Börn og ungt fólk þjást í síauknum mæli af kvíða, streitu, þunglyndi og öðrum geðrænum kvillum. Ástæður þessarar þróunar eru margar og erfitt getur reynst að henda reiður á þeim. Engu að síður geta foreldrar ýmislegt gert til að brynja börn sín gegn vandamálum.
Nýlegar rannsóknir hafa nefnilega leitt í ljós að foreldrar geta beitt nokkrum einföldum ráðum til að gera börn sín dugmeiri þannig að þau verði betur í stakk búin að takast á við áskoranir lífsins.
Við höfum rætt við tvo af fremstu sérfræðingum heims á þessu sviði til að reyna að komast að raun um hvað seigla felur í sér og hvað þurfi til að barn geti tamið sér seiglu.
ANN MASTEN

Bláa bókin
Titill: Ann Masten er prófessor við barnaþroskadeildina við háskólann í Minnesota í Bandaríkjunum.
Rannsóknir: Hún hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu fyrir rannsóknir sínar á sviði seiglu, einkum hvað áhrærir heimilisleysi, fátækt, hörmungar, stríð og fólksflutninga. Ann Masten hefur hlotið margs konar viðurkenningar og gefið út fleiri en 300 vísindarit, m.a. bókina „Ordinary Magic: Resilience in Development“.
Spurningar & svör: Seigla býr börn undir lífið
Lifandi vísindi:
Hvað er seigla?
Ann Masten:
„Með seiglu er átt við getu barna til að laga sig með árangursríkum hætti að áskorunum sem kunna að reynast þeim erfiðar. Seigla barna er háð mörgum þáttum og ýmsu sem veitir þeim vernd í lífinu, ekki aðeins aðlögunarhæfni þeirra heldur einnig ýmsum aðstæðum sem hafa áhrif á líf barnanna.“
„Mikilvægir þættir fyrir seiglu barna eru fólgnir í tengslum þeirra við nánustu ættingja og annað fólk í fjölskyldunni og samfélaginu, auk annars sem tryggir öryggi, heilsuvernd og aðgengi að nauðsynjum.“
Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að foreldrar ættu að spara reiðilegu orðin. Ekki er aðeins hætt við að börnin eigi eftir að þjást af geðrænum kvillum fyrir vikið, heldur minnka heilar þeirra að sama skapi. Hér má lesa vísindalegar leiðbeiningar um vænlegasta uppeldið.
Lifandi vísindi:
Hvers vegna er brýnt að búa yfir seiglu?
Ann Masten:
„Seigla býr börn undir hinar ýmsu hættur, bæði óvæntar og þær sem búast mætti við. Börn sem búa yfir seiglu eiga auðveldara með að aðlaga sig og leita hjálpar þegar þau hafa þörf fyrir, auk þess að byggja upp „varnarmúra“ sem ekki einvörðungu taka til nánustu fjölskyldu.
Margir af mikilvægustu þáttunum fyrir seiglu í börnum stuðla jafnframt að heilbrigðum þroska og velgengni á öðrum sviðum á meðan börnin vaxa úr grasi.“
„Barnæskan felur í sér ógrynni smávægilegra áskorana sem gagnast í því skyni að slípa getuna til að standast alvarlegri raunir síðar meir á lífsleiðinni.
Mikilvægt er að börn öðlist reynslu í að takast á við streitu og vonbrigði, til að verða fær um að þróa með sér getu og sjálfstraust sem gagnast til að vinna úr mótlæti, svolítið líkt og við á um ónæmiskerfi okkar sem þarf að komast í svolitlum mæli í tæri við bakteríur eigi það að starfa sem skyldi.“
Michael Ungar

Bláa bókin
Titill: Michael Ungar lagði grunninn að „Seiglurannsóknarsetrinu“ við Dalhousie-háskóla í Kanada.
Rannsóknir: Hann stundar rannsóknir á seiglu barna, fjölskyldna og samfélaga. Að auki er Michael Ungar ráðgjafi alþjóðlegra samtaka á borð við Rauða krossinn og Barnaheill. Hann hefur jafnframt samið ríflega 250 vísindagreinar og bókakafla, auk þess að hafa ritað 17 bækur.
Spurningar & svör: Þátttaka styrkir barnið
Lifandi vísindi:
Búa börn yfir minni seiglu en áður fyrr?
Michael Ungar:
„Við erum almennt séð ofurviðkvæm fyrir öllu því sem börnum okkar finnst óþægilegt. Fyrir vikið er þeim aldrei ögrað og þau þróa ekki með sér seiglu. Ef foreldrarnir láta t.d. þriggja ára barn hafa spjaldtölvu í bílferðum til að forðast að barninu leiðist er hætt við að barnið læri aldrei að bíða, sýna þolinmæði eða takast á við leiða.
Fyrir bragðið þróar barnið ekki með sér þá innri færni sem það fær þörf fyrir síðar meir á lífsleiðinni, svo sem eins og að vera athugult, að meta aðstæður og skilja hvenær það á að tala og hvenær ekki.“
„Í fjölskyldum sem eru illa staddar fjárhagslega, félagslega, stjórnmálalega eða lifa við styrjaldir, læra börn að temja sér seiglu, því annað er ekki í boði.
Þessi börn hafa ekki þörf fyrir aukna seiglu heldur meiri vernd. Í fjölskyldum sem njóta aukinna forréttinda getum við komið auga á að foreldrar, skólar og samfélagið aðstoði börnin oft ekki við að byggja upp ævilanga seiglu.
Fyrir bragðið verðum við vör við börn sem komin eru í háskóla og vita ekki hvernig þau eiga að ræða við prófessorana í því skyni að komast til botns í vandamáli. Þau verða óheyrilega taugaóstyrk ef þau þurfa að tala yfir allan bekkinn og vita heldur ekki hvernig þau eiga að bregðast við ef upp kemur ágreiningur við félagana.“
Sum börn höndla streitu og óreiðu betur en önnur. Samkvæmt vísindamönnum á bak við litla rannsókn getur einföld breyting á kvöldrútínu gert gæfumuninn.
Lifandi vísindi:
Hvað geta foreldrar gert til að stuðla að seiglu í börnum sínum?
Michael Ungar:
„Foreldrar geta stuðlað að seiglu í börnum sínum með því að hvetja þau til að taka þátt í gagnlegum, hagnýtum verkefnum, í líkingu við það að ryksuga, viðra hundinn eða að taka úr uppþvottavélinni.
Málið snýst í rauninni ekki einungis um að ljúka við eitthvert verkefni, heldur að skapa tengslatilfinninguna. Þetta má gera á þann hátt að verkefnin verði vanaverk, þannig að bæði barnið og aðrir fjölskyldumeðlimir finni að barnið sé verðugur hluti af fjölskyldunni og hafi fengið það hlutverk að annast um aðra.“
„Ég er mjög hlynntur því að foreldrar biðji börnin sín ekki einvörðungu um að taka til í herberginu sínu því þau hafa engar áhyggjur af slíku og öðlast ekki styrk þó þau geti sinnt þessu.
Þess í stað geta foreldrar gert það að reglu að hafa 12 ára gömul börn með í innkaupaferðir og beðið þau um að elda fyrir fjölskylduna. Máltíðin og matseldin stuðla að sjálfsvitund sem gefur til kynna að börnin tilheyri ekki aðeins fjölskyldunni heldur hafi stjórn á því sem þau eru að gera. Málið snýst um frammistöðumáttinn.“
„Þá geta foreldrarnir jafnframt látið barnið bera raunverulega ábyrgð á gæludýri eða einstaklingi utan fjölskyldunnar.
Ef foreldrarnir hyggjast aðstoða nágranna með garðslátt, þá væri ráðlegt að fela barninu það verkefni. Þá eru það ekki einungis foreldrarnir sjálfir sem átta sig á að barnið er duglegt, nærgætið og fært um að vera til gagns.“
„Foreldrar skyldu enn fremur sjá til þess að börnin myndi ólíkar tengingar utan fjölskyldunnar, því slíkt gagnast börnunum við að skapa sér styrka sjálfsmynd sem verndar þau gegn útskúfun og gegn því að efast um sjálf sig.
Þetta er unnt að gera með því að fagna hátíðum og þar með eigin menningu, í hópi annarra, því þetta gerir börnin stolt af uppruna sínum.“