu 2001 sem gefin var út af American Psychological Association sýnir beina fylgni milli þess að eiga hund og aukinnar sjálfsvirðingar.

 

Vísindamennirnir fylgdu hópi nýrra hundaeigenda og báru niðurstöðurnar saman við sambærilegan hóp sem áttu ekki hund – og eftir 10 mánuði voru hóparnir greindir.

 

Í þeim greiningum kom fram bæði í hegðun og í samtölum við hundaeigendurna að þeir upplifðu aukið sjálfsálit, hreyfðu sig meira og upplifðu mun minni kvíða – sérstaklega hvað varðar glæpi.

 

5. Hundur heldur þér í formi

Það segir sig nánast sjálft að hundaeigendur fá meiri hreyfingu því hundana þarf að viðra. En í raun kemur í ljós að hreyfing er meiri og mikilvægari en gert var ráð fyrir í upphafi.

 

Í skýrslu frá árinu 2011 sögðu vísindamenn frá Michigan State háskólanum frá því að 60% hundaeigenda sem rannsakaðir voru hreyfðu sig hæfilega, mikið eða mun meira en mælt er með sér til heilsubótar.

 

Jafnframt sýnir rannsókn frá George Mason háskólanum að eldra fólk sem fer í göngutúra með hunda sína er í mun betra líkamlegu formi en álíka gamalt fólk sem fer í göngutúra einsamalt eða með öðru fólki.

 

6. Hundur eykur lífsgleðina

Hundar eru félagslyndir og traustir og því líta flestir hundaeigendur á hundinn sem góðan félagsskap. Vísindin hafa meira að segja sýnt fram á að lífsgleði eykst beinlínis hjá einum ákveðnum hóp hundaeigenda.

 

Vísindamenn við dýralæknadeild Kaliforníuháskóla hafa rannsakað lífsgæði og lífsgleði eldra fólks við það að eiga hund.

 

Niðurstöðurnar sem birtar eru í Journal of Social Psychology sýna að eldra fólk sem á hund finnur fyrir minni óánægju með félagslífið en álíka gamalt fólk sem á ekki hund.

 

Jafnframt kemur fram í rannsókninni að aldraðir sem eiga hund eru í betra líkamlegu-  og ekki síst betra andlegu formi en jafnaldrar þeirra sem eiga ekki hund.

 

7. Hundur vinnur gegn þunglyndi 

Gleðihormónið oxytósín er framleitt í neðri hluta miðheila á svæði sem kallast undirstúka. Og rannsóknir hafa sýnt að hundaeigendur framleiða hormónið einfaldlega með augnsambandi við ferfættan vin sinn.

Fyrir hundaeiganda veitir það mikla gleðitilfinningu við það eitt að horfa á hundinn og ná augnsambandi við hann.

 

Rannsókn sem gerð var af vísindamönnum frá Azabu háskólanum í Japan árið 2009 sýnir að heili hundaeigenda bregst við augnsambandi með því að losa hormónið oxytósín sem gefur sterka hamingjutilfinningu og samkennd.

 

Sýnt hefur verið fram á að oxýtósín sem að öllu jöfnu losnar við nána félagslega eða líkamlega snertingu hentar vel til meðferðar á geðklofa og er verið að rannsaka efnið til að meðhöndla bæði þunglyndi og áfallastreitu.

 

Rannsóknarteymi við sálfræðideild Miami háskóla hefur þó þegar sýnt fram á það í rannsókn frá árinu 2011 að hundaeigendur með sterk félagsleg tengsl við hundinn sýna minni tilhneigingu til þunglyndis.

BIRT: 25/07/2023

HÖFUNDUR: JAKOB PRIESS

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: © Shutterstock / Lunja,© Shutterstock,

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is