Lifandi Saga

Þýsku kjarneðlisfræðingarnir voru hikandi: Bomba Hitlers

Í seinni heimsstyrjöld óttuðust Bandaríkjamenn að Þjóðverjar næðu því að þróa kjarnorkuvopn. Bandarískir vísindamenn fengu frjálsar hendur – þeir áttu bara að verða á undan. En þýsku vísindamennina vantaði allt og þeir þjáðust þar á ofan af samviskubiti. Síðustu mánuði stríðsins störfuðu þeir í helli.

BIRT: 02/02/2024

 

Sveitasetrið Farm Hall í grennd við Cambridge er umgirt óvanalegum háum múr. Fyrri eigandi vildi ekki að utanaðkomandi sæju hann grafa eftir rómversku gulli í garðinum.

 

Nú – í ágúst 1945 – gegnir múrinn því hlutverki að leyna 10 miðaldra Þjóðverjum leyndum, þar sem þeir spila rugby í tómstundum og bera sig fremur stirðbusalega.

 

Meðal þeirra er Werner Heisenberg prófessor sem í mörg ár var í forystu fyrir kjarnorkurannsóknum nasista.

 

Hinir eru líka vísindamenn í fremstu röð, efna- og eðlisfræðingar, tveir þeirra meira að segja Nóbelsverðlaunahafar.

 

 

Þeir hafa verið í þrjá mánuði í haldi bandamanna sem vilja fræðast sem mest um þýsku kjarnorkusprengjuna. Það er þess vegna sem komið hefur verið fyrir duldum hljóðnemum í hverju skúmaskoti í Farm Hall. Hvert einasta orð er tekið upp.

 

Sjötti ágúst líður eins og allir aðrir dagar þar til breski majórinn Rittner spilar fyrir fangana kvöldfréttir BBC:

 

„Truman forseti hefur tilkynnt um mikið vísindaafrek og framfaraskref. Vísindamenn hafa smíðað kjarnorkusprengjur og hinni fyrstu þegar þegar verið varpað á japanska herstöð …“

 

Á sinn hátt verða þýsku vísindamennirnir líka fórnarlömb sprengjunnar. Allt fram að þessu hafa þeir álitið sig eina þekkja leyndardóma kjarnorkunnar.

 

Fremstur þeirra er efnafræðingurinn Otto Hahn sem hóf kjarnorkuvopnakapphlaupið 1938 með tilraunum sínum til að kljúfa kjarna frumeinda.

 

Nú finnst honum hann bera persónulega ábyrgð á sprengjunni í Japan. Síðar um kvöldið greinir BBC frá því að talið sé að 300.000 hafi látið lífið og þá þarf að deyfa Otto Hahn með þó nokkrum glösum af gini.

 

Þýsku kjarna snillingarnir

Werner Heisenberg

(1901-1976) var um tíma aðstoðarmaður hjá Niels Bohr í Kaupmannahöfn. Aðeins 25 ára varð hann prófessor og 1932 fékk hann Nóbelsverðlaunin. Erlendir keppinautar töldu að hann yrði fyrstur til að smíða kjarnorkusprengju.

Otto Hahn

(1879-1978) klauf fyrstu frumeindina fyrir jólin 1938. Eftir stríð varð Otto Hahn virkur andstæðingur kjarnorkukapphlaups stórveldanna.

Carl Friedrich von Weizsäcker

(1912-2007) var sannfærður um að hægt væri að knýja Hitler til að breyta um stefnu ef vísindamönnunum tækist að byggja kjarnorkusprengju.

Kurt Diebner

(1905-1964) starfaði hjá þýsku hergagnaskrifstofunni að loknu háskólanámi. Hann byggði tilraunakjarnakljúf á tilraunasvæði hersins við Gottow, sunnan við Berlín.

 

Hljóðnemarnir nema samtöl þýsku vísindamannanna. Carl Friedrich von Weizsäcker er sár og reiður yfir sprengingunni:

 

„Mér finnst þetta hryllilegt. Þessi aðgerð Bandaríkjamanna er algert brjálæði!“

 

Werner Heisenberg svarar: „Það má líka segja að þetta hafi verið fljótlegasta aðferðin til að binda enda á stríðið.“

 

„Það er einmitt það sem ég reyni helst að hugga mig við,“ segir Otto Hahn hálfkæfðum rómi.

 

Ef einhver getur ímyndað sér stærðargráðu þessa ofboðslega átaks Bandaríkjamanna, eru það einmitt þessir tíu Þjóðverjar.

 

„1942 höfðum við ekki kjark til að ráðleggja ríkisstjórninni að setja 120.000 manns í þetta verkefni,“ segir Heisenberg en Weizsäcker andmælir honum og segir það hafa verið siðferðiskennd þýsku vísindamannanna sem kom í veg fyrir að þeir smíðuðu sprengjuna:

 

„Ef við hefðum umfram allt viljað að Þýskaland ynni stríðið, hefðum við gert það.“

 

„Það held ég ekki,“ segir Hahn, „en ég er alla vega ánægður með að við skyldum ekki hafa það af.“

 

Það er orðið framorðið og Þjóðverjarnir fara að sofa. Það hefur ekki leynt sér að Otto Hahn líður mjög illa og félagar hans óttast jafnvel að hann reyni að svipta sig lífi.

 

Þeir standa þess vegna vaktir við svefnherbergisdyrnar hans. Hahn sjálfur liggur andvaka og hrjáður af minningum um hinn örlagaríka dag, 17. desember 1938.

 

Otto Hahn skaut nifteindum

Otto Hahn klauf frumeind með einfaldri tækni. Efnagreining sannaði að klofnun hefði orðið.

 

Árum saman reyndu Otto Hahn og Lise Meitner að kljúfa frumeindir. Vegna gyðingaofsókna nasista neyddist Lise Meitner til að flýja til Svíþjóðar 1938.

 

Í Berlín hélt Otto Hahn áfram vinnunni ásamt aðstoðarmanninum Fritz Strassmann. Á vinnuborðinu voru margvísleg tól, svo sem geigerteljarar, rafmagnsmagnarar og svo stór paraffínklumpur. Á endanum – þann 17. desember 1938, tókst tilraunin.

 

1.  Úransýni var komið fyrir í parrafínklumpi.

 

2.  Í miðju paraffíninu kom Otto Hahn fyrir nifteindauppsprettu úr berilíum og radíum. Lausar nifteindir úr sýninu áttu að rekast á úranið og leiða af sér breytingar í frumeindakjörnunum. Paraffínið dró úr hraða nifteindanna þannig að árekstur gæti orðið.

 

3.  Með geigerteljara var unnt að mæla geislavirkni – tákn þess að kjarnaklofnun hefði átt sér stað. Efnarannsókn gat svo sannað að úranfrumeindir hefðu breyst í m.a. beríumísótóp.

Klofin úranfrumeind

Á fjórða áratugnum voru eðlisfræðingar búnir að reikna út að ef gerlegt reyndist að kljúfa frumeindir myndi það leysa úr læðingi ofboðslega orku. En lengi framan af var ógerlegt að framkvæma slíka tilraun.

 

Eins og flesta aðra daga var Otto Hahn staddur í rannsóknastofu sinni við Friedrich-Wilhelms-háskóla í Berlín þann 17. desember 1938. Ásamt aðstoðarmanni hugðist hann skjóta nifteindum að úranfrumeind.

 

Hvort tilraunin heppnaðist var ekki einu sinni greinanlegt í öflugustu smásjá en ef frumeindin klofnaði var hægt að greina það með geigerteljara og efnagreiningum.

 

Hahn kom nifteindabyssunni fyrir og það tók að marra í geigerteljaranum. Öfugt við allar fyrri atlögur tókst tilraunin þennan dag. Skömmu síðar skrifaði Hahn fyrrum samstarfskonu sinni Lise Meitner.

 

„Það er eitthvað svo undarlegt við þessi radíum-ísótóp að til að byrja með segjum við engum frá þessu nema þér …“ skrifaði hann.

 

Og svo greip óttinn um sig. Það gætu verið fleiri að þreifa sig áfram á sömu leið og gætu hrifsað til sín heiðurinn sem Otto Hahn taldi sig eiga með réttu.

 

Gríðarmikil orka í smáum eindum

Sú orka sem losnar þegar kjarnorkusprengja springur á uppruna í árekstrum einda: Þegar nifteind skellur á kjarna úranfrumeindar, sundrast hann.

 

Úrankjarninn klofnar í krypton- og baríumeindir. Eftir klofnun eru tvær eða fleiri nifteindir lausar.

 

Þessar tvær lausu nifteindir sundra hvor sínum úrankjarnanum og keðjuverkun er hafin. Sprengingin getur verið yfirstaðin á sekúndubroti og hún losar ofboðslega orku.

 

Danski eðlisfræðingurinn Niels Bohr reiknaði út að klofnun verði einungis ef nifteindin skellur í úranísótópinu U-235.

 

 

Hann hringdi þess vegna í ritstjóra tímaritsins Die Naturwissenschaften til að tryggja sér pláss fyrir uppgötvun sína sem þannig yrði traustlega skrásett.

 

Á sama tíma upplýsti Lise Meitner danska kjarneðlisfræðinginn Niels Bohr sem skömmu síðar var að fara til Bandaríkjanna til að halda erindi um hugmyndir í eðlisfræði við George Washington-háskóla.

 

Þegar Bohr flutti fyrirlestur sinn þann 26. janúar, sagði hann m.a. frá tímamótaniðurstöðum Ottos Hahn varðandi kjarnaklofning.

 

Hann hafði ekki einu sinni lokið máli sínu þegar fyrstu Bandaríkjamennirnir hröðuðu sér úr salnum og beint á rannsóknarstofurnar til að reyna að endurtaka tilraun Hahns – enn í sparifötunum.

 

Einn bandarísku vísindamannanna hringdi í kollega sinn til að kunngera tíðindin: „Bohr er kominn. Hann er orðinn galinn og heldur því fram að hægt sé að sundra úranfrumeind með nifteind!“

 

Þýsku vísindamennirnir dreifðust um allt landið

 

Bandaríkjamenn létu herinn stýra þróun kjarnavopna en Þjóðverjar neituðu að lúta svo strangri yfirstjórn.

 

Boðin frá þýska hernum strax 1939: Skyldu rannsóknir á kjarnavopnum bera árangur, verða vísindamennirnir að vinna saman.

 

Svonefndur Úranklúbbur fékk leiðtoga sem útbýtti efnum og verkefnum og átti að samhæfa vinnuna en vísindamönnunum var annt um bæði heiður og sjálfstæði og það tókst aldrei að fá þá til að vinna saman af neinni einurð.

 

Rannsóknir þeirra stefndu hver í sína áttina – þveröfugt við það sem gerðist í Bandaríkjunum, þar sem rannsóknir voru þó varfærnar framan af eftir niðurstöður Ottos Hahn.

 

Margir vísindamenn reyndu að vara Roosevelt forseta við en það var ekki fyrr en Albert Einstein greip inn í 1939 sem skriður komst á málin.

 

Strax eftir árás Japana á Pearl Harbor voru settir milljarðar dollara í þróun kjarnorkusprengjunnar og alls tóku 150.000 manns þátt í verkefninu.

 

Jafnvel þótt Bandaríkjamenn hefðu réttar upplýsingar um hægaganginn í Þýskalandi, héldu þeir að Hitler væri í þann veginn að fá yfirráð yfir kjarnorkusprengju. Vinnan við Manhattanverkefnið var því unnin undir gríðarlegri tímapressu.

Berlín: Friedrich-Wilhems-háskóli er aðsetur margra vísindamanna í „Úranklúbbnum“. Í húsi í úthverfinu Lichterfelde starfaði uppfinningamaðurinn Manfred von Ardenne.

 

Gottow: Á tilraunasvæði hersins sunnan við Berlín byggir vopnasérfræðingurinn Kurt Diebner tilraunakjarnakljúf.

 

Leipzig: Hér stundar Werner Heisenberg rannsóknir ásamt fjórum undirmönnum til 1942 þegar hann er settur yfir rannsóknir við Friedrich-Wilhelm-háskólann í Berlín.

 

Strassborg: Strax 1940 áttaði Carl Friedrich von Weizsäcker sig á því að hægt er breyta úran-238 í plúton. 1942 varð hann prófessor við nýjan háskóla í hernumdu borginni Alsace.

 

Haigerloch: Síðasti þýski kjarnakljúfurinn var í helli. Vísindamennirnir bjuggu í leiguherbergjum í þorpunum í kring.

Allt afl Þýskalands sameinað

Einn af aðstoðarmönnum Ottos Hahn áætlaði að ekki þyrfti nema einn rúmmetra af úrani til að þeyta einum rúmkílómetra vatns, heilum milljarði tonna, 27 km upp í gufuhvolfið.

 

Slík tíðindi komu þýsku hershöfðingjunum til að sperra eyrun – og reyna að stýra þessum rannsóknum í átt til hernaðarnota.

 

Þann 29. apríl voru allir þýskir sérfræðingar á þessu sviði kallaðir á fund þar sem átti að skipta með þeim verkum.

 

Herinn vildi safna öllum sérfræðingum Þýskalands saman á einn stað. Þar átti að byggja tilraunakjarnakljúf. Til viðbótar átti nú að kortleggja allar hugsanlegar úrannámur ríkisins.

 

En vísindamennirnir voru ekki mjög fúsir til að vera allir á sama stað. Þeir álitu mun heppilegra að þeir fengju að starfa áfram hver í sínu kunnuglega umhverfi við háskóla sína.

 

Herinn kallaði þá til sinn eigin mann, vopnasérfræðinginn Kurt Diebner sem byggði upp rannsóknastöð á tilraunasvæði hersins fyrir sunnan Berlín.

 

En vinnan gekk hægt þar eð Þjóðverja skorti flest það sem til þurfti – peninga, sérfræðinga og nothæft úran. Þar af leiðandi varð heldur ekki hjá því komist að vísindamennirnir kepptu innbyrðis um aðgang að nauðsynlegum efnum.

 

Með innlimun Súdetahéraðanna 1938 og síðar hernámi Noregs 1940 fengu þýskir vísindamenn aðgang að úrannámum og einu þungavatnsverksmiðju heimsins.

 

Eftir að hafa lagt Belgíu að fótum sér komu Þjóðverjar auk þess höndum yfir 3.500 tonn af úrani sem belgísku nýlenduherrarnir höfðu unnið í Kongó.

 

Heisenberg – „hvíti gyðingurinn“

Eftir valdatöku nasista í Þýskalandi 1933 varð mikill atgervisflótti frá þýskum háskólum því gyðingum var nú bæði bannað að kenna og stunda rannsóknir.

 

Margir hinna burtreknu eðlisfræðinga enduðu í Bandaríkjunum, þar sem þeir áttu þátt í þróun kjarnorkusprengjunnar. Í Þýskalandi nasista hafði kjarneðlisfræðin hins vegar fengið á sig niðurlægjandi stimpil og var talin „gyðingleg“.

 

Þýskir eðlisfræðingar gátu líka lent í ónáð. Það gilti t.d. um snillinginn Werner Heisenberg sem aðeins 31 árs hafði fengið Nóbelsverðlaunin fyrir fræðilega lýsingu sína á skammtafræðilegum eiginleikum.

 

Þar eð kenning Heisenbergs byggðist á hugmyndum sem gyðingarnir Albert Einstein og Niels Bohr höfðu mótað, lenti hann sjálfur á lista nasista yfir þá sem fylgjast þyrfti með, grunaður um að vera „hvítur gyðingur“.

 

Um tveggja ára skeið var Heisenberg níddur niður í flokksblöðum nasista og hann þurfti að snúa sér beint til SS-foringjans Heinrichs Himmler til að fá að stunda rannsóknir sínar við Leipzigháskóla í friði.

 

Uppfinningamaðurinn Manfred von Ardenne varð eini Þjóðverjinn sem tókst að smíða kjarnavopn. Sem fangi Sovétmanna hjálpaði hann þeim að byggja vetnissprengjuna.

Ungur hugmyndasmiður

Herinn hafði skipulagt sérstök samtök fyrir eðlisfræðingana – „Úranklúbbinn“ – sem hélt reglulega fundi þar sem menn skiptust á nýjum hugmyndum.

 

Utan við þennan klúbb stóð vísindamaður einn með óhefðbundnar hugmyndir og pólitísk tengsl: Manfred von Ardenne.

 

Það tíðkaðist að afburðagreind börn væru færð upp um bekki í barnaskóla en Ardenne hafði til viðbótar farið hratt yfir sögu í háskóla og gerst uppfinningamaður.

 

Strax þegar hann varð lögráða sem í þá daga miðaðist við 21 árs aldur, hafði hann keypt húseign í útjaðri Berlínar til að starfrækja sitt eigið tilraunaverkstæði með mörg hundruð starfsmenn í vinnu.

 

Ætlunarverkið var að aðstoða fyrirtæki og stjórnvöld við að leysa tæknileg verkefni.

 

Fræðaheimurinn bar afar takmarkaða virðingu fyrir þessum uppskafningi sem nú var reyndar orðinn 33 ára og var þegar kominn með margar tímamótauppfinningar á ferilskrá sína, þar á meðal rafeindasmásjá og eins konar frumgerð að sjónvarpi.

 

Þróun nýrrar gerðar útvarpslampa hafði til viðbótar aflað honum vináttu póstmálaráðherra nasista. Og fyrir honum útskýrði nú Ardenne nýjustu hugmynd sína – að smíða kjarnorkusprengju.

 

Póstmálaráðherrann Wilhelm Ohnesorge varð svo hrifinn að hann lagði hugmyndina fyrir Adolf Hitler. En þetta var vorið 1940 og þegar stríðsreksturinn gekk svo prýðis vel hafði Hitler einvörðungu áhuga á hefðbundnum vopnum og hann bandaði póstmálaráðherranum bara frá sér.

 

Ohnesorge varð fyrir vonbrigðum en ákvað að láta Ardenne hafa leynilegar fjárveitingar og koma Hitler svo notalega á óvart síðar.

 

Ein þeirra hugmynda sem voru á kreiki í fyrirtæki Ardennes var að nota plúton í kjarnorkuskprengju í stað úrans.

 

Fram að þessu höfðu vísindamenn gengið út frá því að eina nothæfa efnið væri úran-ísótópið U-235.

 

En þetta ísótóp er afar sjaldséð og þarf að auðga sérstaklega í hringhraðli, tæki sem vísindamenn höfðu enn ekki hugmynd um hvernig ætti að smíða.

 

Frumefnið plúton er hægt að framleiða í kjarnakljúf: Þegar nifteindum er skotið að úrani-238 myndast ísótópið U-239 sem strax ummyndast í plúton-239 en það hefur sömu sprengieiginleika og úran 235.

 

Ætlaði að kúga Hitler

Vísindamaðurinn Carl Friedrich von Weizsäcker velti líka fyrir sér að nota plúton í sprengju.

 

En þá sprengju átti ekki að nota til að vinna stríðið; Weizsäcker áleit að vísindamenn gætu þvingað Hitler til að semja frið ef þeir stæðu með öflugasta vopn veraldar í höndunum.

 

Weizsäckerættin hafði getið af sér bæði dugandi stjórnmálamenn og heimspekinga og sú tilhugsun að grípa inn í stjórnun Þýskalands var Carli Friedrich ekki fjarlæg.

 

Aðrir kjarneðlisfræðingar voru heldur ekki yfir sig hrifnir af hlutverki sínu sem gat leitt til þess að Þýskaland ynni stríðið – eða mögulega breytt jörðinni í samfellda eyðimörk.

 

Óformlega tóku þeir þá ákvörðun að einblína á friðsamleg not kjarnorku til orkuframleiðslu í rannsóknum sínum.

 

Um þetta fékk herinn aldrei að vita heldur tilkynntu vísindamennirnir einungis að áður en hægt væri að hefja rannsóknir á smíði kjarnavopna þyrfti fyrst að byggja kjarnakljúf.

 

Til að ræða siðferðilega hlið kjarnorkunnar settist Werner Heisenberg upp í lestina til Kaupmannahafnar 1941 þeirra erinda að hitta sérfræðing í fremstu röð, Niels Bohr prófessor. 

 

Bandarískir vísindamenn kölluðu Heisenberg „hættulegasta Þjóðverjann“ vegna „heilaorku“ hans.

 

Á þriðja áratugnum hafði Heisenberg starfað sem aðstoðarmaður hans og þeir höfðu tengst vináttuböndum æ síðan.

 

Heisenberg óttaðist að þýski innrásarherinn hefði hlerunarbúnað hjá Niels Bohr og beið því þar til tækifæri gafst í gönguferð. Þá hleypti hann í sig kjarki og sagði Bohr að þýsku kjarneðlisfræðingarnir hefðu hægt á vinnu sinni við að þróa kjarnorkusprengju en þess í stað einbeitt sér að þróun kjarnorku til friðsamlegra nota.

 

Án þess að segja það berum orðum gerði Heisenberg sér vonir um að Bohr kæmi þessum upplýsingum áfram til bandamanna. „Hefur eðlisfræðingur siðferðilegan rétt til þess að þróa kjarnorkusprengju á stríðstímum?“ spurði Heisenberg lærimeistara sinn.

 

„Er yfir höfuð mögulegt að nýta kjarnaklofning í hernaði?“ spurði Bohr á móti eins og hann tryði ekki meira en svo á þessa hugmynd.

 

Nú setti Heisenberg fram hugmyndir sínar um hvernig ætti að komast hjá kjarnorkustyrjöld. Vísindamenn heimsins þyrftu að sameinast um að neita að þróa kjarnorkuvopn.

 

Bohr áleit þvert á móti að þátttaka eðlisfræðinga í þróun hernaðartækni væri óhjákvæmileg. Heisenberg hafði tekið mikla áhættu með því að hitta Bohr og fannst Daninn smokra sér undan öllum spurningum.

 

Bohr hafði allt aðra skoðun: Í framhaldinu greindi hann frá því að annað hvort væri Heisenberg ótrúlega barnalegur eða þá að nasistar hefðu sent hann – og líklega hefði erindið verið að fá Bohr til liðs við þá.

 

En Heisenberg þurfti að snúa aftur heim jafn nær og hann kom – og mjög vonsvikinn.

 

Speer tilbúinn með milljónir

Hergagnaráðherra Þýskalands, Fritz Todt, fórst í flugslysi í febrúar 1942. Í hans stað valdi Hitler uppáhaldsarkitekt sinn, Albert Speer sem strax tók til við að straumlínulaga framleiðsluna.

 

Á fyrstu mánuðunum í embætti hitti hann forystumenn í öllum framleiðslugreinum og þann 4. júní var röðin komin að kjarneðlisfræðingunum.

 

Heisenberg upplýsti hann um kjarnakljúfa og möguleikana til orkuframleiðslu og nefndi einnig þann möguleika að smíða kjarnorkusprengju. Speer var mjög áhugasamur; svo öflug sprengja lofaði góðu.

 

En vísindamennirnir bentu á að þá skorti fé fyrir byggingarefnum til að geta komist eitthvað áleiðis.

 

„Hvað þurfið þið mikið?“ spurði Speer og Carl Friedrich von Weizsäcker svaraði eftir augnabliks umhugsun: „43.000 ríkismörk“.

 

Speer varð undrandi. „Ég hafði átt von á að 100 milljónir gætu látið nærri,“ skrifaði hann síðar. Eftir dálítinn þrýsting hækkuðu vísindamennirnir sig í 75.000 ríkismörk.

 

Heisenberg fullyrti að það væri fræðilega séð mögulegt að smíða kjarnorkusprengju en það myndi taka nokkur ár.

 

Og hergagnaráðherrann áttaði sig á að hann gæti ekki reiknað með að fá vopnið í hendur fyrir stríðslok. Viku síðar fór hann á fund hjá Hitler.

 

Undir lið númer 15 á dagskránni upplýsti Speer foringjann stuttlega um „eyðileggingarmátt kjarnorkusprengju og þann fjárhagsstuðning sem hann hafði veitt til verkefnisins“, eins og hann skrifaði hjá sér.

 

Yfirleitt var Hitler fljótur að grípa hverja von um tækninýjungar sem gætu skapað Þjóðverjum auðunninn sigur. En kjarnorkusprengja virtist ekki raunhæf og Speer færði sig yfir í 16. dagskrárliðinn.

 

Eftir stríðið skýrði Heisenberg hina metnaðarlausu framsetningu með því að vísindamennirnir hefðu verið hræddir við að lofa árangri sem óvíst væri að hægt væri að standa við.

 

Sama dag sem Speer og Hitler hittust sprakk tilraunakljúfur Heisenbergs í Leipzig. Hann hafði sett 750 kg af úrani og 140 kg af þungu vatni í álkúlu sem síðan var sökkt niður í vatnslaug. Vatnið í lauginni tók nú að sjóða.

 

Þegar tæknimennirnir opnuðu örlitla rifu á kúlunni, stóðu eldtungur þar út. Örfáum klukkustundum síðar sprakk kúlan og dreifði brennandi úrani um rannsóknarstofuna. Heisenberg slapp út á síðustu stundu.

 

Þetta var þó engin kjarnorkusprengin. Hitinn varð einfaldlega svo mikill að úranið tók að brenna og kúlan sprakk þess vegna.

 

Hernaðaraðgerð í Noregi

Snemma í rannsóknum sínum höfðu Þjóðverjar fastákveðið að þeir þyrftu að nota þungt vatn í kjarnakljúfnum til að hægja á lausum nifteindum.

 

Þeir hefðu líka getað valið grafít (mjög hreint kolefni) en höfðu hafnað þeim möguleika vegna reiknivillu.

 

Þeir voru því algerlega háðir þungavatninu sem hvergi var framleitt nema í Vemork-verinu í Noregi. Verið afkastaði fáeinum tonnum en aðfaranótt 28. febrúar var þeirri framleiðslu lokið.

 

10 norskir sérsveitarhermenn, sendir frá Bretlandi, náðu að komast gegnum varnir Þjóðverja við verið og koma sprengihleðslum undir það.

 

Hitler var mesti hjólaþjófur Evrópu

Í október 1944 skipaði Hitler þýskum hermönnum að gera upptæk mörg þúsund reiðhjól í hersetnum ríkjum. Þýska herinn skorti farartæki og hjólaeigendur í Hollandi, Ítalíu og Danmörku þurftu að gjalda þess.
 

Bandamenn litu á þessa aðgerð sem mikla nauðsyn til að koma í veg fyrir að Hitler kæmi sér upp kjarnorkuvopnum. Að vísu höfðu þeir ágætar upplýsingar um gang þessara mála hjá Þjóðverjum en þorðu ekki að leggja trúnað á þær.

 

Óttinn við að bomba Hitlers stæði von bráðar tilbúin í Berlín rak líka bandarísku vísindamennina til að vinna á vöktum að Manhattanverkefninu til að verða á undan.

 

Og í desember 1944 ráðgerði bandaríska njósnastofnunin OSS meira að segja að ráða Werner Heisenberg af dögum, þegar honum var boðið að halda fyrirlestur í Zürich.

 

Þjóðverjinn tók þessu boði með þökkum. Sviss var hlutlaust ríki og þar gafst honum tækifæri til að hitta kollega frá öðrum löndum en jafnframt gat hann notað tækifærið til að kaupa jólagjafir handa börnunum sínum fimm.

 

Heima í Þýskalandi var orðinn vöruskortur. Útsendari OSS, Moe Berg, sat í salnum, reiðubúinn með skammbyssu sína, þegar Heisenberg tók að ræða um skammtafræðina sem árið 1932 hafði fært honum Nóbelsverðlaunin.

 

„Ég varð óviss þegar ég hlustaði á hann,“ sagði Berg um hugleiðingar sínar um hið fyrirhugaða morð. „[Heisenberg] talaði fram og aftur um stærðfræði meðan Róm brann.“

 

Útsendarinn komst að þeirri niðurstöðu að maður sem eyðir tíma sínum í vangaveltur um hugmyndir eðlisfræðinnar, gæti varla átt mjög annríkt við að smíða kjarnorkusprengju. Bandaríska sérdeildin Alsos komst síðar að sömu niðurstöðu.

 

Eftir innrásina í Evrópu fínkembdu sérfræðingar deildarinnar frelsuð svæði í Vestur-Evrópu í leit að úrani og kjarnorkuvísindamönnum en jafnt yfirheyrslur sem skjöl sem þeir komust yfir bentu til þess að Hitler ætti enga bombu.

 

Síðasta tilraun í hellinum

Framundan virtist ekkert nema ósigur og nasistar fylltust örvæntingu. Eina vonin virtist vera það „undravopn“ sem Hitler hafði lofað.

 

Margir sneru sér til hergagnaráðherrans Speers til að forvitnast um hvernig gengi með kjarnorkusprengjuna en Speer gaf lítið upp.

 

Heisenberg fylgdi staðfastlega sinni eigin áætlun: Þegar Þýskaland hefði tapað stríðinu – í samræmi við væntingar hans – skyldi kjarnorkan hjálpa föðurlandinu upp úr verstu erfiðleikunum.

 

Hann var sannfærður um að enginn af erlendum kollegum hans þekkti til leyndardóma úransins. Í janúar 1945 var sprengjuregnið orðið svo ákaft í Berlín að Heisenberg neyddist til að yfirgefa rannsóknarstöð sína.

 

Öllum tækjum og skjölum var pakkað niður í kassa og allt saman flutt til þorpsins Haigerloch í suðvesturhluta landsins, langt frá stríðinu.

 

Þarna höfðu vísindamennirnir fengið inni í helli og þar var tækjunum komið fyrir. Aðstoðarmenn hjuggu þriggja metra djúpa gryfju í hellisgólfið og steyptu þar steinlaug fyrir kjarnakljúfinn.

 

 

Kljúfurinn gangsettur

 

Þýsku vísindamennirnir gera sér vonir um að lausar nifteindir muni skella á U-235-kjörnum. Þá losna fleiri nifteindir og keðjuverkunin heldur áfram. Meiri hluti nifteindanna lendir á U-238-kjörnunum sem umbreytast í plúton.

 

 

Alls er 664 úranteningum, festum við keðjur, sökkt í kjarnakljúfinn líkt og ljósakrónu.

 

Úranteningarnir voru 5 x 5 x5 sm og voru 2,4 kg að þyngd

 

 

 

 

Nifteindauppspretta losar fyrstu nifteindirnar sem eiga að hefja keðjuverkunina.

 

Kljúfurinn er fylltur með þungavatni sem á að hægja á nifteindunum og auka þannig líkur á árekstri við úrankjarnana

 

 

Plúton má nota til að knýja kjarnakljúf – eða í kjarnasprengju eins og „Fat Man“ sem Bandaríkjamenn vörpuðu á Nagasaki.

 

En tilraunin missheppnaðist. Þjóðverjarnir áttu ekki nóg af úranteningum til að koma keðjuverkun af stað.

 

Keppinautur Heisenbergs, Kurt Diebner, þurfti líka að bjarga sínum rannsóknum. Hann flutti sig frá tilraunasvæði hersins sunnan við Berlín til Stadtilm við Erfurt.

 

Heisenberg frétti að Diebner hefði yfir að ráða 600 kg af þungavatni og ásamt Weizsäcker fór hann hjólandi til Diebners og krafðist þess að fá þungavatnið afhent.

 

Diebner lét undan og í mars 1945 var allt til reiðu fyrir eina lokatilraun í Haigerloch. Spil var notað til að láta úranið síga gætilega niður í kljúfinn og síðan var nifteindabyssa tengd.

 

Í upphafi leit allt vel út; mælingar sýndu að lausum nifteindum fjölgaði – merki þess að keðjuverkunin væri að komast á skrið.

 

En vísindamönnunum til sárra vonbrigða gerðist það ekki. Og þeir höfðu ekki nógu mikið úran til að gera aðra tilraun. Í fjarska heyrðust drunurnar frá víglínunni.

 

Vetnissprengja með þýskri hjálp

Þann 20. apríl tók Heisenberg hjólið sitt og lagði af stað heim til fjölskyldunnar í Bayern, 270 km leið. Weizsäcker tók að sér að fela skjalasafnið í syturþró og grafa úranið í jörð.

 

Allt átti þetta að bíða þess að vísindamennirnir sneru aftur og héldu vinnu sinni áfram.

 

En menn bandarísku Alsos-sérdeildarinnar fundu syturþróna fljótlega og náðu vísindamönnunum á sitt vald, öllum nema Manfred von Ardenne. Hann hafði orðið eftir í Berlín til að bjarga uppfinningafyrirtæki sínu sem þá hafði 800 starfsmenn.

 

Þegar Rauði herinn tók borgina gaf hann sig fram og var fluttur í lúxusfangabúðir á Krímskaga og á næstu árum var hann uppfinningamaður fyrir Stalín.

 

Ardenne kom of seint til að smíða fyrstu kjarnorkusprengju Sovétmanna en hann átti hlut að þróun vetnissprengjunnar sem var prófuð árið 1953. Af þýsku vísindamönnunum var það hann sem náði mestum árangri.

 

Bandarískir hermenn fundu alla úranteninga Þjóðverjanna grafna í jörð nálægt Haigerloch.

Orðrómur um þýska stórbombu

Aldrei hafa fundist neinar vísbendingar um þýska kjarnasprengju en samt berast iðulega fréttir um að sprengjan hafi verið tilbúin.

 

Árið 2012 var eftirlaunamaðurinn Peter Lohr á göngu um dalinn Jonastal við Erfurt og hafði jarðradar með sér. Utan við bæinn Arnstadt fékk hann greinilega svörun – 12 metrum undir honum virtust vera fimm holrými.

 

Eftir miklar athuganir var Lohr viss um að geta greint útlínurnar eftir tvær sprengjur með sömu lögun og „Fat Man“ (Nagasaki-sprengjuna).

 

Eins og oft áður sáu fjölmiðlar hér stórfrétt en vísindamenn hvöttu til varkárni, enda hafa safaríkar fréttir um „Bombu Hitlers“ hvað eftir annað komið upp og einmitt Jonastal hefur verið miðpunktur margra slíkra frásagna.

 

Í bók sinni „Bomba Hitlers“ (2005) segir sagnfræðingurinn Ralner Karlsch að Þjóðverjar hafi sprengt tvær tilraunasprengjur skammt frá fangabúðunum Ohrdruf í Jonastal.

 

Mörg hundruð fangar áttu að hafa farist. Karlsch vitnar í skýrslu frá rússnesku leyniþjónustunni GRU:

 

„Nýlega hafa Þjóðverjar framkvæmt tvær stórar sprengingar á víðlendu skóglendi og undir mikilli leynd. Frá sprengistaðnum og þaðan í 600 metra fjarlægð ultu trén um koll (…) Í sprengjunni er að líkindum U-235 og hún vegur um tvö tonn“.

 

GRU-skýrslan er dagsett 23. mars 1945. Karlsch álítur að vopnasérfræðingurinn Kurt Diebner hafi stjórnað sprengingunum og hann hafi verið mjög ákafur í viðleitninni til að smíða „undravopn“ til að snúa stríðsgæfunni.

 

Síðari geislavirknimælingar við Ohrdruf hafa ekki staðfest kjarnorkusprengingu. Og meðan Kurt Diebner var haldið föngnum á Farm Hall nefndi hann ekki einu orði að hafa smíðað nothæfa sprengju.

 

Hluti skýringarinnar á öllum þessum sögusögnum er ugglaust að mjög margir hópar unnu að kjarnorkurannsóknum í Þýskalandi og þeir voru dreifðir um allt landið.

 

Því hefur t.d. verið haldið fram að SS hafi framkvæmt eigin rannsóknir á eyjunni Rügen og að uppfinningamaðurinn Manfred von Ardenne hafi með fjármagninu frá póstmálaráðherranum náð lengra í rannsóknum sínum en bara það sem þurfti til að geta gefið Heisenberg fræðilegar ráðleggingar.

Eftirmáli:

Fangarnir á Farm Hall voru látnir lausir 1946 og sneru flestir aftur til þýskra háskóla.

 

Manfred von Ardenne yfirgaf Sovétríkin 1954 og settist að í Dresden, þar sem hann byggði upp rannsóknastofu á eigin vegum.

 

Allt fram að falli múrsins 1989 hjálpaði þýski aðalsmaðurinn von Ardenne austur-þýskum kommúnistum með uppfinningum sínum og skapaði ríkinu þannig miklar útflutningstekjur.

 

Werner Heisenberg og Niels Bohr reyndu að endurnýja vináttu sína en stríðið hafði endanlega gert út af við trúnaðarsamband þeirra.

 

Uppfinningamaðurinn Manfred von Ardenne varð eini Þjóðverjinn sem tókst að smíða kjarnavopn. Sem fangi Sovétmanna hjálpaði hann þeim að byggja vetnissprengjuna. Eftir hina vel heppnuðu vetnissprengju 1953, var Ardenne heiðraður með Stalínsorðunni.

Lestu meira um þýsku bombuna

 • Richard von Schirach: Night of the Physicists, Haus Publishing, 2014
 • Thomas Powers: Heisenberg’s War, Alfred A. Knopf, 1993

 

HÖFUNDUR: TORSTEN WEPER

© National Archives, © SZ Photo/Süddeutsche Zeitung Photo, © Scherl/Süddeutsche Zeitung Photo/Ritzau Scanpix. © Atomic Heritage Foundation. © Claus Lunau/HISTORIE. © Weber, Haigerloch. © Atlantic Crossroads, Inc..

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Jörðin

Leiða loftslagsbreytingar til fleiri jarðskjálfta?

Maðurinn

Heilsa okkar ræðst af blóðinu

Náttúran

Topp 5: Hvaða dýr stunda lengsta mökun?

NÝJASTA NÝTT

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Lifandi Saga

BNA á barmi borgarastyrjaldar: Nasista-prestur vildi bylta lýðræðinu

Lifandi Saga

BNA á barmi borgarastyrjaldar: Nasista-prestur vildi bylta lýðræðinu

Lifandi Saga

Bretar knúðu fram frjálsa verslun með fallbyssum

Lifandi Saga

Bretar knúðu fram frjálsa verslun með fallbyssum

Lifandi Saga

Nasistaveiðar meðal óvina 

Lifandi Saga

Nasistar leituðu arísks menningarheims í Tíbet

Glæpir

Newton upprætti peningafölsun í Englandi

Lifandi Saga

5 ástæður þess að BNA er einungis með tvo flokka 

Vinsælast

1

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

2

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

3

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

4

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

5

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

6

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

1

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

2

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

3

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

4

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

5

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

6

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

Lifandi Saga

Versti óvinur skógareldanna

Lifandi Saga

Í fallhlíf til helvítis: Slökkviliðsmenn stukku beint niður í eldhafið

Maðurinn

Göngutúr heldur heilanum heilbrigðum

Menning og saga

5 fornleifafundir sem raskað hafa sögu mannsins

Heilsa

Vísindamenn hafa fundið mikilvægan eiginleika sem er sameiginlegur öllum sem náð hafa 100 ára aldri.

Lifandi Saga

Belgía biður Kongó afsökunar – með tönn

Lifandi Saga

Af hvaða kynstofni var Kleópatra?

Lifandi Saga

Kitty var Kim Kardashian 18. aldar

Heilsa

Bakteríurnar þrífast vel í handklæðinu þínu

Lifandi Saga

Voru víkingarnir húðflúraðir?

Menning

Þess vegna verða konur þreyttar á (sumum) körlum

Náttúran

Í frysti frá dánarstund

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Sagt er að franska drottningin María Antonía, betur þekkt sem Marie-Antoinette, hafi orðið hvíthærð kvöldið áður en hún var hálshöggin árið 1793. Er þetta yfirleitt hægt?

Maðurinn

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is