Þeir sex eiginleikar sem mest spilla parasamböndum

Hér kemur listi yfir þá sex eiginleika sem þú ættir helst ekki að hafa ef þú vilt finna „eina rétta“ makann og að sambandið endist.

BIRT: 28/03/2023

LESTÍMI:

2 mínútur

Hugguleg(ur), sjarmerandi, góður hlustandi, kurteis, ástúðleg(ur) og forvitin(n) eru meðal algengra orða á stefnumótasíðum. Og það er ekkert skrýtið því þetta eru einmitt eiginleikar sem bæði konur og karlar vilja að einkenni þann eina rétta eða þá einu réttu.

 

En hvað þá um andstæðuna – alla þá eiginleika sem koma okkur til að taka stóran sveig fram hjá viðkomandi í makaleitinni?

 

Er ekki alveg jafn mikilvægt að hafa þessa eiginleika í huga?

 

Ekki ruddaskap eða gróft orðbragð

Fjölþjóðlegur hópur vísindamanna var einmitt þeirrar skoðunar og tók sig því til og grandskoðaði rannsóknir sem gerðar hafa verið á parasamböndum. Markmiðið var að finna hvaða eiginleikar fólki þykja verstir í fari maka síns.

 

Jákvæðir eiginleikar hafa fengið enska gælunafnið „dealmakers“ enda opna þeir fyrir möguleika á góðu ástarsambandi. Neikvæðu eiginleikarnir eru aftur á móti kallaðir „dealbreakers“ þar eð þeir spilla möguleikunum á farsælu sambandi.

 

Nánar tiltekið reyndust sex atriði eiga sérstaklega heima á svarta listanum og það gæti vel borgað sig að kunna þetta utan að. Efst á listanum er sá eiginleiki sem lýsa má sem „grófum“ eða „ruddalegum“. Þetta er sem sagt sú hegðun sem þú ættir umfram allt að forðast ef þú gerir þér vonir um að fá farsímanúmer og kannski stefnumót.

 

Þaulsætni er heldur ekki góð

Önnur hugtök á listanum eru „ósjálfstæði“, „að líma sig við,“ „lauslæti“, „sinnuleysi“ og „áhugaleysi“.

 

Það gilti bæði um fólk sem hafði slitið sambandi eftir skamman tíma og fólk sem gafst upp eftir langa sambúð að grófgerð hegðun eða ruddaleg var það sem talið var allra neikvæðast. En það var heldur ekki vel séð ef hinn aðilinn límdi sig of fast við makann eða var þvert á móti of sinnulaus.

 

Nýja rannsóknin sem birtist í tímaritinu Personality and Individual Differences, var gerð í samvinnu tékkneskra, bandarískra, ítalskra og pólskra háskólakennara. Farið var yfir fyrri birtar rannsóknir og athyglinni beint sérstaklega að 285 körlum og konum á aldrinum 18-55 ára. Einstaklingarnir voru bandarískir með miðlungslanga háskólamenntun. 95% voru gagnkynhneigð og helmingurinn í föstu sambandi.

Dealbreakers – eiginleikar sem spilla möguleikum þínum í löngu eða stuttu parasambandi.

Gróf eða ruddaleg framkoma

Ósjálfstæði

Að líma sig of fast við makann

Lauslæti

Sinnuleysi

Áhugaleysi

Vissir veikleikar við rannsóknina

Hver þátttakandi hafði fengið fyrirmæli um að raða upp eiginleikum á áherslulista út frá fyrirfram ákveðnum lista með alls 49 neikvæðum eiginleikum. Efst á listann átti að fara sá eiginleiki sem vægi þyngst þegar þátttakandinn tæki ákvörðun um að slíta sambandi. Gróf eða ruddaleg framkoma var það sem lenti langoftast efst á listanum.

 

Vísindamennirnir benda þó á vissa veikleika í þessari rannsókn. Einn þeirra er sá að allir þátttakendur voru bandarískir háskólanemar og hópurinn því nokkuð einsleitur. Til að fá nákvæma og rétta mynd þyrfti að velja fólk af ólíkari toga og hópurinn þyrfti líka að vera miklu stærri.

BIRT: 28/03/2023

HÖFUNDUR: BJØRN FALCK MADSEN

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Shutterstock

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.