Lifandi Saga

Vændiskonur börðust fyrir lífi sínu á botni samfélagsins

(Ein) elsta starfsgrein heims Í fornöld úði og grúði af vændiskonum í stórborgunum. Flestar lifðu þær varhugaverðu lífi í neðsta þrepi þjóðfélagsins en örfáar áunnu sér þó hylli valdamikilla karla og öðluðust tækifæri til að eignast völd og auðævi.

BIRT: 22/07/2023

Háð gegn guði og mönnum. Þannig lýsti grísk-rómverski heimspekingurinn Dion Chrysostomos vændi á 2. öld e.Kr.:

 

„Eigendur vændishúsa safna saman fólki til að stunda samfarir sem skortir algerlega þokka Afródítu. Þar er verið að fullnægja losta, einungis í nafni gróðans!“

 

Heimspekingurinn taldi algert bann vera einu réttu lausnina. Hafi hins vegar Chrysostomos haldið að einhver kærði sig um að hlýða á orð hans þá hafði hann hrapallega rangt fyrir sér.

 

Ef marka má rómverskar heimildir voru í það minnsta 32.000 vændiskonur í Róm á sama tíma og heimspekingurinn ritaði bannbréf sitt.

 

Fornleifauppgröftur hefur leitt í ljós að í strandbænum Pompei sem efnaðir Rómverjar heimsóttu á sumrin allt fram að því að borgin var grafin í ösku árið 79 e.Kr., hafi verið ein 35 vændishús, þrátt fyrir að íbúar borgarinnar hafi einungis verið rétt rúmlega tíu þúsund.

Í borginni Pompeii bera skýrar freskur vitni um útbreidda vændi í Rómaveldi.

Gleðikonur leyndust hvarvetna á fornöld – í eldgömlum borgum Mesópótamíu, á fjörugum hafnarbúllum í Aþenu, á fábrotnum hóruhúsum smábæjanna og í undirgöngunum á Kólosseum í Róm.

 

Konur og menn voru jafnframt tilbúin til að selja sig í eyðilegum kirkjugörðum utan varnarmúra hinna ýmsu borga.

 

Langflest seldu sig af einskærri neyð og lifðu hörmulegu lífi á botni samfélagsins. En önnur beittu klókindum og bellibrögðum til að fara á svig við þrönga ramma samfélagsins og komast að þungamiðju valdsins með því að selja sig.

 

Elsta starfsgrein í heimi?

Vændi hefur oft verið kallað „elsta starfsgrein heims“. Hugtakið á rætur að rekja til rithöfundarins Rudyards Kiplings sem innleiddi bók sína um indverska vændiskonu á orðunum: „Lalun var í hópi þeirra sem stunda elstu starfsgrein heims“.

 

Þó svo að vændi sé óneitanlega óragamalt er ekkert sem gefur til kynna að starfsgreinin sé eldri en t.d. landbúnaður. Elstu þekktu heimildir um vændi í ágóðaskyni sem ekki hafði trúarlegan tilgang, stafar frá vöggu siðmenningar í Mesópótamíu kringum árið 2400 f.Kr.

 

Á yfirliti yfir starfsgreinar, rituðu með fleygrúnum, er m.a. að finna kar.kid sem vísindamenn telja tákna vændiskonu. Á sama hátt kom fyrir orðið kur-garru sem álitið er hafa táknað hórkarl.

 

Ef marka má fleygrúnirnar héldu vændiskonurnar til í og nærri öldurhúsum borgarinnar. Líklegt þykir að starfsgreinin hafi sprottið upp þegar hjónabönd urðu algeng en hvort tveggja gerði vart við sig nokkurn veginn samtímis í Mesópótamíu

„Skækjur og ambáttir sem hylja sig með slæðu skulu afklæðast og lamdar með 50 vandarhöggum, auk þess sem biki verður hellt yfir höfuð þeirra“.

Í assyríska lagatextanum Assura frá um 1075 f.Kr.

Með hjónaböndum gátu fjölskyldur sameinast hver annarri með því að gifta börn sín hvort öðru og tryggja með því að börn sem fæddust í hjónabandi yrðu löglegir erfingjar. Hjónabönd gerðu konur í raun að eign eiginmanna sinna og lögin sáu til þess að kaupmálar milli hjóna skyldu heiðraðir.

 

Í assyríska lagatextanum Assura frá um 1075 f.Kr. var m.a. fyrirskipað að eiginmaður konu sem sængar með öðrum manni skuli refsa henni og elskhuganum með dauðanum.

 

Sama lagasafn fyrirskipaði að frjálsar, sómakærar konur skyldu hylja höfuð sitt með slæðu þegar þær færu út fyrir hússins dyr. Slæður voru til marks um háa stöðu konunnar og gleðikonum því stranglega bannað að ganga með þær. Refsað var grimmilega fyrir brot á þessum reglum:

 

„Skækjur og ambáttir sem hylja sig með slæðu skulu afklæðast og lamdar með 50 vandarhöggum, auk þess sem biki verður hellt yfir höfuð þeirra“.

 

Enginn skyldi efast um hver væri sómakær og hver ekki.

 

Hugmyndin um hjónaband breiddist frá Mesópótamíu til m.a. Grikklands og Ítalíu til forna og vændi fylgdi í kjölfarið.

 

Vændiskonur í Aþenu greiddu skatt

Í grísku borgríkjunum fjölgaði íbúunum ört frá 9. öld og það sama gilti um þörfina fyrir að hafa hemil á kynlífsiðkun íbúanna.

 

Í borgríkinu Aþenu innleiddi fyrsti löggjafinn, Drakon, ýmis ströng lög nærri árinu 621 f.Kr. sem höfðu það markmið að takmarka möguleika yfirstéttarinnar á að notfæra sér lægri stéttirnar.

LESTU EINNIG

Ein lögin sögðu svo fyrir um að manni skyldi eigi refsað fyrir að drepa annan mann ef sá hinn sami hefði gerst sekur um að stunda kynlíf með eiginkonu þess fyrrgreinda, dóttur hans, móður eða ambáttum sem allar teldust vera hluti af heimilishaldi hans.

 

Lögin gerðu það að verkum að ungir menn borgarinnar sem gengu sjaldnast í hjónaband fyrr en á fertugsaldri, gátu engan veginn stundað kynlíf með konu. Eini kosturinn var að heimsækja einhverja af vændiskonum staðarins sem var að finna í myrkustu öngstrætum borgarinnar.

 

Ekki var staðan betri fyrir sómakærar konur, skyldi kynhvötin láta á sér kræla hjá þeim. Fyrir vikið innleiddi hinn þekkti löggjafi borgarinnar, Sólon, hagkvæma lausn árið 590 f.Kr. sem virtist geta gagnast.

 

„Þar sem Aþena væri sneisafull af ungum mönnum sem hefðu það fyrir sið að ráfa um á miður þekkilegum stöðum, sökum þess að kynhvötin bauð þeim svo, kom Sólon fyrir konum í tilteknum húsum sem allir höfðu aðgang að“, ritaði gríski höfundurinn Fílemon.

Í Grikklandi hinu forna seldu ungir drengir og menn sig eldri körlum.

Þessi umræddu „hús“ sagði Fílemon vera ríkisrekin gleðikonuhús. Þó svo að fræðimenn í dag greini á um að Sólon hafi beinlínis staðið fyrir rekstri þessara húsa þá liggur ljóst fyrir að hann ákvað að það skyldi ekki teljast hjúskaparbrot ef maður yrði staðinn að verki með vændiskonu. Hann hvatti jafnframt vændiskonurnar til að greiða skatt, líkt og aðrir atvinnurekendur gerðu.

 

Með þessu bæði skilgreindi og lögleiddi Sólon starfsgreinina fyrstur allra en staðsetti að sama skapi vændiskonur utan þeirrar verndar sem flestir nutu. Vændiskonur voru þar með einar í þeim heimi sem konur að öllu jöfnu ekki nutu mikilla tækifæra í.

 

Ekki álitu allir lögin þó vera takmarkandi en þess í stað tækifæri til að komast hjá ströngum reglum þjóðfélagsins.

 

Hjákona yfirstéttarmanns braust inn í karlmannaheiminn

Lögin í Aþenu takmörkuðu rétt kvenna til að ferðast um borgina. Konurnar skyldu vera einangraðar á heimilum sínum til að komast hjá því að þær færu að hlaupa útundan sér en færu þær út fyrir hússins dyr skyldu þær vera í fylgd með öðrum sem fylgst gætu með þeim.

 

Vændiskonur borgarinnar voru undanskildar slíkum takmörkunum. Flestar þeirra voru annað hvort ambáttir sem sumar hverjar höfðu verið frelsaðar úr ánauð eða þá grískar konur sem stóðu utan borgarastéttar.

„Eru augabrúnirnar of ljósar? Þá eru þær litaðar með lampaolíu. Sé húðin of dökk, er hún lýst með hvítu blýkremi“.

Grínhöfundurinn Alexis á 4. öld f.Kr.

Þær verst launuðu kölluðust pornai en þær héldu til í vændishúsum ellegar nældu sér í viðskiptavini á götum úti. Þær störfuðu fyrir melludólg sem hirti stóran hluta tekna þeirra. Konurnar urðu að reyna að virðast aðlaðandi til að ná sér í kúnna.

 

„Eru augabrúnirnar of ljósar? Þá eru þær litaðar með lampaolíu. Sé húðin of dökk, er hún lýst með hvítu blýkremi“, ritaði grínhöfundurinn Alexis á 4. öld f.Kr.

 

Á hinum endanum var svo að finna vel menntaðar fylgdarkonur. Um var að ræða fínar gleðikonur sem höfðu vit á bókmenntum, list og heimspeki og gátu fyrir vikið boðið upp á annað og meira en einvörðungu kynlíf. Sömu konur kunnu sitthvað fyrir sér í söng, dansi og kynlífsleikjum.

 

Þessar konur sátu iðulega með karlmönnum á svonefndum málþingum en um var að ræða svallveislur fyrir yfirstéttarmenn. Mennirnir guldu dýru verði fyrir návist kvennanna sem nutu virðingar sökum þekkingar sinnar.

 

Ein þekktasta frillan í Aþenuborg kallaðast Aspasía. Hún átti rætur að rekja til borgríkisins Milet og flutti til Aþenu í kringum 450 f.Kr. Samkvæmt lögum borgarinnar taldist hún fyrir bragðið vera innflytjandi og mátti því ekki njóta borgararéttinda.

Lagskonan Aspasía hefur sennilega verið ásökuð um syndsamlegt líferni en sýknuð, þegar elskhugi hennar, stjórnmálamaðurinn Períkles, varði hana.

Aspasía nýtti sér hins vegar út í ystu æsar þá staðreynd að hinar ströngu reglur Aþenuborgar sem giltu um konur tóku ekki til hennar. Hún gerðist lagskona og lærði allt um m.a. stjórnmál af þeim áhrifamönnum sem hún umgekkst. Ef marka má gríska rithöfundinn Plútark kom sjálfur Sókrates til hennar með lærisveina sína til að drekka af viskubrunni hennar:

 

„Þetta gerðist þrátt fyrir að hún sjálf stæði fyrir rekstri á starfsemi sem þótti allt annað en vönduð eða heiðvirð, því hún stýrði húsi fullu af fylgdarkonum“.

 

Helsti stjórnmálamaður Aþenu á þessum tíma var Períkles sem féll kylliflatur fyrir hinni vitru Aspasíu. Skömmu síðar skildi hann við eiginkonu sína:

 

„Þar sem hjónaband þeirra var alls ekki hamingjuríkt lét hann hana eftir öðrum manni með hennar samþykki og gekk sjálfur að eiga Aspasíu sem hann elskaði af öllu hjarta“, ritaði Plútark.

 

Grínistarnir gerðu óspart grín að ástarævintýri stjórnmálamannsins og Aspasíu sem einn grínistanna kallaði „vændiskonu sem fyrir löngu hafi glatað allri sómatilfinningu“.

 

Hvorki Aspasía né Períkles létu þetta á sig fá og eignuðust barn saman. Þegar Períkles lést af völdum farsóttar gekk Aspasía að eiga annan stjórnmálamann sem hún aðstoðaði við að komast til metorða innan stjórnmálakerfisins. Síðan hvarf þessi dularfulla lagskona af spjöldum sögunnar.

Phryne var sýknuð í réttarsalnum þegar hún sýndi dómurunum fagurlega mótuð brjóst sín.

Guðdómlega fögur lagskona heillaði karlana

Fallegir andlitsdrættir og lögulegur líkami færðu lagskonunni Phryne auð. Þegar hún svo var færð fyrir dóm heillaði hún karlana upp úr skónum.

 

Gríska vændiskonan Phryne var þekkt sem ein fegursta konan í hinu forna Grikklandi og fyrir að notfæra sér fegurð sína út í ystu æsar.

 

Phryne fluttist búferlum til Aþenu þegar hún óx úr grasi á 4. öld f.Kr. Þar öðlaðist hún frægð fyrir að vera ein dáðasta lagskona borgarinnar. Phryne var ekki einungis fögur því hún var jafnframt hnyttin og greind og kunni að koma vel fyrir.

 

Einhverju sinni þegar haldin var veisla til heiðurs sjávarguðinum Póseidon er hún sögð hafa heillað málarann Apelles upp úr skónum með því að fara út í öldurnar með slegið hár.

Sýn þessi á að hafa orðið Apelles hvatning til að mála gyðjuna Afródítu þar sem hún stígur upp úr sjónum. Phryne var seinna meir fyrirmynd styttu sem sýnir Afródítu og öðlaðist með þessu frægð fyrir að hafa verið fyrirmynd ástargyðjunnar.

 

Frægðin olli því að hún gat valið úr ríkustu kynlífskaupendum síns tíma og auður hennar jókst gífurlega. Ríkidæmi hennar olli að sjálfsögðu öfund og svo fór að hún var ásökuð um guðlast og færð í réttarsal.

 

Þegar allt stefndi í að hún yrði dæmd sek beraði hún brjóst sín fyrir kviðdómnum sem auðvitað voru allt karlmenn og var sýknuð.

Allt úði og grúði af vændiskonum í Róm

Vændi stóð hvergi í jafnmiklum blóma og í Rómarveldi til forna. Íbúum borganna fjölgaði ört eftir því sem stórveldið óx.

 

Í Róm, þar sem bjó um milljón manns í kringum Krists burð, var að finna örfáa efnamenn og gífurlegan skara fátæklinga sem lifðu í örbirgð. Í slíkri mannmergð þreifst aumasta tegundin af losta og þetta ýtti undir gríðarlega útbreitt vændi.

„Hann rannsakaði og þreifaði á hverjum hluta líkama hennar“.

Rómverski heimspekingurinn Seneca

 

Líkt og við átti í Grikklandi hinu forna voru flestallar vændiskonurnar ambáttir. Rómverski heimspekingurinn Seneca lýsti hneykslaður þrælamarkaði þar sem kona ein var seld melludólgi:

 

„Hún stóð berstrípuð á ströndinni kaupandanum til ánægju. Hann rannsakaði og þreifaði á hverjum hluta líkama hennar“.

 

Rómverjar kipptu sér að öllu jöfnu ekki mikið upp við vændiskonur sem voru jafn réttháar og skylmingaþrælar og leikarar, þ.e. fólk án æru og virðingar.

Á hinni árlegu Floralia-hátíð, samkvæmt rómverskum heimildum, dönsuðu vændiskonur naktar á götum borgarinnar. Þátttaka þeirra sýnir að vændiskonur voru álitnar eðlilegur hluti af samfélaginu.

Rómverskar konur og menn neyddust enn fremur stundum til að selja líkama sinn til að komast af. Þetta krafðist þess þó að slíkt fólk léti skrá sig hjá þeim embættismanni sem bar ábyrgð á almennu velsæmi í borginni. Hann skráði þá nöfn fólksins til þess að það ætti ekki á hættu að vera ásakað um ólifnað og einnig til að þeir hinir sömu gætu greitt skatt.

 

Fátækustu vændiskonurnar höfðu ekki yfir neinu herbergi að ráða heldur seldu sig í grennd við leikhús, hof og veðhlaupavöllinn. Sumar stunduðu vændið í einhverjum hinna mörgu bogaganga sem er að finna í Róm. Þær vændiskonur voru nefndar eftir latneska orðinu yfir boga, fornix og þaðan er enska orðið „fornication“ (hórdómur) fengið.

Í litlu vistarverunum í hóruhúsinu er að finna rúmstæði úr steini sem hljóta að hafa verið þakin hálmi á sínum tíma.

Stærsta vændishúsið í Pompei kemur upp um leyndarmál vændiskvennanna

Þegar fornleifafræðingar grófu rómversku borgina Pompei úr ösku árið 1862 kom í ljós eitt fullkomnasta hóruhús síns tíma. Í öskunni var nefnilega að finna hafsjó upplýsinga um daglegt líf vændiskvenna og viðskiptavina þeirra.

 

Árið 79 e.Kr. þöktu aska og vikur úr eldfjallinu Vesúvíusi borgina Pompei sem tímans tönn fékk fyrir vikið ekki grandað eftir það. Þetta átti m.a. við um stórt vændishús í borginni sem gekk undir heitinu „lupanar“.

 

Fornleifafræðingar hafa m.a. fundið nokkrar erótískar veggmyndir yfir inngöngunum að hinum ýmsu vistarverum hóruhússins.

 

Málverkin eru álitin hafa verið eins konar yfirlit yfir þá þjónustu sem í boði var á staðnum. Veggirnir hafa svo jafnframt að geyma upplýsingar um konurnar og viðskiptavini þeirra. Veggina prýða, á alls 150 stöðum, málverk og textar.

 

Flest allt skrautið er merkt með nafni málarans og nöfnin gefa til kynna að hóruhúsið hafi ekki einungis laðað að sér viðskiptavini frá sjálfri borginni, heldur einnig mörgum nærliggjandi bæjum.

 

Teikningar af m.a. skipum og sjávarfuglum gefa til kynna að Pompei var útgerðarborg og margir viðskiptavinanna sjómenn. Mörg nöfn koma fyrir aftur og aftur sem sýnir að margir gestanna voru fastakúnnar.

Í einu veggjakrotinu hefur viðskiptavinur látið í ljós ánægju sína með orðunum: „Ég fékk góðan drátt hérna“. Í annarri áletrun er gleðikonunni Viktoríu lýst sem „Victrix“, þ.e. drottnara. Á þriðju myndinni kemur fram að gleðikonan „Restitua búi yfir miklum yndisþokka“.

Á öðrum vegg stendur að „París og Castrensis séu fallegir“. Nöfnin gefa til kynna að karlmenn hafi einnig selt sig í vændishúsinu.

Aðrar gleðikonur falbuðu sig á öldurhúsum borganna og enn aðrar héldu til í litlum skonsum í vændishúsum með fátt annað innanstokksmuna en hálmdýnu. Eftir myrkur lýstu ódýrir olíulampar upp herbergiskytrurnar og fylltu þær af illa þefjandi reyk.

 

„Hver sem vill má stíga hér inn, útataður í svörtu sóti frá vændishúsinu“, segir í rómversku kvæði.

 

Vændishús þessarar gerðar var grafið upp úr öskunni í Pompei. Öll tíu herbergi vændishússins voru gluggalaus og án hurða. Þykk gardína aðgreindi kytruna frá sameiginlegu rýmunum þar sem veggmyndir með kynlífsmyndum prýddu veggina.

 

Myndirnar gegndu sennilega hlutverki eins konar yfirlits yfir þá þjónustu sem gleðikonurnar veittu.

Í vændishúsinu í Pompei eru veggmyndir sem gefa til kynna hvers kyns kynlíf var í boði.

Kristnir gagnrýndu greiðslur fyrir kynlíf

Kaup á holdlegum lystisemdum í Róm voru þó ekki einvörðungu fyrir karla. Andstætt við það sem viðgekkst í Aþenu nutu konur í Róm verulega mikils frelsis og áræðnustu yfirstéttarkonurnar leituðu í kynferðisleg ævintýri utan hjónabandsins.

 

Konurnar fýsti oft að leggjast með vöðvastæltum skylmingaþrælum sem yfirleitt voru í ánauð. Menn þessir voru álitnir vera kynlífstákn og margar sögur voru sagðar af efnuðum konum sem greiddu fyrir nótt með skylmingaþræli.

 

Ádeiluhöfundurinn Juvenal furðaði sig oft á þessari hrifningu því örum þaktir skylmingaþrælarnir voru ekki beinlínis neitt augnayndi.

 

„Það sem konur elska í fari skylmingaþræla er sverð þeirra“, var skýring hans.

Sumar gleðikonur létu sennilega rita orðin „Eltu mig“ neðan á sandala sína.

Viðskiptavinirnir voru lokkaðir með öllum brögðum

Mellur og eigendur vændishúsanna gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að laða að viðskiptavini. Ein furðuleg aðferð var fólgin í notkun sérlega útbúinna sandala.

 

Sómakærar konur áttu helst ekki að vekja á sér athygli til forna.

 

„Gift kona sem reynir að forðast losta þeirra sem vilja forfæra hana, má aðeins skreyta sig svo mikið að hún virðist ekki vera hirðulaus“, áréttaði rómverski heimspekingurinn Seneca.

 

Annað gilti þó um vændiskonur því þeirra hagur var að vekja eins mikla athygli og hugsast gat til að laða að viðskiptavini. Margar þeirra gengu því í einkar eggjandi fötum.

 

Aðrar klæddust skikkjum sem voru að öllu jöfnu ætlaðar körlum. Skikkjur kvennanna voru hins vegar hafðar litskrúðugar til að þær mætti aðgreina frá hvítum skikkjum karlanna.

 

Þá voru jafnframt notuð skilti til að vísa veginn að vændishúsunum. Í Pompei voru notuð reðurtákn til að gefa til kynna hvar hóruhúsin væri að finna.

 

Einstaklega hugvitssamleg auglýsing á rætur að rekja til þess tíma er Rómverjar réðu ríkjum í Egyptalandi: Þar var að finna lampa með lögun sandala. Á skósólanum stendur „Eltu mig“.

 

Fræðimenn ætla að lampinn hafi verið mótaður með sömu lögun og sandalarnir sem vændiskonur gengu í. Þegar þær gengu um skildu þær eftir för á jörðinni sem viðskiptavinir þeirra gátu fylgt til að rata á hóruhúsið.

Þrátt fyrir að vændiskonum reyndist oft erfitt að draga fram lífið á útjaðri samfélagsins voru þær þó lausar við útskúfun sem átti rætur í trúarlegum fordómum.

 

Þetta átti þó eftir að breytast þegar kristin trú fór að breiðast út á fyrstu öldunum eftir fæðingu Krists. Pétur postuli var einn þeirra sem lagði áherslu á að kristnir menn skyldu forðast að kaupa vændi:

 

„Vitið þið eigi að líkamar ykkar eru limir Krists? Á ég að gera limi Krists að limum skækju? Nei og aftur nei!!“

 

Þegar kristni breiddist út voru vændiskonur fyrir vikið iðulega útskúfaðar og fordæmdar.

 

Einn þátt af vændinu vildu kristnir menn þó ekki vera án en með því er átt við vændisskattinn sem sá skattheimtumönnum fyrir svo miklum tekjum að honum var haldið við lýði til ársins 498, þ.e. í hartnær 200 ár eftir að rómverski keisarinn Konstantín tók kristni opinberlega.

Lesið meira um vændi á fornöld

 

  • C. Faraone & L. McClure: Prostitutes & Courtesans in the Ancient World, University of Wisconsin Press, 2006

 

  • Nils Johan Ringdal: Love for Sale: A World History of Prostitution, Grove Press, 2003

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: ELSE CHRISTENSEN

© akg-images/Ritzau Scanpix. © metmuseum.org. © The Stapleton Collection/Bridgeman Images. © Magite Historic/Imageselect. © Volgi archive/Imageselect. © Imageselect. © Andrea Jemolo/Bridgeman Images. © collections.louvre.fr.

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Lifandi Saga

Af hverju er rússneskur bær í Noregi?

Jörðin

Leiða loftslagsbreytingar til fleiri jarðskjálfta?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is