Tæknin í vindmyllum og sólþiljum er nú orðin svo góð að við getum fullnægt stórum hluta orkuþarfarinnar með endurnýjanlegri orku.
Aftur á móti kljást vísindamenn enn við að finna nægilega góðar aðferðir til að geyma orkuna, þannig að hægt sé að nýta hana eftir þörfum en ekki bara meðan sólin skín eða vindurinn blæs.
Orkugeymsla óháð uppistöðulónum
Nú hafa verkfræðingar hjá svissneska fyrirtækinu Energy Vault fengið afar einfalda og snjalla hugmynd sem í raun byggist á sama grunni og að geyma orku í uppistöðulónum.
Þar má geyma umframorku með því að dæla vatni upp í lónið og nýta orkuna þegar hennar er þörf með því að hleypa vatninu í gegnum vatnsaflsvirkjunina fyrir neðan.
⇒ Orkugeymsla nýtir þyngdarkraftinn
Rafknúinn krani getur geymt orku með því að byggja turn úr steypuklumpum. Þegar orkunnar er þörf eru klumparnir látnir síga niður aftur.
Hleðsla
Rafknúinn krani lyftir steypuklumpi upp. Við það myndast orka sem fólgin er í þyngd klumpsins.
Nýting
Þegar steinklumparnir síga knýja vírar rafal sem umbreytir fallorkunni í rafstraum.
Kosturinn við nýju aðferðina er sá að hún krefst ekki aðgangs að vatnsaflsvirkjun eða lóni.
Í stað vatns eru notaðar steinsteyptar blokkir, 35 tonn hver sem staflað er upp með 120 metra háum krana.
Dugar 1250 heimilum
Þegar orkuframleiðslan er óþarflega mikil byggir kraninn upp stóran turn með því að lyfta steypuklumpunum og stafla þeim í turn en þegar þarf að nýta orkuna eru blokkirnar látnar síga aftur.
Stálvírar sem festir eru í blokkirnar skila þá orkunni í rafal sem breytir hreyfiorkunni í rafmagn.
Hjá svissneska fyrirtækinu eru uppi áform um geymsluturn sem gæti geymt 80 megavattstundir.
Það þýðir að geymsluverið gæti skilað 8 megavöttum samfellt í 16 tíma og það dugar 1.250 meðalheimilum.