Search

Topp 5: Vanhæfustu erfingjar sögunnar

Sérvitur dýravinur, stuðningsmaður Hitlers og kærulaus kvennaflagari komast öll í efstu sætin yfir vanhæfustu erfingja sögunnar. Lestu hér af hverju.

BIRT: 12/01/2023

LESTÍMI:

4 mínútur

5. John Ingilby þurfti að flýja undan kröfuhöfum sínum

Ingilby (1758-1815) kom frá stoltri aðalsætt og erfði einn virtasta kastala Englands, Ripley kastala. En tilraunir hans til að gera upp nýja kastalann sinn fóru hrikalega úrskeiðis. Ingilby varð að lokum svo skuldsettur að hann og kona hans þurftu að fela sig fyrir kröfuhöfum sínum hér og þar í Evrópu í 11 ár.

 

Staðreyndir:

 

 • Endaði með skuldir upp á rúmlega milljarð króna.
 • Þurfti að selja timbur úr kastalanum til að greiða skuldir sínar.

 

Ripley kastali var upphaflega reistur á 14. öld en fór í mikla og dýra endurnýjun á árunum 1783-86.

4. Sybil Grant gaf auðæfi sín til góðgerðarmála

Móðir hennar var ríkasta kona Englands og var metin á um 30 milljarða íslenskra króna. En Sybil Grant sjálf hafði ekkert vit á fjármálum og breyttist í sérvitring sem sólundaði auðæfum sínum með undarlegu líferni og vafasömum verkefnum. Til dæmis eyddi hún gríðarmiklum fjármunum í að bjarga sjaldgæfri hundategund og var þekkt fyrir að gefa frá sér dýr málverk.

 

Staðreyndir:

 

 • Sólundaði um 8 milljörðum íslenskra króna. 
 • Bjó um tíma uppi í tré og skipaði þjóni sínum fyrir með gjallarhorni.
 • Var mjög heilluð af hópi sígauna sem bjuggu í nágrenninu.

 

Sybil Grant var listræn og reyndi fyrir sér sem leirkerasmiður, rithöfundur og skáld.

3. Fritz Thyssen vingaðist við ranga aðila

Fritz Thyssen hafði erft stálverksmiðjur föður síns en ekki hið pólitíska innsæi. Gríðarlegt hatur hans á verkalýðsfélögum varð til þess að Thyssen myndaði bandalag með Hitler á þriðja áratug síðustu aldar og lofaði að taka hart á verkalýðsfélögum.

 

Ofbeldisfullar aðferðir nasista hneyksluðu Thyssen hins vegar svo mikið að hann fór að gagnrýna stjórn nasista. Honum var harðlega refsað og var hann sendur í Dachau fangabúðirnar, á sama tíma og fyrirtæki hans var þjóðnýtt.

 

Eftir síðari heimsstyrjöldina flutti Thyssen til Argentínu. Hið fyrrum volduga fyrirtæki hans var afhent öðrum úr Thyssen fjölskyldunni.

 

Staðreyndir:

 

 • Um 90 milljarðar íslenskra króna voru gerðir upptækir.
 • Styrkti kosningabaráttu Hitlers árið 1933 með þremur milljónum ríkismarka.
 • Eftir seinni heimsstyrjöld greiddi hann 500.000 mörk í bætur til gyðinga sem höfðu starfað hjá honum. 

 

Fritz Thyssen sat á þingi fyrir nasistaflokkinn en Kristalsnóttin árið 1938 hafði mikil áhrif á hann og breytti sýn hans á stjórn Hitlers.

2. Harry Thaw var settur í felur

Thaw fjölskyldan var með þeim ríkustu í Bandaríkjunum og kolanámur hennar og járnbrautafyrirtæki högnuðust árlega um u.þ.b. tuttugu milljarða dollara. Börn fjölskyldunnar fengu öll hlut af auðæfunum við andlát foreldra sinna en eitt barnanna hafði þó sólundað töluverðum fjárhæðum þegar á unga aldri.

 

Sonurinn Harry gekk ekki alveg andlega heill til skógar og leiddi það með tímanum til lífs sem einkenndist af villtum partíum, mikilli fíkniefnaneyslu og ofbeldi.

 

Foreldrarnir þurftu ítrekað að greiða fyrir þögn fórnarlamba hans til að vernda æru fjölskyldunnar en þeir gátu ekkert aðhafst þegar Harry í afbrýðiskasti drap keppinaut sinn. Í réttarhöldunum var Harry úrskurðaður geðveikur og fékk hann mun minna í arf en systkini hans.

 

Staðreyndir:

 

 • Tapaði um 10 milljörðum íslenskra króna á ári.
 • Þegar hann lést voru auðæfi hans metin á u.þ.b. eina milljón dollara.
 • Orðið „playboy“ var upphaflega notað til að lýsa villtum lífsstíl Harry Thaw.

 

 Harry Thaw var fundinn sekur um morðið á elskhuga eiginkonu sinnar, en var úrskurðaður geðveikur og látinn laus.

1. Huntington Hartford var rúinn inn að skinni af ungum konum sínum

Lífið hófst annars svo vel fyrir Huntington Hartford II. Þegar hann var lítill strákur, árið 1922, varð hann erfingi einnar stærstu matvöruverslanakeðju heims (A&P).

 

Til að erfinginn gæti kynnst fjölskyldufyrirtækinu var Hartford ráðinn nokkrum árum síðar í tölfræðideild A&P. En Hartford hafði engan áhuga á vinnunni og þegar hann skrópaði einn daginn til að fara á íþróttaleik var honum sagt upp störfum hjá eigin fyrirtæki.

 

Þess í stað skellti Hartford sér yfir fjölmiðlabransann og gaf út dagblað þar sem hann var einn blaðamanna. Hann varð þó mjög óvinsæll af samstarfsmönnum sínum vegna kæruleysis – sérstaklega eftir að hann missti af mikilvægum tímamörkum til að skila inn frétt vegna þess að hann gat ekki lagt skútu sinni við bryggju.

 

Hartford þurfti þó ekki að hafa áhyggjur af persónulegum fjármálum sínum enda með árstekjur úr fjölskyldusjóðnum upp á 1,5 milljónir dollara. Hann lét hjartað ráða í öllum sínum viðskiptum, eins og til dæmis sjálfvirkt bílastæðahús, leiklistarsýning sem hann framleiddi og kostaði og svo bjó hann alltaf á lúxus hótelum.

Hér er Hartford með þriðju eiginkonu sinni Diane Brown.

Safn var gagnrýnt

Áhugi Hartford á ungum konum gerði einnig gæfumuninn. Hann giftist fjórum sinnum og þurfti í hvert skipti að greiða háar fjárhæðir í meðlag þegar konurnar yfirgáfu hann.

 

Skilnaðirnir höfðu samt ekki mikil áhrif á Hartford sem hafði mikla ánægju af góðgerðarverkefnum sínum. Þau verkefni enduðu þó oftast eins illa og viðskipti hans og hjónabönd. Þegar hann opnaði t.a.m. listasafn í New York var það harðlega gagnrýnt fyrir að vera forljótt og Hartford lokaði því stuttu seinna.

 

Annars hafði Hartford mikinn áhuga á myndlist og studdi uppáhalds listamenn sína fjárhagslega á sama tíma og fjölskyldufyrirtækinu vegnaði gríðarlega illa. Gífurleg auðæfi Hartford vor nánast horfin þegar hann lést árið 2008 – tveimur árum síðar sótti A&P um gjaldþrot.

 

Staðreyndir:

 

 • Árið 1958 var hann nálægt því að verða persónulega gjaldþrota en bjargaði sér með hlutabréfasölu að andvirði 40 milljóna dollara.
 • Eyddi yfir 100 milljónum dollara til að kaupa og gera upp hótel á Bahamaeyjum, var svo selt með miklu tapi.
 • Fjárfesti milljónir í tímariti um klassíska list, þar sem einnig var að finna léttklædda „stúlku mánaðarins“. 
 • Tapaði peningum á stofnun til kynningar á handritum.  

 

BIRT: 12/01/2023

HÖFUNDUR: Ritstjórn

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: © Scanpix,© Corbis,© Getty Images,

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is