Þróunarstökk bjargaði froskum við Tsjernobyl

Enn ríkir mikil geislavirkni í náttúrunni kringum Tsjernobyl. En ný rannsókn sýnir að smávaxnir íbúar á svæðinu hafa náð að aðlaga sig.

BIRT: 30/03/2023

LESTÍMI:

2 mínútur

Þegar kjarnakljúfur númer 4 í Tsjernobyl-kjarnorkuverinu sprakk eina aprílnótt 1986, losnaði um 400 sinnum meira af geislavirkum efnum en leiddu af sprengjunni sem sprengd var yfir Hírósíma.

 

Þótt um 37 ár séu liðin er enn gríðarleg geislavirkni úti í grænni náttúru svæðisins sem nú hefur breyst í eitt stærsta verndarsvæði Evrópu fyrir úlfa, birni, sjaldséða fugla og fleiri dýr.

 

Einkum hefur þó ein dýrategund náð að aðlagast þessum nýju aðstæðum og á sérstæðan hátt. Þetta sýnir rannsókn spænskra vísindamanna sem hafa grandskoðað dýralíf á svæðinu í mörg ár.

 

Geislavirkasti staður Jarðar

Rannsóknin hófst árið 2016, þegar vísindamennirnir sáu allmarga svonefnda lauffroska af tegundinni Hyla orientalis. Þeir lifðu á mengaða svæðinu og báru óvenjulegan svartan lit.

 

Almennt hafa þessir froskar ljósgrænan lit á baki, þótt að vísu hafi áður sést einstakir froskar með óvenju dökkan lit.

 

Vísindamennirnir unnu greiningar á húðlit meira en 200 karlfroska sem þeir fönguðu í 12 mismunandi klaktjörnum á þremur árum.

Vísindamenn greindu karlfroska úr 12 mismunandi klaktjörnum - bæði innan menguðu svæðanna og utan og sáu greinilegan litamun.

Margar þessara klaktjarna voru á einhverjum geislavirkustu stöðum á hnettinum en aðrar voru utan þess 2.600 ferkílómetra útilokunarsvæðis sem fólk á að halda sig frá.

 

Greiningarnar sýndu að froskarnir í kringum Tsjernobyl-kjarnorkuverið voru miklu dekkri en froskar utan mengunarsvæðisins. Sumir þeirra voru alveg kolsvartir.

 

Lítil litakorn

Vísindamennirnir segja ástæðuna vera litarefnið melanín sem er að finna bæði í plöntum og dýrum og veldur t.d. dökkri húð og sömuleiðis brúnum augnalit.

 

Þessi litlu litakorn umbreyta sólarorku í hita og vernda gegn útfjólubláum geislum sólar. Hitt vita færri að þessi sömu litakorn geta líka veitt vernd gegn geislavirkum efnisjónum.

Vísindamenn grandskoðuðu lit froska frá sumum af geislavirkustu svæðum jarðar.

Það gerir melanín með því að drekka í sig og dreifa hluta geislunarorkunnar en líka með því að grípa jónasameindir og gera þær skaðlausar inni í frumunum, þannig að þær nái ekki að eyðileggja erfðaefnaefnið og valda krabbameini eða öðrum alvarlegum sjúkdómum.

 

Þróun á leifturhraða

Vísindamennirnir álíta nú að þessi litabreyting sé til marks um þróun á leifturhraða. Dökku froskarnir hafa átt auðveldara með að lifa geislunina af. Þeir voru örlítill minnihluti en á einungis 10 kynslóða tímabili hafa þeir orðið ríkjandi á svæðinu.

 

Rannsóknin er líka, að sögn vísindamannanna, mikilvægt skref í átt til skilnings á verndarhlutverki melaníns gegn geislavirkni og getur gefið mikilvægar vísbendingar, t.d. varðandi meðhöndlun geislavirks úrgangs en líka varðandi geimrannsóknir.

BIRT: 30/03/2023

HÖFUNDUR: Nanna Vium

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: © Germán Orizaola/Pablo Burraco

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.