Lifandi Saga

Afleiðingarnar af falli keisarans: Blóðug uppreisn í París

Eftir gremjulegt tap í stríðinu gegn Prússum árið 1871 höfðu íbúar Parísarborgar fengið sig fullsadda. Keisari landsins var í prússnesku fangelsi og borgarbúar ákváðu að gera enn eina byltinguna.

BIRT: 18/06/2023

Sunnudagurinn 21. maí 1871 var góðviðrisdagur í París. Á grasflötinni í Tuileries-garðinum söfnuðust glaðværir borgarbúarnir saman til að hlýða á tónleika sem skipulagðir höfðu verið.

 

Um 1.500 hljóðfæraleikarar stilltu sér upp í því skyni að gleðja áheyrendur með tónlist eftir Mozart og önnur vinsæl tónskáld.

 

Rösklega tveir mánuðir voru liðnir frá því að Parísarbúar höfðu lýst yfir sjálfstæði borgarinnar sem hafði slitið sig lausa frá hinum hluta Frakklands, með því að lýsa yfir hinni svonefndu Parísarkommúnu.

 

Þeim tíma sem liðinn var höfðu tæplega tvær milljónir fátækra íbúa borgarinnar varið í að stofna nýtt, réttsýnt samfélag án einvalds drottnara.

 

Borgarstjórnin sem á frönsku nefndist: „Le Comité Central Republicain des 20. Arrondissement“, hafði m.a. innleitt sömu laun fyrir karla og konur, bann gegn barnavinnu og afnumið dauðarefsingu.

 

Þegar tónlistin dó út stóð einn af liðsforingjum kommúnunnar upp. Hann kallaði ,,borgarar“ líkt og til að kæta mannskapinn.

„Ætlið þið að skjóta á okkur? Skjóta bræður ykkar, maka og börn?“
Parísarkona við hóp franskra hermanna.

Andrúmsloftið var lævi blandið vegna sögusagna um að stjórnarherinn hygðist brátt grípa til hernaðaraðgerða, undir stjórn ríkisleiðtogans Adolphe Thiers.

 

„Herra Thiers sagðist myndu koma til borgarinnar í gær. Herra Thiers kom ekki til borgarinnar og það mun hann heldur aldrei gera. Ég býð ykkur þess vegna að koma hingað næstkomandi sunnudag á sama tíma og sama stað“.

 

Næstu útitónleikar í Tuileries-garðinum létu þó á sér standa. Blóðug baráttan um borgina var þegar hafin. Hersveitir Thiers voru á leiðinni með það fyrir augum að gera að engu vonir fátækra borgarbúanna um réttlátari heim.

 

Dýr úr dýragarðinum í kvöldmatinn

Stofnun Parísarkommúnunnar var bein afleiðing flókins valdatafls sem átti sér stað í Mið-Evrópu árið 1870.

 

Öðrum megin víglínunnar var að finna Prússakonung, Vilhjálm 1. sem ásamt Bismarck forsætisráðherra var í þann veginn að stofna stórt keisararíki sem samanstóð af þýsku smáríkjunum.

 

Hinum megin víglínunnar var svo franski keisarinn Napóleón 3., náfrændi hins víðfræga Napóleóns Bónaparte. Napóleón 3. hafði árin á undan komist upp á kant við öll stórveldin í Evrópu og reitt ýmsa íbúa lands síns til reiði.

 

Hann vonaðist til að skapa nýja samstöðu meðal Frakka og lýsti þess vegna yfir stríði á hendur Þjóðverjum sem voru furðu vel undir árásina búnir.

 

Eftir einungis hálfs annars mánaðar bardaga lutu Frakkar hins vegar í lægra haldi við Sedan 2. september 1870 og Þjóðverjum tókst meira að segja að taka Napóleón 3. til fanga.

Þýskaland braut Frakkland á bak aftur

Nákvæmt valdajafnvægi hélt stórveldum Evrópu í skefjum á 19. öld en þegar Vilhjálmur 1. Prússakonungur og forsætisráðherra hans Ottó von Bismarck sameinuðu þýsku ríkin endaði Þýskaland í stríði gegn Frakklandi árið 1870.

Sigurvegarinn: Vilhjálmur 1. (1797-1888):

Vilhjálmur 1. konungur lenti upp á kant við þing sitt árið 1862 vegna hernaðarumbóta í Prússlandi sem fólu í sér aukin útgjöld til hersins.

Hann kallaði til stjórnarerindrekann Ottó von Bismarck í von um að hann gæti leyst deiluna. Áformin tókust og Vilhjálmur gerði Bismarck að forsætisráðherra sínum.

Hugmyndasmiðurinn: Bismarck (1815-1898):

Forsætisráðherrann hafði metnað í þá veru að sameina þýsku ríkin og að skapa valdamikið þýskt ríki.

 

Markmiðið tókst eftir sigurinn í fransk-þýska stríðinu (1870- 1871): Í kjölfarið á því var þýska keisararíkið lýst yfir og var Bismarck gerður að ríkiskanslara.

Laut í lægra haldi: Napóleón 3. (1808-1873):

Loðvík Napóleón Bónaparte var bróðursonur Napóleóns 1. keisara og dreymdi því eðlilega um að sölsa undir sig frönsku krúnuna. Fall frænda hans hafði kostað fjölskylduna völdin en Loðvík var engu að síður gerður að keisara eftir valdarán árið 1852.

 

Einum 18 árum síðar var honum steypt af stóli eftir að Þjóðverjar gjörsigruðu Frakka í stríði.

Vegurinn til Parísar var opinn og Þjóðverjar hófu miskunnarlaust umsátur um borgina. Parísarbúarnir neituðu hins vegar að gefa sig óvininum á vald.

 

Fjöldinn allur af sjálfboðaliðum hafði gengið til liðs við herdeild borgarinnar innan franska þjóðvarðliðsins, án þess endilega að hafa hlotið sérlega hernaðarþjálfun en andstaða þeirra nægði samt til að halda Þjóðverjunum í skefjum í fjóra mánuði.

 

Umsátrið gerði það að verkum að matvælaskortur gerði brátt vart við sig í stórborginni og verð á mat hækkaði dag frá degi. Sem dæmi má nefna að iðnaðarmenn urðu að leita til veðmangaranna og veðsetja þar verkfæri sín fyrir mat.

 

Fyrr en varði voru allir hestar, kýr og svín uppétin. Efnafólk gat leitað til hundaslátraranna til þess að fá kjöt á diskinn sinn en fátæklingarnir urðu að láta sér nægja rottur.

 

Dýrin í dýragarðinum sluppu heldur ekki. Þar létu birnir, antílópur og tveir fílar lífið til þess að fæða Parísarbúana. Einungis tígrisdýrin sluppu undan soltnum Parísarbúunum en þau þorði fólk ekki að nálgast. Rándýrin voru sjálf frávita af hungri.

 

Ríkisstjórnin óttaðist uppreisn

Hinn 28. janúar 1871 lutu Parísarbúar í lægra haldi fyrir prússneska ofureflinu og neyddust til að semja um frið sem þeim var þvert um geð og þeir upplifðu sem mikla niðurlægingu.

 

Borgarbúarnir héldu sig innanhúss á meðan Prússarnir gengu fylktu liði um borgina en undir rólegu yfirborðinu kraumaði reiðin.

 

Íhaldssami ríkisleiðtoginn Adolphe Thiers hafði tekið við stjórnartaumunum. Hann hugðist bíða átekta en ætlaði sér þó ekki að umbera uppreisnargjarna borgarbúana lengi því honum virtust þeir vera í þann veginn að gera uppreisn.

 

Thiers ásetti sér að freista ekki Parísarbúanna um of og fyrirskipaði fyrir vikið stjórnarhernum að sækja 400 fallbyssur sem skildar höfðu verið eftir í borginni.

Árið 1871 vörðu Parísarborgar sig gegn franska hernum sem beið þess að ráðast á borgina.

Að morgni hins 18. mars, á meðan flestir Parísarbúar voru enn í fastasvefni, réðust þúsundir hermanna inn í borgina.

 

Fallbyssanna var kirfilega gætt af þjóðvarðliðum. Hermennirnir stugguðu við þjóðvarðliðunum og byrjuðu að draga fallbyssurnar á brott.

 

Hópur kvenna sem var á leiðinni í bakarí í Montmartre-hverfinu í útjaðri Parísar kom auga á hermennina sem voru auðþekkjanlegir í rauðum buxum sínum og bláum jökkunum.

 

Konurnar drifu sig upp í turninn á næstu kirkju og hringdu kirkjubjöllunum til að vekja athygli á athæfi hermannanna.

 

Hermenn ríkishersins gerðust liðhlaupar

Fólk fór strax að þyrpast til Montmartre þar sem sumir hófu að reisa varnargarða á meðan hinir útveguðu vopn.

 

Skyndilega gerðist nokkuð sem enginn hafði átt von á: Hluti hermannanna beindi byssuhlaupum sínum upp til himins, líkt og til að gefa til kynna að þeir hygðust ekki beita vopnum sínum.

 

Óhlýðni almennings smitaði jafnframt út frá sér: „Skerið á aktygi hestanna“, hrópaði einn þjóðvarðliðanna þegar byrjað var að draga fallbyssurnar á brott.

 

Konur og menn hlýddu strax kallinu og fallbyssurnar högguðust ekki. Mannskaranum til ómældrar ánægju yfirgáfu margir hermenn stöður sínar og gengu til liðs við uppreisnarmennina.

 

Annars staðar í Montmartre-hverfinu lét hershöfðinginn Claude Lecomte hart mæta hörðu. Hann fyrirskipaði hermönnum sínum að skjóta beint inn í mannhafið.

 

Það fór kliður um mannfjöldann þegar fyrirmæli hans heyrðust. Kona nokkur steig fram og beindi spurningu sinni til hermannanna:

 

PIC_BOKS_2

Þýskir hermenn tóku franska keisarann, Napóleón 3., til fanga í bardaganum við Sedan.

Keisarinn barðist fyrir hásætinu

Ósigurinn í fransk-þýska stríðinu olli því að Napóleón 3. var steypt af stóli. Líkt og við hafði átt um frændann, lét hann hins vegar ekki kúga sig á þeim grundvelli einum að hann hefði lotið í lægra hald og væri í varðhaldi óvinarins en reyndi aftur að komast til valda.

 

Eftir upplausn franska hersins í bardaganum við Sedan 1. og 2. september tóku Þjóðverjar Napóleón 3. til fanga.

 

Fréttin barst von bráðar til Parísar og þegar keisaraynjunni bárust tíðindin hrópaði hún reiðilega: „Nei, keisarar gefast ekki upp! Hann er látinn!“

 

Strax 4. september var þriðja franska lýðveldinu lýst yfir og var valdatíð Napóleóns 3. þar með lokið. En keisarinn lét sér ekki detta í hug að gefast upp svo auðveldlega.

 

Honum var varpað í fangelsi, ásamt 13 af nánustu ráðgjöfum hans, í höll einni í grennd við borgina Kassel í Hessen og þar reyndi hann að finna ráð til að endurheimta völdin í Frakklandi.

 

Í nóvember 1870 gerði hann tilraun til að tala um fyrir Bismarck og fá leyfi hans til að snúa aftur og skyldi það gert sem hluti af friðarsamkomulagi. Þar sem Frakkland í raun réttri hafði þegar tapað í stríðinu og Bismarck fyrir vikið ráðið öllu innihaldi friðarsamkomulagsins talaði Napóleón fyrir daufum eyrum.

 

Hinn 1. mars árið 1871 svipti hið nýja franska þjóðþing keisarann öllum völdum opinberlega og til að bæta gráu ofan á svart kenndi þingið honum jafnframt um stríðstapið.

 

Forsmáður stakk Napóleón af til Englands þar sem hann varði þeim tíma sem hann átti ólifaðan í höllinni Camden Place skammt frá Lundúnaborg. Hann lifði ekki lengi í útlegðinni því heilsu hans fór hrakandi eftir stríðið og hann lést 9. janúar 1873.

 

Dauði hans markaði jafnframt endalok franska keisaradæmisins. Napóleón hafði eignast eitt skilgetið barn, soninn Napóleón Eugène Loðvík Jóhann Jósef Bónaparte sem gegndi herþjónustu í breska hernum árin á eftir og lést, ógiftur og barnlaus, í stríði Breta gegn Zúlú-ríki árið 1879.

„Ætlið þið að skjóta á okkur? Skjóta bræður ykkar, maka og börn?“

 

Lecomte endurtók skipun sína bálreiður. Hver sá sem óhlýðnast verður skotinn á staðnum, bætti hann reiðilega við. Þá steig undirliðsforingi einn út úr röð sinni og hrópaði hátt:

 

„Snúið við rifflunum!“ Hermennirnir hlýddu honum allir sem einn. Líkt og í samræmdri hreyfingu sneru þeir við byssunum þannig að byssuhlaupunum var beint niður á við.

 

Fallbyssurnar urðu áfram í París og þjóðvarðliðar handtóku Lecomte.

 

Thiers var verulega brugðið þegar tíðindin af þessari misheppnuðu aðgerð bárust honum og hann fyrirskipaði ríkisstjórninni og hernum að yfirgefa höfuðborgina. Ríkisstjórnin settist þá að í höllinni Versölum í um 20 km fjarlægð frá París.

 

Fyrsta uppgjörið við ríkisherinn hafði gengið að óskum og ekkert virtist geta komið í veg fyrir kröfu Parísarbúanna um réttsýnna samfélag með frjálsræði og jöfnuð öllum til handa.

 

París klæddist rauðu

Þessi velheppnaða uppreisn kom leiðtogum stjórnarandstöðunnar í opna skjöldu en þeir höfðu lagt á ráðin um uppreisn gegn stjórnvöldum svo árum skipti.

 

Stjórnarandstaðan samanstóð af stjórnleysingjum sem hugðust afnema ríkisvaldið, sósíalistum sem vildu innleiða öflugra ríkisvald, svo og rómantíkerum sem létu sig dreyma um frönsku byltinguna 1789.

 

Enginn innan stjórnarandstöðunnar var tilbúinn til að taka frumkvæðið. Þess í stað voru það um 200.000 meðlimir þjóðvarðliðsins sem tóku völdin fyrst í stað.

 

„Uppreisnarseggirnir virðast hafa eignað sér Parísarborg. Hermenn þjóðvarðliðsins eru á sveimi alls staðar. Varnarveggir spretta upp og uppivöðslusöm börn klifra í þeim“, skrifaði rithöfundurinn Edmond de Goncourt þann 18. mars.

 

„Mann hryllir við að horfa á heimskuleg, ómerkileg andlit þeirra sem sigur og drykkja hafa léð einkennilega svínslegan dýrðarljóma“. „Frakkland og Parísarborg lúta nú yfirráðum verkamanna“, bætti hann við með fyrirlitningu.

PIC_BOKS_3.1

Verkamenn og menntamenn komust til valda í París og var markmið þeirra að skapa réttlátara samfélag. Samkvæmt nýjum lögum var m.a. bannað að hafa börn í vinnu í bakaríum.

Borgararnir tóku völdin

Leiðtogar Parísarkommúnunnar voru kjörnir af skráðum kjósendum í Parísarborg. Allir karlmenn höfðu kosningarétt, óháð tekjum og eignum en konur máttu aftur á móti ekki kjósa.

 

Leiðtogar kommúnunnar völdu að vera í náinni snertingu við lýðinn og kusu fyrir vikið að hafa hvorki forseta né yfirborgarstjóra.

 

Sú hugmynd að enginn skyldi yfir annan settur átti ekki eingöngu við um stjórnmálamenn, heldur einnig hermenn og þess vegna voru engir yfirmenn í franska hernum.

 

Hersveitirnar lutu þess vegna stjórn miðstjórnar sem á frönsku kallaðist „Le Comité Central Republicain des 20. Arrondissement“. Æðsta vald kommúnunnar var ráð sem 92 meðlimir áttu sæti í. Meðlimirnir ákvörðuðu stjórnmálastefnuna og samþykktu lög.

 

Níu nefndir sem ráðið valdi í og samanstóð af meðlimum þess, önnuðust daglegan rekstur. Nefndirnar skyldu líkja eftir starfsemi ráðuneyta þjóðþingsins.

 

Þó svo að ómiðstýrða stjórnarfarið einkenndist oft af ringulreið og væri stundum óvirkt tókst Parísarkommúnunni á þeim stutta tíma sem hún var við lýði – rúmlega tveimur mánuðum – að samþykkja ýmis framsýn lög.

Hópur hermanna var undir það búinn að marséra til Versala og koma Thiers fyrir kattarnef en yfirvegunin hafði þó vinninginn.

 

Leiðtogar þjóðvarðliðsins ákváðu að boða til frjálsra kosninga í París þannig að fulltrúar fólksins gætu ákvarðað framhaldið.

 

Sósíalistar, anarkistar og rómantíkerar unnu stórsigur í kosningunum þann 26. mars, ekki hvað síst fyrir þær sakir að Thiers hafði beðið stuðningsmenn sína um að sniðganga kosningarnar.

 

Rauði liturinn – tákn sem fengið var að láni frá frönsku byltingunni – sást alls staðar, á beltum, brjóstnælum og enn fremur á fánanum sem blakti við hún yfir ráðhúsinu, þar sem sigurvegararnir voru hylltir.

 

Uppreisnarseggirnir hrópuðu slagorðið „Parísarkommúnan“ jafnframt því sem leikið var á trompeta, trommur voru barðar og byssuskot heyrðust. Nú skyldi reynt að sameina sundurleitan hóp uppreisnarmannanna.

 

Kosningar í skjóli umsáturs

Her Adolphes Thiers réðst til atlögu örfáum dögum síðar, nánar tiltekið 2. apríl. Sprengikúlur dundu á allri borginni og hafði enski rithöfundurinn John Leighton þetta að segja um sprengingarnar:

 

„Allir urðu skelfingu lostnir og flýttu sér æpandi á brott“.

 

Í miðri þessari blóðugu árás reyndu borgarbúarnir að skipuleggja nýtt samfélag. Parísarkommúnunni var stjórnað af miðstjórn sem á frönsku kallaðist „Le Comité Central Republicain des 20. Arrondissement“ en í henni áttu sæti alls 92 meðlimir.

 

Nýja ráðið leystist hins vegar upp áður en það var kallað saman í fyrsta sinn.

 

Einn kjörinna meðlimanna hafði verið hnepptur í fangelsi ríkisstjórnarinnar og þó nokkur fjöldi hófsamra nefndarmanna, auk nokkurra róttæklinga, neituðu að starfa í nefndinni.

Framsækin lög voru sett

Meðlimir Parísakommúnunar dreymdi um að skapa réttlátara samfélag þar sem fátækum væri hjálpað með lögum.

Ríki og kirkja voru aðskilin

Byltingarsinnaður verkalýðurinn í París áleit kirkjunnar menn vera handlangara keisarans og aðalsins og óskuðu þess að gera presta og biskupa valdalausa í nýja dýrðarsamfélaginu.

Fyrir bragðið samþykktu þjóðkjörnir fulltrúar Parísarkommúnunnar lög sem leyfðu aðskilnað ríkis og kirkju, svo og tilskipun sem bannaði kirkjunnar mönnum að kenna við skóla borgarinnar.

Barnavinna var bönnuð

Þá voru einnig samþykktar fyrirskipanir sem bönnuðu barna- og næturvinnu í bakaríum Parísarborgar. Löggjöfin lét vinnuveitendum það einnig eftir að stytta vinnudaginn niður í tíu stundir.

 

Kommúnan samþykkti að sama skapi að sambýliskonur og börn þjóðvarðliða sem létu lífið í stríði skyldu njóta eftirlauna sem gerði þeim kleift að sjá sér fyrir fæðu og húsaskjóli. Þetta átti við hvort heldur um gift pör var að ræða eður ei.

Konur öðluðust réttindi

Kommúnan innleiddi launajafnrétti fyrir karla og konur. Þá var einnig sett á laggirnar nefnd sem skyldi kanna hvernig bæta mætti menntunarskilyrði stúlkna. Allir meðlimir nefndarinnar voru konur.

 

Nefndarstarf þetta leiddi það af sér að stofnaður var starfsmenntaskóli sem aðeins var ætlaður stúlkum. Ný lög gerðu konum enn fremur löglegt að sækja um skilnað til jafns við karla og að fá greitt meðlag.

 

Þegar til kastanna kom voru meðlimirnir einungis 60 alls. Þrátt fyrir ögranir og andstæður tókst þessum nýkjörnu fulltrúum fólksins engu að síður að samþykkja tímamótalög sem áttu eftir að auðvelda borgarbúum lífið.

 

Á fyrsta fundinum hinn 28. mars var þvinguð herskylda þannig afnumin og sömu sögu var að segja um dauðarefsingu.

 

Nefndin samþykkti enn fremur að iðnaðarmennirnir gætu sótt verkfæri sín til veðmangaranna, án þess að verða krafðir um skuldina.

 

Þá voru ríki og kirkja aðskilin, auk þess sem samþykkt voru lög sem sögðu svo fyrir um að verkamenn mættu leggja undir sig hvaða verksmiðju sem var, ef eigandinn hafði yfirgefið hana. Þá ber einnig að nefna að fallöxi borgarinnar var brennd.

 

Herinn tók fólk af lífi án réttarhalda

Uppreisnarleiðtogarnir gátu fyrst í stað glaðst yfir því að stjórnarhermennirnir hefðu stutt þá í fyrstu átökunum.

 

Samkenndin varði þó ekki lengi: Í byrjun apríl skarst í brýnu fyrir utan borgina milli þjóðvarðliðsins annars vegar og tveggja herdeilda stjórnarhersins hins vegar.

 

Óvinirnir tóku til fanga eina 30 þjóðvarðliða og tóku þá af lífi án dóms og laga. Sem mótsvar við þessu samþykkti ráðið svonefnd „gíslalög“.

 

„Skírn, giftingu og útför – allt þarf að greiða fyrir“.
Þetta sagði Parísarbúi einn um græðgi kirkjunnar.

 

Lög þessi veittu hverjum sem var leyfi til að hneppa í fangelsi alla þá sem grunaðir voru um að vera hliðhollir ríkisstjórninni í Versölum og gera hann eða hana að „gíslum sem tilheyrðu íbúunum í París“.

 

Blaðamanninum Raoul Rigault var ætlað að framfylgja þessum nýju lögum en hann var jafnframt lögreglustjóri Parísarkommúnunnar. Rigault var illa innrættur maður sem safnaði í kringum sig heilum skara af uppljóstrurum:

 

Hann sagðist í gríni hafa útbúið fallöxi sem unnt væri að hálshöggva 300 manns í einu í.

 

Kirkjan var hötuð

Rigault hafði óbeit á prestastéttinni. Flestir uppreisnarseggir álitu kirkjuna vera versta óvin verkalýðsins, næstan á eftir keisaranum og aðlinum.

 

Prestarnir studdu ekki einatt keisaradæmið og yfirstéttina heldur voru þeir einnig fégráðugir. „Skírn, giftingu og útför – allt þarf að greiða fyrir“, sagði Parísarbúi einn í umkvörtunartóni.

 

Kirkjan þóttist heldur ekki vera of góð til að refsa þeim sem minnst máttu sín.

 

Gift hjón gátu látið sér nægja að greiða tvo franka fyrir skráningu á fæðingu nýfædds barns en ógiftar mæður þurftu hins vegar að reiða af hendi hvorki meira né minna en 7,5 franka fyrir sama viðvik en sú upphæð samsvaraði tveggja daga vinnu margra.

 

Prestar voru fyrir vikið hátt hlutfall þeirra 200 einstaklinga sem Rigault lét taka fasta í hefndarskyni fyrir þá þjóðvarðliða sem teknir voru af lífi.

 

Byltingarsinnaðir þjóðvarðliðar, svo og saklausir almennir borgarar, létu lífið í blóðugum bardögum.

Sér til mikillar ánægju lét hann handtaka erkibiskup Parísarborgar, Georges Darboy. Þegar erkibiskupinn í forundran spurði hverju sætti, svaraði Rigault:

 

„Þú fangelsar okkur með hjátrú þinni. Nú erum það við sem höfum völdin og réttinn og það ætlum við okkur að nota“.

 

Hann fullvissaði biskupinn þó um að uppreisnarseggirnir myndu aldrei brenna kirkjunnar mann lifandi á báli, líkt og kirkjan hefði gert við fjandmenn sína á dögum rannsóknarréttarins.

 

„Við erum mannlegri en sem svo“, trúði Rigault fyrirmannlegum fanganum fyrir: „Við skjótum ykkur!“

 

Varnirnar brustu

Á meðan Parísarbúar voru önnum kafnir í uppgjörum við keisara og kirkju trössuðu þeir skipulagningu hervarna í borginni.

 

Þjóðvarðliðið skorti yfirmann og þar sem enginn bar ábyrgð á hernum reyndist þeim nánast ógerlegt að taka ákvarðanir og að gefa skipanir sem hlýtt var.

 

Aginn var af skornum skammti en segja má að hermennirnir hafi litið á varnir borgarinnar sem sjálfboðastarf.

 

Fyrir vikið mættu aðeins 7.000 af þeim 12.000 þjóðvarðliðum sem kallaðir höfðu verið út þegar ætlunin var að reisa virki á mikilvægum varnarstað borgarinnar, Concorde-torgi, hinn 9. maí.

PIC_BOKS_4.1

Stór hluti varnargarðanna í uppreisninni samanstóð af götuvirkjum úr gangstéttarhellum og gatnagerðarsteinum.

Byltingin skyldi fullkomnuð

Árið 1789 hófu íbúar Parísarborgar frönsku byltinguna. Verkið fór út um þúfur en 82 árum síðar voru Parísarbúarnir tilbúnir á nýjan leik.

 

Hugmyndafræði af ýmsum toga einkenndi 19. öldina. Meðal uppreisnarseggjanna í höfuðborg Frakklands árið 1871 var því bæði um að ræða sósíalista og anarkista en þetta voru tvær af ráðandi byltingarsinnuðum hugmyndafræðistefnum þess tíma.

 

Sagnfræðingar eru hins vegar þeirrar skoðunar að flestir venjulegir Parísarbúar hafi fyrst og fremst viljað gera byltingu gegn keisaradæminu og prestastéttinni.

 

Í augum íbúanna snerist þetta um að taka völdin frá því fólki sem enn og aftur hafði leitt Frakkland út í öngþveiti og niðurlægingu, sem sé eftir ósigurinn í kjölfarið á sameiningu Þýskalands.

 

Uppreisnarsinnarnir óskuðu þess að fullkomna ætlunarverkið sem forfeður þeirra höfðu byrjað á í frönsku byltingunni.

 

Markmiðið var líf sem jafnréttháir borgarar í lýðveldi sem íbúarnir réðu sér sjálfir í, þar sem enginn var neyddur til að starfa undir yfirstétt sem naut forréttinda.

 

Það kemur sennilega ekki á óvart að einn af helstu stuðningsmönnum Parísarkommúnunnar hafi verið faðir kommúnismans, Karl Marx.

 

Skortur á hervörnum gerði það að verkum að þrýstingur jókst á borgarmúrana.

 

Sunnudaginn 21. maí, þegar urmull Parísarbúa í eins konar bjartsýniskasti hlýddi á sígilda tónlist leikna í Tuileries-garðinum, létu varnirnar undan og 120.000 hermenn franska hersins flykktust um götur borgarinnar.

 

Gjörvöll borgin breyttist í vígvöll. Baráttuglaðir borgarbúar reistu götuvirki úti um allt.

 

„Við gátum varla stungið höfðinu út um glugga án þess að verða fyrir byssuskoti“, ritaði bókavörðurinn M. Chatel.

 

Þjóðvarðlið Parísarkommúnunnar barðist hatrammlega en var hins vegar langtum fámennara en hermenn ríkisstjórnarinnar, því fyrir hvern þjóðvarðliða má segja að verið hafi fjórir eða fimm ríkishermenn.

 

„Þrjár konur voru teknar höndum í gærkvöldi, þar sem þær vörpuðu eldkúlum inn um kjallaraglugga frá götunni. Konunum var safnað saman í eitt horn og þær skotnar til bana“.
Starfsmaður ameríska Rauða krossins í París 1871.

 

Næsta kvöld höfðu ríkishermennirnir lagt undir sig allan vesturhluta borgarinnar, svo og Montmartre-hverfið. Mjög mikill missir var að því hverfi, því Montmartre stendur uppi á hæð og þaðan gátu hermennirnir gert stórskotaliðsárás yfir alla borgina og daginn eftir hafði ríkisherinn lagt undir sig mestalla miðborg Parísar.

 

Þegar þjóðvarðliðið hörfaði brenndu meðlimir þess opinberar byggingar og hús efnafólksins að baki sér.

 

Meðal þeirra bygginga sem brunnu til kaldra kola voru höllin í Tuileries-garðinum og ráðhús Parísarborgar.

 

Vindurinn gerði það að verkum að logarnir læddust úr einni byggingunni í aðra og brátt stóðu hús verkamannanna sjálfra einnig í ljósum logum. Slökkvibúnaður var af afar skornum skammti.

 

Konum kennt um eldsvoðann

Ef marka má sögusagnir stóð sérlegur hópur kvenna fyrir mestöllum íkveikjunum.

 

Þeim var kennt um að hafa kastað steinolíuflöskum gegnum kjallaragluggana á hýbýlum efnafólksins.

 

„Þrjár konur voru teknar höndum í gærkvöldi, þar sem þær vörpuðu eldkúlum inn um kjallaraglugga frá götunni. Enginn vafi lék á því hvað þær höfðu fyrir stafni. Reykinn lagði út um gluggana. Konunum var safnað saman í eitt horn og þær skotnar til bana“, segir John Stanley sem gegndi þjónustu hjá Rauða krossinum París.

 

Næsta dag var kona nokkur sögð hafa verið tekin höndum í Rue du Bac með nokkrar steinolíuflöskur í belti sem hún bar undir kjólnum sínum.

 

Heimspekingar og hugmyndafræðin

Á 19.öld voru ýmsar kenningar á lofti um hvernig þjóðfélög ættu að skipuleggja og stjórna.

Kommúnisti: Karl Marx (1818-1883):

Þýski heimspekingurinn sá fyrir sér fyrirmyndarríki – „alræði öreiganna“.

 

Þar ættu verkamennirnir verksmiðjurnar og framleiðslutækin og stjórnuðu samfélaginu án afskipta embættismanna og lögreglu.

Kapítalisti: Adam Smith (1723-1790):

Í augum skoska hagfræðingsins og heimspekingsins skipti frelsið öllu máli.

 

Ef fólkið fékk að gera eins og það lysti myndi samfélagið sannanlega finna það jafnvægi sem þurfti til að einstaklingurinn nyti hamingju.

Íhaldssamur: Edmund Burke (1729-1797):

Breytingar skyldu aldrei eiga sér stað skyndilega, taldi þessi breski stjórnmálaskörungur og heimspekingur.

 

Þess í stað skyldi þeim hrint í framkvæmd stig af stigi og skyldu þær byggja á hugmyndum eða hefðum sem sannað hefðu gildi sitt.

 

Ef marka má sögusagnir hermannanna í stjórnarhernum taldi hópur þessi um 8.000 konur. Sannleikann þekkti enginn því handteknu konurnar voru skotnar um leið og þær voru teknar höndum.

 

Frásagnir á borð við þessa ollu ofsahræðslu meðal íbúanna.

 

„Hver einasta kona sem sást ganga með flösku var strax álitin vera með steinolíu í flöskunni og grunsemdir vöknuðu strax um að hún hygðist kveikja í“, ritaði ameríski stjórnarerindrekinn Wickham Hoffman.

 

Börn voru myrt á götum úti

Íkveikjurnar ollu því að herinn beitti sífellt grimmilegri aðferðum gegn uppreisnarseggjunum. Ekki einu sinni börn voru óhult.

 

Í orðsendingu til bandaríska utanríkisráðherrans, Hamiltons Fish, þann 24. maí greindi sendiherra Bandaríkjanna, E.B. Washburne, frá því að aðstoðarmenn hans hefðu gengið fram á lík átta barna í breiðstrætinu d’Antin og hefði það elsta virst vera í mesta lagi 14 ára gamalt. Andrúmsloftið hér í París er svo lævi blandið að engin leið er að lýsa því réttilega“.

 

Barnamorðingjar vekja ekki einvörðungu ótta, heldur jafnframt reiði. Í tilraun til að svara aftur í sömu mynt ákvað „nefndin fyrir almannaheill“ að líta fram hjá banninu gegn dauðarefsingu og að taka nokkra gísla af lífi.

 

Einn þeirra var erkibiskupinn. Fangelsisstjórinn í La Roquette-fangelsinu í París fyrirskipaði hinn 24. maí að erkibiskupinn skyldi dreginn út í fangelsisgarðinn.

 

Þar stillti sér upp aftökusveit sem samanstóð af ungum verkamönnum og skaut hver einu skoti. Ungu mennirnir hittu ekki betur en sem svo að erkibiskupinn lifði aftökutilraunina af, særður og blæðandi.

 

Hermennirnir skutu aftur og þegar helsærður erkibiskupinn enn var á lífi eftir seinni tilraunina stigu nokkrir þjóðvarðliðar fram og ristu upp á biskupnum kviðinn með byssustingjum sínum.

 

Kirkjugarður breyttist í vígvöll

Alls 4.000 uppreisnarsinnar og tæplega 300 hermenn létu lífið í götubardögunum. Þeir síðustu sem féllu létu lífið í Père-Lachaise-kirkjugarðinum sem var síðasti samastaður þjóðvarðliðanna.

 

Að kvöldi þess 27. maí réðst stjórnarherinn inn í kirkjugarðinn. Þjóðvarðliðar og stjórnarhermenn börðust á milli legsteinanna, þar til löngu eftir myrkur en að lokum náði herinn yfirhöndinni og þeir 150 þjóðvarðliðar sem lifðu bardagann af neyddust til að gefast upp.

 

Hermennirnir röðuðu föngunum upp við vegg og skutu þá. Næsta dag hljóðnuðu öll mótmæli. Rithöfundurinn George Sand lýsti geðveikinni þannig:

 

„Ég er frá París. Mér líður eins og að ég hafi verið kæfður, ég er í uppnámi og miður mín. Það að horfa á rústirnar jafnast engan veginn á við þá geðveiki sem gripið hefur um sig í París. Með örfáum undantekningum virðist mér sem allir ættu að vera í spennitreyju. Helmingur íbúanna þráir það heitast að hengja hinn helminginn sem myndi gera slíkt hið sama ef nokkur kostur væri á. Þetta sést svo greinilega í augunum á öllum sem ég mæti“.

 

PIC_BOKS_5

Eftir uppreisnina varð Frakkland enn á ný lýðveldi en það hrundi þegar hersveitir Hitlers réðust inn í landið.

Uppreisnin endaði með lýðveldi

Eftir ófarir Frakklands í fransk-þýska stríðinu (1870-1871) settu leiðandi stjórnmálamenn á laggirnar bráðabirgðastjórn sem ætlað var að ríkja í landinu þar til nýr ríkisarfi hefði verið valinn.

 

Eftir uppreisn Parísarkommúnunnar varð ljóst að landið gæti ekki sameinast um nýjan keisara von bráðar.

 

Sigurvegararnir í bardaganum um Parísarkommúnuna voru þeir fyrstu sem fengu háar stöður.

 

Adolphe Thiers sem leiddi bráðabirgðastjórnina var formlega gerður að forseta „þriðja lýðveldisins“ hinn 30. ágúst 1871.

 

Tveimur árum síðar tók íhaldssamur hershöfðingi að nafni Patrice Mac-Mahon svo við af honum en hann hafði verið fremstur í flokki þeirra sem börðust gegn Parísarkommúnunni. Þegar þar var komið sögu var orðið ljóst að nýr keisari kæmist sennilega aldrei til valda.

 

Þriðja lýðveldið ríkti til ársins 1940, þegar Hitler réðst inn í Frakkland og setti á hina samvinnuþýðu Vichy-stjórn. Eftir stríðið varð Frakkland enn og aftur að sjálfstæðu lýðveldi.

 

Þegar uppreisninni var lokið fylgdi uppgjör á atburðunum og margir voru teknir af lífi án dóms og laga.

 

„Herdómstóllinn kemur enn saman, skrifaði rithöfundurinn Émile Zola um ástandið fjórum dögum eftir uppgjöf borgarinnar og hann skrifaði áfram: „Það er engu líkara en að verið sé að skjóta alla í París“.

 

Sumir sagnfræðingar telja að um 20.000 manns hafi verið teknir af lífi í tengslum við uppreisnina en hversu margir dóu nákvæmlega er ekki vitað fyrir víst.

 

Kommúnisminn reis úr öskunni

Herréttur dæmdi síðar um 7.000 manns til fangavistar eða útlegðar á Nýju-Kaledóníu sem er eyja í Kyrrahafi.

 

Þrátt fyrir að Parísarkommúnan hafi verið leyst upp varð hún innblástur manni nokkrum sem átti eftir að hafa áhrif á gang sögunnar, því árið 1911 bjó stjórnmálamaðurinn Vladimir Lenín um skamma hríð í borginni.

 

„Parísarkommúnan var félagslega byltingin sem frelsaði verkalýðinn algerlega, bæði stjórnmálalega og efnahagslega. Kommúnan höfðaði til öreiga um gjörvallan heim og í þeim skilningi er hún ódauðleg“, skrifaði hann.

 

Lenín stjórnaði byltingunni í Rússlandi sex árum síðar.

 

Hér má lesa sér til um Parísarkommúnuna

  • Alistair Horne: The Fall of Paris, Penguin, 1965

 

  • John Merriman: Massacre: The Life and Death of the Paris Commune of 1871, Yale, 2014

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: ELSE CHRISTENSEN , ANDREAS ABILDGAARD

© The Metropolitan Museum of Art,© H. Falkenstein Imagebroker RM/Imageselect,© Universal History Archive/UIG/Bridgeman Images,© Ian Dagnall/Imageselect,© The Museums of the City of Paris,© Photo 12/Imageselect,© Photo 12/Imageselect

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Lifandi Saga

Af hverju er rússneskur bær í Noregi?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is