Maðurinn

Þannig er hægt að komast lífs af í mannhafi

Ár hvert ferst fólk í troðningi sem skapast á skipulögðum viðburðum í líkingu við tónleika eða fótboltaleiki. Þeir sem eiga á hættu að lenda í viðlíka mannhafi geta sem betur fer oft komist hjá því að lífshættulegar aðstæður skapist. Þeir þurfa bara að fylgja þessum einföldu ráðleggingum.

BIRT: 23/11/2023

Á ári hverju troðast að minnsta kosti 380 manns til dauða í mannfjölda tengdum stórum viðburðum eins og hátíðum eða íþróttaviðburðum.

 

Orsök slysanna er ekki óðagot eða óskynsamleg hegðun heldur einföld eðlisfræðilögmál sem taka gildi þegar margir eru samankomnir á litlu svæði.

 

Sem betur fer er hægt að gera ýmislegt til að forðast hættulegar aðstæður á stórum viðburðum. Hér höfum við safnað saman fimm vísindalega studdum ráðum sem gætu hugsanlega bjargað mannslífum.

 

Olnbogarými

Leitið í burtu frá öðrum

Áhrif: Þið festist ekki í þvögunni

 

Hvers vegna?

Miðað við útreikninga á því hversu hratt fólk hreyfir sig og hve mikið rými meðalmaðurinn tekur, mæla sérfræðingar með að meðaltali 2,5 einstaklingum á hvern fermetra á m.a. tónleikum.

 

Sé það rúmtak haft í heiðri er nægilegt rými til að áhorfendur geti komist undan. Tölurnar eru þó breytilegar, því mikill munur er á t.d. fjölskylduskemmtun annars vegar og þungarokkstónleikum hins vegar. Fjöldinn ætti þó aldrei að verða meiri en þrír til fjórir á fermetra.

 

Hvernig?

Reynið að átta ykkur á hættumerkjum og bregðast við samkvæmt því. Ef tónleikagestir eru ekki í líkamlegri snertingu hver við annan er fjöldi gesta sennilega undir þremur á fermetra.

 

Sé hins vegar stöðugt verið að rekast á aðra má búast við að fjöldinn nemi fjórum til fimm á fermetra. Við slíkar aðstæður hefur ekki beinlínis myndast hættuástand en full ástæða er þó til að reyna að komast í burtu.

 

Sé ekki hægt að hreyfa hendurnar að vild og erfitt reynist að snerta andlitið er fólksmassinn orðinn of mikill og fólk er í hættu statt.

 

Fótfesta

Reynið að halda jafnvægi

Áhrif: Þannig má koma í veg fyrir hópfall.

 

Hvers vegna?

Rannsóknir á mannfjöldaslysum hafa leitt í ljós að fólksfjöldinn í mannþröng kemst á hættustig þegar á bilinu sex til sjö eru á sama fermetra. Við þær aðstæður verður líkamleg snerting svo mikil að smávægilegar hreyfingar mynda gárur í mannhafinu.

 

Einn og einn missir stjórn á líkamanum og hreyfist fram og til baka gegn eigin vilja. Ef einn fellur um koll geta skapast dómínóáhrif en slíkt fyrirbæri kalla sérfræðingar hópfall.

 

Hvernig?

Ef þið festist í þröngum hópi sem bylgjast fram og til baka, án tækifæra til að komast undan, skiptir sköpum að einbeita sér að því að halda jafnvægi.

 

Ef fólkið umhverfis byrjar að detta er hætt við að þeir rífi aðra með sér sökum aðsteðjandi þrýstings.

 

Þeir sem falla eiga á hættu að togast til jarðar vegna þunga annarra líkama. Því skyldi leggjast í fósturstellingu, þ.e. hafa bogið bak og draga hnén upp að bringunni, þannig að unnt sé að verja brjóstkassann eins vel og hugsast getur.

 

Hreyfing

Fylgið með straumnum og aðstoðið aðra

Áhrif: Þið bjargið mannslífum.

 

Hvers vegna?

Þegar sagt er frá slysum og harmleikjum á t.d. tónleikum ber hugtakið „óðagot“ oft á góma en rannsóknir á slysum af öllum mögulegum gerðum og stærðargráðum hafa hins vegar leitt í ljós að þeir sem lenda í slíku bregðast iðulega við af skynsemi og yfirvegun og aðstoða meira að segja aðra, án þess að ofsahræðsla geri vart við sig.

 

Reynsla af harmleikjum hefur leitt í ljós að það myndast sérstök mannleg tengsl í hópnum og að allir hlutaðeigandi geti átt von á aðstoð, jafnvel frá ókunnugum.

 

Hvernig?

Þegar ýtt og stuggað er við okkur er ofur eðlilegt að bregðast við með því að reyna að forðast þrýstinginn og ýta á móti.

 

Þegar við lokumst inni í mannþröng er til einskis að streitast á móti, þess í stað skyldi reyna að fylgja hópnum og reyna jafnframt að halda jafnvægi.

 

Þetta á þó ekki við ef ykkur er ýtt upp að vegg eða girðingu, því þá er hætt við að troðast undir og láta lífið og því er um að gera að reyna að komast undan. Hafið enn fremur í huga að þið eruð ekki ein og því er brýnt að reyna að veita öðrum eins mikla hjálp og frekast er unnt.

 

Samkennd. Hvað táknar það að vera fær um að sýna samkennd?

 

Samkennd er það sem skilur á milli eðlilegs einstaklings og siðblindingja. Hér má lesa sér til um einkenni þeirra sem eru færir um að finna fyrir samkennd og þeirra sem ekki eru það.

 

 

Lestu meira –

Andardráttur

Farið sparlega með súrefnið

Áhrif: Komið í veg fyrir súrefnisskort í heila.

 

Hvers vegna?

Langflest dauðsföll sem tengjast slysum af völdum þrengsla í mannhafi stafa af köfnun, þ.e. ónógri öndun. Í miklum mannfjölda er nefnilega hætt við að lungun leggist saman og að ekki sé unnt að draga andann.

 

Þegar súrefnisupptaka blóðsins heftist eða stöðvast verður súrefnisskortur í vefjunum og frumur líkamans hætta að starfa. Heilinn er sérlega viðkvæmur fyrir súrefnisskorti og aðstæður sem þessar geta dregið fólk til dauða á örfáum mínútum.

 

Hvernig?

Súrefni er mikilvægara öllu öðru fyrir líkamann og þeir sem lenda í þröngu mannhafi skyldu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að fara sparlega með súrefnið.

 

Reynið að hafa hemil á andardrættinum og halda honum í skefjum, í stað þess að eyða óþarfa súrefni í öskur og hróp.

 

Þegar þið verðið þess áskynja að þrýstingurinn í líkamanum eykst er ráðlegt að halda handleggjum í verndarstöðu fyrir framan brjóstkassann. Sú líkamsstaða tryggir nokkurra sentímetra rými umhverfis rifbeinin og lungun og þannig reynist auðveldara að draga andann.

 

Stöðvun

Stöðvið skemmtunina

Áhrif: Komið í veg fyrir hörmungar.

 

Hvers vegna?

Reynsla af mörgum mannmörgum viðburðum hefur leitt í ljós að koma megi í veg fyrir stórslys ef starfsfólk er meðvitað um ástandið tímanlega og grípur í taumana þegar hið minnsta gefur til kynna að hættuástand sé að myndast.

 

Ef upp kemur ringulreið meðal gestanna eða t.d. tónleikagestir troðast í átt að sviðinu, skiptir sköpum að stuðla samstundis að rólegu andrúmslofti.

 

Þetta má gera með því að kveikja ljósin, stöðva tónleikana eða spila rólegt lag sem hefur róandi áhrif á mannskapinn.

 

Hvernig?

Til þess að forðast að festast í mannhafi er ráðlegt að halda sig í útjaðri áhorfendasvæðisins. Þeir sem hins vegar eru staddir í því miðju ættu að leita strax til öryggisvarðanna.

 

Þá er einnig hægt að reyna að ná athygli tónlistarfólksins með bendingum og handapati.

 

Billie Eilish stöðvaði t.d. flutning sinn á tónleikum í Bandaríkjunum árið 2022 þegar hún varð þess áskynja að einn tónleikagestanna hefði komist í andnauð. Hún byrjaði svo aftur að syngja þegar gesturinn hafði jafnað sig.

HÖFUNDUR: STINE OVERBYE

© Shutterstock & Lotte Fredslund

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Köngulóin er sköpuð til að myrða

Lifandi Saga

Fangar í útrýmingarbúðum fölsuðu peninga fyrir nasista

Heilsa

Vísindamenn: Blóðsýni afhjúpa elliglöp 15 árum fyrir einkenni

Maðurinn

Af hverju erum við með mismunandi blóðflokka?

Alheimurinn

Bilaðasta tilraun heims: Komdu með í ferðalag til endimarka alheims

Maðurinn

Getur kláði verið smitandi?

Alheimurinn

Jörðinni var bjargað af illa tvíbura sínum

Heilsa

Fjöldi daglegra salernisheimsókna getur haft afleiðingar fyrir heilsuna

Maðurinn

Genagalli gerir albínóa hvíta

Maðurinn

Hið fullkomna morð er dautt

Lifandi Saga

Teþorstinn knésetti stórveldi

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is