Þunglyndi er flókið ástand sem stjórnast bæði af líffræðilega arfgengum þáttum og lífsstíl.
Þó svo að erfðafræðilegur bakgrunnur geti gert suma viðkvæmari fyrir því að þróa með sér þunglyndi eru nú vaxandi vísbendingar um að heilbrigður lífsstíll geti haft veruleg áhrif á hættuna á að þróa með sér þennan alvarlega sjúkdóm.
Í yfirgripsmikilli rannsókn á 290.000 manns hafa vísindamenn frá háskólanum í Cambridge og Fudan háskólanum komist að því að fólk sem lifir heilsusamlegu lífi er í um helmingi minni hættu á að fá þunglyndi en þeir sem ekki gera það.
Hlaupið, borðið og talið
Vísindamenn greindu sjö heilbrigða lífsstílsvenjur sem tengdust minni hættu á þunglyndi.
Þetta fól í sér hollt mataræði, reglubundna hreyfingu, nægan svefn, hóflega áfengisneyslu, reykleysi, lágmarks kyrrsetu og góðan félagsskap.
Svefn, hreyfing og félagsleg samskipti við annað fólk höfðu mest áhrif á hættuna á þunglyndi. Hver þessara þátta tengdist um 20 prósent minni líkum á þunglyndi.
„Sumir þessara lífsstílsþátta eru eitthvað sem við höfum vissa stjórn á, þannig að ef við reynum að finna leiðir til að bæta þá – til dæmis með því að tryggja að við fáum góðan nætursvefn og fara út að hitta vini – gæti það skipt sköpum í lífi okkar,“ segir Barbara Sahakian, meðhöfundur rannsóknarinnar og prófessor í taugavísindum við háskólann í Cambridge.

Heilsuvenjurnar sjö
1. Sofðu sjö til átta tíma hverja nótt.
2. Hreyfðu þig reglulega t.a.m. hlaup, lyftingar og sund.
3. Ræktaðu sambandið við vini og fjölskyldu.
4. Drekktu í hófi.
5. Vertu reyklaus.
6. Borðaðu hollt.
7. Forðastu að sitja kyrr tímunum saman yfir daginn.
Vísindamenn rannsökuðu einnig strúktur heilans í hópnum með segulómun og skannanir frá tæplega 33.000 þátttakendum sýndu að rúmmál heilavefs var mest þegar farið var eftir þessum sjö heilsuvenjum.
Rúmmál heilavefs er mælikvarði á heildarmagn heilans af gráu efni (taugafrumum og tengingum þeirra) og hvítu efni (taugaþráðum). Rúmmál heilavefs getur meðal annars haft áhrif á vitræna starfsemi okkar eins og minni og getu til að takast á við áskoranir.
Í fyrsta sinn hafa verið mældar breytingar í heilanum sem eru undanfari þunglyndis og einkenna þess. Skoskir vísindamenn telja að með þessu verði hægt að spá fyrir um sjúkdóminn.
Venjurnar höfðu mest áhrif á heilastöðina dreka (hippocampus) sem gegnir mikilvægu hlutverki í námi og minni og á heilabotnskjarnann bleikhnött (globus pallidus) sem vinnur úr og lærir kosti og galla hegðunar okkar.
„Þetta bendir greinilega til þess að lífsstíll hefur áhrif á líffræði heilans, sem gæti hugsanlega útskýrt tengslin milli heilbrigðs lífsstíls og minni líkum á þunglyndi,“ segir Sahakian.
Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) upplifa um 5 prósent fullorðinna þunglyndi á heimsvísu og ástandið er veruleg byrði á lýðheilsu heimsins.