Um margar milljónir ára var alheimurinn dimmur en svo kviknuðu fyrstu stjörnurnar og þá birti til.
Nú hefur fjölþjóðlegur hópur vísindamanna, m.a. hjá Kaliforníuháskóla, uppgötvað fjarlæga og daufa stjörnuþoku sem kynni að vera af fyrstu kynslóð þessara fyrirbrigða og þar með lýst upp vetnisskýið í frumbernsku alheimsins.
Vísindamennirnir vonast til að uppgötvunin geti aukið vitneskju manna um endalok upphafsmyrkursins eftir Miklahvell.
Stjörnuþokan hefur fengið heitið JD1 og er sú fjarlægasta og daufasta sem fundist hefur. Hún sést nú eins og hún var fyrir um 13,3 milljörðum ára, þegar alheimurinn hafði verið til í um 4% af núverandi aldri sínum.
Öflugustu augu heimsins
Það var einungis tilvist nýja James Webb-sjónaukans að þakka að þessi stjörnuþoka fannst en með innrauðum tækjum sjónaukans var unnt að ákvarða aldur hennar, fjarlægð héðan og fjölda stjarna.
Það auðveldaði verkið að JD1 er að finna á bak við heila stjörnuþokuþyrpingu, Abell 2744 sem sveigir ljósið frá þessari fjarlægu stjörnuþoku og magnar það dálítið með svonefndum þyngdarlinsuáhrifum.
Togsegl fjarlægir geimrusl
Hjá Evrópsku geimferðastofnuninni ESA hefur tekist að fjarlægja gervihnött með togsegli. Því er ætlað meira hlutverk á því sviði en geimrusl er vaxandi vandamál.
Þrátt fyrir þessa aðstoð segja vísindamennirnir uppgötvunina meðal stærri afreka þessa öflugasta stjörnusjónauka sögunnar.
Áður en James Webb kom til sögunnar fyrir einungis rúmlega ári gátum við ekki látið okkur dreyma um að greina svo ljósdaufa stjörnuþoku,“ segir Tommaso Treu sem er meðal aðstandenda verkefnisins.