Smellurinn stafar einfaldlega af því að svipuólin rýfur hljóðmúrinn þegar henni er sveiflað kröftuglega.
Hljóðið er sem sagt skylt þeim háværu drunum sem fylgja því þegar háhraðaþota rýfur hljóðmúrinn.
Þessi mikli hraði ólarinnar næst með því að handarhreyfingin yfirfærist gegnum svipuskaftið út í ólina sem er afar lipur og sveigjanleg. Þetta skapar bylgjuhreyfingu sem verður æ hraðari eftir því sem hún berst lengra fram í ólina.
Annað mál er svo það að menn eru ekki sammála um hvort ólin rjúfi hljóðmúrinn allra fremst, innar á ólinni eða jafnvel á leið bylgjunnar til baka.