Lifandi Saga

Ástæðan fyrir falli Tróju

Í meira en 100 ár hafa fornleifafræðingar deilt um hið fræga sögukvæði Hómers, Ilíonskviðu sem segir frá falli hinnar glæstu borgar, Tróju. Nýjar uppgötvanir sýna að kvæðið gæti farið mun nær sannleikanum en menn hafa viljað trúa.

BIRT: 21/10/2022

„Kveð Þú, gyðja, um hina fársfullu heiftarreiði Akkils Peleifssonar, þá er olli Akkeum ótölulegra mannrauna, …“. Þannig hefst hin fræga Ilíonskviða Hómers í um 200 ára gamalli þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar.

 

Kviður Hómers voru lengi skyldulesefni í latínuskólum og síðar menntaskólum og Sveinbjörn nýtti þýðingar sínar einmitt við kennslu. Ilíonskviða segir frá síðasta ári Trójustríðsins og kviðurnar eru þekktustu bókmenntaverk Forn-Grikkja.

 

Ilíonskviða segir dramatískar hetjusögur frá frægustu atburðum í fornsögu Grikkja þegar svo margar glæsilegar hetjur börðust og létu lífið í baráttunni um hina voldugu borg og konungdæmi hennar. Svo vinsælar voru þessar hetjusögur að á dögum Hómers, á 8. öld f.Kr., höfðu þær lifað í munnlegri geymd í 500 ár.

Þegar til forna var goðsögnin um Trójustríðið afar vinsæl - og prýddi hún m.a. amfórur. Hér sést Akkilles draga Hektor á vagni sínum.

Þessar sagnir um baráttu Grikkja úr vestri og Trójubúa í austri hafa líka heillað fólk allar götur síðan. Í fornöld var Ilíonskviða eins konar handbók um pólitík og aðferðafræði í styrjöldum.

 

Svo er sagt að sá mikli herforingi, Alexander mikli, hafi sofið með Ilíonskviðu undir koddanum. Í hinu fræga bókasafni í Alexandríu söfnuðu fræðimenn saman öllum útgáfum sem til voru af Ilíonskviðu til að bera saman textana og greina þá. Nú hefur þessi kvæðabálkur verið þýddur á flest tungumál veraldar.

 

T.d. er Ilíonskviða til í 70 mismunandi útgáfum á ensku. Nýlega var kviðan þýdd á það afbrigði ensku sem talað er í Suður-Afríku. Kviður Hómers hafa borist um allan heim og þaðan eru komnar undirstöður að mest öllu sem við þekkjum um elstu sögu Grikkja ásamt ótal mýtum og hetjusögnum.

 

Vísindamenn hafa öldum saman deilt um það hvort Ilíonskviða greini frá einhverju öðru en arfsögnum. Var þetta sögukvæði upphaflega aðeins skemmtiefni eða var þar lýst raunverulegu stríði þar sem raunverulegar stríðshetjur komu við sögu?

 

Lengi hafa menn að mestu verið sammála um að þessar frásögur hafi átt sér rætur í veruleikanum. En á síðustu árum hafa fornleifafræðingar og málvísindamenn hins vegar gert margar athyglisverðar uppgötvanir sem að samanlögðu benda til að frásögn Hómers sé meira en bara dramatísk saga. Ýmislegt bendir til að Ilíonskviða byggist á raunverulegu stríði sem háð hafi verið á bronsöld.

Hin miklu verk Hómers, Ilíonskviða og Ódysseifskviða, höfðu mikil áhrif á grískar bókmenntir.

Auðmaður leitaði að Tróju

Þeir fyrstu sem hófu leitina að Tróju á 19. öld mættu mikilli tortryggni. Á 19. öld efuðust fornleifafræðingar ekki aðeins um að nokkurt stríð hefði verið háð um borgina, heldur gerðu þeir ekkert sérstaklega ráð fyrir að borgin hefði verið til annars staðar en í hugarheimi Hómers.

 

Fáeinar eldsálir voru þó sannfærðar um að sagnir Hómers byggðust á veruleikanum, svo sem þýski auðjöfurinn Heinrich Schliemann sem var heimshornaflakkari og áhugamaður um fornleifar. Schliemann var sonur fremur fátæks prests og hafði sem barn hlustað á föður sinn lesa upphátt úr Ilíonskviðu og heillaðist af henni.

 

Á fullorðinsárum hafði þessi Þjóðverji lagt hart að sér og efnast mikið, annars vegar á verslun við Rússland og hins vegar sem bankamaður á tímum gullgrafaraæðisins í Bandaríkjunum. Eftir 1860 hafði hann loksins efni á að kosta dýra leiðangra og árið 1868 lagði hann út á Miðjarðarhaf í leit að þessari sögufrægu borg, þá 46 ára að aldri.

Heinrich Schliemann var einn af stóru frumkvöðlum fornleifafræðinnar. Notkun hans á dýnamíti við uppgröftinn hins vegar verið harðlega gagnrýnd.

Á þeim tíma var enn fullkomin ráðgáta hvar Trója hefði getað verið. Allt frá fornöld höfðu sagnfræðingar álitið að borgin hefði staðið í Tyrklandi nútímans, við Dardanellasund. Hæðin Burnarbashi var nánar tiltekið talin vera sá staður þar sem rústir Tróju væri að finna, að áliti þeirra fáu vísindamanna sem ekki afgreiddu tilvist borgarinnar sem uppspuna.

 

Það lá því beint við að Schliemann hæfi leit sína þar og 1869 var hann kominn til Tyrklands með leiðangur sinn, þeirra erinda að rannsaka hæðina. En hann þurfti ekki að grafa mikið til að sannfærast um að Trója leyndist ekki þarna.

 

Hvorki fannst tangur né tetur af múrsteinum eða leirkerabrotum en slíkt hefði nánast átt að spretta upp við hverja skóflustungu ef þarna hefðu staðið háir múrveggir, kastalasíki og stórar hallir í stíl við lýsingar Hómers. Lega hæðarinnar jók líka á efasemdir Schliemanns.

 

Herbúðir Grikkja í stríðinu um Tróju voru við sjóinn ef marka mátti frásögn Hómers. Þaðan hlupu þeir daglega til að berjast við Trójumenn, að sögn Hómers. En Burnarbashi-hæðin var marga kílómetra frá ströndinni – allt of langt til að Grikkir hefðu farið þá leið daglega.

 

Þegar Schliemann gekk þá leið sem Grikkir hefðu þurft að fara fyrsta daginn, virtist honum sem þeir hefðu á níu klukkustundum þurft að hlaupa 84 kílómetra ef Trója hefði í rauninni staðið þarna.

Idafjall er hæsta fjall Krítar og þar sem það er nefnt í "Ilíonskviðu" gæti Schliemann nýtt það til að finna staðsetningu Tróju.

Til að geta afskrifað þessa kenningu dró Schliemann fram það eintak af Ilíonskviðu sem hann hafði meðferðis. Hann fór nákvæmlega í gegnum allar upplýsingar sem textinn gaf um staðsetninguna.

 

T.d. sagði Hómer að Trójumenn hefðu getað séð Idafjall. En það fjall var ekki sýnilegt frá Burnarbashi, jafnvel ekki þótt virkisveggir borgarinnar hefðu verið háir.

 

Fjöldi vatnslinda við hæðina kom heldur ekki heim og saman. Samkvæmt Ilíonskviðu áttu uppspretturnar að vera tvær, önnur svo heit að vatnið gufaði upp en hin ísköld. Kringum hæðina fann Schliemann alls 34 vatnsuppsprettur.

 

Hann mældi hitann með vasahitamæli sínum og í öllum uppsprettunum reyndist hitastigið nákvæmlega það sama, 17,5 gráður á Celsíus.

 

Til frekari fullvissu fylgdi Schliemann í fótspor tveggja af aðalsöguhetjunum. Akkilles og Hektor prins eltu hvor annan þrjá hringi kringum borgina í lokauppgjöri sínu.

 

Á þessari leið kom Schliemann að brattri skriðu þar sem hann þurfti að skríða niður á fjórum fótum. Hetjurnar tvær hefðu tæpast hlaupið umhverfis borgina ef leiðin hefði á einum stað legið niður svo bratta skriðu, áleit Schliemann og afskrifaði þar með Burnabashi.

Synir Tróju fórnuðu öllu

Í tíu ár sátu Grikkir um borgina en konungur Tróju, Príamos, sýndi mikla hetjulund. Gjaldið varð hátt. Synir Príamosar veittu vörn borgarbúa forstöðu og guldu sumir fyrir með lífi sínu. Að lokum þurftu þeir íbúar sem eftir lifðu að bjarga lífinu á flótta.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Nálæg hæð fékk staðist

Að leiðsögn annarra áhugamanna, einkum Bretans Franks Calvert, flutti Schliemann sig nokkru norðar til að grafa í Hisarlikhæð og eftir snögga yfirsýn var niðurstaðan skýr. Svæðið féll fullkomlega að lýsingu Hómers.

 

Þessi hæð var skammt frá sjó og gott útsýni til Idafjalls. Að auki var hæðin á annars flatri sléttu sem Akkilles og Hektor hefðu getað hlaupið hindrunarlaust um meðan þeir börðust.

„Ég er fullkomlega sannfærður um að það var hér sem Trója fornaldarinnar stóð.“

Heinrich Schliemann þegar hann sá svæðið við tyrkneska bæinn Hisarlik

Hisarlik er um 5 km frá sjó en fornleifafræðingar hafa síðan fært sönnur á að á dögum Hómers var ströndin talsvert nær. Það svæði sem eitt sinn hefði getað verið náttúruleg höfn fyrir skip Grikkja hefur nú fyllst af seti.

 

Skoðun á strandlengjunni á tíð Hómers kemur hins vegar heim við lýsingar Ilíonskviðu á landslaginu. Schliemann var sjálfur ekki í neinum vafa: „Ég er fullkomlega sannfærður um að það var hér sem Trója fornaldarinnar stóð,“ skrifaði hann eftir að hafa skoðað sig um við Hisarlik. Líkindi við lýsingar Hómers dugðu þó ekki til. Þýski fornleifafræðingurinn þurfti að grafa til að sanna kenningu sína um staðsetningu Tróju.

 

Af texta Forn-Grikkjans Eratosþenesar vissi Schliemann nákvæmlega að hverju hann átti að leita. Eratosþenes hafði á 3. öld f.Kr. reynt að reikna út hvenær Trója féll og komst að þeirri niðurstöðu að það hefði verið 408 árum fyrir fyrstu grísku Ólympíuleikana og samkvæmt okkar tímatali samsvarar það árinu 1184 f.Kr.

 

Í apríl 1870 stakk Schliemann skóflu í jörð og fann fljótlega lag sem hann áleit vera frá þeim tíma þegar Trója féll. Schliemann hafði sannað að vísindamennirnir höfðu rangt fyrir sér. Trója var raunveruleg. Sigurinn var fullkomnaður.

Heinrich Schliemann stundaði uppgröft í Mykeneu á Grikklandi frá 1876. Hann uppgötvaði m.a. hið fræga ljónahlið og ýmsa dýrmæta muni sem hann fullyrti að væru úr gröf Agamemnons konungs.

Niðurstöður riða til falls

Uppgötvun Schliemanns var að sjálfsögðu tekið af tortryggni en öðlaðist þó reyndar viðurkenningu tiltölulega fljótt. Þjóðverjinn hafði – að áliti margra fornleifafræðinga – fundið þann stað þar sem Trója hafi eitt sinn staðið. Þeirri niðurstöðu eru flestir nútímavísindamenn einnig sammála. Staðsetning Tróju er fundin en Schliemann fann hins vegar aldrei borgina úr Ilíonskviðu.

 

Lagið sem Schliemann fann var einfaldlega allt of gamalt og borgin sem hann gróf upp, getur ekki hafa verið Trója Hómers. Sú borg sem staðið hefur á Hisarlik hefur mátt þola grimm örlög. Það sýna margir uppgreftir sem framkvæmdir hafa verið. Á 4.000 ára tímabili hefur borgin verið lögð í rústir og endurbyggð a.m.k. níu sinnum, hvert nýtt lag ofan á annað.

 

Elstu og neðstu bústaðirnir sem fornleifafræðingarnir hafa gefið nafnið Trója 0, eru frá nýsteinöld, u.þ.b. frá 3700 f.Kr. Yngstu rústirnar eru frá rómverskum tíma og aldursgreindar nálægt árinu 500.

,,Vesældarlegir, litlir bæir sem ekki var með nokkru móti hægt að kalla borg.“

Sérfræðingur í fornaldarbúsetu árið 1984.

Schliemann hafði grafið sig niður í gegnum þessi lög, niður að Tróju 2 – einnar af eldri borgunum – sem hann kallaði borg Hómers. Seinni tíma rannsóknir sýna að sú borg hefur verið um þúsund árum eldri en borgin sem lýst er í Ilíonskviðu  Fornleifafræðingar hafa síðan aldursgreint þessi lög og telja nú að Trója 6 eða Trója 7a hafi verið sú borg sem varð Hómer að yrkisefni.

 

Þetta hafa þó verið smábæir og alveg án þeirra glæsibygginga og háreistu virkisveggja sem Ilíonskviða tilgreinir. Trója 6 og 7a voru nefnilega vesældarlegir, litlir bæir sem ekki var með nokkru móti hægt að kalla borg,“ sagði sérfræðingur í fornaldarbúsetu árið 1984.

 

Stórkostleg eyðileggingarstyrjöld um Tróju virtist því afar ósennileg að áliti margra vísindamanna á þeim tíma. Svo lítilfjörlegur bær var tæpast þess virði að berjast um hann.

Sophia, kona Schliemanns ber hér hluta þeirra skartgripa sem þau hjónin smygluðu frá Tyrklandi.

Trója tekur að stækka

Ný uppgraftarverkefni frá því laust fyrir 1990 og fram til 2005 hafa nú sýnt að Trója var miklu stærri borg en fornleifafræðingar höfðu talið. Neðan við lítið virki sem menn höfðu talið einu byggðina á svæðinu fundu fornleifafræðingar nú leifar af borgarsvæði þar sem rúmast hafa 7.000 íbúar.

 

Samtals náði Trója yfir ríflega 30 hektara landsvæði eða um þriðjung úr ferkílómetra og þar hafa í heildina rúmast allt að tíu þúsund manns að áliti fornleifafræðinganna. Borgin var þar með fimmtán sinnum stærri en talið hafði verið og blómstrandi stórborg á mælikvarða samtíma síns.

 

Stærð borgarinnar og staðsetning þýða að Trója hefur að líkindum verið ráðandi á svæðinu og ráðið umferð milli Miðjarðarhafs og Svartahafs og sömuleiðis milli Litlu-Asíu og Suðaustur-Evrópu. Þessi staðsetning hefur fært Tróju bæði auðæfi og völd.

 

Meira að segja veðrið var Tróju hagfellt. Hómer talar um hina vindasömu Tróju og vindurinn hefur leikið stórt hlutverk varðandi velgengni borgarinnar. Mælingar vísindamanna gefa til kynna að við innsiglinguna að Tróju hafi að sumarlagi – á helsta siglingatímanum – ríkt norðanvindar í allt að 60 daga.

 

Á bronsöld voru menn enn ekki farnir að beita upp í vindinn sem síðar gerði mönnum kleift að sigla í mótvindi. Vindurinn neyddi því verslunarmenn á sjó til að leita vars og oft þurftu skipin að liggja í höfn í margar vikur. Lífleg og aukin verslun sem fylgdi þessum skipakomum hefur bætt hag borgarinnar.

Fjölmargar rústir hafa fundist í Hisarlik í Tyrklandi sem bera vitni um raunverulega stærð Tróju.

Trója 6 reyndist samsvara lýsingum Hómers á ókleifum múrum og háum turnum en um 1250 f.Kr. hefur þessi borg eyðilagst, þó fremur í jarðskjálfta en styrjöld. Sú borg sem reis á rústunum, Trója 7a, hefur ekki verið jafn glæsileg en íbúar hennar bættu hins vegar við varnarveggina.

 

Um 1175 f.Kr. var borgin aftur lögð í eyði og að þessu sinni má sjá ummerki um bæði hernað og umsátur. Að sögn fornleifafræðinganna benda spjóts- og örvaroddar á götunum til grimmúðlegra endaloka.

 

Stórum húsum og höllum, þar sem áður bjó ein fjölskylda, hafði verið skipt upp til að fleira fólk rúmaðist þar. Í nánast öllum húsum höfðu íbúarnir grafið niður stórar krukkur með vistum. Allt er þetta tákn þess að borgin hafi verið umsetin fyrir eyðilegginguna, einmitt eins og Hómer lýsir. Bæði Trója 6 og Trója 7a hafa sem sagt verið glæsilegar borgir og vel þess virði að berjast um þær.

Brottnám leiddi til falls Tróju

Stríðið um Tróju er harmsaga sem nær yfir áratugi. Atburðarásinni er lýst í hetjuljóðum en auk Ilíonskviðu eru það söguljóðin, Kypría, Aiþiópis, Litla Ilíonskviða og Ilíumpersis.

U.þ.b. 1190 f.Kr.

Með hjálp gyðjunnar Afródíte verður Helena fagra ástfangin af París prins og hann nemur hana brott til heimaborgar sinnar, Tróju. Eiginmaður hennar, Menelás Spörtukonungur bregst reiður við og sver þess eið að sækja hana. Hann safnar kringum sig öðrum grískum konungum sér til aðstoðar í baráttunni.

 

U.þ.b. 1188 f.Kr

Gríski herinn er ferðbúinn en fær ekki byr. Til þess þarf Menelás konungur að fórna dóttur sinni, Ifigeníu.

 

U.þ.b. 1188-1185 f.Kr.

Grikkir sitja um Tróju árum saman. Menelás og París heyja einvígi. Menelás sigrar en guðirnir vernda París og Helena fagra er áfram í Tróju.

 

U.þ.b. 1183 f. Kr.

Eftir áralangt umsátur mæta Grikkir enn mótspyrnu. Patroklos, vinur stríðshetjunnar Akkillesar, tekur þátt í bardaga en fellur fyrir besta stríðsmanni Tróju, Hektori.

 

U.þ.b. 1183 f.Kr.

Í reiði sinni eftir dráp Patroklosar skorar Akkilles Hektor á hólm og drepur hann. Síðan auðmýkir hann Trójubúa með því að draga lík krónpinsins á eftir stríðsvagni sínum.

 

U.þ.b. 1183 f.Kr

Til hefnda fyrir bróður sinn skýtur París ör í hæl Akkillesar, eina staðinn þar sem Akkilles er særanlegur. Sárið banar þessari miklu hetju.

 

U.þ.b. 1180 f.Kr.

Grikkir smíða tréhest og fela stríðsmenn innan í honum. Trójumenn álíta hestinn fórnargjöf og draga hann inn í borgina. Í skjóli nætur stökkva hermennirnir út og opna borgarhliðið fyrir her sínum.

 

U.þ.b. 1180 f.Kr.

Blóðug fjöldamorð fylgja í kjölfarið. Trójumenn reyna í örvæntingu að grípa til varna en eru brytjaðir niður. Loks er borgin brennd til grunna og yfirgefin.

Nafn prins finnst á leirtöflu

Samkvæmt lýsingu Hómers var upphaf stríðsins hvorki að rekja til staðsetningar borgarinnar né auðæva. Þess í stað var ástæðan sú að fegurstu konu Grikklands, Helenu fögru, var rænt og hún flutt til Tróju. Í söguljóði Hómers var Helena gift Menelási konungi í Spörtu en að París Trójuprins hafi dregið hana á tálar þegar hann var gestkomandi og tekið hana með sér.

 

Helena er að sjálfsögðu meðal þeirra nafna sem hafa verið vísindamönnum hugleikin. Hún er nefnd í ýmsum ritum fornaldar, t.d. segir skáldið Stesichoros (632-556 f.Kr.) að eftir að París nam Helenu á brott hafi þau borið að landi í Egyptalandi.

 

Frásagnirnar geta vel verið byggðar á gömlum arfsögnum og vísindamenn hafa engar beinar sannanir fyrir því að grísk drottning að nafni Helena hafi nokkru sinni verið til. Aftur á móti er talið að París hafi verið raunverulegur. Hjá Hómer heitir hann þó Alexandros og það nafn er þekkt frá uppgrefti í annarri borg í mörg hundruð kílómetra fjarlægð.

Samkvæmt heimildum er prinsinum París sagður vera huglaus og í Ilíonskviðu húðskammar Hektor prinsinn fyrir að vera innandyra með Helenu á meðan að borgarbúar berjast í örvæntingu gegn Grikkjum.

Þegar fornleifafræðingar grófu upp borgina Hattusa, höfuðstað hins volduga Hittítaríkis, í núverandi Tyrklandi fundu þeir skjalasafn borgarinnar þar sem varðveist höfðu mörg þúsund leirtöflur. Á einni þeirra sem er tímasett um 1280 f.Kr. er lýst bandalagi milli Alaksandu af Wilusa og konungs Hittíta. Margir vísindamenn telja að Wilusa hafi verið ritháttur Hittíta á Ilíon sem var annað heiti Tróju.

 

Ilíonskviða ber einmitt þetta nafn Trójuborgar og samkvæmt skjölum Hittíta ríkti þar konungur að nafni Alaksandu rúmum 100 árum fyrir Trójustríðið. Síðari tíma prins af Tróju gæti hafa heitið þessu nafni í aðeins annarri útgáfu: Alexandros.

Troja-skjold-akhilles

Skildi Akkilesar er lýst ítarlega og mun hann hafa verið prýddur m.a. himintunglum og dansandi fólki. Einungins endurgerð er til af skildinum.

Þegar París nam Helenu fögru á brott varð það – samkvæmt sögunni – til þess að Menelás konungur skipulagði hefndarleiðangur. Menelás var konungur í Spörtu og bróðir hans, Agamemnon, var konungur í Mykineu, einu voldugasta ríki Grikklands.

 

Bræðurnir héldu til Pylos þar sem Nestor ríkti og hann hjálpaði þeim fúslega við að afla fleiri bandamanna, þeirra á meðal hinn slungna konung Ódysseif og svo hraustasta stríðsmann Grikklands, Akkilles sem leiddi Myrmidona, ættflokk í Norður-Grikklandi.

 

Vísindamenn hafa lengi leitað svara við því hvort einhver þessara konunga hafi einhvern tíma verið til en engar sannanir hafa fundist. Borgir þeirra og ríki hafa hins vegar látið eftir sig skýr ummerki. Rústir kastalavirkja og konungshalla hafa fundist víða í Grikklandi.

Koparmynt sem fannst í Hisarlik er frá tímum Trójustríðsins. Áletrunin inniheldur orðið Wilusa, sem samsvarar Ilíon - nafn Hómers á Tróju.

Gullið flóði í stærstu borginni

Seint á bronsöld, 1600-1100 f.Kr. skiptist gríska meginlandið í fjölmörg sjálfstæð konungdæmi sem smám saman þróuðust í skipulögð ríki. Svonefnd Mykensk menning var þeim öllum sameiginleg og hið sama gilti um byggingarlist, guði, tungumál og ritmál. Stærst þessara konungdæma var sjálf Mykenea sem Agamemnon konungur ríkti yfir samkvæmt Ilíonskviðu.

 

Borgin Mykenea var á gríska meginlandinu og þar gróf Heinrich Schliemann líka fáeinum árum eftir að hann fann Tróju. Í Ilíonskviðu talar Hómer um hina gullauðugu Mykeneu og við uppgröftinn fann Schliemann líka margar konungagrafir sem í voru gullsjóðir og báru því vitni að Mykenea hefði eitt sinn verið auðug af gulli.

Í gröf í Mykeneu fann Schliemann þessa dánargrímu sem hann taldi tilheyra Agamemnon. Það stenst ekki því aldursgreining sýnir að hún sé frá 16. öld f.Kr. og því mun eldri.

Ein mikilfenglegasta gröfin hefur verið kennd við föður Agamemnons, Atreos sem vísindamenn telja sig hafa fundið á leirtöflum Hittíta í frásögn af Hittítakonungi sem lagði undir sig Krít.

 

Ummerki um höll Nestors í Pylos hafa nú einnig fundist. Samkvæmt Ilíonskviðu sendi Nestor heil 90 skip í herförina gegn Tróju. Á grundvelli þess sem fundist hefur eru vísindamenn ekki í vafa um að Pylos hefur verið voldugt konungsríki. Við uppgröftinn fundust fjölmargar leirtöflur sem sýna að höllin hefur verið stjórnskipuleg miðstöð fyrir um 50.000 manns í grannbyggðum borgarinnar.

 

Höll hins sögufræga konungs Ódysseifs er hins vegar ófundin ennþá en í helli á eyjunni Íþöku sem Hómer segir hafa verið heimabyggð hans, hafa fundist þrír þrífætur úr bronsi, eins konar altarisstandar sem nú er vitað að söfnuður notaði við tilbeiðslu Ódysseifs. Þetta var einn margra grískra hetjusöfnuða og vísindamenn hafa tímasett tilbeiðsluna út frá leirtöflum sem fundust í hellinum.

LESTU EINNIG

Þannig er tilvist safnaðarins tímasett á tíundu öld f.Kr. eða um en 200 árum fyrir daga Hómers. Út frá þessu verður þó lítið staðhæft um Ódysseif.

 

Eitt er að reyna að finna staðsetningar og aðalpersónur atburða í þessu ævaforna gríska söguljóði en allt annað að ætla að slá föstu hvað raunverulega gerðist þegar Trója var lögð í rúst. Svo virðist sem átök hafi staðið frá miðri 13. öld f.Kr. milli Grikkja í núverandi Grikklandi og Hittítaríkisins í Litlu-Asíu, þar sem nú er Tyrkland.

 

Grikkir í heimalandinu tóku að færa út kvíarnar til austurs meðan ríki Hittíta var veiklað af innri átökum, ekki síst um konungstignina. Þessa veikleika nýttu Grikkir til að ræna og rupla í strandbæjum í Litlu-Asíu. Í skjalasöfnum Hittíta hafa vísindamenn fundið gögn um að íbúar strandbæja hafi margoft kvartað undan stöðugum ránsferðum Grikkja sem í Ilíonskviðu kallast Akkear.

Atriði úr ljóðum Hómers voru yrkisefni stórra listamanna á 19. öld. Hér er málverk danska listmálararans Constantin Hansen, sem sýnir þegar Ódysseifur hittir Kýklópana.

Sumir vísindamenn telja að stríðið um Tróju hafi stafað af vaxandi árekstrum milli Grikkja og Hittíta. Aðrir álíta að ríkidæmi Tróju hafi einfaldlega verið Grikkjum ómótstæðileg freisting.

 

Borgin var þannig staðsett að borgarbúar gátu ráðið skipaumferð um Dardanellasund og haft mikinn ábata af grískum kaupmönnum þegar vindátt knúði þá til að leita hafnar í Tróju. Hafi prins í Tróju í raun og veru rænt grísku drottningunni Helenu fögru, gæti það sem best hafa veitt Grikkjum þá haldbæru ástæðu sem þá hafði skort.

Í tengslum við gerð bíómyndarinnar „Troy“ 2004 var Trójuhesturinn gerður í fullri stærð. Hesturinn stendur nú í tyrknesku borginni Camakale.

Varð tréhesturinn Tróju að falli?

Þegar Grikkjum hafði eftir tíu ára umsátur enn ekki tekist að ná Tróju á sitt vald, ákváðu þeir að beita brögðum. Hómer segir þá hafa notað tréhest en sagnfræðingar efast.

 

Eftir 10 ára umsátur eru Trójumenn harðari af sér en nokkru sinni fyrr. En þegar Grikkir sigla allt í einu burt á skipum sínum og skilja aðeins eftir risastóran tréhest sem kveðjugjöf, opna Trójumenn borgarhliðið og draga ferlíkið inn.

 

Það er brandarakeimur af þessari frásögn um endalok stríðsins og hún virðist ekki trúverðug. Engin ummerki um hestinn hafa heldur fundist við uppgröft á Hisarlik-hæð.

 

Sumir fræðimenn telja þó að sannleikskorn leynist í sögunni en hún hafi afbakast mikið í munnlegri geymd. Hesturinn gæti hafa verið hnyðja á bjálka, eins konar múrbrjótur sem notaður hafi verið til að brjóta borgarhliðið upp. Í frásögninni gæti þetta áhald hafa breyst í hest, kannski vegna þess að hrosshúð hafi verið vafið um það en það var þekkt aðferð til að koma í veg fyrir að kviknaði í timbri út frá logandi örvum.

 

Aðrir álíta að hesturinn vísi til skips. Hómer nefnir skipin m.a. hesta hafsins. Sagnfræðingar benda á að orðanotkunin þegar því er lýst hvernig mennirnir fóru inn í hestinn samsvari lýsingum á því þegar stigið er um borð í skip og Trójuhestinn eigi því að skilja sem vísun í gríska flotann. Aðrir benda á að tiltekin gerð kaupskipa hafi verið skreytt með líkani af hestshaus og þar á ofan verið nefnd hippo sem merkir einmitt hestur. Sagan af bellibragðinu gæti átt sér einhvern þess háttar bakgrunn.

 

Enga einhlíta skýringu er þó að finna. Trúlega hafa margir samverkandi þættir stuðlað að falli Tróju en flestir vísindamenn eru sammála um að hún hafi tæpast fallið vegna tréhests.

Allur flotinn í mikilvægri höfn

Undir stjórn Agamemnons konungs var öllum gríska hernum og flotanum safnað saman við Aulishöfn á fastalandinu, rétt við eyjuna Euboia. Staðsetningin hentaði vel til að safna saman her og í góðum byr var ekki nema þriggja daga sigling til Tróju. Her Grikkja hefur verið óárennilegur á að líta. Herdeildirnar voru samsettar úr létt- og þungvopnuðum fótgönguliðum, stríðsvögnum, bogaskyttum og valslöngum.

 

Við þetta bættust svo fleiri sem ekki voru í bardögum, svo sem kokkar, smiðir slátrarar og þrælar. Herinn flutti ekki með sér miklar matarbirgðir, því hermennirnir áttu mestanpart að lifa á matvælum sem rænt yrði á yfirráðasvæði óvinanna. Samkvæmt Ilíonskviðu réðu vopnabræður Agamemnons hver yfir sínum her og hermennirnir voru fyrst og fremst trúir sínum eigin konungi. Hómer segir m.a. frá því að gríska hetjan Akkilles hafi dregið sína menn úr bardögum eftir heiftarlegt ósætti við Agamemnon.

 

Á dögum Hómers sjálfs tíðkaðist ekki að hermennirnir lytu ekki allir einni stjórn en fornar leirtöflur staðfesta að á bronsöld hafi herir Grikkja verið skipulagðir á þennan hátt. Og sé litið á heildina virðist Hómer hafa haft góðan skilning á fjölmörgu því er hernað varðaði mörgum öldum fyrr. Hann vissi t.d. mæta vel hvernig skipum hafði verið stjórnað svo löngu fyrr. Að sögn Hómers stóð stýrimaður í skut og stýrði skipinu með einni stýriár. Þetta smáatriði er athyglisvert vegna þess að á dögum skáldsins sjálfs voru tvær stýriárar í öllum stærri herskipum.

„… svo streymdu stórflokkar Akkea frá skipunum og búðunum fram á Skamandersvöll en jörðin dunaði ógurlega undir af fótatökum mannanna og hestanna,“

segir Hómer í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar.

Flotinn var mikilvægasti hluti hersins, því án hans hefðu Grikkir ekki komist til Tróju. Þessi skip Mýkeneumanna hafa verið langskip sem hægt var að sigla eða róa, hraðskreið og byggð til verslunar og sjórána. Þau stærstu voru um 27 metra löng og rúmuðu 25 ræðara. Í Ilíonskviðu eru þau kölluð „svörtu skipin“ því skrokkurinn var þéttur og varinn með biki og tjöru.

 

Samkvæmt Ilíonskviðu safnaði Agamemnon alls 1.186 skipum til leiðangursins. Engar leirtöflur nefna þó svo stóran flota og sérfræðingar telja fjöldann verulega yfirdrifinn. Trúlega hafa grísku konungarnir ekki sent nema um 300 skip og 15.000 hermenn.

 

Stríðsvagnar skiptu miklu

Baráttan um Tróju hófst um leið og skip Grikkja komu að landi. „… svo streymdu stórflokkar Akkea frá skipunum og búðunum fram á Skamandersvöll en jörðin dunaði ógurlega undir af fótatökum mannanna og hestanna,“ segir Hómer í þýðingu Sveinbjarnar.

 

Hómer lýsir því hvernig Trójumenn börðust í 50 manna sveitum sem samkvæmt texta á leirtöflum var dæmigert fyrir hernað á bronsöld. Trójumenn börðust ekki einir, heldur nutu hjálpar frá ýmsum nágrönnum sem rétt eins og Akkear heyrðu hver undir sinn höfðingja. „… skal sérhver fyrirliði fylkja landsmönnum sínum, þeim er hann ræður yfir, skipa fyrir þeim, og fara með þá …,“ útskýrir Hómer.

 

Trójumenn voru líka að sögn Hómers með stríðsvagna og kunnu vel að beita þeim. Að þessu leyti voru þeir svipaðir bandamönnum sínum, Hittítum sem voru frægir fyrir að beita miklum fjölda stríðsvagna.

 

100 árum fyrir Trójustríðið hafði konungur Hittíta sent meira en 2.000 stríðsvagna gegn Egyptum í orrustunni við Kadesh. Stríðsvagnar voru léttir hestvagnar og náðu allt upp í 38 km hraða. Í hverjum vagni voru ekill og hermaður.

 

Í orrustu hélt ekillinn um taumana með annarri hendi en í hinni bar hann skjöld til að skýla bæði sjálfum sér og hermanninum sem var vopnaður spjóti. Á dögum Hómers voru slíkir vagnar ekki lengur notaðir og sá sess sem þeim er veittur í söguljóðinu sýnir að Hómer kunni skil á því hvernig stríðsvögnum var beitt en þeir gerðu áhlaup margir saman, auk þess sem þeir voru stundum notaðir til að geta flutt bogaskyttur hratt milli staða.

Í Ilíonskviðu sigraði Akkiles Hektor og dró líkið á eftir vagni sínum fyrir framan virkisveggi Tróju.

Þekking Hómers á hernaði sést í Ilíonskviðu þar sem grískur leiðtogi talar til riddara sinna og ökuþóra: „Engi treysti svo reiðkænsku sinni og karlmennsku, að hann hleypi einn saman fram fyrir aðra til að berjast við Trójumenn; engi hörfi heldur á hæl aftur, því við það verðið þér aflaminni.”

 

Eins og riddarar höfðu stríðsvagnarnir mest áhrif þegar þeim var fylkt mörgum saman og þetta vissi Hómer, þótt hann geti ekki nokkru sinni hafa séð til stríðsvagna í orrustu.

Samkvæmt Ilíonskviðu hæfir París hina miklu hetju Akkiles með ör sem drepur hann. Frændi Akkilesar, Aias dregur líkið í burtu.

Þetta vita sagnfræðingar með vissu

Trója blómstraði en féll

 

  • Sú Trója sem Hómer lýsir blómstraði um 1184 f.Kr.

 

  • Borgin auðgaðist á verslun, ekki síst verslun grískra kaupmanna.

 

  • Trója var vel varin. Kringum háborgina var hár og traustur kastalamúr.

 

  • Jarðskjálfti skók Tróju um 1250 f.Kr.

 

  • Örvaroddar í tígulsteinum bera vitni um orrustu skömmu fyrir fall Tróju.

 

  • Ummerki um bruna geta skýrt eyðileggingu borgarinnar.

Sterkir múrar Tróju

Hvorki Akkear né Trójumenn gátu sigrast á hinum á vígvellinum og stríðið varð langvinnt. Trójumenn gátu skýlt sér að baki háum og sterkum borgarmúrum en Grikkir slógu upp víggirtum búðum við ströndina.

 

Að Trójumenn hafi í raun getað staðið af sér umsátur í heil tíu ár virðist nú sennilegra en áður vegna fornleifa en á síðustu áratugum hafa fornleifafræðingar rannsakað rústirnar, m.a. með radar- og segulmælingum.

 

Einkum hafa segulmælingarnar borið góðan ávöxt. Með þessari tækni er unnt að greina óreglufrávik í jörðu og þau geta borið vitni um mannabústaði á eldri tímum. Aðgerðir manna – m.a. bruni – skilja eftir sig ummerki segulvirkni járnagna.

 

Með því að mæla segulsvið í jörðu má t.d. finna útlínur af skurðum og múrum, einkum ef í þeim er efni sem hefur brunnið. Mælingarnar afhjúpuðu fyrir vísindamönnum skurð sem verið hefur um 400 metrum frá miðju borgarinnar. Skurðurinn hefur síðan fyllst af sorpi steinum og leirkerabrotum en á tímum Trójustríðsins hefur þetta verið síki utan við kastalavegg.

 

Þetta tveggja metra djúpa síki hefur verið ógerlegt að komast yfir með múrbrjóta til að brjóta kastalaveggina.

 

Fornleifafræðingarnir hafa sannfærst um að varnarvirki Tróju hefur verið í fremstu röð á bronsöld. Bæði Trója 6 og Trója 7a sem fylgdi í kjölfarið, voru varðar af tveimur múrum. Ytri múrinn varði hinn lágreistari og hluta byggðarinnar. Hann var 1,6 km að lengd og hlaðinn úr tígulsteini.

Enn má greina leifar hinna voldugu varnarmúra í rústum Tróju.

Tækist óvinum að brjóta sér gat á þann múr þurftu þeir að brjóta sér leið um smágötur, þar sem hermenn gátu skyndilega sprottið fram við hvert horn. Þótt það tækist var kastalavirkið eftir.

 

Háborgin gnæfði yfir sléttuna í 30 metra hæð og varin af 457 metra löngum kastalaveggjum. Þeir múrar voru fjögurra metra þykkir og níu metra háir en voru hækkaðir í tíu metra þegar íbúarnir í Tróju 7a bættu varnir borgarinnar. Við borgarhliðin stóðu turnar í sömu hæð. Innan kastalavirkisins var vatnsuppspretta og borgarbúar gátu því svalað þorstanum þrátt fyrir umsátur.

 

Trója var óvinnandi nema hægt væri að smygla sér inn. Eftir tíu ára bardaga varð Grikkjunum ljóst að þeir þyrftu að beita brögðum. Sagan af tréhestinum sem skilaði hermönnum inn fyrir borgarhliðin er ekki komin úr Ilíonskviðu. Henni lýkur fyrir fall Tróju. Í síðara söguljóði sínu, Ódysseifskviðu, lýsti Hómer því er Ódysseifur og hópur hermanna földu sig inni í þessum gríðarstóra tréhesti:

 

„…því það lá fyrir borginni, að verða lögð í eyði, þegar hún hefði innibyrgt hinn mikla tréhest, er allir enir hraustustu Argverjar sátu í, þeir er ætluðu Trójumönnum bana og feigð.“

Hermennirnir inni í hestinum opna hlið Tróju fyrir grískum hermönnum sem brenna borgina til grunna.

Frásögn Hómers 

Hraustustu stríðsmenn Grikkja földu sig í stórum tréhesti sem skilinn var eftir utan við borgarhliðið áður en gríski flotinn sigldi af stað.

 

Trójumenn héldu að þetta væri fórn til guðanna og ætti að tryggja áfallalausa siglingu. Þeir drógu hestinn þess vegna inn fyrir hliðið. Um nóttina stukku stríðsmennirnir út og tóku borgina.

Þetta bellibragð Ódysseifs gekk upp og um nóttina opnaði hann borgarhlið Tróju fyrir gríska hernum sem brenndi borgina til grunna. Við uppgröft í Tróju hafa menn fundið ummerki bruna í formi kolaðs timburs sem C14 aldursgreining sýnir að sé frá 1230-1180 f.Kr. sem kemur heim við tímaramma Trójustríðsins.

 

Við uppgröft í götum borgarinnr hafa líka fundist beinagrindaleifar og örvaroddar hafa líka varðveist hálfir á kafi í múrsteinum.

 

Jafnvel í kastalaveggjum háborgarinnar hafa fundist örvaroddar – einn þeirra af gerð sem aðeins tíðkaðist í Grikklandi sjálfu. Fornleifafræðingar fundu líka steina sem þeir telja að hafi verið notaðir í valslöngur. Þessum steinum var raðað þannig upp að þeir voru tilbúnir til notkunar í orrustu.

Við þessu vantar sagnfræðinga svör

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Frásögnin kannski bútasaumur

Ný þekking á bardögum og bruna í Tróju eykur nú til muna líkurnar á því að Hómer hafi í raun og veru lýst raunverulegri fornaldarborg, raunverulegum persónum og raunverulegu stríði, þvert gegn því sem álitið var langt fram á 19. öld. Hvort það voru hinir grísku Akkear sem stóðu að eyðileggingunni er óvissara.

 

Sérfræðingar telja nú mögulegt að Hómer hafi ofið saman frásagnir af fleiri atburðum og raðað í eina heild. Tilurð sagnaljóða Hómers hefur nefnilega ekkert síður verið umdeild en Trója sjálf. Sagnfræðingar vita ekkert um Hómer, hvaðan hann kom eða hverjar heimildir hans voru. Það er ekki einu sinni alveg fullvíst að hann hafi verið til.

 

En hvað sem þessu líður urðu söguljóð Hómers svo vinsæl að þau hafa lifað í 2.700 ár og þau hafa um aldir haft mótandi áhrif bæði í Grikklandi og um öll Vesturlönd. Trója, tréhesturinn, hetjurnar og grimmileg örlög þeirra; allt er þetta svo gamalþekkt að við vísum til þess í daglegu tali. Enn er talað um Akkillesarhæl og tilteknar tölvuveirur köllum við trójuhesta.

LESTU MEIRA UM TRÓJU

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Else Christensen, Bue Kindtler-Nielsen

Imageselect, Shutterstock, Bibi Saint-Pol,© AishaAbdel,Wmpearl, Wolfgang Sauber, Jacques-Louis David, Elisabeth Simpson, CherryX, Daderot,© AishaAbdel, Franz Matsch, Insription Painter, Juan de la Corte, AishaAbdel, William Bouguereau,

Náttúran

Kisulóra er villiköttur

Lifandi Saga

Greitt fyrir Pepsi-Cola með sovéskum kafbátum

Lifandi Saga

Greitt fyrir Pepsi-Cola með sovéskum kafbátum

Heilsa

10 matvæli með meira C-vítamín en appelsínur

Heilsa

10 matvæli með meira C-vítamín en appelsínur

Náttúran

Hvaða rándýr étur flest fólk?

Heilsa

Er flotsaur til marks um góða heilsu?

Náttúran

Hvernig veit fræ að það eigi að spíra? 

NÝJASTA NÝTT

Lifandi Saga

Fimm heppnustu manneskjur sögunnar

Maðurinn

Hve mikið gagnamagn rúmast í heilanum?

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

Jörðin

Hvenær var hnettinum skipt í tímabelti?

Lifandi Saga

Mömmustrákur tryggði bandarískum konum kosningaréttinn

Lifandi Saga

Hermaður sá heiminn á hvolfi eftir heilaskaða

Alheimurinn

Eitilhörð samkeppni um að leysa ráðgátur sólkerfisins

Læknisfræði

Soðnir kettir læknuðu nánast allt á miðöldum

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

Lifandi Saga

Fimm heppnustu manneskjur sögunnar

Maðurinn

Hve mikið gagnamagn rúmast í heilanum?

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

Jörðin

Hvenær var hnettinum skipt í tímabelti?

Lifandi Saga

Mömmustrákur tryggði bandarískum konum kosningaréttinn

Lifandi Saga

Hermaður sá heiminn á hvolfi eftir heilaskaða

Alheimurinn

Eitilhörð samkeppni um að leysa ráðgátur sólkerfisins

Læknisfræði

Soðnir kettir læknuðu nánast allt á miðöldum

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Lifandi Saga

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Lifandi Saga

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Maðurinn

Samfélagsmiðlar ógna samkenndinni

Maðurinn

Samfélagsmiðlar ógna samkenndinni

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

Náttúran

8 uppfinningar sem þú getur þakkað Einstein fyrir

Náttúran

Að klóna risaeðlur: Er hægt að vekja risaeðlur til lífsins?

Maðurinn

Sársauki – Hvað er sársauki?

Vinsælast

1

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

2

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

3

Maðurinn

Af hverju sjá sumir drauga en aðrir ekki?

4

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

5

Maðurinn

Þráhyggja tekur heilann í gíslingu

6

Saga

Af hverju ráða Bandaríkin yfir Guantanamo?

1

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

2

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

3

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

4

Náttúran

Kisulóra er villiköttur

5

Lifandi Saga

Greitt fyrir Pepsi-Cola með sovéskum kafbátum

6

Alheimurinn

Mistök geta verið banvæn fyrir geimfara 

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

Maðurinn

Er það skaðlegt að plokka nefhárin?

Lifandi Saga

Hve lengi höfum við fengið sumarfrí?

Maðurinn

Þessi tvö efni geta átt þátt í að lækka líffræðilegan aldur okkar

Lifandi Saga

Hin dularfulla María Magdalena var nákomin frelsaranum

Menning og saga

Múmía hræddi líftóruna úr vörðum

Náttúran

Topp 5: Hvaða könguló er stærst?

Náttúran

Tuttugu arma sædýr fannst við suðurskautið

Maðurinn

Styrktu alla þrjá þætti greindarinnar

Jörðin

Evrópsk ofureldstöð virðist undirbúa gos

Maðurinn

10 óvanalegar tegundir af fælni

Fimm heppnustu manneskjur sögunnar

Sumir virðast vera fæddir undir lukkustjörnu en hjá öðrum virðist heppnin vera nánast yfirnáttúrulegt fyrirbæri. Hvorki eldingar, flugslys, öfundsjúkir keppinautar eða kjarnorkusprengjur gátu bugað þessa heppnu einstaklinga.

Lifandi Saga

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is