Frank Sinatra var stórtækur í kvennamálum, drakk eins og svampur og var í slagtogi við helstu leigumorðingja mafíunnar.
Hann var líka besti vinur forsetaframbjóðandans Johns F. Kennedy og lét þess vegna gera þyrlupall við hús sitt í Palm Springs.
Og svo var hann vinur vina sinna og dyggur stuðningsmaður Martins Luther King og svartra listamanna á þeim tíma þegar borgararéttindahreyfingin var almennt fyrirlitin.
BLÁA BÓKIN
- Nafn: Francis (Frank) Albert Sinatra
- Fæddur: 1915
- Dáinn: 1998
- Þekktur fyrir: Hugljúfa rödd sem spannaði mikið tónsvið í bland við mikla persónutöfra.
- Vissir þú? Að Sinatra var nefndur Francis fyrir mistök þegar guðfaðirinn Francis Garrick, í hamaganginum við skírnina nefndi sitt eigið nafn en ekki barnsins (Martin)?

Francis Albert Sinatra litli ólst upp sem einkabarn í fátæku, ítölsku verkamannahverfi.
Hvar ólst Frank Sinatra upp?
Francis Albert Sinatra kom í heiminn í verkamannahverfinu „Litlu Ítalíu“ í borginni Hoboken í New Jersey nokkrum km frá New York borg.
Báðir foreldrarnir voru fátækir innflytjendur frá Ítalíu og faðirinn, Saverio Antonino Martino Sinatra, kallaður Marty, kunni hvorki að lesa né skrifa.
Erfið fæðing varð til þess að móðir hans, Dolly gat ekki eignast fleiri börn, svo Frank ólst upp sem einkabarn. Lífið í Litlu Ítalíu var erfitt. Ítalskir innflytjendur voru – ásamt blökkumönnum – neðst í þjóðfélagsstiganum þar sem ólögleg sala á áfengi, þjófnaður og rán þóttu ásættanlegar aðferðir til að ná endum saman.
Sinatrafjölskyldan lifði líka á mörkum laganna; frændi Sinatra, Babe Garavante, var til dæmis dæmdur fyrir morð árið 1921 þegar hann sem flóttabílstjóri eftir rán, olli dauða saklauss ökumanns.
Hvernig varð Sinatra söngvari?
Dolly Sinatra vonaði að sonur hennar myndi læra verkfræði en bóknám vakti ekki áhuga Franks. Hann tolldi aðeins 47 daga í menntaskóla áður en hann var rekinn fyrir slæma hegðun.
Á hinn bóginn var Sinatra nánast heltekinn af tónlist.
„Hann var bara grannur strákur með stór eyru. En áhrifin sem hann hafði á konurnar voru næstum skelfileg.“
Hljómsveitarstjórinn Tommy Dorsey
Bætt hljóðnematækni á 3. áratugnum gerði það að verkum að söngvarar þurftu ekki lengur að nota fullan raddstyrk til að í þeim heyrðist. Þess í stað gátu þeir sungið mjúklega og af tilfinningu – stíll sem hentaði vel tilfinningaríkum ástarsöngvum.

Í blöðunum var Frank Sinatra sýndur sem dyggur eiginmaður, en fjarri sviðsljósinu velti hann sér upp úr áfengi og vændiskonum.
Gagnrýnendur kölluðu söngstílinn með niðrandi hætti „krónun“ (crooning), hugtak sem vísar til kurrtónsins sem sumir nota við ungabörn. Þrátt fyrir gagnrýnina urðu „krónararnir“ strax vinsælir. Frægastur var Bing Crosby sem Sinatra dáði og reyndi að líkja eftir.
Eftir nokkurra ára tilraunir til að koma sér á framfæri tókst hinum þá tvítuga Sinatra árið 1935 að fá að ganga til liðs við tríóið „The Three Flashes“ – sem breytti síðan nafni sínu í „The Hoboken Four“.
Í staðinn átti Sinatra að vera bílstjóri hópsins.
Það var svo ekki fyrr en Sinatra fór í raddþjálfun hjá óperusöngvaranum John Quinlan að ferillinn tók við sér fyrir alvöru.
Hjá Quinlan þá lærði Sinatra að nota allt hið tilkomumikla raddsvið sitt og fljótlega var hann ráðinn sem söngvari hjá hinum virta hljómsveitarstjóra Tommy Dorsey.
Röddin var ekki það eina sem vakti athygli. Stelpurnar svimaði bókstaflega þegar Sinatra steig á svið.
„Hann var bara grannur strákur með stór eyru. En áhrifin sem hann hafði á konurnar voru næstum skelfileg,“ sagði Tommy Dorsey síðar.
Og Sinatra endurgalt athyglina fúslega. 25 ára gamall var hann handtekinn og sakaður um „tælingu“ – sem á þeim tíma var glæpur sem varðaði allt að fimm ára fangelsi.
Skömmu síðar var hann hins vegar látinn laus gegn tryggingu og málið var fellt niður. En ástarævintýrin héldu áfram, jafnvel þegar hann var nýgiftur eiginkonu sinni Nancy sem hafði að auki alið honum dóttur.
Nick Sevano, vini og framkvæmdastjóra Sinatra, var falið að hylma yfir með ótrúa eiginmanninum þegar eiginkonan vildi vita hvers vegna hann svaraði aldrei í símann á hótelherberginu sínu á söngferðum:
„Það má Guð vita að ég varð oft að vera fljótur að hugsa. Ég laug alltaf og hylmdi yfir með Frank,“ sagði Sevano.
„Reglan er sú að það gilda engar reglur,“ sagði lögreglustjórinn í Los Angeles við átta sérvalda lögreglumenn. Verkefni þessarar fámennu sveitar var að hreinsa til í borginni, þar sem glæpasamtök höfðu tekið öll völd.
Hvert var samband Sinatra við blökkumenn?
Á 6. og 7. áratugnum tók ferill Frank Sinatra virkilega kipp með framkomu á stærstu sviðum Bandaríkjanna.
En á meðan allar dyr opnuðust fyrir honum og öðrum hvítum stjörnum voru tækifæri svartra tónlistarmanna takmörkuð. Þrátt fyrir að tæp 100 ár væru liðin frá afnámi þrælahalds bjuggu svartir og hvítir í stórum hluta Bandaríkjanna enn í tveimur aðskildum – og ójöfnum – heimum.
Sinatra sem sjálfur þekkti það að vera útskúfaður vegna ítalsks uppruna síns, neitaði að sætta sig við kúgun svartra kollega sinna.
Hann krafðist þess að í undirleikshljómsveitir hans væru bæði ráðnir svartir og hvítir tónlistarmenn og stofnaði til vináttu við stærstu nöfnin í djass, blús og swing heiminum – tónlistarstefnum þar sem svartir tónlistarmenn voru mest áberandi.
Meðal náinna kunningja Sinatra úr þeim hópi voru stjörnur eins og Billie Holiday, Ella Fitzgerald, Nat King Cole og Duke Ellington.
Hverjir voru ,,The Ratpack"?
Meðal nánustu vina Sinatra var svarti söngvarinn og leikarinn Sammy Davis Jr. Ásamt söngvaranum Dean Martin, leikaranum Peter Lawford og grínistanum Joey Bishop mynduðu þeir kjarnann í svokölluðu Rottugengi (Rat Pack), óformlegum hópi samstarfsmanna og drykkjufélaga.

Rottugengið var stöðugt í sviðsljósinu. Frá vinstri Sammy Davis Jr., Frank Sinatra, Dean Martin og Peter Lawford.
Nafnið varð líklega til þegar leikkonan Lauren Bacall, kvöld eitt þegar vinir sneru heim eftir enn eitt fylleríið sagði: „Þið lítið út eins og hópur af rottum“.
Rottugengið kom fram saman á sviði og í kvikmyndum á 6. og 7. áratugnum en þeir voru jafn frægir fyrir íburðarmikinn lífsstíl sinn, drykkju, fjárhættuspil og kynlíf.
Óhófið var mest í tengslum við sýningar í Las Vegas sem eftir seinni heimsstyrjöldina var orðin miðstöð Bandaríkjanna fyrir fjárhættuspil og afþreyingariðnaðinn.
Á tímanum með Rottugenginu átti Sinatra í ástarsamböndum við margar frægar konur, þar á meðal leikkonurnar Lauren Bacall og Övu Gardner sem hann var giftur frá 1951 til 1957.
„Áfengi er hugsanlega versti óvinur mannsins en Biblían segir að við verðum að elska óvini okkar,“
Frank Sinatra
Sinatra ýtti sjálfur undir orðspor sitt sem heillandi drykkjurútur.
„Áfengi er hugsanlega versti óvinur mannsins en Biblían segir að við verðum að elska óvini okkar,“ sagði hann.
Uppáhalds drykkur Sinatra var kokteillinn „Rusty Nail“, drykkur sem samanstendur af jöfnum hlutum af viskíi og Drambuie með ís. Drykkurinn varð þekktur sem einkennisdrykkur Rottugengisins.
Af hverju var Sinatra grafinn með smápeninga í vasanum?
Í desember 1963 var syni Sinatra, hinum þá 19 ára Frank Jr. rænt.
Junior hafði fetað í fótspor föður síns sem söngvari og var í búningsklefanum fyrir tónleika í Harrah’s Club Lodge í Lake Tahoe í Kaliforníu þegar tveir menn réðust þar inn. Þeir bundu og kefluðu Frank Jr. og óku honum í leiguhúsnæði í Los Angeles.
Seint síðdegis daginn eftir hringdu mannræningjarnir í Sinatra og kröfðust 240.000 dollara – u.þ.b. 330 milljóna íslenskra króna á núvirði – í lausnargjald.

Frank Sinatra lifði verstu martröð föður þegar syni hans var rænt. Frank Sinatra Jr. var sleppt eftir tveggja daga gíslingu.
Fyrir milligöngu vinar síns útvegaði Sinatra eldri peningana sem í samræmi við kröfur mannræningjanna, voru afhentir í svörtum poka á milli tveggja kyrrstæðra skólabíla við bensínstöð. Daginn eftir var Frank yngri látinn laus.
Eftir ránið sá Sinatra til þess að einn af persónulegum lífvörðum hans fylgdi Frank Jr. hvert sem hann fór.
Á meðan sonur hans var í haldi ræningjanna gat Sinatra eldri aðeins átt samskipti við þá í gegnum síma í símaklefum og til að nota símaklefa þurfti að hafa smápeninga við hendina.
Þess vegna var hann alltaf með klink í vösunum eftir þetta. Þeirri venju hélt hann allt til enda og þegar Sinatra lést 14. maí 1998, 82 ára að aldri, var hann lagður til hinstu hvílu með tíu 10 senta peninga í vasanum.
Árið 1943 ferðaðist fyrsti Bandaríkjaforsetinn með flugvél á leið sinni á fund. Flugtímanum varði hann í að leggja kapal, dást að útsýninu og sofa í hjónarúmi.
Var Sinatra í mafíunni?
Sinatra var aldrei meðlimur í mafíufjölskyldu en hann var vanur að umgangast nokkra af stóru mafíuleiðtogunum.
Til dæmis, árið 1946, tók hann þátt í fundi í Havana á Kúbu, þar sem meðal þátttakenda voru meðal annars hinn frægi Charles „Lucky“ Luciano og Umberto „Albert“ Anastasia. Sá síðarnefndi var yfirmaður „Murder Inc.“ (morð hf.), deild innan mafíunnar sem á 4. og 5. áratug síðustu aldar felldi hundruð óvina glæpamannanna.

Frank Sinatra (1) situr fyrir árið 1976 með áberandi mafíupersónum, m.a. "Jimmy the Weasel" Fratianno (2) sem síðar varð uppljóstrari fyrir FBI.
Þegar unnið var að ævisögunni „Frank Sinatra og mafíumorðin“ (Frank Sinatra and the Mafia Murders), lásu höfundarnir – einn þeirra var fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður – gamlar leyniskýrslur FBI og komust að þeirri niðurstöðu að Sinatra hafi starfað sem sendiboði fyrir mafíuna.
Að rækta vináttu við mafíósa kom sér vel fyrir söngferilinn.
Á 5. og 6. áratugnum jukust ítök mafíunnar í skemmtanaiðnaðinum – ekki síst í Las Vegas – og samkvæmt sumum heimildum gat Sinatra þakkað mafíunni fyrir nokkra greiða, þ.á m. að Hollywood opnaði dyrnar fyrir honum.
Í mafíumyndinni „The Godfather“ er persónan Johnny Fontane – söngvari sem bjargar hrakandi ferli sínum með hjálp Corleone fjölskyldunnar – hugsanlega byggð á sögu Sinatra.
Þó Sinatra hefði gaman af að vera bendlaður við mafíuna sagði hann samskipti sín við hana alltaf hafa verið yfirborðskennd.
Vann Frank Sinatra Óskarsverðlaun?
Samhliða söngferli sínum lék Frank Sinatra í fjölda kvikmynda.

Frank Sinatra hlaut Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki sem hermaðurinn Maggio í kvikmyndinni From Here to Eternity árið 1953.
Meðal hlutverka sem hann fékk var persónan Angelo Maggio í kvikmyndinni „From here to Eternity“ árið 1953, harðorð og hrífandi lýsing á lífi í bandaríska hernum í Pearl Harbor flotastöðinni í seinni heimsstyrjöldinni.
Frammistaðan heillaði gagnrýnendur og Sinatra hlaut Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki.
Einnig fékk Sinatra mikið lof fyrir túlkun sína á heróínfíklinum Frankie Machine í „The Man with the Golden Arm“ árið 1955 og glæpamanninum Danny Ocean í „Ocean’s Eleven“ frá árinu 1960.

Frank Sinatra gerði fræg lög að sínum með því að nota strákslegan sjarma sinn og áhrif úr jass og sveiflu.
Sinatra gerði fjögur þekkt lög ógleymanleg
Frank Sinatra tókst með sínum jassaða, sveiflukennda stíl að gefa kunnuglegum lögum nýtt líf. Þetta á ekki síst við fjóra eyrnakonfektmola sem í dag teljast Sinatra-sígildir.

„Fly Me to the Moon“
Útgáfa jasstónlistarmannsins Count Basie og Sinatra af hinu lágstemmda ástarlagi breyttist í „líflegt swinglag“, eins og einn gagnrýnandi orðaði það. Lagið var spilað í Apollo 11 skömmu fyrir tungllendingu árið 1969.

„Strangers in the Night“
Sinatra setti sinn eigin blæ á lagið með því að enda textann á „doo-be-doo-be-doo“. Spunaorðin – sem kallast scat – eiga rætur að rekja til Vestur-Afríku og voru oft notuð af svörtum jasssöngvurum eins og Ellu Fitzgerald..

„My Way“
Einkennislag Sinatra snýst um hugleiðingar þroskaðs manns um lífið og gæti vel átt við hann sjálfan. En hann hélt ekki mikið upp á það sjálfur. „Nú kemur kvalastundin“, sagði hann einu sinni í kynningu.

„New York, New York“
Lagið sem rómar trú á sjálfan sig og viljann til að elta drauminn um að ná toppnum, hefur orðið tilvísun í feril Sinatra sjálfs frá gettóinu „Litlu Ítalíu“ til stjörnustöðu í stórborginni ofar öllum öðrum.
Hér er hægt að hlusta á nokkur frábær lög í flutningi Sinatra:
Var Frank Sinatra vinur John F. Kennedy?
Eins og margir aðrir með lágstéttarbakgrunn var Sinatra dyggur stuðningsmaður Demókrataflokksins. Og stuðningur við forsetaframbjóðanda demókrata, John F. Kennedy, þróaðist í nána vináttu.
Sinatra dáðist að pólitísku valdi Kennedy-fjölskyldunnar og Kennedy heillaðist af stjörnustöðu Sinatra og tengslum hans við Hollywood.
Þegar forsetaframbjóðandinn heimsótti heimili söngvarans í Palm Springs seint á sjötta áratugnum skemmtu þeir hvor öðrum með sögum um stjörnur og stjórnmálamenn. „Sinatra verður Kennedy og Kennedy verður Sinatra,“ grínuðust slúðurblaðamenn á þeim tíma.
Þeir tveir deildu líka áhuga á konum og Sinatra var alltaf tilbúinn að kynnast nýjum.
„Ég var pimpinn hans Franks og Frank hans Johns. Það hljómar hræðilega þegar þú segir það núna en þá var þetta í raun mjög skemmtilegt,“ sagði Peter Lawford, einn úr Rottugenginu og mágur Johns F. Kennedy árið 1983.

Frank Sinatra var yfirlýstur demókrati og mikill vinur John F. Kennedy.
Hápunktur vináttu þeirra tveggja var þegar Kennedy þakkaði Sinatra fyrir stuðninginn af sviðinu á hátíðarsýningu skömmu fyrir innsetningu sína í forsetaembættið í janúar 1961.
En eftir það dalaði vináttan. Sögusagnir um tengsl Sinatra við mafíuna urðu til þess að Kennedy dró sig frá honum. Þegar forsetinn afþakkaði heimboð Sinatra árið 1962 varð söngvarinn svo reiður að hann greip sleggju og braut lendingarpallinn sem hann hafði látið gera fyrir þyrlu Kennedys.
Þrátt fyrir að vináttan hafi aldrei verið endurreist hafði morðið á Kennedy mikil áhrif á Sinatra.
Sagt er að þegar hann frétti af dauða forsetans í nóvember 1963 hafi hann læst sig inni í svefnherbergi sínu og grátið í þrjá daga.
Flokkshollusta kom ekki í veg fyrir að Sinatra kæmi fram á samkomu repúblikanans Richard Nixon árið 1972 og hann studdi einnig repúblikanann Ronald Reagan, fyrrverandi Hollywood-leikara þegar hann var kjörinn forseti árið 1980.
Hvenær dó Frank Sinatra?
Á áttræðisafmæli söngvarans 12. desember 1995 var eitt helsta kennileiti New York borgar, Empire State byggingin upplýst í bláum lit til heiðurs „Ol’ Blue Eyes“, eins og Sinatra var oft kallaður.
Þegar söngvarinn lést þremur árum síðar eftir langvarandi heilsubrest, minntist sitjandi forseti, Bill Clinton hans:
„Tónlist hans og kvikmyndir munu tryggja að Ol’ Blue Eyes gleymist aldrei. Í dag verður hver Bandaríkjamaður að brosa og átta sig á því að hann gerði þetta í raun á sinn eigin hátt,“ sagði Clinton og vísaði þar til hins þekkta lags Sinatra, „My Way“.
LESTU MEIRA UM FRANK SINATRA
Kitty Kelley: Frank Sinatra – His Way, Gyldendal, 1987
Mike Rothmiller & Douglas Thompson: Frank Sinatra and the Mafia Murders, Ad Lib Publishers, 2023