Search

Stærsta stöðuvatn heims

Stærsta stöðuvatn heims er Kaspíhaf en það nær yfir meira svæði en allt Þýskaland. Hér geturðu lesið um fimm stærstu stöðuvötn Jarðar.

BIRT: 19/05/2023

LESTÍMI:

5 mínútur

Hvert er stærsta stöðuvatn heims?

Margir halda að stöðuvatnið Baikal í Rússlandi sé stærst, enda er það að finna á heimsminjaskrá UNESCO.

 

Stöðuvatnið Baikal hefur hins vegar einungis titilinn sem elsta og dýpsta stöðuvatn heims.

 

Stærsta vatnið er nefnilega Kaspíahaf sem nær yfir 371.000 km2 landsvæði og er fyrir vikið stærra en allt Þýskaland. Til samanburðar má geta þess að Baikal er einungis 31.722 km2 að stærð.

 

Lesið ykkur til um stærstu stöðuvötn heims hér í greininni.

 

Hér gefur að líta yfirlit yfir fimm stærstu vötnin

Kaspíahaf

Stærsta stöðuvatn heims

 • Flatarmál: 371.000 km2.

 

 • Breidd og lengd: Kaspíahaf er rösklega 1.200 km á breidd og 1.300 km á lengd.

 

 • Dýpt: 186 metrar að meðaltali.

 

Stærsta stöðuvatn heims er Kaspíahaf. Á ensku kallast vatnið „Caspian Sea“.

 

Vatn þetta sem er salt stöðuvatn, er að finna í Austur-Evrópu á mörkum Evrópu og Asíu. Löndin Aserbaídsjan, Íran, Rússland, Kasakstan og Túrkmenistan eru öll með strandlínu að vatninu.

 

Kaspíahaf kallast haf sökum þess að það býr bæði yfir einkennum hafs og stöðuvatns. Það flokkast þó sem stöðuvatn og er þannig stærsta stöðuvatn heims.

 

Út frá vísindalegu sjónarmiði er Kaspíahaf vatnsból sem er algjörlega umkringt landi og án nokkurs útfalls til annarra vatna eða hafa, heldur er innilukt.

 

Þetta táknar að vatn losnar aðeins úr stöðuvatninu með uppgufun og fyrir vikið felur þessi gerð stöðuvatna iðulega í sér saltara vatn en á við um höfin. Þar af leiðandi kallast slík vötn sölt stöðuvötn.

Superior-vatn

Superior-vatn er stærsta og minnst mengaða vatnið af Vötnunum miklu.

 • Flatarmál: 82.350 km2.

 

 • Breidd og lengd: Superior-vatn er 258 km á breidd og 563 km á lengd.

 

 • Dýpt: 406 metrar.

 

Superior-vatn sem einnig nefnist Efra vatn, er stærsta ferskvatnsstöðuvatn heims, næststærst allra stöðuvatna og jafnframt hið stærsta og norðlægasta af Vötnunum miklu á landamærum Bandaríkjanna og Kanada.

Vötnin miklu er samheiti yfir fimm stór stöðuvötn: Superior-vatn, Húron-vatn, Michigan-vatn, Erie-vatn og Ontaríó-vatn sem öll er að finna á landamærum Bandaríkjanna og Kanada.

Stöðuvatn þetta liggur upp að fylkjunum Minnesota, Wisconsin, Michigan og Ontaríó í Kanada. Í það rennur vatn úr u.þ.b. 200 ám og eru þeirra stærstar Nipigon og St. Louis.

 

Næststærsta stöðuvatn heims er hluti af Saint Lawrence vatnaleiðinni en um er að ræða kerfi skipaskurða og vatnsfalla sem tengja Vötnin miklu við Atlantshafið. Á skipaleið þessari eru árlega flutt rösklega 100 milljón tonn af vörum.

 

Nokkrar mikilvægustu hafnarborgirnar á leið þessari eru Duluth og Thunder Bay, þaðan sem siglt er með ógrynni af olíu, timbri og járni til annarra staða.

Viktoríu-vatn

Strandlengja Viktoríu-vatns er alls 3.440 km á lengd og á vatninu er að finna ríflega 3.000 eyjar.

 • Flatarmál: 69.484 km2

 

 • Breidd og lengd: Viktoríu-vatns er 240 km á breidd og 337 km á lengd.

 

 • Dýpt: 82 metrar.

 

Viktoríu-vatn sem á ensku kallast Lake Victoria, er stærsta stöðuvatnið í Afríku, annað stærsta ferskvatnsstöðuvatn heims og þriðja stærst allra stöðuvatna í heimi.

 

Vatnið sem er nefnt í höfuðið á Viktoríu Englandsdrottningu, er að finna í austurhluta Afríku, á milli Úganda, Tansaníu, Kenýa, Búrúndí og Rúanda.

 

Í Viktoríu-vatni lifa rösklega 200 ólíkar fisktegundir. Margir fiskanna tilheyra síklíðaætt en um er að ræða ættbálkinn borra.

Ár hvert sér Viktoríu-vatn 40 milljón manns farborða en vistkerfið líður fyrir ofveiðar og mengun og á hvort tveggja þátt í að ógna frekari fiskveiðum á vatninu.

Allt umhverfis vatnið er að finna þéttbýl landbúnaðarsvæði.

 

Þetta hefur m.a. haft í för með sér jarðrof og mengun í vatninu af völdum skordýraeiturs og tilbúins áburðar sem notaður er í landbúnaðinum.

 

Þá hafa vatnahýasintur jafnframt tekið sér búfestu víðs vegar í vatninu og þess má geta að árið 1998 voru 80% af allri strandlengju Úganda þakin þessum jurtum. Vatnahýasintur leggjast eins og þykkt teppi yfir vatnið og hafa valdið miklum erfiðleikum í tengslum við fiskveiðar og hafa jafnframt valdið truflunum í vatnsorkuveitum í grennd við vatnsbakkann.

 

Þá má ekki gleyma þjóðarmorðinu í Rúanda árið 1994 en þá flaut mikið af líkum út í vatnið og sköpuðu mikla heilbrigðisvá.

 

Ofangreind atriði hafa falið í sér gríðarleg umhverfisvandamál fyrir stöðuvatnið og margar alþjóðlegar stofnanir sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni, hafa róið að því öllum árum að bjarga stöðuvatninu árum saman.

Húron-vatn

Á Húron-vatni er að finna stærstu eyju sem fyrirfinnst á stöðuvatni, þ.e. Manitoulin-eyju.

 • Flatarmál: 60.700 km2

 

 • Breidd og lengd: Húron-vatns er 183 km á breidd og 331 km á lengd.

 

 • Dýpt: 229 metrar.

 

Húron-vatn sem á ensku nefnist Lake Huron, er þriðja stærsta ferskvatnsstöðuvatn heims, fjórða stærst allra stöðuvatna og hið næststærsta af Vötnunum miklu sem er að finna á landamærum Bandaríkjanna og Kanada.

 

Stöðuvatnið er umlukt af bandaríska fylkinu Michigan og kanadíska héraðinu Ontaríó og er hluti af Saint Lawrence skipaleiðinni, líkt og við á um Superior-vatn.

 

Af mikilvægri efnahagsstarfsemi á vatninu mætti nefna timburflutninga og fiskveiðar. Þá má ekki gleyma norðlæga flóanum Georgian Bay en um er að ræða vinsælan sumarleyfisstað þangað sem ferðamenn sækja á baðstrendur og litlar eyjar í flóanum.

 

Húron-vatn var hið fyrsta af Vötnunum miklu sem Evrópubúar uppgötvuðu en þangað komu tveir franskir landkönnuðir árið 1615, þeir Samuel de Champlain og Étienne Brûlé.

Michigan-vatn

Þriðju stærstu borg Bandaríkjanna, Chicago, er að finna við suðurhlutann á Michigan-vatni.

 • Flatarmál: 57.757 km2.

 

 • Breidd og lengd: Michigan-vatn er 190 km á breidd og 517 km langt.

 

 • Dýpt: 281 metrar.

 

Michigan-vatn sem á ensku kallast Lake Michigan, er fjórða stærsta ferskvatnsstöðuvatn heims og fimmta stærst allra stöðuvatna í heimi.

 

Vatn þetta er hluti af Vötnunum miklu og raunar hið eina þeirra sem liggur innan landamæra Bandaríkjanna. Líkt og heitið gefur til kynna er vatnið að finna við Michigan-fylki.

 

Vatn þetta tengist Húron-vatni um Mackinac-sund og er fyrir vikið einnig mikilvægur hluti af Saint Lawrence vatnaleiðinni.

 

Losun skólps frá stórborgum á borð við Chicago sem er að finna við suðurhluta vatnsins, hefur leitt af sér gífurlega mengun í vatninu sem ógnar vistkerfum þess. Þrátt fyrir þetta leggja margir ferðamenn land undir fót og dvelja meðfram vatninu í fríum sínum.

Hvert er stærsta stöðuvatn Evrópu?

Norðvesturhluti Ladoga heyrði áður til Finnlands.

Ladoga er stærsta stöðuvatn Evrópu. Það er að finna í norðvesturhluta Rússlands, rétt við finnsku landamærin.

 

Stærsta stöðuvatn í Evrópu er 18.400 km2 að flatarmáli og er dýptin norðan megin 380 metrar.

 

Áin Neva í Rússlandi rennur í vatnið og aftur úr því en sú á rennur í gegnum Pétursborg og áfram þaðan í Finnska flóann.

 

Mjög kalt er í grennd við Ladoga og vatnið leggur á veturna.

 

Á norðurhluta vatnsins eru víða mjög háar klettastrendur og bæði þoka og reglulegir stormar gera það að verkum að vatnið þykir erfið og hættuleg siglingaleið.

 

Í vatninu er að finna um 660 eyjar og er þeirra stærst eyja að nafni Riyekkalan-Sari.

BIRT: 19/05/2023

HÖFUNDUR: MARIE WIUM

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: © Shutterstock.

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is