Lifandi Saga

Allsherjar blóðbað Í fjölskyldu Alexanders mikla

Uppgötvun dularfullrar grafskriftar í Norður-Grikklandi rekur þræði aftur til óhugnanlegrar valdabaráttu sem hófst þegar Alexander mikli gaf upp öndina. Þar með hófst valdabarátta í makedónska ríkinu og henni lauk ekki fyrr en öll fjölskylda Alexanders lá í valnum.

BIRT: 08/07/2023

Á óbyggðu landi skammt frá Amfipolis í Norður-Grikklandi rís gríðarmikill grafarhaugur sem varðveitir sögu valdabaráttu, morða og lánleysis.

 

Þessi manngerði haugur er 158 metrar í þvermál og er ekki aðeins sá stærsti sem fundist hefur í Grikklandi, heldur tengist hann einhverjum blóðugasta fjölskylduharmleik fornaldarinnar – eftir dauðdaga Alexanders mikla árið 323 f.Kr.

 

Inni í haugnum hafa fornleifafræðingar afhjúpað 25 metra langt marmaragrafhýsi sem skiptist í fjögur rými, öll skreytt steinstyttum, útskornum skrautlistum og litskrúðugum mósaíkgólfum.

 

Að grafhýsið var jafnframt hugsað sem minnismerki sést greinilega á listilegum útskurði á hurðunum að innri rýmunum. Hurðirnar vega samtals 1,5 tonn.

Í Kasta-gröfinni fundust m.a. svonefndar karyatíður, kvennastyttur sem um leið eru burðarsúlur.

„Byggingarlistarsérkennin eru svo margvísleg að sem fornleifafræðingur stendur maður agndofa,“ segir Dimitria Malamidou í síma frá skrifstofu sinni í Serres í Norður-Grikklandi.

 

Hún stýrir uppgreftri þessa mikilfenglega grafhýsis sem hefur vakið athygli á heimsvísu síðan hann hófst 2012. Einkum er það þó ein spurning sem brennur á vörum áhugamanna: Hver var jarðsettur í Kasta-gröfinni, eins og hún kallast nú?

„Það er enginn vafi á því að þetta er fjölskyldugrafreitur og að fjölskyldan sem þar liggur tilheyrði yfirstétt samfélagsins“.
Dimitria Malamidou, fornleifafræðingur

Alls hafa fornleifafræðingar fundið bein af 5 einstaklingum: Kornabarn, tveir fullvaxnir karlmenn, eldri kona og loks brenndar beinaleifar af karlmanni á óþekktum aldri.

 

„Það leikur enginn vafi á að þetta er fjölskyldugröf og þessi fjölskylda hefur verið á hátindi samfélagsins,“ segir Dimitria Malamidou.

 

Að sögn sérfræðinga er gröfin frá því á árunum 325-300 f.Kr., þegar Amfipolis heyrði undir Makedóníu. Á þessum tíma var makedóníska hástéttin einkum samansett úr fjölskyldu Alexanders mikla og fólki nátengdu honum. Þar með blæs grafhýsið nýju lífi í myrkustu kaflana í sögu þessa konungs Makedóníu.

 

Dauði hans leiddi af sér einhverja blóðugustu valdabaráttu fornaldar, þar sem mestallri fjölskyldu hans var útrýmt og olli auk þess mikilli eyðileggingarbylgju sem barst um allt ríki hans. Fremst í flokki í þessum blóðsúthellingum var sjálf móðir Alexanders, Olympias.

 

Dauði Alexanders olli hamförum

Sumarið 323 f.Kr. báru sendimenn þau örlagaríku boð sem Olympias drottning hafði óttast árum saman: Sonur hennar, Alexander, hafði andast í Babýlon, 32 ára að aldri.

 

Á 11 árum hafði hann lagt undir sig hið gríðarstóra Persaveldi, Egyptaland og hluta af núverandi Indlandi. Þar með hafði hann komið á fót stærsta ríki veraldarsögunnar fram til þess tíma.

 

Öll þessi 11 ár hafði Olympias ekki séð son sinn í eitt einasta skipti og nú var ljóst að hún sæi hann aldrei framar.

 

Þótt sendimennirnir segðu að Alexander hefði dáið úr sjúkdómi, grunaði drottninguna að í rauninni hefði verið eitrað fyrir honum.

 

Hún hafði um árabil neyðst til að hafast við í fæðingarlandi sínu, Epiros, vestan við Makedóníu, vegna ósættist við hershöfðingja Alexanders, Antipater sem Alexander hafði falið völdin í Makedóníu meðan á herför hans um Mið-Austurlönd stæði.

 

Alexander hafði þó skömmu fyrir dauða sinn sett Antipater af og skipað honum að leiða nýjar hersveitir til Asíu.

 

Mögulega tók hann þessa ákvörðun vegna klögumála frá móður sinni. Iollas, einn af yngstu sonum Antipaters, var matþjónn Alexanders og Olympias grunaði hann um að hafa eitrað fyrir Alexander að skipan föður síns.

Í brúðkaupinu var það lífvörður Filippusar 2. sem myrti hann, mögulega að beiðni Olympias.

Konungurinn sjálfur óttaðist drottninguna

Sem prinsessa í Epiros ólst Olympias upp í þeirri bjargföstu trú að hún væri komin af sagnahetjunni Akkillesi og að sér væri ætlað stórt hlutverk.

 

Þegar hún giftist Filippusi 2. Makedóníukonungi ári 357 f.Kr. og fæddi honum soninn Alexander, einbeitti hún sér að því að gera þennan son að voldugasta drottnara sem veröldin hefði nokkru sinni séð.

 

Olympias ruddi úr vegi öllum hugsanlegum hindrunum á leið Alexanders að hásætinu. Þannig myrti hún sjálf yngstu konu Filippusar 2. og nýfæddan son hennar.

 

Sjálfur óttaðist Filippus konungur hina ráðkænu drottningu sína og miskunnarleysi hennar í valdataflinu. Óttinn var trúlega á rökum reistur því óstaðfestar sagnir herma að hún hafi fengið lífvörðinn Pausanias til að myrða Filippus í brúðkaupi dótturinnar Kleópötru.

 

Eftir dauða Filippusar var leiðin greið fyrir Alexander, son Olympias.

Hún fylltist bræði og örvæntingu vegna þess að Alexander átti engan erfingja og skyndilegur dauði hans olli þess vegna fyrirsjáanlegri upplausn í ríkinu.

 

Hershöfðingjar Alexanders sem höfðu staðið saman í blíðu og stríðu undir stjórn hans, börðust nú um hver skyldi taka við. Í þessari baráttu gat enginn talið sig óhultan, ekki einu sinni Olympias.

 

Hún vissi að eiginkona Alexanders, Roxane af Baktríu, þar sem nú er Afganistan, var þunguð en jafnvel þótt barnið yrði drengur gæti hann ekki tekið við konungdæminu fyrr en eftir 18 ár.

 

Hún ákvað því að leggja drög að hjónabandi sem gæti tryggt fjölskyldunni völdin. Sjálf var hún orðin of gömul en hún hafði þó tromp á hendi, dóttur sína, Kleópötru.

 

Systur buðu hjónabönd til valds

Sem systir Alexanders gæti Kleópatra fætt eiginmanni sínum réttmætan erfingja að krúnunni. Hún var þess vegna eftirsóknarverð brúður fyrir hvern þann sem ásældist völdin í Makedóníuríki.

 

Kleópatra féllst strax á hugmynd móður sinnar: Hún ætlaði að fara til borgarinnar Sardis í Litlu-Asíu þar sem hún hugðist bjóða Perdikkas, einum af hershöfðingjum Alexanders, hjónaband.

 

Perdikkas stóð nú í blóðugri baráttu um völd í ríkinu við aðra hershöfðingja Alexanders en hafði að einu leyti sterkari stöðu en hinir: Skömmu fyrir dauða sinn hafði Alexander útnefnt hann yfirhershöfðingja.

 

Til viðbótar hafði honum hlotnast sú staða að vera umboðsmaður sonar Alexanders sem Roxane hafði fætt þegar hér var komið sögu og varð til þess að margir vörpuðu öndinni léttar.

 

Hann fékk nafnið Alexander 4. og herinn útnefndi hann konung ásamt vangefnum hálfbróður Alexanders, Filippusi Arrhidaeus.

 

Bandalag við Perdikkas yrði af þessum sökum ómetanlegt fyrir Kleópötru og Olympias en einmitt nú stóðu þær frammi fyrir nýrri ógn.

 

Móðirin drepin

Sú ógn hét Eurydike og var dóttir hálfsystur Alexanders mikla. Þegar Eurydike og móðir hennar fréttu að Filippus Arrhidaeus hefði verið útnefndur konungur lögðu þær tafarlaust af stað til Asíu með áætlun sem var sláandi lík áætlun Olympias og Kleópötru.

 

Eurydike og móðir hennar hugðust þó fanga enn stærri fisk og stefndu á hjónaband milli Eurydike og Filippusar Arrhidaeus, þótt hann hefði vitsmunaþroska á við fjögurra ára barn og væri í ofanálag náfrændi Eurydike.

 

Eignuðust þau son yrði krafa Alexanders 4. til konungstignar ekki lengur jafn sjálfsögð.

 

Perdikkas áttaði sig á hættunni og gerði út herflokk til að handtaka Eurydike og móður hennar en sú áætlun fór úrskeiðis með þeim afleiðingum að móðirin var drepin.

 

Þegar dóttirin var flutt til herbúðanna reiddust hermennirnir mjög þeirri frétt að systir Alexanders hefði verið drepin.

 

Umkringdur slíkri úlfúð sá Perdikkas sitt óvænna og leyfði hjónaband Eurydike og Filippusar Arrhidaeus sem var of ringlaður til að hreyfa neinum mótmælum.

 

Alexander mikli lést í Babýlon, umkringdur hershöfðingjum sínum sem skömmu síðar voru komnir í hár saman.

Dauði Alexanders mikla sundraði heimsveldinu

Á 11 árum lagði Alexander mikli undir sig svæði sem mynduðu stærsta heimsveldi fornaldar en enginn reyndist fær um að halda því saman.

 

Árið 334 f. Kr. réðist Alexander inn í hið volduga ríki Persa í austri með ríflega 50.000 manna fótgöngu- og riddaraliði.

 

Persar höfðu öldum saman verið höfuðandstæðingar Grikkja en bæði Grikkir og Persar töldu Makedóníu í norðri vanþróað samfélag barbara.

 

En Filippus 2., faðir Alexanders, byggði upp mikinn her sem Alexander nýtti sér til árásar á Persa eftir dauða föður síns.

 

Eftir allmargar stórorrustur tókst honum að leggja heri Persa að velli og taka völdin í gríðarstóru ríki Persa en auk Írans nútímans náði það yfir Egyptaland, Tyrkland og Afganistan.

 

Í síðustu herför sinni náði Alexander alla leið til Pakistans og Indlands.

 

En eftir þessa ferð veiktist hann og dó í borginni Babýlon árið 323 f.Kr. Skömmu síðar braust út valdabarátta milli hershöfðingja Alexanders sem stofnuðu sumir eigin ríki.

Ríki Makedóníumanna 301 f.Kr.

Eftir meira en 20 ára valdabaráttu höfðu hershöfðingjar Alexanders skipt veldinu í 4 sjálfstæð ríki.

Hershöfðinginn Ptolemaios varð fyrstur til að stofna eigið ríki. Það náði yfir Egyptaland og hluta Mið-Austurlanda.

Hershöfðinginn Seleukos byggði upp víðlent ríki í Austur-Tyrklandi, Írak og Íran en erfitt reyndist að halda því saman.

Hershöfðinginn Lysimachos stofnaði smærra ríki í Vestur-Tyrklandi og Búlgaríu.

Hershöfðinginn Antipater hafði umsjón með Makedóníu og Grikklandi og Kassander, sonur hans, rændi völdum efir dauða föður síns.

Ríki Makedóníumanna 301 f.Kr.

Eftir meira en 20 ára valdabaráttu höfðu hershöfðingjar Alexanders skipt veldinu í 4 sjálfstæð ríki.

Hershöfðinginn Ptolemaios varð fyrstur til að stofna eigið ríki. Það náði yfir Egyptaland og hluta Mið-Austurlanda.

Hershöfðinginn Seleukos byggði upp víðlent ríki í Austur-Tyrklandi, Írak og Íran en erfitt reyndist að halda því saman.

Hershöfðinginn Lysimachos stofnaði smærra ríki í Vestur-Tyrklandi og Búlgaríu.

Hershöfðinginn Antipater hafði umsjón með Makedóníu og Grikklandi og Kassander, sonur hans, rændi völdum efir dauða föður síns.

Hershöfðingi stal líki konungs

Þetta hjónaband setti strik í reikninginn hjá Perdikkas en hann eygði nýja von þegar hann frétti að Kleópatra væri á leiðinni þeirra erinda að bjóða honum hjónaband.

 

Tilhugsunin um að giftast alsystur Alexanders veitti honum ómótstæðilegt tækifæri.

 

„Þar eð hann ætlaði sér konungdæmið var hann harðákveðinn í að kvænast Kleópötru í þeirri trú að hann gæti nýtt sér hana til að sannfæra Madedóníumenn um að veita sér alræðisvald“, skrifaði forn-gríski sagnaritarinn Diodor.

 

Perdikkas bar einnig ábyrgð á því að koma líki Alexanders heim til Makedóníu til greftrunar.

 

Það hafði verið smurt og beið nú flutnings í Babýlon. Hann hafði þegar gengið frá áætlun sinni í því efni. Lík konungsins skyldi flutt í risastórum, gullklæddum vagni sem 64 asnar áttu að draga.

 

Nú sá Perdikkas fyrir sér að fara sjálfur fyrir líkfylgdinni til höfuðborgar Makedóníu með systur Alexanders sem eiginkonu sína sér við hlið.

 

Það myndi ryðja úr vegi öllum efasemdum um rétt hans til krúnunnar – hélt hann.

Grafhýsið var reist fyrir hátignarfólk

Bygging og skreytingar Kasta-grafhýsisins hljóta að hafa kostað óhemjumikið fé og aðeins hátignarstétt hefur haft ráð á slíkum lúxus.

 

Þegar grískir fornleifafræðingar fundu ummerki grafhýsis í Kasta-haugnum í Norður-Grikklandi héldu þeir fyrst að um væri að ræða venjulega gröf. Frá því um 1960 hafa fundist meira en 70 grafir á svæðinu.

 

En fljótlega eftir að uppgröftur hófst skiptu fornleifafræðingarnir um skoðun.

 

Í ljós kom að haugurinn var hluti minnismerkis og þegar þeir náðu inn í sjálft grafhýsið reyndist það vera eitt glæsilegasta minnismerki í Grikklandi.

 

„Það er óyggjandi að við stöndum hér frammi fyrir gríðarlega merkilegri uppgötvun, sagði gríski forsætisráðherrann Antonis Samaras þegar fjölmiðlafólki var boðið að skoða grafhýsið 2014.

 

Þótt grafarræningjar hafi verið þarna á ferð sýndu styttur og skreytingar að fólkið sem hér var lagt til hinstu hvílu, hlaut að hafa tilheyrt allra tignustu yfirstétt landsins.

 

Sérfræðingur hefur metið kostnað við gröfina á um 25 tonn af silfri.

Grafarhaugurinn

Um 2,5 km utan við Amfipolis nútímans er Kasta-grafarhaugurinn. Hann er úr jarðvegi og var að líkindum 25 metra hár. Efst á haugnum tróndi gríðarstór ljónsstytta úr marmara. Leifar styttunnar fundust í nálægum árfarvegi árið 1912. Ljónið var meira en 5 metra hátt og að undirstöðunum meðtöldum var hæðin 15,84 metrar. Leifar af undirstöðunum voru enn til staðar þegar uppgröfturinn hófst.

Múrinn

Grafarhaugurinn er umlukinn 500 metra múr sem er 3 m á hæð og lagskiptur. Múrinn myndar því sem næst fullkominn hring sem er 158,4 metrar í þvermál en það var staðall Dinocratesar, aðalarkitekts Alexanders mikla. Því álíta margir að hann hafi komið að verkinu.

Sfinxar

Inngangur í Kasta-grafhýsið markast af bogahvelfingu og hans gæta tveir sfinxar með ljónsskrokka og arnarvængi. Þegar höfuð voru enn á sfinxunum hafa þeir náð 2 metra hæð. Annað höfuðið fannst í innsta rými grafhýsisins. Sfinxarnir hafa verið skemmdir í fornöld og ástæða þess er óljós.

Karyatíður

Tvær steinstyttur af konum – svonefndar karyatíður – halda uppi bogahvelfingunum. Þær eru 2,27 metra háar og á þeim eru leifar af gulri og rauðri málningu. Þær bera ákveðin einkenni kvenna sem þjónuðu sem gyðjur vínguðsins Dýonýsosar. En eins og sfinxarnir hafa verið unnin á þeim skemmdarverk.

Mósaíkgólf

Gólfið í miðrýminu er 4,5 x 3 metrar og lagt litskrúðugri mósaíkmynd. Myndin sýnir Hades, dauðraguð Forn-Grikkja, þar sem hann flytur Persefone, eina af dætrum Zeusar, í hestvagni niður í undirheima. Fremstur gengur Hermes sem í grískri goðafræði flutti látna frá jarðneskri tilveru niður í ríki dauðra.

Hin látnu fundust í steinkistu í innsta rýminu en dyrum þess var lokað með gríðarstórri hurð úr marmara. Alls hafa fundist 550 bein og beinhlutar og 157 þeirra eru með fullri vissu úr 5 mismunandi einstaklingum.

Grafarhaugurinn

Um 2,5 km utan við Amfipolis nútímans er Kasta-grafarhaugurinn. Hann er úr jarðvegi og var að líkindum 25 metra hár. Efst á haugnum tróndi gríðarstór ljónsstytta úr marmara. Leifar styttunnar fundust í nálægum árfarvegi árið 1912. Ljónið var meira en 5 metra hátt og að undirstöðunum meðtöldum var hæðin 15,84 metrar. Leifar af undirstöðunum voru enn til staðar þegar uppgröfturinn hófst.

Múrinn

Grafarhaugurinn er umlukinn 500 metra múr sem er 3 m á hæð og lagskiptur. Múrinn myndar því sem næst fullkominn hring sem er 158,4 metrar í þvermál en það var staðall Dinocratesar, aðalarkitekts Alexanders mikla. Því álíta margir að hann hafi komið að verkinu.

Sfinxar

Inngangur í Kasta-grafhýsið markast af bogahvelfingu og hans gæta tveir sfinxar með ljónsskrokka og arnarvængi. Þegar höfuð voru enn á sfinxunum hafa þeir náð 2 metra hæð. Annað höfuðið fannst í innsta rými grafhýsisins. Sfinxarnir hafa verið skemmdir í fornöld og ástæða þess er óljós.

Karyatíður

Tvær steinstyttur af konum – svonefndar karyatíður – halda uppi bogahvelfingunum. Þær eru 2,27 metra háar og á þeim eru leifar af gulri og rauðri málningu. Þær bera ákveðin einkenni kvenna sem þjónuðu sem gyðjur vínguðsins Dýonýsosar. En eins og sfinxarnir hafa verið unnin á þeim skemmdarverk.

Mósaíkgólf

Gólfið í miðrýminu er 4,5 x 3 metrar og lagt litskrúðugri mósaíkmynd. Myndin sýnir Hades, dauðraguð Forn-Grikkja, þar sem hann flytur Persefone, eina af dætrum Zeusar, í hestvagni niður í undirheima. Fremstur gengur Hermes sem í grískri goðafræði flutti látna frá jarðneskri tilveru niður í ríki dauðra.

Hin látnu fundust í steinkistu í innsta rýminu en dyrum þess var lokað með gríðarstórri hurð úr marmara. Alls hafa fundist 550 bein og beinhlutar og 157 þeirra eru með fullri vissu úr 5 mismunandi einstaklingum.

Annar hershöfðingi Alexanders gerði þessa draumsýn að engu.

 

Ptolemaios hershöfðingi hafði nýtt sér ringulreiðina eftir dauða Alexanders til að koma á fót sínu eigin ríki í Egyptalandi með Alexandríu sem höfuðborg. Og hann hugðist líka nýta sér lík Alexanders mikla. Yrði konungurinn grafinn í Egyptalandi, gæti það skapað hinu nýja ríki Ptolemaiosar óskorað lögmæti.

 

Þess vegna fór svo að þegar hinn gullskrýddi vagn með smurt lík Alexanders hóf ferð sína frá Babýlon áleiðis heim til Makedóníu, gerðu menn Ptolemaiosar áhlaup og fjarlægðu líkið úr vagninum og lögðu af stað með það til Egyptalands.

 

Nú var það skyndilega Ptolemaios en ekki Perdikkas sem hélt innreið í höfuðborg sína í fararbroddi líkfylgdar Alexanders mikla.

 

Perdikkas þurfti nú að hafa hraðar hendur til að forðast fullkomna auðmýkingu.

 

Er Alexander mikli í gröfinni?

Jafnvel eftir dauða sinn gat Alexander mikli gjörbreytt valdahlutföllum. Á þeim meira en 2.300 árum sem liðin eru síðan hann dó hefur áhugi manna á hinsta hvílustað hans einungis farið vaxandi.

 

Í hvert sinn sem menn finna gröf frá fjórðu öld f.Kr. kviknar sama spurning: Eru jarðneskar leifar Alexanders mikla loksins fundnar? Og þetta gerðist líka þegar Kasta-gröfin fannst, segir Dimitria Malamidou.

Ljónið, sem eitt sinn stóð ofan á gröfinni, var endurbyggt árið 1937 úr brotunum sem fundust. Stærð styttunnar sýnir ein og sér hversu mikilvægur hinn látni í gröfinni hlýtur að hafa verið.

„Orðrómur um að lík Alexanders mikla kynni að hafa verið flutt til Makedóníu með leynd komst strax á kreik,“ útskýrir hún og heldur svo áfram:

 

„Að leita að líki Alexanders mikla er farið að minna á leitina að bikarnum helga. Fólk vonar og heldur að nú séum við loksins komin á sporið.“

 

En hún vísar á bug öllum kenningum um að lík Alexanders sé að finna í Kasta-gröfinni.

 

„Það er ekki hann. Við höfum engar sannanir fyrir því að lík hans hafi nokkru sinni verið flutt frá Egyptalandi,“ undirstrikar hún.

 

Níl stal sigri Perdikkas

Perdikkas hershöfðingi var sannfærður um að hann gæti ennþá snúið aftur til Makedóníu sem nýr valdhafi með Kleópötru sér við hlið.

 

En fyrst þurfti hann að kljást við Ptolemaios. Perdikkas fór til Egyptalands með alla best þjálfuðu hermenn Alexanders og hjörð indverskra fíla til viðbótar.

 

Þegar kom að Nílarfljóti hikaði Perdikkas ekki þótt vatnið væri djúpt og fljótið straumhart. Alexander mikli hafði flutt her sinn yfir stórfljót á borð við Indus og Hydaspes með hjálp fíla og nú hugðist Perdikkas leika það eftir.

 

Hann sendi fílana út í fljótið til að draga úr straumnum og auðvelda hermönnunum að komast yfir. En þessar risavöxnu skepnur þyrluðu upp svo miklum sandi að fljótið dýpkaði mikið og hermennirnir náðu því ekki til botns.

 

Straumurinn færðist aftur í aukana og aðeins þeim sem best voru syndir tókst að bjarga sér í land. Straumþungi fljótsins hrifsaði mörg þúsund menn og skolaði þeim burtu. Á fljótsbakkanum stóð Perdikkas hjálparvana og horfði í menn sína hverfa í fljótið.

 

„Um kvöldið ómuðu um herbúðirnar kvartanir yfir þeim mörgu mannslífum sem þarna höfðu glatast í fullkomnu tilgangsleysi,“ skrifar Diodor.

 

Hermennirnir sem lifðu af gátu ekki fyrirgefið Perdikkas. Í samanburði við Alexander mikla hafði hann brugðist á öllum sviðum.

 

Sjálfur vissi hann að nú var öll von úti.

 

Maðurinn sem hafði látið sig dreyma um að verða hinn nýi Alexander veitti enga mótspyrnu og gaf heldur ekki frá sér nein óp að sögn Diodors þegar fyrrum vopnabræður hans „ruddust inn í tjald hans síðla kvölds og stungu hann til bana!“

All nokkur bein hins 35-40 ár karlmanns bera ummerki eftir ógróin stungusár.

Í það minnsta fimm einstaklingar hvíla í gröfinni

Allt frá því að Kasta-gröfin fannst 2012 hafa fornleifafræðingar brotið heilann um fyrir hvern grafhýsið hafi verið byggt. Í innsta rýminu fundust beinaleifar a.m.k. 5 einstaklinga, fjögurra fullorðinna og eins ungbarns.

 

A – Ungbarn, 0-1 árs.

 

B – Karl, 35-40 ára.

 

C – Karl, um 45 ára.

 

D – Brennd bein fullvaxins einstaklings.

 

EKona um 60 ára

Hershöfðingi í Kasta-gröfinni?

Dimitria Malamidou fornleifafræðingur telur ekki útilokað að Kasta-gröfin hafi verið reist yfir einn af hershöfðingjum Alexanders mikla.

 

„Margir þeirra hermanna sem sneru heim, einkum þeir sem höfðu sýnt Alexander mesta hollustu, fengu úthlutað jarðnæði á svæðinu kringum Amfipolis.“

 

Þátttaka hershöfðingjanna í landvinningum Alexanders mikla gleymdist ekki. Allir vissu af sigurför þeirra um heiminn og þeir hafa því án efa verið heiðraðir með virðulegum gröfum.

 

Það átti þó ekki fyrir Perdikkas að liggja. Hann var drepinn í mörg hundruð kílómetra fjarlægð frá Amfipolis og það er því örugglega ekki hann sem var jarðsettur í þessari gröf.

 

Grafhýsið gæti þó hafa verið reist til heiðurs einhverjum öðrum hershöfðingja Alexanders mikla.

 

Margir vísindamenn benda þó á að Kasta-gröfin sé allt of virðuleg til að það fái staðist. Jafnvel faðir Alexanders, Filippus 2., fékk ekki svo glæsilegt grafhýsi. Því hlýtur þessi gröf að hýsa enn merkilegri persónu.

 

Olympias veðjaði á sonarsoninn

Eftir dauða Perdikkas gaf Olympias giftingarhugmyndina upp á bátinn. Þess í stað beindi hún nú sjónum að sonarsyni sínum, Alexander 4. sem ásamt Filippusi Arrhidaeus hafði verið krýndur konungur.

 

Hún hafði aldrei séð barnið en tækist henni að gerast verndari drengsins gæti hún haldið hlífiskildi yfir honum þar til hann yrði nógu gamall til að stjórna sjálfur.

 

En hinn svarni erkióvinur hennar, hershöfðinginn Antipater, var skjótráðari.

 

Hann fór til Litlu-Asíu og flutti konungana tvo heim til Makedóníu þar sem hann gat haft þá báða í sinni vörslu. Þetta kom Olympias til að óttast um öryggi Alexanders litla.

 

Rétt eins og Antipater hafði séð til þess að Alexander hefði móður sína, Roxane, hjá sér, flutti hann líka eiginkonu Filippusar Arrhidaeus, hina útsjónarsömu Eurydike, með sér heim.

 

Og henni treysti Olympias alls ekki.

Roxane var gift Alexander í herför hans til Baktríu, þegar hún var aðeins 13 ára.

Ófrísk eiginkona myrti keppinaut

Þegar Alexander mikli lést, var yngsta eiginkona hans, Roxane, þunguð.

 

Roxane vissi að ef hún eignaðist son, gæti hann erft allt heimsveldi Alexanders.

 

Skömmu síðar bárust henni þær fréttir að önnur eiginkona Alexanders, persneska prinsessan Stateira, væri líka þunguð.

 

Roxane var frá Baktríu í núverandi Afganistan og henni var ljóst að Makedóníumenn voru mótfallnir hjónabandi hennar, þar sem þeir töldu hana ekki samboðna Alexander.

 

Hún óttaðist því að barn Stateiru yrði fyrir valinu sem arftaki. Stateira vissi enn ekki um andlát Alexanders og Roxane skrifaði henni bréf í hans nafni og tókst að lokka Stateiru til Babýlon.

 

„Þegar hún kom drap Roxane hana og systur hennar og fleygði líkunum í brunn,“ skrifar gríski sagnaritarinn Plutarch.

 

Amma Stateiru, Sisygambis drottning, áttaði sig á svikunum þegar hún fékk fréttir af andláti Alexanders.

 

Fjórum dögum síðar dó hún af sorg.

Árið 319 f.Kr. dó Antipater úr elli.

 

Elsti sonur hans, Kassander, var reiðubúinn að taka við völdum en rétt fyrir andlátið lét Antipater það verða sitt síðasta verk að tilnefna herforingja sinn, Polyperchon sem æðsta leiðtoga og fól honum ábyrgð á konungunum tveimur.

 

Þessari ákvörðun reiddist Kassander heiftarlega. Hann neitaði að hlýðnast manni sem var óskyldur Antipater og lagði á ráðin um uppreisn til að ná völdum í Makedóníu.

 

Fyrir dauða sinn hafði Antipater varað Polyperchon við: „Láttu ekki konu stjórna Makedóníu!“

 

En þetta ráð virti Polyperchon að vettugi, enda var þessum gamla herforingja ljóst að Kassander og félagar hans voru að undirbúa valdarán og hann þurfti því á öflugum bandamönnum að halda.

 

Hann bauð þess vegna Olympias að hafa tilsjón með Alexander litla í Epiros, þar sem hann yrði öruggari.

 

Fyrir Olympias var þetta sem gjöf af himnum ofan og hún þáði tilboðið án tafar.

 

Og hún tók enga áhættu. Hún hafði varið stærstum hluta ævi sinnar í að koma óvinum sonar síns fyrir kattarnef og nú var röðin komin að óvildarmönnum sonarsonarins. Fyrst í röðinni var Eurydike.

 

Konurnar háðu orrustu

Eurydike gerði sér ljóst að henni stafað lífshætta af Olympias og þegar hún frétti af bandalagi hennar og Polyperchons gekk hún til liðs við uppreisnarmenn Kassanders ásamt Filippusi Arrhidaeus, manni sínum.

 

Saman tókst þeim að hrekja Polyperchon á flótta og Eurydike var síðan útnefnd forráðamaður Filippusar Arrhidaeus og þar með nýr einvaldur Makedóníu.

 

Polyperchon flúði til Epiros þar sem hann bað um liðsinni Olympias.

 

Gamla drottningin hikaði ekki. Valdataka Eurydike þýddi að litli drengurinn, Alexander 4. var nú í hættu.

 

Olympias safnaði því saman her og hélt með hann til landamæranna ásamt Polyperchon.

 

Kassander hafði farið suður á Pelopsskaga til að afla sér stuðnings þannig að Eurydike þurfti að verja Makedóníu upp á eigin spýtur. Þannig atvikaðist það að árið 317 f.Kr. stóðu Eurydike og Olympias andspænis hvor annarri á vígvellinum.

 

Olympias stóð stolt og hnakkakert í fararbroddi hersins, klædd hjartarskinnsfeldi eins og guðinn Dýonýsos og horfði ísköldu augnaráði á Eurydike sem ekki var einu sinn fædd, þegar Olympias sendi son sinn af stað til að sigra heiminn.

Eftir dauða Alexanders mikla börðust allir gegn öllum. Grimmúðugust var sjálf móðir hans Olympias

Eurydike átti aldrei möguleika gegn Olympias því í augnaráði hennar virtist Alexander mikli birtast og minning hans var öflugri en nokkurt sverð.

 

„Af virðingu fyrir stöðu Olympias og minningu allra afreka Alexanders gengu Makedóníumennirnir til liðs við hana,“ skrifar sagnaritarinn Diodor.

 

Olympias réði sér varla fyrir sigurgleði.

„Olympias sendi Eurydike sverð, snöru og eiturbikar.“
Sagnaritarinn Diodor

Hún hafði sigrað Eurydike og þar með rutt úr vegi stærstu ógninni gagnvart arfleifð Alexanders.

 

Eurydike og maður hennar, Flippus Arrhidaeus, voru bæði tekin til fanga og múruð inni í litlum klefum. Aðeins var skilin eftir dálítil rifa til að hægt væri að koma mat til þeirra.

 

Eftir fáeinar vikur afréð Olympias þó að binda endi á þjáningar þeirra.

 

Diodor segir svo frá að drottningin hafi látið reka Filppus Arrhidaeus í gegn en Eurydike fékk að velja sér dauðdaga sjálf:

 

„Olympias sendi Eurydike sverð, snöru og eiturbikar.“

 

Menn drottningar fylgdust náið með þegar Eurydike lét það verða sitt síðasta verk að þurrka af sverðinu blóð mannsins sem hún hafði af kænsku sinni hagnýtt sér í baráttunni um völdin.

 

„Síðan hengdi hún sig í beltinu sínu án þess að fella nein tár vegna örlaga sinna né lánleysis,“ skrifar Diodor.

 

Hefndi fyrir dauða Alexanders

Morðin á Eurydike og Filippusi Arrhidaeus dugðu Olympias þó ekki.

 

Hún var enn sannfærð um að Antipater og synir hans hefðu ráðið Alexander af dögum og nú vildi hún hefnd.

 

Kassander var langt suður í landi og í stað hans lét Olympias myrða yngsta bróður hans, Nikanor.

„Hún valdi líka hundrað áhrifamestu vini Kassanders og lét slátra þeim öllum.“
Sagnaritarinn Diodor.

Miðbróðirinn, Iollas, sem verið hafði borðþjónn Alexanders, var þegar dauður en Olympias lét grafa lík hans upp og svívirða það.

 

„Hún valdi líka hundrað áhrifamestu vini Kassanders og lét slátra þeim öllum,“ skrifar Diodor.

 

Þegar orðrómurinn um blóðbaðið bárust Kassander hélt hann strax til Makedóníu með her sinn.

 

Þótt Olympias og Polyperchon væru viðbúin árásinni, kom styrkur hennar þeim alveg í opna skjöldu.

 

Olympias, Roxane og Alexander litli höfðu leitað skjóls í virkinu Pydna, suður af Amfipolis en Polyperchon leiddi herinn að landamærunum.

 

Kassander mútaði hins vegar hermönnum Polyperchons og fékk þá til að flýja af hólmi. Her Kassanders umkringdi síðan Pydna og sat um það mánuðum saman. Allan tímann lifði Olympias og aðrir í virkinu á matarskömmtum við hungurmörk og biðu hjálpar.

 

„Riddararnir sem ekki tóku þátt í vörn virkisins og fengu þess vegna engan mat, dóu nær allir og hin sömu urðu örlög fjölmargra fótgönguliða,“ skrifar Diodor.

 

Í örvæntingu sinni tóku sumir íbúanna það til bragðs að borða af líkum hinna dauðu.

„Knúnir hefndarþorsta myrtu þeir drottninguna en hún gaf ekki frá sér svo mikið sem eina kvenlega stunu eða andvarp.“
Sagnaritarinn Diodor.

Þegar ljóst var orðið að engin hjálp bærist, sendi Olympias loks þau boð til Kassanders að hún væri reiðubúin að gefast upp gegn því skilyrði að lífi hennar yrði þyrmt.

 

Kassander gekk að kröfunni en stofnaði hins vegar til réttarhalda sem enduðu á dauðadómi yfir Olympias.

 

Kassander vildi þó ekki láta minnast sín sem þess manns sem hefði tekið móður Alexanders mikla af lífi.

 

Þess í stað skipaði hann 200 hermönnum að gera það með árás.

Kassander hugðist láta hermenn sína drepa Olympias en þeir neituðu.

Olympias stóð bein í baki gegn böðlum sínum. Kjarkur hennar olli hermönnunum ótta og þeir þóttust þekkja Alexander sjálfan í líkamsburði gömlu konunnar. Enginn þeirra þorði að snerta við henni.

 

Í reiði sinni greip Kassander til þess ráðs að láta sækja aðstandendur þeirra sem Olympias hafði látið myrða. Þeir drógu hana út úr kastalanum, slógu hring um hana og grýttu hana af miklum hefndarþorsta.

 

„Knúnir hefndarþorsta myrtu þeir drottninguna en hún gaf ekki frá sér svo mikið sem eina kvenlega stunu eða andvarp,“ segir Diodor.

 

Gröfin gæti tilheyrt drottningu

Olympias var grýtt árið 316 f.Kr., aðeins ári eftir að hún lét myrða Eurydike og Filippus Arrhidaeus.

 

Móðir Alexanders mikla, hálfsystir, hálfsysturdóttir og hálfbróðir höfðu nú öll týnt lífinu í baráttunni um arfleifð hans. Og morðin áttu eftir að verða fleiri.

 

Vísindamenn telja hugsanlegt að Kasta-gröfin sé hinsti hvílustaður bæði Eurydike og Olympias.

 

Margir sérfræðngar telja gröfina bera öll merki þess að vera grafhýsi drottningar. Í eldri drottningagröfum í Makedóníu hafa fornleifafræðingar fundið myndir af sfinxum.

 

Þessar goðsöguverur hafa hugsanlega verið einhvers konar tákn makedónskra drottninga og í Kasta-grafhýsinu standa tvær sfinxstyttur.

 

Eurydike varð drottning þegar hún giftist Filippusi Arrhidaeus en þótt önnur karlmannsbeinagrindin samsvari hinum 42 ára Filippusi Arrhidaeus í aldri fellur engin beinagrind að aldri Eurydike sem var aðeins tvítug.

 

Allt öðru máli gegnir um Olympias drottningu. Sú beinagrind sem best er varðveitt er af konu um sextugt og sá aldur passar við hana.

 

Sérfræðingar benda líka á að tvær styttur í gröfinni, svonefndar karyatíður, gætu táknað gyðjur Dýonýsosar, Olympias var einmitt þekkt fyrir dýrkun sína á Dýonýsos.

 

Karlmennirnir tveir í gröfinni gætu þá hugsanlega verið hershöfðingjar Olympias, Aristonous og Monimus sem vörðu borgirnar Amfipolis og Pella fyrir her Kassanders.

 

Olympias sendi þeim báðum boð um að gefast upp þegar hún gerði það sjálf. Samkvæmt heimildum lét Kassander myrða Aristonous.

 

Beinagrindin sem ber merki um stungur gæti því verið af honum.

All nokkur bein hins 35-40 ár karlmanns bera ummerki eftir ógróin stungusár.

Kornabarnið og brunna beinagrindin gæti þá mögulega verið óþekktir ættingjar Olympias.

Beinaleifar a.m.k. 5 einstaklinga lágu í og við steinkistu í innsta rými Kasta-grafarinnar.

Hverjir eru í gröfinni?

Þótt nöfn fólksins séu enn ráðgáta hafa vísindamenn sett fram tilgátur um nöfn fólks sem á það sameiginlegt að hafa verið í innsta hring Alexanders mikla.

 

Er þetta Alexander mikli?
 • Með: Stærð grafhýsisins og búnaður benda til mikillar hátignar. Tímasetningin kemur líka heim við dánartíma Alexanders.

 

 • Móti:  Þrátt fyrir tíðar endurjarðsetningar bendir ekkert til að lík Alexanders hafi farið frá Egyptalandi.

 

Hefaiston?
 • Með: Áletrun í Kasta-gröfinni þótti í byrjun benda til að gröfin tilheyrði Hefaiston, besta vini Alexanders. Hann dó í núverandi Íran 324 f.Kr. og líkið var brennt á báli. Alexander krafðist þess að minnismerki yrðu reist víða í ríkinu, Hefaiston til heiðurs.

 

 • Móti: Alexander lést aðeins 7 mánuðum á eftir Hefaiston og útilokað að Kasta-gröfin hafi þá verið fullbyggð. Engir aðrir gætu hafa reynst fúsir til að reisa svo dýrt grafhýsi Hefaiston til heiðurs. Áletraðir steinar í fyrirhugaða gröf hans hefðu þó getað verið notaðir í þessa.

 

Hershöfðingi Alexanders?
 • Með: Sumir hershöfðingjar Alexanders settust að í Amfipolis og hafa trúlega verið grafnir þar.

 

 • Móti: Grafhýsið er of stórbrotið fyrir hershöfðingja og ekkert bendir til að þar hvíli hermaður.

 

Eurydike og Arrhidaeus?
 • Með: Filippus Arrhidaeus var þroskaheftur og látinn kvænast Eurydike sem þar með varð drottning. Þau áttu því rétt á konunglegu grafhýsi. Filippus varð 42 ára og karlmannsbeinagrind með stungumerkjum gæti verið af honum.

 

 • Móti: Kassander veitti líkum hjónanna konunglega útför í Aigai, höfuðborg Makedóníu, skömmu eftir dauða Olympias.

 

Alexander 4. og Roxane?
 • Með: Í krafti hjónabands síns var Roxane drottning Alexanders mikla en Kassander lét myrða hana og son hennar, Alexander 4., í Amfipolis 310 f.Kr. Sem konungur og sonur Alexanders mikla átti Alexander 4. rétt á konunglegu grafhýsi.

 

 • Móti: Roxane var á fertugsaldri þegar hún var myrt og það passar ekki við neina beinagrind. Alexander 4. var 13 ára en engin beinagrindin er af unglingi.

 

Eða kannski Olympias?
 • Með: Olympias hefur verið um sextugt þegar Kassander lét lífláta hana. Aldurinn kemur heim og saman við beinagrind konunnar. Tveir nánustu hershöfðingjar hennar voru báðir nálægt fertugu og létu lífið á sama tíma og hún. Aldurinn passar því ágætlega við karlbeinagrindurnar tvær. Annan lét Kassander drepa sem kemur heim við stunguáverka á annarri beinagrindinni. Kassander varð nú konungur Makedóníu og er því nánast sá eini sem gæti hafa haft efni á að láta reisa svo mikilfenglegt grafhýsi.
 • Grafhýsið gæti hann hafa látið reisa til að friðþægja ættingja Alexanders mikla.

 

 • Móti: Miskunnarlaus slátrun Olympias á ættingjum Kassanders veldur því að erfitt er að trúa því að Kassander hafi leyft svo tignarlegt grafhýsi henni til heiðurs.

Kassander myrti son Alexanders

Eftir að hafa tekið Olympias af lífi stóð Kassander enn frammi fyrir einu vandamáli, Roxane og Alexander 4. sem nú var orðinn sjö ára.

 

Drengurinn var erfingi krúnunnar og Kassander stóð þess vegna ógn af honum. En hann var líka sonur Alexanders mikla. Kassander þorði því ekki að taka hann af lífi – strax.

 

Þess í stað gerði hann móður og son burtræk til Amfipolis. En þau urðu ekki langlíf. Þegar Alexander varð 13 ára lét Kassander taka þau bæði af lífi.

 

Tveimur árum síðar myrti annar makedónskur hershöfðingi Kleópötru, systur Alexanders mikla.

 

15 árum eftir andlát Alexanders mikla var ætt hans að heita mátti útdauð og útilokað að nokkur erfingi hans gæti endurreist makedónska heimsveldið.

Eftir morðið á syni Alexander mikla útnefndi Kassander sjálfan sig konung Makedóníu.

Ormar tærðu Kassander

Örlögin náðu á endanum manninum sem drap móður Alexanders mikla, eiginkonu og son og hans biðu grimmileg endalok.

 

Eftir dauða Olympias kvæntist Kassander Þessalonike, hálfsystur Alexanders mikla og stofnaði síðan borgina Þessaloníku henni til heiðurs.

 

Hann útnefndi sjálfan sig konung en átti áfram í ófriði við fyrrum hershöfðingja Alexanders mikla.

 

Ekkert lát varð á þeim skærum fram til 297 f.Kr. en þá tók hann sótt sem sögð var einkennast af vökvabjúg og ormaveiki. Kassander dó úr þessum veikindum og leið miklar kvalir.

 

Sonur hans, Filippus, lést skömmu síðar úr sama sjúkdómi.

 

Næselsti sonurinn, Antipatros, myrti móður sína, Þessalonike, þegar hún krafðist þess að hann deildi völdum með yngsta bróðurnum, Alexandros – sem svo í kjölfarið drap bróður sinn. Alexandros, síðasti erfingi Kassanders var svo sjálfur myrtur fáum árum síðar.

Þeir sem á eftir komu tóku aftur upp blóðuga baráttu um yfirráð – en munurinn var sá að Alexander mikli hafði skapað hugmyndina um miklu stærra yfirráðasvæði en nokkur maður hafði áður látið sig dreyma um.

 

Af öllu þessu er nú eftir þetta merkilega grafhýsi nálægt Amfipolis, þar sem eiginkona og sonur Alexanders mikla létu lífið. Hvort þetta er gröf Olympias verðum við að láta okkur nægja að giska á.

 

Fornleifafræðingar þora ekki að draga svo eindregnar ályktandir en rannsóknum verður haldið áfram og enn er því ekki óhugsandi að ráðgátan um tengsl þessa grafhýsis við Alexander mikla verði á endanum leyst.

Lestu meira um tímann eftir Alexander mikla

 • Elizabeth Carney: Olympias: Mother of Alexander the Great, Routledge, 2006

 

 • James Romm: Ghost on the Throne, Vintage Book, 2011

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: NANNA APERGIS , NIELS-PETER GRANZOW BUSCH

Getty Images,© AFP/Ritzau Scanpix,© The History Collection/Imageselect,© North Wind Picture Archives/Imageselect,© GreekToys, Shutterstock,© Athanasios Gioumpasis/Getty Images,© North Wind Picture Archives/Imageselect,© Album/Ritzau Scanpix,© The Picture Art Collection/Alamy/Imageselect,© Greek Ministry Of Culture/EPA/Ritzau Scanpix & Shutterstock,© The History Collection/Imageselect

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

NÝJASTA NÝTT

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Vinsælast

1

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

2

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

3

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

4

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

5

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

6

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

1

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

2

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

3

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

4

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

5

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

6

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Jörðin

Leiða loftslagsbreytingar til fleiri jarðskjálfta?

Maðurinn

Heilsa okkar ræðst af blóðinu

Náttúran

Topp 5: Hvaða dýr stunda lengsta mökun?

Lifandi Saga

Sósíaldarwinistarnir lýstu yfir stríði gegn fátækum

Maðurinn

Er siðblindingi á vinnustaðnum þínum?

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

Maðurinn

Eru fingraför óhjákvæmilega ólík?

Maðurinn

Frestar þú leiðinlegum verkefnum? Samkvæmt vísindamönnum er það slæm hugmynd

Læknisfræði

Hversu gamalt er Viagra?

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

Maðurinn

Við getum lifað án heilastofns

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Er sólarvarnarkrem eina leiðin til að verjast geislum sólar eða eru til matvörur með sólarvörn?

Maðurinn

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is