Áætlanir og samstarf einkenna greind dýr

Stórir apar og höfrungar eru meðal greindustu dýra. Kolkrabbar eru líka greindir. Þeir geta t.d. skrúfað lok af sultukrukku, sem telst greindartengt atferli.

BIRT: 11/07/2023

LESTÍMI:

4 mínútur

 

Greind er torráðið fyrirbrigði sem erfitt er að skilgreina.

 

Þrátt fyrir margra ára rannsóknir eru enn miklar efasemdir um hvað greind sé í raun og veru eða hvort yfirleitt sé mögulegt að finna heildstæða skilgreiningu. Nú vilja margir vísindamenn fremur tala um mismunandi gerðir greindar.

 

Rannsóknir á greind dýra eru svo miklum vandkvæðum bundnar að erfitt er að meta nákvæmlega hvað dýrin gera í raun þegar þau takast á við tiltekið verkefni.

 

Apar nota áhöld

Til eru mörg dæmi um að apar noti ýmis áhöld, hvort heldur það er til að finna fæðu eða bara auðvelda sér verk.

Grafa út skordýr

Simpansar og fleiri apar geta tekið upp á því að nota greinar til að ná í fæðu. Mjór pinni er hentugt áhald til að plokka maura út úr maurabúi.

Steinn sem hnotubrjótur

Kapúsínapar í Mið- og Suður-Ameríku nota oft steina til að brjóta hnetur. Þeir leggja hnetuna á stóran stein eða tré og berja svo steini á hnetuna.

Steinar mola kræklingaskeljar

Makakapar m.a. í Taílandi nota smáa og stóra steina til að brjóta skeljar utan af t.d. kræklingi eða ostrum, sem þeir gæða sér svo á. Þeir eiga líka til að brjóta krabbaskeljar á sama hátt.

 

Til að meta greind dýrs neyðast vísindamenn oft til að rannsaka þau á grundvelli viðmiða sem notuð eru til að ákvarða greind manna. Þetta eru atriði á borð við hæfni til að leysa verkefni, til að vinna saman, til að hugsa óhlutbundið og til að hugsa fram í tímann.

 

Rannsóknir á greind dýra eru líka erfiðar vegna þess að margvíslegt flókið atferli er í rauninni eðlislægt viðbragð, sem sagt forritað í genin og því engin þörf fyrir að „hugsa“. Bestu dæmin um flókið en eðlislægt atferli er að finna í hegðun félagslyndra skordýra þegar þau byggja bú sín

 

Brýst út og opnar krukkur

Kolkrabbar eru dæmi um hryggleysingja sem búa yfir greind.

 

Í sædýrasöfnum er vel þekkt að kolkrabba þarf að loka tryggilega inni til að þeir sleppi ekki út. Þeir geta líka skrúfað lok af krukku og náð tappa úr flösku.

 

Kolkrabbar vita líka hvenær erfiði er líklegt til að skila árangri.

 

Sé óopnanleg glerkrukka fyllt af rækjum og sett niður í fiskabúrið átta reyndir kolkrabbar sig fljótt á því að verkefnið er óleysanlegt og láta síðan sem þeir sjái ekki rækjurnar.

 

Ungir kolkrabbar reyna hins vegar án afláts að opna eða brjóta krukkuna, þar til þeir eru orðnir örmagna. Atferlisfræðingar telja kolkrabba hafa greind á við kött eða mögulega á við hund.

Samvinna

Hæfnin til að vinna saman hefur alltaf verið talin merki um háþróaða greind og álitin ein mikilvægasta ástæða þess að menn hafa náð svo langt sem raun ber vitni.

 

En mörg dýr eru líka fær um að vinna saman. Ljón veiða t.d. saman og félagslynd skordýr svo sem maurar og býflugur byggja stór bú í sameiningu og annast saman ungauppeldi og mataröflun.

 

Fjöldi fuglategunda vinnur saman til að gæta unga sinna og sumir veiða í hópum, t.d. Galapagoshaukar sem viðhafa skýra vinnuskiptingu.

 

Krákur geta rænt fiski af línu með því að skiptast á um að draga línuna og halda henni til að hún renni ekki til baka, en aðrir fuglar ná svo fiskinum á land.

 

Galapagoshaukar veiða saman. Sumir skima eftir bráð, aðrir reka bráðina til þeirra sem svo ráða niðurlögum hennar.

Sexhyrningar heppilegastir

Menn geta beitt stærðfræði til að reikna út að sexhyrningar séu heppilegasta formið til að hólfa ákveðið rými, rétt eins og býflugur gera. Flugurnar gera þetta þó einungis vegna þess að í því felst bæði vinnu- og efnissparnaður.

 

Þrátt fyrir erfiðleikana við að ákvarða greind dýra hafa menn ákveðið slegið því föstu að sum dýr séu miklu greindari en önnur.

 

Greindustu dýrin eru stórir apar og litlir tannhvalir, sem sagt höfrungar, en hröfnungar og páfagaukar hafa líka reynst hafa hæfni til að leysa þrautir hugsa óhlutbundið.

Uglur eru oft taldar vitrar en það stenst ekki. Margir aðrir fuglar eru miklu greindari.

Uglur eru heimskar

Uglur hafa öldum saman verið notaðar sem tákn um fróðleik og þekkingu. En það hlýtur að stafa af andlitslögun þeirra því í rauninni er ekkert hæft í þessu.

 

Margir atferlisfræðingar hafa rannsakað uglur og ekki fundið nokkur ummerki um sérstaka greind.

 

T.d. er erfitt að temja uglur, þær hafa slakt minni og geta ekki lært flóknar athafnir.

 

Sé hæfni uglunnar borin saman við getu t.d. hröfnunga eða páfagauka til að leysa verkefni reynist geta uglunnar miklu slakari.

BIRT: 11/07/2023

HÖFUNDUR: Ritstjórn

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Shutterstock, © Manoj Shah/Getty, © Berndt Fischer/SPL, © P. Wegner/Arco

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is