Lifandi Saga

Að sjá fangana var áfall: Hermenn grétu

Vorið 1945 brjóta bandamenn upp hliðin á útrýmingarbúðum Þriðja ríkisins. Á leiðinni til Berlínar hafa hermennirnir þegar séð dauða og eyðileggingu en hörmungarnar í búðunum eru langtum svívirðilegri.

BIRT: 25/03/2024

Fnykurinn er viðbjóðslegur og versnar bara eftir því sem Belton Cooper höfuðsmaður og aðrir í 3. brynvarða fylki hans nálgast Nordhausen í miðju Þýskalandi.

 

Þýskir hermenn hafa yfirgefið herbúðir sínar nóttina áður og því ætti allt að vera með friði og spekt.

 

Cooper og bílstjóri hans aka hægt inn í borgina í jeppa þegar bandarískur majór stöðvar þá. Sá er náfölur.

 

„Cooper, við höfum vissulega séð margt ógeðslegt í þessari styrjöld en það sem blasir við þér í næstu götu tekur öllu öðru fram“, staðhæfir majórinn.

„Ég hefði aldrei trúað að ég ætti eftir að sjá lifandi afturgöngu“.

Bandarískur hermaður í Dora-Mittelbau

Höfuðsmaðurinn skipar bílstjóranum að halda áfram og þegar þeir fara fyrir næsta horn kemur í ljós einhver vesælasta mannvera sem þeir hafa séð, íklædd röndóttum buxum og ber að ofan.

 

Cooper virðist þetta líkjast einna helst afturgöngu. Húð vesalingsins virðist vera gagnsæ plastfilma sem hefur verið dregin yfir rifbein og soguð inn að beinum.

 

„Ég hefði aldrei trúað að ég ætti eftir að sjá lifandi afturgöngu“, segir bílstjóri Coopers.

 

Þessi vera er svo grindhoruð að Bandaríkjamennirnir geta ekki séð hvort þarna fari karlmaður eða kona.

 

Ekki er heldur hægt að greina neitt slíkt í andlitinu. Þeir sjá bara höfuðkúpu þar sem augun virðast hafa sokkið inn í svartar augntóttirnar.

Margir fanganna voru svo veikburða að þeir gátu ekki staðið uppréttir.

Þegar jeppinn heldur lengra niður götuna koma fleiri beinagrindur íklæddar lörfum fram.

 

Margar aðrar voru liggjandi á götunni og hermennirnir voru skelfingu lostnir. Cooper á í erfiðleikum með að átta sig á því hvað það er sem ber fyrir augu.

 

En þessi hræðilega sjón er einungis upphafið. Handan við hornið er að finna útrýmingarbúðir nasista, Dora-Mittelbau. 

 

Rússar sáu viðbjóðinn fyrstir

Fyrir Cooper höfuðsmann og aðra bandaríska hermenn á vesturvígstöðvum voru hörðustu bardagarnir að baki.

 

Her Hitlers hafði í upphafi apríl 1945 verið sem svipur hjá sjón og flestir þýskir hermenn vissu sem var að þeir höfðu tapað.

 

Rússar nálguðust Berlín óðfluga úr austri meðan bandarískur og breskur herafli streymdi að úr vestri. Þriðja ríkið var komið að sínu skapadægri.

 

Eftir því sem sókn Bandamanna miðaði áfram þurftu Þjóðverjar hvað eftir annað að yfirgefa útrýmingarbúðir sem voru næstar víglínunni.

 

Í nokkrum búðum höfðu nasistar eytt öllum ummerkjum eftir bestu getu en eftir því sem framrás óvinarins varð hraðskreiðari höfðu yfirmenn ekki lengur tíma til að brenna öll sönnunargögnin.

Í námugöngum nálægt Buchenwald fangabúðunum fundu bandarískir hermenn þúsundir giftingarhringa sem nasistar höfðu stolið frá föngum sem þeir höfðu myrt.

Búðirnar voru yfirgefnar í hasti og meðan þýskir hermenn þvinguðu mestan hluta fanganna út í langar dauðagöngur til annarra útrýmingarbúða voru veikustu fangarnir skildir eftir að baki gaddavírsins.

 

Nasistar reyndu t.d. að rýma útrymingarbúðirnar Majdanek í austurhluta Póllands í miklum flýti, þegar Rauði herinn nálgaðist sumarið 1944. Ríflega 12.000 fangar voru fluttir í vesturátt en þegar sovéskir hermenn óku þann 23. júlí 1944 fagnandi um hlið búðanna, þá voru aðeins „1.500 vesalingar“ skildir eftir eins og Rússar orðuðu það.

 

Risavaxin fjöll af skóm, töskum, kjólum og frökkum í skemmum voru til vitnis um hvers konar slátrun hafi átt sér þar stað.

„Þetta var kvennabraggi og það voru frosnir blóðpollar og dauðir líkamar út um allt gólf.”

Anatolij Shapiro, rússneskur yfirmaður

Eftir frelsun Majdanek hindruðu harðir bardagar frekari afhjúpun á voðaverkum nasista en hálfu ári síðar – í janúar 1945 – náðu Rússar til Auschwitz að baki snævi þöktum skógum í sunnanverðu Póllandi.

 

Tæplega 60.000 fangar voru fluttir á brott en um 7.000 sárþjáðar manneskjur lágu á víð og dreif í þessum gríðarlega stóru fangabúðum.

 

„Ég opnaði dyrnar að einum bragga. Fnykurinn var yfirþyrmandi. Þetta var kvennabraggi og það voru frosnir blóðpollar og dauðir líkamar út um allt gólf. Milli þeirra lágu hinir lifandi ennþá hálfnaktir og einungis íklæddir þunnum nærfötum – í janúar! Hermenn mínir hörfuðu undan í skelfingu.

 

Einn þeirra sagði: „Ég þoli þetta ekki lengur, þetta getur ekki verið satt!“,“ minnist yfirmaðurinn Anatolí Shapiro.

Ein ömurlegasta mynd stríðsins var tekin í Buchenwald fangabúðunum, sem voru staðsettar 250 km suðvestur af Berlín: Horuðum, dauðum föngum staflað á vagn.

Rússar skráðu niður uppgötvanir sínar, bæði í kvikmyndum og myndum sem voru sendar til áróðursdeildarinnar í Moskvu.

 

Í fyrstu komu skýrslur um þessa fundi samt einungis út í nokkrum rússneskum blöðum, Bandaríkjamenn og Bretar trúðu ekki þessum tíðindum.

 

Litið var á skýrslurnar sem áróðursplagg Rússa – þrátt fyrir að vitað væri um tilvist slíkra útrýmingarbúða. Bandamenn gátu ekki trúað að ástandið gæti verið svo viðurstyggilegt.

 

Vorið 1945 átti breski og bandaríski herinn eftir að kynnast viðlíka aðkomu af eigin raun. 

 

Frelsarar mættu lifandi beinagrind

Þrátt fyrir að margir bandarískir og breskir hermenn hefðu heyrt talað um útrýmingarbúðir í Póllandi var enginn undirbúinn því sem beið þeirra á vesturvígstöðvum.

 

Rétt eins og Cooper höfuðsmaður og félagar hans höfðu fundið ógeðslegan dauninn frá búðunum þegar Bandaríkjamenn nálguðust Dora-Mittenbau, var þessi fnykur það fyrsta sem mætti hermönnunum sem náðu öðrum útrýmingarbúðum vorið 1945.

Bandarískir og breskir hermenn frelsuðu fanga á vesturvígstöðvunum.

Fnykurinn kom aðallega frá fjölmörgum rotnandi líkum sem lágu á jörðinni. Þjóðverjar höfðu á flótta sínum einungis kastað kalki yfir hina látnu í von um að það myndi draga úr verstu fýlunni.

 

En kalkið bætti fremur nístandi súrri lykt við viðbjóðslegan fnykinn af úldnu kjöti og hörmulegu hreinlæti.

 

Hermennirnir gleymdu hins vegar lyktinni þegar þeir rákust á eftirlifandi fanga.

 

Þeir voru flestir í svo slæmu ástandi að margir stóðu grafkyrrir eins og styttur og horfðu á hermennina meðan þeir studdu hvern annan til að velta ekki um koll.

 

Í Bergen-Belsen sem breskar herdeildir frelsuðu þann 15. apríl 1945, var hin tvítuga Hédi Fried ein af föngunum sem var ófær um að bregðast strax við frelsuninni.

 

„Ég var svo örmagna og sinnulaus að ég gat varla fundið fyrir gleði. Vissulega var ég glöð en það þarf orku til að fagna“, útskýrði hún að stríði loknu. 

Þýskir borgara voru látnir grafa fjöldagrafir fyrir látna fanga.

Borgarar voru neyddir til að horfast í augu við viðbjóðinn í búðunum

Eftir að búið var að frelsa fangana í útrymingarbúðunum voru þýskir borgarar látnir grafa látna fanga.

 

Þýskir borgarar sem voru búsettir í nágrenni búðanna báru fyrir sig að þeir hefðu talið að þetta væru bara leynilegar verksmiðjur.

 

Hermennirnir áttu erfitt með að trúa slíkum skýringum. Þjóðverjarnir voru síðan neyddir til að sjá með eigin augum grimmúðleg verk nasistanna.

 

Bandarísku hermennirnir smöluðu saman borgurum úr nágrenninu í vörubíla og neyddu þá til að grandskoða haugana af grindhoruðum líkum.

 

Skelfingu lostnar konur og gamlir menn gengu grátandi um og fengu að sjá fjöldagrafirnar, líkbrennsluofnana og eftirlifendur sem stóðu eins og afturgöngur og horfðu ásakandi á þýsku borgarana.

 

Í Ohrdruf sem var eitt af 138 útibúum Buchenwalds, var borgarstjórinn Albert Schneider fyrstur neyddur til að sjá voðaverkin.

 

„Það voru sögusagnir en við trúðum þeim ekki […] ég trúði bara ekki að Þjóðverjar væru færir um slíkan grimmdarskap“, sagði Schneider sem var augljóslega verulega brugðið.

 

Þessi reynsla – og mögulega sönnunin um villimannslegar aðferðir nasistanna í bæjarfélagi hans – var of mikið fyrir borgarstjórann. Þetta sama kvöld frömdu Schneider og eiginkona hans sjálfsmorð.

Hermenn Bandamanna voru í áfalli. Í öllum búðunum streymdu fram lifandi beinagrindur meðal hinna látnu.

 

Líkin lágu þar sem fangarnir höfðu fallið: Upp við tréveggi, í kojunum, í bröggunum og í kömrunum. Í þeim búðum þar sem nasistar höfðu með hraði aflífað fanga með hnakkaskoti lágu fórnarlömbin í stórum hrúgum.

 

Í Dora-Mittelbau var þetta einmitt það sem blasti við Cooper höfuðsmanni:

 

„Við fórum fram hjá þremur stórum hrúgum sem okkur virtist vera ýmis konar sorp, staflað upp í raðir, tæplega tveggja metra háar og 120 metra langar. Stækjan var óbærileg en þegar ég leit nánar á þetta tók ég eftir að eitthvað hreyfðist í sumum hrúgunum.

 

Mér til mikillar skelfingar varð mér ljóst að hrúgurnar samanstóðu af nöktum mannslíkum. Sumir voru reyndar ennþá á lífi og þeir hreyfðust þarna í öllum saurnum og viðbjóðnum“.

„Þessi yfirþyrmandi viðbjóðslegi fnykur fer ekki úr nösum mér“.

Aðstoðarmaður Pattons hersöfðingja.

Margir hermennirnir höfðu verið í bardögum í mörg ár en dráp á almennum borgurum í slíkum ógnarlegum mæli höfðu þeir aldrei séð. Jafnvel hinir harðsvíruðustu brustu í grát í búðunum.

 

Þegar George Patton hershöfðingi heimsótti Ohrdruf, 12. apríl, þurfti hann að fara fyrir horn á einum bragga og kasta upp. Aðstoðarmaður Pattons, Charles Codman ofurstalautinant, var einnig illa haldinn:

 

„Ég hef farið í bað, skipt um föt og reykt tvo pakka af sígarettum en þessi yfirþyrmandi viðbjóðslegi fnykur fer ekki úr nösum mér“, skrifaði Codman í dagbók sína.

 

Gyðingahermaður umkringdur

Margir fangarnir tóku, rétt eins og Hédi Fried, á móti bandamönnum án þess að sýna gleði í fyrstu.

 

Þeir þurftu fyrst að sjá hvaða hermenn þetta væru, enda höfðu fangarnir lært að ekki væri hægt að reiða sig á manneskjur í herklæðum.

 

En þegar fangarnir uppgötvuðu að hermennirnir væru ekki þýskir, heldur Bandamenn sem vildu frelsa þá tóku þeir loksins gleði sína.

 

„Ég get ekki lýst gleðinni þegar við áttuðum okkur á því að þarna færu bandarískir hermenn sem vildu hjálpa okkur. Loksins var okkur bjargað. Og smám saman, þegar okkur varð þetta ljóst, braust gleðin fram“, minnist hin ungverska Blanche Major sem var frelsuð frá Münchmühle, einum af mörgum útibúum Buchenwalds.

Í Majdanek fundust beinharðar sannanir fyrir notkun nasista á eiturgasinu Zyklon B. Gasið var afhent í pilluformi sem hvarfaðist við loftið í gasklefanum.

Brátt skjögruðu beinagrindurnar fram til þess að þakka frelsurum sínum og í skamma stund mátti sjá gleðiblik í augum fanganna.

 

Howard Cwick liðþjálfi stóð í Buchenwald með tárin rennandi niður kinnarnar þegar einn fanginn kom til hans og þurrkaði tárin með grindhoraðri hönd.

 

Cwick greindi frá því að sjálfur væri hann gyðingur – rétt eins og lang flestir fanganna í Buchenwald – og brátt var hermaðurinn nánast umkringdur af grindhoruðum verum.

 


„Þeir stilltu sér upp allt í kringum mig. Handleggir komu frá öllum hliðum til þess að snerta búning minn og andlit. Margir gripu í hendur mínar – og tóku að kyssa þær“, sagði Cwick síðar. 

Bandarískir hermenn voru ásakaðir um að hafa tekið marga SS-verði af lífi í Dachau búðunum í hefndarskyni vegna ómanneskjulegrar meðferðar á föngunum.

Súkkulaði varð föngum um megn

Þessar innilegu móttökur – sem áttu sér stað í öllum búðunum – settu varanlegt mark á bæði hermenn og hina frelsuðu en Cwick þurfti skjótt að takast á við hinn napurlega veruleika.

 

Gyðingurinn sem hafði ástúðlega þurrkað tár Bandaríkjamannsins sneri sér að vini sínum sem var í svo hörmulegu ástandi að hann lá hreyfingarlaus á jörðinni:

 

„Nachum, við erum frjálsir“, sagði hann á þýsku en vinur hans svaraði ekki.

 

„Þessu er lokið, við erum frjálsir“, reyndi hann á ný meðan hann settist niður og tók höfuð vinarins í fangið. En það kom ekkert svar, ekkert bros. Vinurinn var dáinn.

 

„Þið komið of seint. Þetta er vinur minn! Hann gat ekki beðið lengur eftir ykkur! Af hverju komuð þið ekki fyrr?“ hrópaði hann örvæntingarfullur á ensku. Cwick gat ekki annað en fundið fyrir skömm og sorg og hann var ekki einn um slíkar tilfinningar.

Árið 1945 nálgaðist Rauði herinn fangabúðirnar úr austri en Bandaríkjamenn, studdir af Bretum og Frökkum, sóttu fram úr vestri.

Frelsun útrýmingarbúðanna stóð í 10 mánuði

Nasistar komu upp 20 meginbúðum og hundruðum útibúa frá þeim sem voru oft nálægt verksmiðjum, þar sem fangarnir strituðu.

 

Fangabúðirnar voru frelsaðar í lokafasa styrjaldarinnar en búið var að loka fjórum hreinræktuðum útrýmingarbúðum – Treblinka, Sobibór, Belzec og Chemlo – fyrir komu Rauða hersins.

Margir hermannanna fyrirvörðu sig fyrir hönd mannkyns vegna þessarar meðferðar nasista á gyðingum og öðrum föngum. 


 

Hermennirnir vildu því gera allt sem þeir gátu til að hjálpa þessum nauðstöddu og soltnu föngum.

 

Án þess að vita afleiðingarnar réttu Bandaríkjamenn súkkulaðistykki og annað hitaeiningaríkt gómsæti til fanganna sem gæddu sér strax á þessu.

 

Því miður voru matvæli sem þessi eins og eitur fyrir viðkvæma líkamana. Eftir margra mánaða langt hungur gátu magar hinna eftirlifandi ekki tekist á við svo mikið magn af hitaeiningum.

 

Í besta falli misstu sumir fangarnir meðvitund skömmu eftir að hafa fengið súkkulaðistykkið en oft kostaði súkkulaðið þá lífið.

 


Hermönnum var verulega brugðið yfir því að þessir nýfrelsuðu fangar létu lífið vegna þess sem þeir töldu vera góðverk.

 

Bandaríkjamennirnir lærðu því fljótt að hætta að dreifa út matvælum. Þess í stað kom súpa, mjólk og hafragrautur – en í afar litlu magni.

Matarskammtar Bandaríkjamanna reyndust hreint eitur fyrir sveltandi fanganna.

„Þeir skilja ekki hvers vegna við gefum þeim svona lítið. En ef þeir fá meira kasta þeir öllu jafnharðan upp, því þeir hafa ekkert borðað í mjög langan tíma“, skrifaði bandarískur hermaður heim til fjölskyldu sinnar. 

 

Hjúkrunarfólk í stórræðum

Bandaríkjamenn stóðu frammi fyrir umfangsmiklu hreinsunarstarfi. Hvarvetna í frelsuðu búðunum lágu rotnandi lík, saur og ælur og braggarnir og klæði fyrrum fanganna voru verstu sóttarbæli.

 

Örmagna fangarnir þjáðust af taugaveiki, krónískum niðurgangi og berklum og þar sem ónæmiskerfi þeirra var komið að þrotum voru þeir í bráðri lífshættu.

 

En nú voru þeir ekki lengur fangar heldur sjúklingar.

 

Frelsararnir urðu skjótt að ráða bug á þessum ömurlegu hreinlætisaðstæðum.

 

Þess vegna var mörgum líkum safnað saman og þau grafin í fjöldagröfum.

 

Þar sem fórnarlömbin voru svo mörg áttu Bandamennirnir ekki annan kost en að grafa hina látnu með sama hætti og nasistarnir höfðu gert.

Til að koma í veg fyrir farsóttir þurfti að grafa líkin eins fljótt og hægt var og því notuðu Bretar jarðýtur í Bergen-Belsen og öðrum fangabúðum.

Í Dora-Mittelbau búðunum þar sem Cooper höfuðsmaður var staddur rúlluðu jarðýtur og gröfur inn til að grafa stórar grafir meðan þýskir borgarar frá Nordhausen voru neyddir til að vinna allan sólarhringinn þar til búið var að grafa öll lík.

 

Meðan unnið var í fjöldagröfunum einbeittu hermenn sér núna að hreinsuninni. Lúsugir og illa lyktandi braggarnir voru rækilega sótthreinsaðir þannig að þeir gætu hýst manneskjur án frekari smithættu.

 

Fyrrum fangarnir afklæddust lörfum sínum sem voru einatt brenndir.

 

Í stað þeirra fékk grindhorað fólkið hrein náttföt úr lager búðanna þegar það var aflúsað og sprautað með skordýraeitrinu DDT sem Bandaríkjamenn notuðu gegn lús en hún gat borið með sér taugaveiki.

 

„Flestir voru sprautaðir rækilega […] yfir allan líkamann – einkum í handakrikana og við kynfærasvæðið“, hljómaði útskýringin í einni skýrslu frá hreinsunarteymi sem kom til Buchenwald fjórum dögum eftir að búðirnar voru frelsaðar.

Bandarískir hermenn voru úðaðir með skordýraeitrinu DDT til að drepa lús sem gæti gefið þeim taugaveiki. Fangarnir voru líka sprautaðir með DDT þegar Bandaríkjamenn frelsuðu búðirnar.

Buchenwald voru stærstu útrýmingarbúðirnar í Þýskalandi og með 21.000 eftirlifandi fanga – en flestir vógu þeir um 40 kg – fengu læknar og hjúkrunarliðar nóg að starfa.

 

Bandaríkjamenn komu upp sjúkrahúsi í fyrrum liðsforingjahúsum Buchenwalds, þar sem læknar gátu framkvæmt skurðaðgerðir og meðhöndlað sjúklingana.

 

Aðrar byggingar búðanna og braggar voru notaðir sem sjúkrastofur þar sem þjáðustu sjúklingarnir gátu legið á beddum sem var komið upp í löngum röðum.

„Hinir veiku héldu áfram að deyja. Við gátum ekki bjargað þeim”.

Bandarískur læknir í Þýskalandi.

Þrátt fyrir að sár sjúklinganna hafi verið meðhöndluð með fúkkalyfjum og sumum gefið blóð sem bandarískir hermenn gáfu, var ekki víst að allir myndu lifa þetta af.

 

„Hinir veiku héldu áfram að deyja. Við gátum ekki bjargað þeim […] Þetta var alveg hræðilegt! Þeir dóu fyrir framan augun á okkur!“ skrifaði einn herlæknir að stríði loknu. 

 

Frelsið bauð upp á ný vandamál

Þegar Rauði krossinn kom í lok apríl með birgðir til frelsaðra búða í Þýskalandi skánaði ástandið verulega.

 

Egg og næringarríkt, ferskt grænmeti hafði góð áhrif á fyrrum fangana.

 

Eftir því sem leið á maímánuð losaði hernaðurinn tök sín á Evrópu og horaðir fangarnir voru brátt nægjanlega frískir til að ganga út í ferska loftið og yfirgefa það helvíti sem þeir höfðu verið staddir í.

Sjálfboðaliðar óku hvítu rútunum en einnig voru starfsmenn Rauða krossins um borð.

Hvítir vagnar fluttu 15.000 fanga í skjól

Í síðasta fasa styrjaldarinnar einbeittu Skandinavar sér að því að bjarga norskum og dönskum föngum úr útrýmingarbúðunum. Hvítmálaðir vagnar sóttu þúsundir og óku þeim til Svíþjóðar.

 

Snemma árs 1944 hófu kappsfullir Norðmenn og Danir að skipuleggja hvernig bjarga mætti löndum þeirra úr þýskum útrýmingarbúðum.

 

Fjölmargir Norðmenn höfðu verið þar síðan 1940 en flestir dönsku fangarnir voru fyrst sendir í slíkar búðir árið 1943.

 

Þegar Svíar lögðu þeim lið komst skriður á málið.

 

Eftir flóknar samningaviðræður við harðsvíraða forystu SS-manna tókst að safna saman norskum og dönskum föngum í Neuengamme undir vernd Rauða krossins.

 

Þaðan átti að flytja fangana til hinnar hlutlausu Svíþjóðar í svonefndum hvítum vögnum. Einn bílstjóri sem var sjálfboðaliði, greindi síðar frá því hvers konar martröð ferðin hafi verið.

 

„Vegna blóðkreppusóttar meðal fanganna þurftu margir að losa saur með stuttu millibili. Margir voru svo aðframkomnir að hermenn þurftu að halda á þeim í neyð þeirra og aðrir ultu um koll í eigin úrgangi“.

 

Bílstjórinn var einnig vitni að því hvernig margir frelsaðir fangar „dóu á leiðinni þrátt fyrir frábæra umönnun lækna og hjúkrunarkvenna“.

 

En það var margt uppörvandi í ferðinni. Hvarvetna í Danmörku flykktist fólkið út á göturnar og fagnaði föngunum með húrrahrópum og veifandi fánum.

 

Skólabörn komu með blóm og réttu frelsuðum föngunum.

 

„Það er ekki hægt að lýsa því með orðum hvernig okkur leið við þessar hjartnæmu móttökur… Þegar ég sat með blómin í fanginu táraðist ég og ég sá að margir félagar mínir voru einnig grátandi. Að hugsa sér að fullorðnir menn gráti en þetta var svo ljúft – okkur fannst eins og að við værum komnir heim“, sagði einn frelsaður Norðmaður.

 

15.345 fangar voru fluttir heim með hvítu vögnunum vorið 1945.

 

Af þeim voru um helmingur Danir og Norðmenn en hinn helmingurinn samanstóð af konum og börnum sem voru annarra þjóða sem tókst á undraverðan hátt að bjarga frá kvennaskálunum í Ravensbrück.

En meðan pólitískir fangar höfðu heimili og fjölskyldu að hverfa til, áttu gyðingar mun erfiðara með að snúa aftur til fyrra lífs.

 

„Við höfum misst fjölskyldu okkar, vini okkar og heimili okkar. Við áttum engan samastað og enginn beið eftir okkur. Já, við vorum á lífi. Það var búið að frelsa okkur frá dauðanum, frá óttanum við dauðann en nú hófst óttinn við lífið“, ritaði sem dæmi hinn pólsk-franski gyðingur Hadassah Rosensaft sem hafði verið fangi í Bergen-Belsen.

 

Einkum var illa komið fyrir austur evrópskum gyðingum. Margir óttuðust að halda aftur til föðurlandsins sem var nú í greipum Sovétríkjanna og í raun voru gyðingar óæskilegir þar.

 

Austur evrópskir Gyðingar sem reyndu að snúa heim til sín, upplifðu oft ofsóknir því gyðingahatur lifði góðu lífi þrátt fyrir að nasistarnir væru farnir.

Launmorðingjar myrtu Folke Bernadotte í Jerúsalem árið 1948.

Bernadotte fundaði með Himmler

Fangaflutningarnir öðluðust skriðþunga þegar Folke Bernadotte lét málið sig varða.

Þessi sænski greifi sem var varaforseti sænska Rauða krossins, hélt í febrúar árið 1945 til Berlínar, þar sem hann fékk eftir flóknar samningaviðræður fund með SS-foringjanum Heinrich Himmler.

 

Vegna þessa framtaks greifans er björgunaraðgerðin með hvítu vögnunum núna einnig þekkt sem „Bernadotte-aðgerðin“.

Í Póllandi voru 42 gyðingar myrtir í bænum Kielce árið 1946 þegar þeir voru ranglega ásakaðir um að standa að baki hvarfi á dreng einum þar.

 

Hin 19 ára Blanche Major sem hafði verið í Münchmühle fannst erfitt að snúa heim til Ungverjalands.

 

Föðurland hennar hafði í stríðinu barist með nasistum og öðrum í öxulveldunum.

 

„Stríðið hafði rænt okkur ungdóminum og nú upplifðum við að það væri ekkert pláss fyrir okkur í Ungverjalandi. Við vorum ekki velkomin og okkur var líka ljóst að við gætum varla lifað í landi sem hafði unnið með nasistum“, sagði ein ungversk kona. 

„Það má eiginlega segja að staða gyðinga hafi versnað síðan þeir voru frelsaðir“.

Gyðingurinn Zorach Warhaftig

Gyðingar enduðu í flóttamannabúðum

Margir frelsaðir Gyðingar deildu sömu örlögum og Major.

 

Þeir gátu ekki búið í friði í föðurlandi sínu og Bandamenn komu því á laggirnar svonefndum DP-búðum sem stendur fyrir „Displaced Persons“ eða flóttamannabúðir. Búðunum var komið upp skömmu eftir lok stríðsins og í þeim voru nærri 200.000 manns þegar árið 1946 var að renna sitt skeið á enda.

 

„Það má eiginlega segja að staða gyðinga hafi versnað síðan þeir voru frelsaðir“, sagði gyðingurinn Zorach Warhaftig, því útlit fyrir venjulegt líf í frelsi sem gyðingar höfðu vonast eftir vorið 1945 var orðið harla dökkt.

Margir gyðingar misstu trúna á að þeir myndu nokkurn tíma geta lifað í friði í Evrópu. Tugir þúsunda eftirlifenda fangabúðanna fluttu til bresku Palestínu og stofnuðu Ísraelsríki árið 1948.

DP-búðirnar veittu gyðingum og öðrum vernd og þeir sem áttu ekkert ríkisfang eftir helförina voru nú aftur komnir í búðir sem samanstóðu af bröggum og tjöldum.

 

Þeir voru samt ekki umkringdir vopnuðum vörðum sem neyddu þá til að erfiða dag hvern en matvæli og klæði voru hvarvetna enn af skornum skammti eftir stríðið.

 

Á sumum stöðum þurftu fyrrum fangarnir meira að segja að ganga um í fyrrum fangabúningum eða jafnvel einkennisbúningum þýskra hermanna.

 

Eftir því sem á leið urðu aðstæður betri og starfsfólkið lagði mikla áherslu á að reyna að endurreisa trú barnanna á meðbræður sína með því að kalla þau ætíð eiginnöfnum þeirra, ásamt því að veita þeim ástúð og athygli – nokkuð sem börnin höfðu ekki upplifað um áraraðir í útrýmingarbúðum.

Margir fyrrum fangar enduðu í svokölluðum DP-búðum. Hér er fótboltalið úr DP-búðunum í Berlín.

DP-búðirnar urðu smám saman meira eins og lítið samfélag með bókasöfnum, skólum og jafnvel leikhúsum. Menntun og menning áttu sinn þátt í að bægja hugsunum frá skelfilegri reynslu og látnum fjölskyldumeðlimum.

 

En DP-búðirnar voru ekkert eiginlegt heimili og framtíðarhorfur ríkisfangslausra Gyðinga harla bágbornar.

 

Fyrst undir lok fimmta áratugarins varð útlitið bjartara fyrir þá gyðinga sem enn höfðu ekki fundið sér samastað þar sem þeir gátu hafið nýtt líf.

 

Árið 1948 var Ísrael stofnað og þangað flykktust fjölmargir Gyðingar – einnig Gyðingar sem ekki voru staddir í DP-búðunum.

 

Þar fyrir utan var dregið úr hömlum á innflytjendur í mörgum löndum, þannig að margir gyðingar fengu nú tækifæri til að finna sitt eigið land.

 

Meira en 80.000 héldu þá til BNA meðan Blanche Major og maður hennar gátu farið til Noregs. 

„Þegar ég horfði um öxl voru engir SS-verðir á ferli. Ég heyrði enga geltandi hunda”.

Hédi Fried, rúmenskur gyðingur

Lífinu aftur fagnað

Hédi Fried sem var frelsuð í Bergen-Belsen endaði í Skandinavíu og það var ekki fyrr en hún kom til Svíþjóðar með systur sinni, Livi sem þessi rúmenska kona fann loksins gilda ástæðu til að „fagna lífinu“ þegar systurnar gengu um Västerbro í Stokkhólmi:

 

„Þegar ég horfði um öxl voru engir SS-verðir á ferli. Ég heyrði enga geltandi hunda og ég sá einungis friðsamar sænskar fjölskyldur á tveggja manna reiðhjólum sem nutu sólskinsins þennan sunnudag. Livi og ég hugsuðum það sama. Við horfðum hvor á aðra og fórum að dansa á miðri brúnni“.

 

Eftir margra ára óhugnanlegar þjáningar gátu frelsaðir Gyðingarnir loksins hafið nýtt líf. 

Lestu meira um frelsun fangabúðanna

Dan Stone: The Liberation of the Camps: The End of the Holocaust and Its Aftermath, Yale University Press, 2015

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Troels Ussing

US Army, Shutterstock,© Ullstein Bild/Getty Images,© AKG/Ritzau Scanpix,© NARA,© Library of Congress,© Centers for Disease Control and Prevention,© Mogens Rud/Ritzau Scanpix,© USHMM,© National Photo Collection of Israel,© Schwartzberg Family Archive,

Náttúran

Kisulóra er villiköttur

Lifandi Saga

Greitt fyrir Pepsi-Cola með sovéskum kafbátum

Lifandi Saga

Greitt fyrir Pepsi-Cola með sovéskum kafbátum

Heilsa

10 matvæli með meira C-vítamín en appelsínur

Heilsa

10 matvæli með meira C-vítamín en appelsínur

Náttúran

Hvaða rándýr étur flest fólk?

Heilsa

Er flotsaur til marks um góða heilsu?

Náttúran

Hvernig veit fræ að það eigi að spíra? 

NÝJASTA NÝTT

Lifandi Saga

Fimm heppnustu manneskjur sögunnar

Maðurinn

Hve mikið gagnamagn rúmast í heilanum?

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

Jörðin

Hvenær var hnettinum skipt í tímabelti?

Lifandi Saga

Mömmustrákur tryggði bandarískum konum kosningaréttinn

Lifandi Saga

Hermaður sá heiminn á hvolfi eftir heilaskaða

Alheimurinn

Eitilhörð samkeppni um að leysa ráðgátur sólkerfisins

Læknisfræði

Soðnir kettir læknuðu nánast allt á miðöldum

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

Lifandi Saga

Fimm heppnustu manneskjur sögunnar

Maðurinn

Hve mikið gagnamagn rúmast í heilanum?

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

Jörðin

Hvenær var hnettinum skipt í tímabelti?

Lifandi Saga

Mömmustrákur tryggði bandarískum konum kosningaréttinn

Lifandi Saga

Hermaður sá heiminn á hvolfi eftir heilaskaða

Alheimurinn

Eitilhörð samkeppni um að leysa ráðgátur sólkerfisins

Læknisfræði

Soðnir kettir læknuðu nánast allt á miðöldum

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Lifandi Saga

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Lifandi Saga

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Maðurinn

Samfélagsmiðlar ógna samkenndinni

Maðurinn

Samfélagsmiðlar ógna samkenndinni

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

Náttúran

8 uppfinningar sem þú getur þakkað Einstein fyrir

Náttúran

Að klóna risaeðlur: Er hægt að vekja risaeðlur til lífsins?

Maðurinn

Sársauki – Hvað er sársauki?

Vinsælast

1

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

2

Maðurinn

Af hverju sjá sumir drauga en aðrir ekki?

3

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

4

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

5

Maðurinn

Þráhyggja tekur heilann í gíslingu

6

Saga

Af hverju ráða Bandaríkin yfir Guantanamo?

1

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

2

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

3

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

4

Náttúran

Kisulóra er villiköttur

5

Lifandi Saga

Greitt fyrir Pepsi-Cola með sovéskum kafbátum

6

Alheimurinn

Mistök geta verið banvæn fyrir geimfara 

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

Maðurinn

Er það skaðlegt að plokka nefhárin?

Lifandi Saga

Hve lengi höfum við fengið sumarfrí?

Maðurinn

Þessi tvö efni geta átt þátt í að lækka líffræðilegan aldur okkar

Lifandi Saga

Hin dularfulla María Magdalena var nákomin frelsaranum

Menning og saga

Múmía hræddi líftóruna úr vörðum

Náttúran

Topp 5: Hvaða könguló er stærst?

Náttúran

Tuttugu arma sædýr fannst við suðurskautið

Maðurinn

Styrktu alla þrjá þætti greindarinnar

Jörðin

Evrópsk ofureldstöð virðist undirbúa gos

Maðurinn

10 óvanalegar tegundir af fælni

Fimm heppnustu manneskjur sögunnar

Sumir virðast vera fæddir undir lukkustjörnu en hjá öðrum virðist heppnin vera nánast yfirnáttúrulegt fyrirbæri. Hvorki eldingar, flugslys, öfundsjúkir keppinautar eða kjarnorkusprengjur gátu bugað þessa heppnu einstaklinga.

Lifandi Saga

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is