Þann 5. október 2023 uppgötvuðu breskir stjörnufræðingar öflugt gos – úti í geimnum.
Risastór halastjarna sem nefnist 12P/Pons-Brook lýstist snögglega upp.
12P/Pons-Brook er svokölluð goshalastjarna (cryovolcanic) sem getur gosið ryki, gasi og ís þegar sólin hitar hana upp.
Og það er einmitt það sem gerðist en halastjarnar er þrisvar sinnum stærri en Everest-fjall og svipuð að stærð og meðalstórborg.
Nú gæti halastjarnan orðið sýnileg á næturhimninum á næstu vikum í fyrsta skipti í 70 ár.
Sést líklega best í apríl
Hin risastóra halastjarna er 30 kílómetra í þvermál og er nú á ferð um hinn kalda geim á leið inn í innsta hluta sólkerfis okkar, að sögn British Astronomical Association.
12P/Pons-Brook inniheldur kalda kviku – blöndu af ryki, ís og gasi sem virkar svipað og koltvíildið í gosflösku.
Þrýstingurinn í kvikunni eykst þegar hún hitnar af sólinni, þar til köfnunarefni og kolmónoxíð springa og spúa ísköldum leifum kviku í gegnum stórar sprungur halastjörnukjarnans.
Gos þetta býr til þá hala sem einkenna sýnilegar halastjörnur.
Halastjarnan er umlukið gasskýi, þekkt sem gashjúpur eða haddur, vegna ryks og gass sem losnar af halastjörnunni. Þegar halastjarnan hitnar vegna geislunar sólar eykst þrýstingurinn og myndast gríðarleg sprenging og frosnir innviðir skjótast út í geim. Þannig myndast eins konar hali sem fylgir halastjörnunni.
Hin risastóra halastjarna kemst næst sólu 21. apríl – og þegar ljós sólar mun skína sem mest á halastjörnuna mun hún sjást vel frá jörðu.
Við ættum jafnvel að geta séð hana með berum augum þar sem hún þýtur fram hjá hnettinum okkar.
En best er að nota sjónauka til að koma auga á halastjörnuna.
Auk þess er gott að færa sig úr þéttbýli þar sem ljósmengun er mikil.
Árið 1577 uppgötvaði danski stjörnufræðingurinn Tycho Brahe fyrstu halastjörnuna á næturhimni. Meira en 400 árum síðar eru stjörnufræðingar enn að afhjúpa leyndardóma þessara háhraðafornminja í geimnum.
Ekki er nákvæmlega vitað hversu sýnileg 12P/Pons-Brooks verður, en þú getur fylgst með hugmyndum stjörnufræðinga um ferðalag halastjörnunnar hér.
Þú getur líka fylgst með staðsetningu halastjörnunnar hér til að vera viss um að þú missir ekki af þessu brennandi himintungli.
Snýr aftur til jarðar árið 2095
Halastjarnan var síðast sýnileg með berum augum árið 1954 og sést frá jörðu á 71 árs fresti.
Þetta er mjög sérstakt þar sem flestar halastjörnur sjást ekki aftur fyrr en eftir þúsundir ára – ef þær þá snúa yfirhöfuð aftur.
Þegar halastjarnan hefur heilsað upp á okkur jarðarbúa þeytist hún í átt að ytra sólkerfinu á sporöskjulaga braut um sólina og við munum svo ekki sjá hana aftur fyrr en árið 2095.