Nýleg greining á vindhraða um allan heim eykur bjartsýni varðandi nýtingu vindorku.
Á síðustu þrettán árum hefur vindstyrkur farið vaxandi í Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku, einmitt þar sem flestar landmyllur standa.
Greiningin var unnin af vísindamönnum hjá Princetonháskóla í BNA og niðurstöðurnar koma á óvart því hlýnandi loftslag togar fremur í hina áttina.
Frá 2010 hefur meðalvindhraði aukist um 5,4% í Norður-Ameríku, Evrópu og Asíu, þar sem vindmyllur eru flestar.
Hitabeytingar ýta við vindnum
Vindstyrkur á þeim breiddargráðum þar sem flestar vindmyllur standa ræðst af hitamuninum milli hitabeltisins og norðurslóða.
Munurinn fer nú stöðugt minnkandi þar eð hiti hækkar hraðar á norðurslóðum en annars staðar í heiminum. Þess vegna dró almennt úr vindstyrk á árunum 1978-2010.
Greiningin sýnir að á hverjum áratug þessa tímabils dró úr vindstyrknum um 2% eða sem svarar 0,8 m/sek.
En frá 2010 hefur meðalvindhraði aukist um 5,4%, úr 3,13 í 3,30 m/sek. Þetta virðist kannski ekki mikið en þýðir í raun að hver vindmylla snýst nú að meðaltali í talsvert fleiri klukkstundir en fyrir þrettán árum.
Vindmyllur fá 17 % meiri vind
Til að vindmylla nái að framleiða raforku þarf vindhraðinn að vera meiri en 3 m/sek. og vísindamennirnir reiknuðu út að þróunin frá 2010 leiði af sér að vindmyllur fái nú að meðaltali um 17% meiri nýtilegan vind.
Verði of hvasst, yfirleitt þegar vindhraði fer yfir 25 m/sek. eru vindmyllur yfirleitt látnar slá út til að komast hjá skemmdum. Þetta er gert þannig að skrúfublöðunum er snúið og bremsur notaðar til að stöðva snúninginn.