Lifandi Saga

Barnsrán vakti óhug um allan heiminn

Eftir að Charles Lindbergh flaug einn síns liðs yfir Atlantshaf hefur hann verið stórstjarna í Bandaríkjunum. Allt sem þessi hetjuflugmaður tekur sér fyrir hendur er forsíðuefni – og þegar 20 mánaða syni hans er rænt, setur það allt á annan endann í Bandaríkjunum. Við tekur tveggja ára leit að sannleikanum.

BIRT: 02/05/2022

Dimmblá augu Charlies litla eru að síga aftur þegar barnfóstran Betty leggur hann niður í rimlarúmið.

 

Drengurinn er ekki orðinn tveggja ára og barnfóstran dregur sængina upp yfir ullarnáttfötin og alveg upp að höku áður en hún dregur sundur lítið felliþil með húsdýramyndum og stillir því upp við hliðina á rúminu.

 

Sem sonur hins fræga flugkappa, Charles Lindbergh, er Charlie litli heimsfrægur þrátt fyrir ungan aldur og athyglin hefur bara farið vaxandi.

 

Þegar „litla sjarmatröllið“ Charlie kom í heiminn fékk barnið gælunafnið „Baby Lindy“ í blöðunum. Charles og Anne kona hans eru fyrir löngu búin að fá nóg af sífelldri athygli blaðamanna og gera sér nú vonir um að þetta nýkeypta einbýlishús uppi á hæð einni í smábænum Hopewell í New Jersey skapi þeim dálítinn frið.

 

 

Klukkan er átta að kvöldi þriðjudagsins 1. mars 1932 þegar barnfóstran Betty stingur höfðinu í dyragættina á stofunni niðri á jarðhæðinni og segir Anne að drengurinn sé sofnaður í barnaherberginu á hæðinni fyrir ofan.

 

Um tveimur tímum síðar lítur Betty inn til drengsins. Henn finnst hálf kalt í herberginu þannig að hún byrjar á því að hækka hitann á ofninum í rökkrinu, áður en hún lítur niður í rúmið.

„Anne, þeir hafa rænt barninu“.

Charles Lindbergh við konu sína.

En rimlarúmið er tómt! Betty þýtur inn í svefnherbergi hjónanna við hliðina, þar sem Anne er í þann veginn að ganga til hvílu.

 

„Tók ofurstinn drenginn?“

 

„Ég veit það ekki. Kannski,“ svarar Anne. Hún verður undrandi á svip, rís upp og gengur inn í barnaherbergið.

 

Betty hraðar sér niður í bókastofuna þar sem Charles Lindbergh situr við lestur.

 

„Ofursti, eruð þér með barnið? Ekki plata mig,“ segir barnfóstran sem hefur reynslu af gáskabrögðum húsbóndans.

 

„Er hann ekki í rúminu sínu?“

 

Betty rétt nær að hrista höfuðið áður en þessi þrítugi flugmaður er stokkinn af stað upp stigann og kominn inn í barnaherbergið, þar sem við honum blasir tómt barnarúm.

 

Án þess að segja orð gengur hann inn í svefnherbergið, þrífur riffilinn sinn og leitar því næst hátt og lágt í húsinu áður en hann snýr aftur til konu sinnar.

 

„Anne, þeir hafa rænt barninu …“ stynur hann upp.

Jafnvel franska blaðið Le Petit Journal setti barnsránið á forsíðu.

Örskömmu síðar fær hann grun sinn staðfestan þegar hann sér umslag í gluggakistunni – skilaboð frá hinum óboðnu gestum.

 

Öll gleði er horfin foreldrunum ungu.

 

Einhver hefur rænt augasteininum þeirra.

 

Þau hafa óttast það árum saman að fjölmiðlafrægðin kynni að beina athygli glæpamanna að þeim og nú hefur það gerst. Stærsta mannránsmál sögunnar er hafið.

 

Ræningjarnir heimta 50.000 dollara

Umslagið er enn óhreyft um ellefuleytið þegar fyrstu lögregluþjónarnir koma á staðinn frá lögreglustöðinni í bænum.

 

Tæknimenn lögreglu reyna strax að finna fingraför á bréfinu og í barnaherberginu en hópur lögreglumanna grandskoðar hvern fermetra á lóðinni í skyni vasaljósa.

 

Fljótlega finna lögreglumennirnir heimasmíðaðan stiga í myrkrinu og greinilegar grópir neðan við gluggann sýna að stiginn hefur verið notaður til að komast inn um gluggann og ræna Charlie litla.

Flugmaðurinn stöðvaði Broadway

Eftir að hafa flogið einn síns liðs yfir Atlantshaf varð Charles Lindbergh að „darling“ Bandaríkjamanna. Þessi fífldjarfi flugmaður vakti aðdáun karlmanna og bræddi kvenhjörtun með drengslegum þokka.

 

Þann 20. maí 1927 tók óþekktur póstflugmaður, Charles Lindbergh, á loft frá flugvelli á Long Island í New York.

 

33 tímum og 30 mínútum síðar lenti hann í París og hafði þá á flugvél sinni, Spirit of St. Louis, gert það sem engum hafði áður tekist – að fljúga einn síns liðs yfir Atlantshaf.

 

Margir þrautreyndir flugmenn höfðu reynt þetta en orðið frá að hverfa og Bandaríkjamenn fögnuðu árangri Lindberghs af miklum ákafa og hrifningu.

 

Í New York var meira að segja gert hlé á leiksýningum á Broadway til að tilkynna um afrekið sem vissulega markaði tímamót í flugsögunni.

 

Í einu vetfangi var fremur hlédrægur sonur sænsks innflytjanda orðinn heimsfrægur og tveimur mánuðum síðar heiðraði bandaríski flugherinn Lindbergh með ofurstanafnbót.

 

Lindbergh var hávaxinn og bláeygur, alþýðlegur í fasi og þessir eiginleikar ásamt kjarkinum til að framkvæma hið ómögulega gerðu hann að ímynd hins fullkomna Bandaríkjamanns.

 

En vegna vinsældanna eltu blaðamenn hann á röndum hvar sem hann fór. Þegar Lindbergh ferðaðist um landið til að segja frá flugi sínu tróðust milljónir manna til þess að fá að sjá hann.

 

Hjá Time voru menn svo gramir sjálfum sér fyrir að hafa ekki sett hann á forsíðuna strax að ákvörðun var tekin um að útnefna hann mann ársins í áramótaútgáfunni og sá siður að útnefna mann ársins hefur haldist hjá tímaritinu allt til þessa dags.

 

Bandaríkjamenn vildu vita allt um líf þessa unga flugkappa, líka allt um ástamál hans.

 

Ungar stúlkur jafnt sem fullorðnar konur dreymdi um að giftast þessum ómótstæðilega myndarmanni. Sigurvegarinn í þeirri keppni varð sendiherradóttirin Anne Morrow.

 

Þau kynntust þegar Charles Lindbergh heimsótti sextán Suður-Ameríkuríki í sérstakri ferð sem kölluð var „Good Will Tour“ og blaðamenn fylgdust að sjálfsögðu vel með.

 

Þau giftu sig vorið 1929 og árið eftir fæddist þeim sonurinn Charles Augustus Lindbergh jr.

Nálægt húsinu er einnig að finna fótaför en í þeim er ekki að sjá neitt skósólamynstur þannig að barnsræningjarnir hafa trúlega verið nógu skynsamir til að klæðast sokkum utan yfir skóna.

 

Í bréfinu leynast hins vegar vísbendingar, því það er skrifað á brogaðri ensku.

 

„Hafið 50.000 dollara tilbúna (…) Við vörum við því að opinbera neitt eða hafa samband við lögreglu. Barnið er í góðum höndum,“ segir m.a. í bréfinu, þar sem jafnvel einföld orð eru rangt stafsett – einkum vekur athygli að orðið „good“ er skrifað „gut“ eins og á þýsku.

 

Undirskriftin er eins konar tákn: tveir hringir og þrjú göt stungin í pappírinn. Þetta merki verður á öllum nýjum orðsendingum, útskýrir bréfritarinn.

„Þeir skulu vita að geri þeir barninu eitthvert mein eiga þeir á hættu að verða tættir í sundur af almennum borgurum Bandaríkjanna.“

Dagblaðið New York Evening Post.

Yfirmaður rannsóknarinnar, Norman Schwarzkopf lögreglufulltrúi, lofar Charles Lindbergh að lögreglan muni gera allt sem í hennar valdi stendur til að hafa uppi á hinum seka.

 

Þúsundir bíla eru stöðvaðar um nóttina en enginn hefur séð Charlie litla.

 

Fréttin berst um heiminn

Þótt hvorki lögreglan né Lindbergh-hjónin hafi sagt neitt verður strax ljóst að fyrir blöðunum er ekki unnt að halda neinu leyndu um fjölskyldu hins fræga flugkappa.

 

Strax snemma að morgni 2. mars streyma blaðamenn að húsi Lindbergh-hjónanna til að afla frétta af viðburðinum.

 

„Lindbergh-barni rænt: Tekið úr rimlarúminu,“ segir New York Times og klykkir svo út með „ákafasta leit sögunnar er hafin“.

 

Víða um heim hafa fréttirnar djúp áhrif á fólk en þó hvergi eins og í Bandaríkjunum.

 

„Baby Lindy“ er það næsta sem hægt er að komast því að vera bandarískur prins. Foreldrunum bárust 300.000 heillaóskabréf þegar drengurinn fæddist og í augum Bandaríkjamanna er þetta barnsrán dauðasynd.

 

Blaðið New York Evening post fer ekki í neinar felur með það hvers konar helgimynd glæpamennirnir hafa brotið.

 

„Þeir skulu vita að geri þeir barninu eitthvert mein eiga þeir á hættu að verða tættir í sundur af almennum borgurum Bandaríkjanna.“

Faðir Charles Lindbergh fæddist í Svíþjóð en kom til Bandaríkjanna á barnsaldri.

Allir Bandaríkjamenn finna sárt til með Lindbergh-hjónunum og sjálfur forsetinn, Herbert Hoover, vottar þeim sína dýpstu samúð.

 

Yfirmaður FBI, J. Edgar Hoover er líka miður sín og skipar alríkislögreglunni að hjálpa til við leitina að skúrkunum, jafnvel þótt barnsrán séu á þessum tíma alls ekki á verksviði hennar.

 

Að morgni 5. mars – rúmum þremur sólarhringum eftir barnsránið – berast loks skilaboð frá mannræningjunum.

 

Í bréfinu tilkynna þeir að lausnargjaldið hafi verið hækkað í 70.000 dollara þar eð Lindbergh hafi ekki haldið málinu leyndu. Upphæðin samsvarar 18 árslaunum venjulegra Bandaríkjamanna.

 

„Við upplýsum síðar hvar afhenda á peningana. En það gerum við ekki fyrr en lögreglan hefur dregið sig frá málinu og blöðin þegja,“ segir í bréfinu.

 

Loks benda mannræningjarnir á að það væru mistök að reyna að plata þá: „Við höfum undirbúið barnsránið árum saman og þess vegna viðbúnir hverju sem er.“

 

Milligöngumaðurinn

Meðan lögreglan í New Jersey reynir að átta sig á málinu með hjálp FBI á grundvelli takmarkaðra vísbendinga, sekkur gamall skólastjóri á eftirlaunum sér niður í málið.

 

Hinn 71 árs gamli John F. Condon fyllist örvæntingu þegar Charlie litli er enn ekki kominn í hendur foreldra sinna heilli viku eftir ránið.

 

Hann greiðir úr eigin vasa fyrir auglýsingu í bæjarblaðið Bronx Home News, þar sem hann lofar mannræningjunum 1.000 dollurum „af eigin sparnaði“ og kveðst reiðubúinn að gerast milligöngumaður í málinu.

 

Kvöldið eftir finnur Condon hvítt, innsiglað umslag á veröndinni. Þótt ótrúlegt sé hafa mannræningjarnir lesið auglýsinguna í bæjarblaðinu og viðbrögð þeirra eru jákvæð. Þeir fallast á að Dr. Condon verði milligöngumaður.

 

„Verði lögreglan eða blöðin upplýst, aflýsum við þessu öllu. Þegar þér hafið fengið peningana hjá hr. Lindbergh, eigið þér að birta þrjú orð í New York American: „Peningarnir eru tilbúnir“. Eftir það gefum við nánari upplýsingar. En verið rólegir, við gerum ekki kröfu um 1.000 dollarana yðar, haldið þeim,“ segir í bréfinu á slakri ensku.

 

Condon bíður ekki boðanna, heldur hefur strax samband við lögmann Lindberghs sem þegar hefur fengið óteljandi hringingar frá fólki sem telur sig hafa „sérstaka vitneskju“ um málið.

 

En þegar Condon skýrir frá því að bréfið sé undirritað með tveimur hringum og þremur götum, hlustar lögmaðurinn.

 

Þessar upplýsingar hafa ekki verið gerðar opinberar og lögmaðurinn biður Condon að koma strax til Hopewell.

Alls 15 bréf og miðar með fyrirskipunum bárust Lindbergh-hjónunum og John Condon. Á öllum bréfum mannræningjans var sérstakt tákn, m.a. gert úr tveimur hringum og þremur götum í pappírinn.

Lindbergh-hjónunum léttir þegar þau sjá loksins eitthvað gerast í málinu og þau samþykkja Condon sem milligöngumann. Af ótta við að eitthvað illt hendi Charlie heldur Lindbergh lögreglunni utan við þetta.

 

„Peningarnir eru tilbúnir,“ stendur í New York American þann 11. mars og næsta kvöld birtist leigubíll framan við hús Condons í Bronx-hverfinu. Bílstjórinn afhendir eftirlaunamanninum bréf þar sem honum er sagt að koma að Woodlawn Cemetery innan 45 mínútna.

 

Klæddur þykkum frakka bíður Condon spenntur spölkorn utan við kirkjugarðinn og sér skyndilega mann veifa hvítum vasaklút innan við rimlagirðinguna kringum garðinn.

 

Sá ókunni kynnir sig sem „John“. Hann hefur brett frakkakragann upp fyrir andlitið og hattbarðið skyggir á augun.

„Hvað heldurðu að gerist ef drengurinn deyr? Fer ég þá í stólinn?“

Mannræninginn við John Condon.

„Ertu með peningana?“ spyr ,,John” með sterkum, þýskum hreim.

 

Condon útskýrir að 70.000 séu miklir peningar – jafnvel fyrir mann eins og Charles Lindbergh sem ekki eigi milljónir á bankareikningum.

 

En fjölskyldan ætlar að skrapa saman peningana og afhenda þá jafnskjótt og mannræningjarnir hafi fært sönnur á að þeir séu með barnið.

 

Condon vill fá að sjá Charlie með eigin augum en afbrotamaðurinn sem fljótlega verður þekktur sem „Kirkjugarðs-John“, hristir höfuðið.

 

„Ég skal láta þig fá sönnun. Ég sendi náttföt drengsins,“ lofar hann.

 

Hann er lagður af stað en snýr sér við og spyr: „Hvað heldurðu að gerist ef drengurinn deyr? Fer ég þá í stólinn?“

 

Condon hefur ekkert frambærilegt svar en hugsar með sjálfum sér að ef Charlie deyi, verði sorgin óbærileg.

Vísbendingarnar voru ónothæfar

Lögreglan leitaði ummerkja eftir barnsræningjana. En hvorki fótspor né stigi sem skilinn hafði verið eftir veittu nothæfar vísbendingar.

Mannræninginn læddist í gegn um skóginn

Hún Lindberghs var frekar afskekkt en það var mögulegt að læðast að húsinum frá malarveginum.

Ógreinileg spor: Sporin voru máð

Í grasinu fundust allmörg fótspor en þau komu að afar takmörkuðum notum því svo virtist sem barnsræninginn hefði farið í sokka utan yfir skóna.

 

Seinna glötuðust sporin með öllu vegna þess að blaðamenn gengu um í garðinum.

Engin fingraför: Inn um gluggann

Opinn gluggi á barnaherberginu og tvær djúpar grófir í grasflötinni fyrir neðan sýndu að mannræninginn hafði komið inn um gluggann. Stiginn sem lögreglan fann í garðinum passaði alveg við hæð gluggans.

 

Tæknimenn lögreglunnar fundu hins vegar engin fingraför á stiganum, glugganum né inni í herberginu.

Flóttabílnum var lagt stutt frá

Mannræninginn var líklega með bíl á nálægum malarvegi.

Fannst eftir mánuð: Svefnþráður við heimreið

Drengurinn svaf með „Baby Alice Thumb Guard“ á þumalfingrinum, uppfinningu úr málmþræði sem foreldrar settu á hendur barna sinna til að koma í veg fyrir að þau gætu sogið þumalputtana.

 

Þumalþráðurinn fannst ekki fyrr en mánuði eftir hvarfið en mannræninginn gæti hafa lagt hann þarna til að hvetja Lindbergh til að greiða lausnargjaldið.

Vísbendingarnar voru ónothæfar

Lögreglan leitaði ummerkja eftir barnsræningjana. En hvorki fótspor né stigi sem skilinn hafði verið eftir veittu nothæfar vísbendingar.

Mannræninginn læddist í gegn um skóginn

Hún Lindberghs var frekar afskekkt en það var mögulegt að læðast að húsinum frá malarveginum.

Ógreinileg spor: Sporin voru máð

Í grasinu fundust allmörg fótspor en þau komu að afar takmörkuðum notum því svo virtist sem barnsræninginn hefði farið í sokka utan yfir skóna. Seinna glötuðust sporin með öllu vegna þess að blaðamenn gengu um í garðinum.

Engin fingraför: Inn um gluggann

Opinn gluggi á barnaherberginu og tvær djúpar grófir í grasflötinni fyrir neðan sýndu að mannræninginn hafði komið inn um gluggann. Stiginn sem lögreglan fann í garðinum passaði alveg við hæð gluggans. Tæknimenn lögreglunnar fundu hins vegar engin fingraför á stiganum, glugganum né inni í herberginu.

Merkasta vísbendingin: Stigi skilinn eftir milli trjánna

Sá þrískipti tréstigi sem barnsræninginn hafði notað lá inni á milli trjánna um 20 metrum frá húsinu. Mögulega hefur ræninginn ætlað að taka hann með sér en reynst of erfitt að bera bæði stigann og 10 kg þungt barn að flóttabílnum.

Flóttabíllinn var nálægt

Líklegast var bílnum lagt á malarvegi við hliðina á húsinu.

Fannst eftir mánuð: Svefnþráður við heimreið

Drengurinn svaf með „Baby Alice Thumb Guard“ á þumalfingrinum, uppfinningu úr málmþræði sem foreldrar settu á hendur barna sinna til að koma í veg fyrir að þau gætu sogið þumalputtana. Þumalþráðurinn fannst ekki fyrr en mánuði eftir hvarfið en mannræninginn gæti hafa lagt hann þarna til að hvetja Lindbergh til að greiða lausnargjaldið.

Lausnargjaldið afhent

Fjórum dögum eftir þetta, miðvikudaginn 16. mars, kemur pósturinn með pakka í brúnum umbúðapappír heim til Condons.

 

Í pakkanum eru grá náttföt sem Charles Lindbergh þekkir strax, þótt honum þyki undarlegt að náttfötin virðast nýþvegin.

 

Næstu vikurnar halda mannræningjarnir sambandi við Condon til að koma sér saman um skiptin.

 

Mannræningjarnir senda bréf en Condon svarar með auglýsingum í New York American.

 

Þótt Schwarzkopf lögreglufulltrúi hafi nú verið upplýstur um að Lindbergh og Condon séu í sambandi við afbrotamennina vill flugkappinn frægi ekki blanda lögreglunni í samskiptin.

 

Flugmaðurinn óttalausi afþakkar líka að lögreglan reyni að ná ræningjanum þegar skiptin fara fram.

 

Lindbergh óttast mest af öllu að fá aldrei að sjá son sinn aftur og er því reiðubúinn að ganga mjög langt á eigin spýtur.

 

Condon og Lindbergh eru þess vegna einir í Fordbíl Lindberghs þegar þeir fylgja nýjustu fyrirmælum mannræningjans.

 

Þeir nema staðar skammt frá St. Raymond‘s kirkjugarðinum sem einnig er í Bronx. Condon stígur út og gengur samkvæmt fyrirmælunum af stað meðfram rimlagirðingunni.

Rannsakendur prófuðu eftirlikingu af stiganum sem fannst við hús Lindberghs og gátu staðfest að hann passaði nákvæmlega við gluggann í barnaherberginu.

„Hei, doktor, hérna!“ kallar rödd innan úr kirkjugarðinum svo hátt að Charles Lindbergh heyrir þar sem hann situr í bílnum kippkorn frá.

 

Condon útskýrir að því miður hafi ekki tekist að útvega meira en 50.000 dollara vegna kreppunnar sem ríkt hefur í landinu síðan hrunið varð í kauphöllinni 1929.

 

„Það er í lagi, við tökum þessi 50,“ svarar maðurinn. Röddin er sú sama og síðast og hreimurinn þýskur.

 

Gegnum rimlana réttir Condon honum öskju með dollaraseðlum.

 

Þótt Lindbergh hafi ákveðið að halda lögreglunni utan við, fengu yfirvöld leyfi til að skrá númer seðlanna.

 

Til viðbótar eru allir seðlarnir af tiltekinni gerð sem er með gullmerki. Verið er að taka þessa seðla úr umferð og því er ekki mikið af þeim útistandandi.

Lögreglan spurðist fyrir og yfirheyrði fjölda fólks sem bjó í nágrenni við Lindbergh-hjónin.

„Barnið er ókei. Þið finnið hann á bátnum Nelly eins og lýst er á blaðinu. Vertu sæll, doktor,“ segir mannræninginn og stingur blaði út á milli rimlanna.

 

Sekúndum síðar er hann horfinn út í myrkrið í kirkjugarðinum.

 

Þegar Lindbergh er búinn að lesa blaðið stígur hann bensíngjöfina í botn og keyrir á flugvöllinn í Bridgeport, þar sem litla Sikorsky-flugvélin hans er geymd.

 

Ásamt Condon flýgur hann hring eftir hring yfir strönd Massachusetts, þar sem báturinn Nelly átti að vera samkvæmt lýsingunni á blaði mannræningjanna.

 

En leit næturinnar ber engan árangur og Nelly sést heldur ekki þegar birtir. Aftur og aftur stingur Lindbergh flugvélinni niður yfir bátana meðfram ströndinni.

 

„Við höfum verið plataðir,“ hrópar flugmaðurinn að lokum í örvæntingu og neyðist til að gefa leitina upp á bátinn.

 

Eftir lendingu hringir hann heim í Anne og ber henni þessa dapurlegu frétt.

 

Yfirbuguð af sorg og vonleysi hleypur hún upp í svefnherbergið og læsir að sér.

Í hvert sinn sem nýjar fréttir bárust voru hundruð blaðamanna mætt á staðinn.

Blöðin fylgdust með hverju skrefi

Aðeins fáeinum klukkutímum eftir að „Baby Lindy“ var rænt voru blaðamenn mættir að heimili Lindbergh-hjónanna. Það varð upphafið að þriggja ára umfjöllun um „stærstu fréttina frá upprisu Jesú.“

 

Lögreglan hafði ekki meira en svo lokið vettvangsrannsókn sinni kringum húsið þegar fyrstu blaðamennirnir tróðu sér inn á lóðina.

 

Lögreglumennirnir vildu girða svæðið af en Charles Lindbergh bað þá að sleppa því. Honum fannst mikilvægt að halda góðu sambandi við blöðin til að fá son sinn aftur eins fljótt og unnt væri.

 

Það leið ekki á löngu þar til garðurinn var fullur af blaðamönnum og umgangur þeirra á grasinu gerði ókleift að tryggja hugsanleg sönnunargögn.

 

Ljósmyndarar svifust einskis til að ná sem bestum myndum og þeir dulbjuggust meira að segja sem björgunarmenn og innréttuðu framköllunaraðstöðu í sjúkrabíl.

 

Blöðin fengu það sem þau vildu og Lindbergh-hjónin notuðu líka blöðin í tilraunum sínum til að ná sambandi við mannræningjana. Strax á öðrum degi birtu blöð um öll Bandaríkin leiðbeiningar frá Anne Lindbergh um mataræði Charlies; m.a. átti drengurinn að fá „hálft glas af appelsínusafa“ þegar hann vaknaði og meðal þess sem helst átti að vera á matseðlinum yfir daginn var eggjarauða og „hálfur bolli af plómusafa“.

 

Barnsránið fyllti síður og opnur í blöðunum og lesendur fengu aldrei nóg.

 

„Í kvikmyndahúsum, veitingahúsum og sporvögnum talaði fólk aðeins um eitt – Lindbergh-barnið!“ sagði blaðið Detroit Free Press.

 

Af áhuga lesenda leiddi að sjálfsögðu að blaðamenn fylgdust vel með hverju smáatriði sem gerðist.

 

Í næstum þrjú ár var það þetta mál sem seldi flest eintök og meira en 700 blaðamenn alls staðar að úr heiminum voru mættir þegar réttarhöldin yfir hinum grunaða mannræningja hófust 1935.

 

Bandarískur blaðamaður sagði í grein að þetta væri „stærsta frétt sögunnar frá upprisu Jesú“.

 

Meira en 100 ritsímalínur voru tengdar inn á loftið í dómhúsinu og kvikmyndatökuvélar voru bornar inn í réttarsalinn til að hægt væri að sýna lifandi myndir í þeim vikulegu fréttamyndum sem sýndar voru í kvikmyndahúsum á þessum tíma.

 

Þegar dómarinn komst að því að senur úr réttarhöldunum væru sýndar í kvikmyndahúsum bannaði hann allar upptökur í réttarsalnum.

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.

Merkilegur fundur

Charlie hefur verið týndur í tvo og hálfan mánuð þann 12. maí 1932 þegar vörubílstjóri nemur staðar með fullfermi af trjástofnum á Mt. Rose Highway skammt frá Hopewell.

 

Hann fer út og gengur spölkorn inn í skóglendið til að kasta af sér vatni.

 

Þar sem bílstjórinn stendur rekur hann skyndilega augun í litla þúst sem einna helst virðist vera hræ af smávöxnu dýri. En þegar hann kemur nær sér hann að um er að ræða líkamsleifar lítillar mannveru.

 

Rotnunin er komin vel á veg og suma útlimi vantar alveg en bílstjórinn þykist strax fullviss um að hér, í aðeins 8 km fjarlægð frá húsi Lindbergh-hjónanna, geti ekki verið um annað barn að ræða en Charlie litla.

 

Síðar um daginn staðfestir svo réttarlæknir að líkið sé af horfna drengnum.

 

Höfuðkúpubrot og blóðsöfnun bendir til að dánarorsökin hafi verið höfuðhögg og drengurinn hafi dáið strax sama kvöld og honum var rænt. Annað hvort var Charlie myrtur í herberginu sínu eða þá að hann hefur fallið og lent á höfðinu, þegar mannræninginn klifraði niður stigann.

 

Eitt þrepið í stiganum sem lögreglan fann, var brotið og nú telja lögreglumennirnir sennilegast að síðari möguleikinn sé sá rétti.

 

Líkfundurinn merkir að lögreglan er nú ekki lengur að leita mannræningja heldur morðingja.

Eftir næstum þrjá mánuði fannst lík Charlies í skóglendi um 8 km suður af húsi Lindbergh-hjónanna. Krufning leiddi í ljós að drengurinn hafði látist sama kvöld og honum var rænt.

Blöðin birta fréttir um „mennsk skrímsli“ en ríkisstjóri New Jersey lofar að lögreglulið hans muni „gera allt sem unnt er til að finna hinn seka.“

 

Með hjálp bréfanna og lýsinga Condons á manninum í kirkjugörðunum gera lögreglumennirnir sér í hugarlund að sá sem þeir leita sé líklegast af þýskum uppruna.

 

Hann er líklegast búsettur í Bronx eða vinnur þar.

 

Þar eð stiginn bar þess greinilega merki að vera heimasmíðaður, gerir lögreglan líka ráð fyrir að hann sé handlaginn og starfi mögulega við smíðar.

 

Mánuðir líða án þess að lögreglunni verði nokkuð ágengt. Þeir eru að því komnir að gefast upp og síðasta hálmstráið eru nú peningaseðlarnir.

 

En það líða tvö og hálft ár frá því að bankar og verslanir fengu boð um að hafa auga með þessari sérstöku gerð seðla og þar eð þeir virðast enn ekki hafa verið notaðir verður lögreglan að gera ráð fyrir að þeir séu enn í höndum mannræningjans.

 

Bensíntittur hugsar hratt

Fyrir hádegi laugardaginn 15. september 1934 nemur dökkblár Dodge staðar á bensínstöð á Upper Manhattan, norðan við Central Park.

 

Að venju hleypur þjónustuviljugi afgreiðslumaðurinn Walter Lyle út og spyr:

 

„Á ég að fylla?“

 

„Nei, bara fimm gallon (um 19 lítrar, ritstj.),“ svarar bílstjórinn með áberandi þýskum hreim.

 

„Það verða þá 98 sent,“ segir Lyle.

 

Maðurinn tekur 10 dollara seðil með gamaldags gullmerki úr umslagi sem hann er með í innanávasa í jakkanum.

 

„Þetta er í gildi, allir bankar taka þessa seðla,“ segir bílstjórinn í fullvissutón.

 

Bensíntitturinn er ekki alveg sannfærður. Hann veit að seðlarnir með gullmerkinu eru ekki lengur í umferð.

 

Nú er aðeins tekið við smáum seðlum af þessari gerð. Til öryggis skrifar Lyle bílnúmerið – 4U13-41 NY – á seðilinn sjálfan. Þá getur hann haft uppi á manninum ef bankinn skyldi neita að taka við seðlinum.

 

Tveimur dögum síðar tekur bankinn við peningaseðlinum. Þegar gjaldkerinn sér gullmerkið ber hann seðilnúmerið saman við listann af gömlum vana. Bingó.

 

Seðillinn er úr lausnargjaldinu.

 

Rannsóknarlögreglumaður yfirheyrir Walter Lyle sem segir sögu sína af áhuga og nefnir m.a. þýska hreiminn. Maðurinn hafði meira að segja sagst hafa fleiri svona seðla.

 

Og lögreglan gæti haft uppi á honum þar eð bílnúmerið var skrifað á seðilinn, útskýrði bensínafgreiðslumaðurinn.

 

Hálftíma síðar er lögreglan búin að fá nafn bíleigandans hjá bifreiðaskráningunni.

„Ég veit ekkert um neitt lausnargjald,“

Bruno Richard Hauptmann.

Bruno Hauptmann, 35 ára trésmiður sem fluttist frá Þýskalandi 1923. Maðurinn býr í Bronx og um vorið 1932 hætti hann skyndilega í vinnunni. Allt kemur þetta heim og saman.

 

Húsrannsókn hjá Hauptmann

Schwarzkopf tekur enga áhættu og að morgni 19. september sendir hann átta af sínum bestu mönnum að fimm herbergja húsi Hauptmanns.

 

Lögreglumennirnir sitja í þremur svörtum bílum og fylgjast með þýska innflytjandanum þegar hann kemur út og opnar bílskúrinn.

 

Út úr bílskúrnum kemur dökkblár Dodge með númerið 4U13-41 NY.

 

Hauptmann kemst ekki út úr innkeyrslunni áður en lögreglumennirnir eru búnir að umkringja hann.

 

„Um hvað snýst þetta?“ spyr hann þegar einn lögreglumannanna tekur veskið hans og dregur upp úr því 20 dollara seðil með gullmerki.

 

Eftir samanburð við listann er ljóst að þessi seðill var líka hluti lausnargjaldsins sem Lindbergh reiddi af höndum og Schwarzkopf lögreglufulltrúi ber það undir Hauptmann.

 

„Ég veit ekkert um neitt lausnargjald,“ fullyrðir Hauptmann og bætir því við að hann eigi ekki fleiri seðla með gullmerkinu.

 

Þegar lögreglumennirnir gera húsleit verður þó ljóst að Hauptmann lýgur.

Bruno Richard Hauptmann. Þessi þýski innflytjandi virkaði mjög hrokafullur við réttarhöldin.

Bruno Richard Hauptmann. Þessi þýski innflytjandi virkaði mjög hrokafullur réttarhöldin.

Í húsinu finnast margir seðlar úr lausnargjaldinu og lögreglumennirnir finna fleira athyglisvert. Í skrifborðsskúffu eru umslög og pappír með sama vatnsmerki og því sem var í bréfum mannræningjans.

 

Á hurðinni í borðstofudyrunum er miði með heimilsfangi og símanúmeri Johns Condon.

 

Við rannsókn á bílskúr Hauptmanns reyndist hann hafa sagt ósatt um fleira.

 

Falda í vinnubekk finna lögreglumennirnir 183 seðla úr lausnargjaldinu og skömmu síðar kemur í ljós stampur á bak við plankastafla. Í honum reynast vera 11.930 dollarar af lausnargjaldinu.

 

Alls finna lögreglumennirnir um 14.000 dollara af lausnarfé Lindberghs og Schwarzkopf lögreglufulltrúinn getur varla leynt ánægju sinni þegar hann hringir í Charles og Anne til að skýra þeim frá þróun mála.

 

„Ó, þá byrjar þetta allt upp á nýtt,“ stynur Anne þegar símtalinu er lokið. Hún veit að framundan eru réttarhöld og allur harmleikurinn verður aftur dreginn fram.

 

„Já, en loksins hafa þeir þó náð honum,“ svarar Charles Lindbergh.

Lögreglan fann fleiri sannanir

Þótt leit að vísbendingum í garði Lindberghs hefði ekki skilað miklu, tókst lögreglunni að finna ýmis sönnunargögn gegn hinum ákærða, Bruno Richard Hauptmann:

 

  • Vitni höfðu tekið eftir áberandi þýskum hreim í málfari. Það kom heim við uppruna Hauptmanns.

 

  • Peningaseðlar úr lausnargjaldinu fundust í bílskúr Hauptmanns.

 

  • Heima hjá Hauptmann fundust sannanir þess að hann hefði smíðað stigann. Tæknirannsókn sló því föstu að viðarbútur í stiganum væri ættaður af loftinu heima hjá Hauptmann. Þar hafði stubbur verið sagaður af fjöl og heflaður viðarbútur í stiganum passaði við afsagið.
Sama trjágerð

Viðarbúturinn í stiganum var úr Norður-Karólínufuru, sömu trjátegund og hafði verið notuð í loftið heima hjá Hauptmann. Þykktin á viðnum reyndist nákvæmlega hin sama.

Naglagat passaði

Á viðarbútnum í stiganum var gat eftir nagla. Það reyndist passa við nagla sem höfðu verið notaðir í loftið heima hjá Hauptmann.

Hefill Hauptmanns

Meðal verkfæra hins grunaða fann lögreglan hefil. Tæknirannsókn sýndi að hann hafði verið notaður til að hefla af viðarbútnum þannig að hann passaði í stigann.

Sömu árhringir

Með því að bera saman æðar í viðnum í bútnum og borðinu sem sagað hafði verið sáu tæknimennirnir að þetta tvennt hafði eitt sinn verið sama viðarborð.

 

1. Loftborð

2. Eftirgerð

3. Borð úr stiganum

Sama trjágerð

Viðarbúturinn í stiganum var úr Norður-Karólínufuru, sömu trjátegund og hafði verið notuð í loftið heima hjá Hauptmann. Þykktin á viðnum reyndist nákvæmlega hin sama.

Naglagat passaði

Á viðarbútnum í stiganum var gat eftir nagla. Það reyndist passa við nagla sem höfðu verið notaðir í loftið heima hjá Hauptmann.

Hefill Hauptmanns

Meðal verkfæra hins grunaða fann lögreglan hefil. Tæknirannsókn sýndi að hann hafði verið notaður til að hefla af viðarbútnum þannig að hann passaði í stigann.

Sömu árhringir

Með því að bera saman æðar í viðnum í bútnum og borðinu sem sagað hafði verið sáu tæknimennirnir að þetta tvennt hafði eitt sinn verið sama viðarborð.

1. Loftborð

2. Eftirgerð

3. Borð úr stiganum

Fólk streymir til Flemington

Íbúar í þorpinu Flemington í New Jersey hafa aldrei séð annað eins þegar blaðamenn og mörg þúsund forvitinna hópast þangað, þar sem réttarhöld hefjast yfir Bruno Richard Hauptmann í byrjun janúar 1935.

 

Götusalar standa í hríðarmuggunni framan við dómhúsið og selja Lindbergh-minjagripi; póstkort með fölsuðum undirskriftum, falska seðla með gullmerki og meira að segja eftirlíkingar af stiganum.

 

Blaðamenn og embættismenn hafa barist um þau sæti sem eru í réttarsalnum. Þegar réttarhöldin hefjast 3. janúar er salurinn troðfullur.

Náttföt Charlies litla voru lögð fram í réttarhöldunum. Barnsræninginn hafði sent Lindbergh þau til að sanna að hann hefði barnið.

Þegar Charles Lindbergh sest í vitnastúkuna situr Hauptmann svipbrigðalaus á sakamannabekknum, klæddur grábrúnum jakkafötum.

 

Saksóknarinn vill vita hvort Lindbergh muni hljóm raddarinnar sem kallaði „Hei doktor!“ í kirkjugarðinum þegar lausnargjaldið var afhent.

 

„Hafið þér heyrt röddina síðan?“ spyr saksóknarinn.

 

„Já, það var rödd Hauptmanns,“ svarar Lindbergh með fullvissu í röddinni og horfir beint í augu þýska trésmiðsins.

 

Nokkrum dögum síðar er komið að Condon að bera vitni og skólastjórinn fyrrverandi fullyrðir að Hauptmann sé maðurinn sem hann talaði við.

 

Þann 17. janúar er timbursérfræðingurinn Arthur Koehler yfirheyrður. Hann er síðastur í röðinni af alls 87 vitnum saksóknarans.

 

Koehler lýsir af nákvæmni rannsóknum sínum á stiganum og getur upplýst að á næstu dögum eftir handtöku Hauptmanns hafi lögreglumennirnir gert afgerandi uppgötvun á loftinu í húsi Hauptmanns. Þar uppi vantaði sem sé viðarbút sem fyllilega samsvaraði viðarbút á stiganum. Koehler er ekki í vafa.

 

Stiginn getur ekki hafa verið gerður öðruvísi en með viðarbútnum af loftinu.

Athyglin í kringum réttarhöldin gegn Hauptmann var svo gífurleg að ljósmyndarar fengu að mynda inni í réttarsal.

Viku síðar er komið að Hauptmann að verja sig. Allur salurinn og reyndar allir fjarstaddir líka eru nú nánast búnir að dæma þennan 35 ára smið fyrirfram.

 

Heimili hans reyndist fullt af sönnunargögnum og er heldur ekki beinlínis honum í hag að hafa á ungum aldri verið dæmdur fyrir innbrot í Þýskalandi en þar notaði hann einmitt stiga til að komast inn á skrifstofu borgarstjóra.

 

Í réttarsalnum lýsir Þjóðverjinn því yfir án minnstu svipbrigða að hann hafi aldrei komið nálægt húsi Lindbergh-hjónanna og hann neitar því líka að tengjast hinum svonefnda mannræningjastiga.

 

„Smíðuðuð þér þennan stiga?“ spyr verjandinn og bendir á stigann sem stillt hefur verið upp í réttarsalnum.

 

„Alls ekki. Þetta minnir frekar á einhvers konar hljóðfæri,“ svarar Hauptmann og virðist telja stigann afar slæman smíðisgrip.

 

Hinn ákærði neitar líka öllum tengslum við lausnargjaldið og að hafa tekið við peningum í kirkjugarðinum.

 

Þá 14.000 dollara sem fundust á heimili hans segist hann hafa fengið hjá vini sínum sem nú sé því miður látinn.“

 

„Mér líður ekki eins og sekum manni og ég er saklaus,“ fullyrðir hann.

 

En hinum þýska innflytjanda trúir enginn. Sannanirnar hrannast upp og þegar kviðdómurinn dregur sig í hlé til að ræða úrskurðinn, safnast fólk saman fyrir utan dómhúsið þúsundum saman.

 

„Drepið Hauptmann! Drepið Þjóðverjann!“ hrópar æstur mannfjöldinn.

Hauptmann var tæpast einn

Með dóminum yfir Bruno Richard Hauptmann lokaði lögreglan Lindbergh-málinu. Margir sérfræðingar telja þó að hann hafi átt sér a.m.k. einn vitorðsmann.

 

Fáir lögreglumenn efuðust um að Hauptmann hefði gegnt lykilhlutverki í barnsráninu. Til þess voru sannanirnar allt of augljósar.

 

Margir hafa hins vegar gagnrýnt að lögreglan skyldi loka málinu eftir að Hauptmann var tekinn af lífi 1936.

 

Líklegast er að niðurstaðan hafi orðið þessi vegna þess hve lögreglan hafði verið undir mikilli pressu við þessa viðamiklu rannsókn sem þar á ofan kostaði 1,2 milljónir dollara. En af þessu leiddi líklega að einn eða fleiri meðsekir fundust aldrei.

 

„Einhver slapp með bæði peninga og morð,“ sagði John Douglas sérfræðingur FBI í raðmorðum.

 

Eins og fleiri sérfræðingar telur Douglas að Hauptmann geti ekki með nokkru móti hafa staðið aleinn að barnsráninu.

 

Allt of margt bendir til að a.m.k. tveir hafi verið að verki.

 

Sérfræðingarnir benda t.d. á að stiginn hafi verið svo óstöðugur að einhver hafi þurft að halda við hann meðan hinn klifraði upp.

 

Í bréfum til Lindbergh-hjónanna var gefið í skyn að mannræningjarnir væru fleiri. „Við höfum undirbúið okkur árum saman,“ o.s.frv.

 

Og í þau tvö skipti sem John Condon talaði við „Kirkjugarðs-John“ sagðist hann aðeins vera sendiboði fyrir „Númer eitt.“

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.

Mögulega meðsekir

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Hauptmann í rafmagnsstólinn

Eftir að Lindbergh-málið hefur aftur verið á allra vörum í nærri sex vikur fyllist réttarsalurinn í Flemington í síðasta sinn þann 13. febrúar 1935. Stundin er runnin upp.

 

„Hefur kviðdómurinn komist að niðurstöðu?“ spyr dómarinn.

 

„Sekur. Við teljum Bruno Richard Hauptmann sekan um morð að yfirlögðu ráði,“ segir talsmaður kviðdómsins áður en dómarinn dregur saman helstu niðurstöður og tilkynnir refsinguna: Dauðadóm.

 

Augnablik ríkir þögn í réttarsalnum en svo opnar sendill glugga og hrópar út: „Sekur! Dauðadómur!“

 

Fyrir utan brýst út mikill fögnuður meðal um 10.000 manns sem þar hafa beðið úrslitanna og Hauptmann heyrir fagnaðarlætin þegar hann er færður aftur til klefa síns.

 

Þótt þýski innflytjandinn reyni hvað eftir annað að áfrýja dómnum er honum alltaf hafnað. Að kvöldi 3. apríl 1936 er hann fluttur í aftökusalinn í ríkisfangelsinu í New Jersey.

 

Að viðstöddum 50 vitnum – m.a. Schwarzkopf lögreglufulltrúa – er honum komið fyrir í rafmagnsstólnum. Klukkan 20.44 er 2.000 volta straumi hleypt á líkama hans.

 

Þremur mínútum síðar athugar fangelsislæknir ástand hans.

 

„Þessi maður er dauður,“ er úrskurður hans.

 

Einn hataðisti maður Bandaríkjanna hefur að endingu tekið út refsingu sína.

 

Eftirmáli

Eftir dóminn yfir Hauptmann taldi lögreglan málið upplýst, jafnvel þó sumir lögreglumennirnir teldu að fleiri en einn hefðu þurft að koma að barnsráninu.

 

En Charles Lindbergh var ekki í vafa eftir réttarhöldin. Hann sagði einfaldlega: „ Það var Hauptmann.“

 

Til að flýja fjölmiðla settust Lindbergh-hjónin að í Englandi.

 

Með sér tóku þau soninn Jon sem fæddist fimm mánuðum eftir að Charlie var rænt.

Lestu meira um Lindbergh -barnsránið

Lloyd C. Gardner: The Case That Never Dies, Rutgers University Press, 2012

Robert Zorn: Cemetery John, Abrams Press, 2012

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Troels Ussing og Bue-Kindtler-Nielsen

© Leemage/Getty Images,© Santi Visalli/Getty Images,© SGT141,Carsten Yttesen/HISTORIE,© SZ Photo/Imageselect,© Scherl/Ritzau Scanpix,Bettmann/Getty Images,New Jersey State Archives,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Lifandi Saga

Af hverju er rússneskur bær í Noregi?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is