Search

11 staðreyndir um snjó

Hvað er snjór? Geta tvö snjókorn verið eins? Lesið ykkur til um snjó og komist að raun um hvað hrindir af stað snjóflóðum og hvernig móta skuli fullkominn snjóbolta.

BIRT: 20/12/2022

LESTÍMI:

4 mínútur

1. Snjókorn hefur að geyma 100 ískristalla

Snjór myndast þegar vatnsgufa breytist í ís við mjög lágan hita. Allt eftir hitastiginu myndast ískristallar á minnst 80 ólíka vegu, m.a. sem nálar og strendingar. Ískristallarnir safnast saman, allt þar til þeir verða svo þungir að þeir falla til jarðar sem snjór. Þetta á sér yfirleitt stað á hraða sem nemur 5 km á klukkustund.

 

Eitt snjókorn getur hæglega falið í sér allt að eitt hundrað kristalla, en þvermál þess er allt að 2,5 cm við venjulegar aðstæður.

 

2. Stærsta snjókorn veraldar var 38 cm í þvermál

Samkvæmt heimsmetabók Guinness féll stærsta snjókorn veraldar í hríðarbyl í Fort Keogh í bandaríska fylkinu Montana í janúar árið 1887.

 

Heimildir herma að snjókornið hafi verið alls 38 sentímetrar í þvermál. Það svarar nokkurn veginn til stærðarinnar á strandbolta.

 

3. Varmi veldur stækkun ískristalla

Ískristallar verða minni þeim mun kaldara sem skýið er

Ískristallar myndast þegar hitastigið í vatnskenndum skýjum lækkar niður undir frostmark. Ískristallar myndast nær ætíð með samhverfa, sexhyrnda lögun og er það formgerð vatnssameindanna sem ræður því. Hvernig einstaka kristallar líta út nákvæmlega ræðst af hitastigi loftsins og rakastiginu.

 

Því kaldara sem skýið er, þeim mun minni vatnsgufu rúmar það og ískristallarnir verða fyrir vikið smágerðir og þéttir í sér. Á hinn bóginn stækka ískristallarnir ef hitastigið hækkar, því skýið felur þá í sér meiri vatnsgufu.

 

4. Tvö snjókorn geta í raun verið eins

Undir lok 19. aldar vaknaði áhugi fyrstu vísindamannanna á snjókornum og ólík lögun kornanna kom þeim verulega á óvart.

 

Athuganir vísandamannanna fengu þá til að álykta að tvö snjókorn gætu aldrei verið eins. Árið 1988 fundu bandarískir veðurfræðingar aftur á móti tvö eins snjókorn og tókst þar með að afsanna kenninguna. Snjókorn geta með öðrum orðum verið með afar ólíka lögun en möguleikarnir eru þó ekki óþrjótandi.

 

5. Núll gráðu kaldur snjór leiðir af sér bestu snjóboltana

Eiginleikar snjóbolta ráðast af aðstæðunum sem hann er mótaður við.

 

Sé hitinn undir frostmarki inniheldur snjór aðeins lítið hlutfall vatns og því yrði snjóbolti úr slíkum snjó ójafn og gljúpur. Þá yrði erfitt að láta hann loða saman, hann hefði takmarkaðan massa og myndi leysast upp í púðursnjó.

 

Sé hitinn um frostmark eða hærri eykst vatnsinnihaldið og snjóboltinn loðir betur saman, er með meiri massa, auk þess sem auðveldara er að kasta honum, hann fer hraðar og af meiri nákvæmni.

Vænlegast er að nota snjó nærri frostmarki, ef ætlunin er að búa til hinn fullkomna snjókarl eða að fara í snjóboltaslag.

 

Fyrsti snjóboltaboltaslagurinn sem vitað er um átti sér stað árið 2013 í borginni Seattle í Bandaríkjunum. Þátttakendur voru 5834 talsins og „skotfærin“ vógu alls 74 tonn.

 

6. Snjór olli blóðbaði

Í Bandaríkjunum urðu snjóboltar kveikjan að blóðbaði hinn 5. mars árið 1770.

 

Blóðbaðið hófst með því að breskur hermaður sló ungan dreng sem hafði espað hann upp. Drengurinn kallaði saman nokkra vini sína og í sameiningu hentu þeir snjóboltum, ísklökum og rusli í hermanninn.

 

Fleiri bættust í hópinn og uppreisnarseggirnir héldu áfram að henda klakastykkjum og grjóti í átt að hermönnunum. Bresku hermennirnir svöruðu ekki árásinni en þegar eldiviðarbútur lenti á einum þeirra féll hann til jarðar og skot hljóp úr byssunni hans fyrir slysni.

 

Skelfing greip fljótt um sig og hermennirnir byrjuðu að skjóta inn í mannfjöldann.

 

Alls fimm voru drepnir og sex særðust.

 

7. Þannig myndast snjóflóð

Skíðaiðkendur geta leyst úr læðingi snjóflóð ef þeir renna sér á óstöðugum snjó.

Snjóflóð myndast þegar hárfínt jafnvægið, sem að öllu jöfnu festir snjóinn við fjallshlíðarnar, truflast. Á fjöllum liggur snjórinn iðulega í tveimur lögum. Undir er að finna þungan, þéttan gamlan snjó og að ofan er svo lag af tiltölulega nýföllnum snjó. Þar sem snjórinn er í halla togar þyngdaraflið í nýfallna, óþétta snjóinn. Það eina sem heldur efra laginu föstu er viðloðunaraflið milli snjólaganna tveggja.

 

Ef neðra lagið einhverra hluta vegna er léttara en hið efra skerðist jafnvægið milli þyngdaraflsins og viðloðunaraflsins. Minnsta breyting getur þá orsakað snjóflóð, jafnvel getur skíðaiðkandi sjálfur hrundið því af stað.

 

Mannskæðasta snjóflóð sögunnar átti sér stað í ítölsku Ölpunum árið 1916. Þar fórust um 10.000 manns.

 

8. Risavaxin myndastytta úr snjó vó sex tonn

Snjókarlar koma fyrir í gömlum textum allt frá árinu 1380, en gera má ráð fyrir að hefðin sé enn eldri. Stærsti snjókarl sem nokkru sinni hefur verið búinn til var 37 metrar á hæð, en hann var gerður í fylkinu Maine í Bandaríkjunum árið 2008. Vinnan við að útbúa þennan sex tonna snjókarl – sem var reyndar snjókerling – tók heilan mánuð.

 

9. Alls 4000 manns fórust í hríðarbyl

Um 4000 manns fórust í hríðarbyl sem geisaði í Íran í febrúar árið 1972. Óveðrið stóð yfir í sex daga og snjóþykktin nam sums staðar allt að átta metrum.

 

Nokkur þorp grófust í snjó ásamt íbúum þeirra.

 

10. Ískristallar ljá snjó hvítan lit

Snjór fær hvítan lit sinn af tenntri lögun ískristallanna. Þegar sólarljósið lendir á kristöllunum breytist stefna ljóssins og það er berst í allar áttir, með þeim afleiðingum að snjórinn virðist vera hvítur.

 

11. Hvaða líkur eru á hvítum jólum?

Hversu líklegt er að það verði hvít jól? Núna, nokkrum dögum fyrir jól eru hvít jól á Íslandi nokkuð örugg.

 

Skilgreiningin á hvítum jólum er breytileg landa á milli. Í flestum löndum þarf jörð einungis að vera þakin snjó en í Bandaríkjunum verður snjóþykktin að nema minnst 2,5 cm klukkan sjö að morgni jóladags.

 

Á árunum 1921 til 2008 var 37 sinnum alhvít jörð á jóladag í Reykjavík. Hafa ber í huga að hér er miðað við kl. 9 að morgni dags og getur snjóinn hafa tekið upp síðdegis í einhverjum tilvikum.

 

Ef aðeins er horft á þessa tölfræði má því segja að það séu rúmlega 40% líkur á snjó í Reykjavík á jóladag. Til samanburðar má geta þess að í Kiruna í Svíþjóð eru 99% líkur á hvítum jólum.

BIRT: 20/12/2022

HÖFUNDUR: Karen Grubbe

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Mick Lissone

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is