Lifandi Saga

Bikiní setja allt á annan endann

Árið 1946 börðust tveir franskir tískuhönnuðir um að kynna til sögunnar efnisminni sundfatnað en áður hafði sést. Útkoman varð hið svonefnda bikiní, tvískiptur sundklæðnaður en heimurinn var ekki undir það búinn að berja augum léttklæddar konurnar á ströndinni.

BIRT: 16/08/2023

Sveppalaga ský reis í átt til himins að morgni hins 1. júlí 1946, yfir hringlaga kóralrifi í suðurhluta Kyrrahafs. Skýið átti rætur að rekja til tilrauna sem Bandaríkjamenn gerðu með kjarnorkuvopn og ætlað var að sýna yfirburði Bandaríkjahers yfir her Sovétmanna.

 

Fjórum dögum síðar, hinum megin á hnettinum, leysir franski tískuhönnuðurinn Louis Réard úr læðingi sprengju sem sprakk undir gjörvöllum tískuheiminum þegar hann kynnti til sögunnar nýjustu fatahönnun sína í fegurðarsamkeppni sem haldin var í París. Tilraunasprengingarnar voru hönnuðinum greinilega mjög ofarlega í huga því hann nefndi nýjustu hönnun sína í höfuðið á kóraleynni „Bikini“ í Kyrrahafi.

„Tvískiptur sundfatnaður sem leiðir í ljós allt sem er þess virði að vita um stúlkuna, utan skírnarnafn móður hennar“.
Þannig lýsti Louis Réard bikiníi sínu.

Áhorfendur gripu andann á lofti þegar 18 ára gömul nektardansmær að nafni Micheline Bernardini kom fram á sviðið í Piscine Molitor en um var að ræða mjög vinsælan og nútímalegan sundstað í höfuðborg Frakklands.

 

Bikiní hönnuðarins Réards samanstóð af þremur þríhyrningslaga pjötlum sem bundnar voru saman með grönnum reimum og huldu nákvæmlega brjóst og kynfæri dansmeyjarinnar.

 

Ljósmyndurunum til heiðurs stillti dansmærin sér upp nákvæmlega eins og frelsisstyttan í New York.

 

Langur tími leið þar til bikiní fóru að njóta vinsælda í Bandaríkjunum sem og annars staðar í hinum vestræna heimi. Þessi klæðalitlu sundföt ollu svo mikilli hneykslan að mörg blöð neituðu árum saman að sýna hönnun Réards, í tilraun til að þegja ósiðlegheitin í hel.

 

Sjáðu Micheline Bernardini sýna fyrsta bikiní heims:

2. heimsstyrjöld hrindir af stað tísku

Hönnuðurinn Louis Réard hafði verið á leiðinni með tvískiptu baðfötin sín í meira en áratug. Allar götur frá því á 4. áratugnum hafði hann nefnilega framleitt tvískipt sundföt fyrir yfirstéttina í Frakklandi.

 

Markmiðið var, líkt og hann sjálfur orðaði það, að klæða „ríka, fallega og efnaða“ fólkið í sundfatnað sem gerði því kleift að slá í gegn á ströndinni.

 

Áður en bikiní komu til sögunnar var sundfataval baðgesta einkar íhaldssamt. Bandaríski fatahönnuðurinn Carl Jantzen hafði raunar hannað tvískipt, víð sundföt árið 1913 en fatnaðurinn huldi engu að síður líkama konunnar alveg niður að hnjám.

„Bikiní – efnisminna en minnstu baðföt heims“.
Bikiníauglýsing 

Um miðjan 4. áratuginn, þegar ný efni á borð við nælon komu til sögunnar, var svo í auknum mæli gerlegt að útbúa sundfatnað sem fylgdi lögun líkamans.

 

Á meðan heimsstyrjöldin síðari geisaði voru hömlur á innflutningi á álnavöru í Evrópu og Ameríku.

 

Árið 1943 gerði bandaríska ríkisstjórnin kröfur um að notkun á álnavöru skyldi dregin saman um tíu af hundraði. Í því skyni að spara vefnaðinn voru skálmar á sundfötum því styttar og sama máli gegndi um ermarnar.

Þegar rómverskar konur stunduðu íþróttir til forna voru þær iðulega klæddar búningum sem minntu á bikiní í dag.

Tvískipt sundföt eiga rætur að rekja til fornaldar

Bikiníið, eins og við þekkjum það, er hannað í skugga kjarnorkusprengjunnar en fyrirrennari þessara klæðalitlu sundfata er eldgamall og hann báru bæði íþróttamenn og gyðjur.

 

Fyrirrennari nútímalegu, tvískiptu sundfatanna sést m.a. á höggmynd frá því um 5600 árum fyrir Krist. Höggmyndin stafar frá fornaldarbænum Catalhoyuk í suðurhluta Anatólíu, þar sem nú er Tyrkland og sýnir gyðju íklædda tvískiptum búningi sem minnir einna helst á nútímalegan strandklæðnað.

 

Tvískiptur klæðnaður naut enn fremur vinsælda meðal kvenna í Grikklandi til forna. Þetta er í það minnsta gefið til kynna á mýmörgum málverkum og krukkum frá því um 1400 f. Kr. og síðar sem sýna konur klæðast tvískiptum fatnaði. Klæðnaður þessi mun hafa verið notaður í baðhúsum.

 

Áþekkan fatnað má sjá á konum á hinu þekkta mósaíkverki „Krýning sigurvegara“ frá Rómarríki.

 

Það listaverk er talið hafa verið gert á Sikiley nærri árinu 400 fyrir Krist og sýnir það konur klæddar fatnaði sem líkist nútímalegum bikiníum nánast algerlega.

 

Konurnar eru að leika sér með bolta, hlaupa, lyfta lóðum og kasta kringlu.

 

Hins vegar voru aðrir en eingöngu mennskir Rómverjar og Grikkir sýndir í fatnaði sem minnti á bikiní, því gyðjan Venus er iðulega sýnd í slíkum klæðum á mósaíkmyndum og málverkum.

Sundfötin skreppa saman

Þegar stríðinu lauk fóru tvískipt sundföt í auknum mæli að sjást í bæði Evrópu og Bandaríkjunum.

 

Eftirfarandi mátti lesa í dagblaðinu „Le Figaro“:

 

„Fólk krafðist þess að fá að upplifa aftur gleðina sem það tengdi við strandferðir og sólböð og tvískipt sundföt urðu til marks um eins konar frelsun konunnar. Í raun var ekkert kynferðislegt við þau. Sundfötin voru notuð til að hylla frelsið og að fólk skyldi hafa endurheimt ánægjuna í lífinu“.

 

Hylling hins nýfengna frelsis var að sama skapi það sem var franska tískuhönnuðinum Jacques Heim innblástur.

 

Í maí 1946 kynnti hann til sögunnar sundföt sem hann kallaði „frumeindina“ en orðið átti að tákna að um væri að ræða „minnstu sundföt í heimi“.

 

Sundfötin sýndu eilítið af maga konunnar en huldu þó naflann en neðri hlutinn var mótaður sem stuttbuxur sem náðu aðeins niður á læri.

 

Fatahönnuðurinn Louis Réard sem starfaði í París, veitti því jafnframt athygli að margar konur brettu upp skálmarnar til að njóta meiri sólar.

 

Hann hannaði fyrir bragðið sín eigin tvískiptu sundföt sem hann nefndi „bikiní“ en öfugt við önnur sundföt á markaðinum huldu þau ekki naflann.

Þegar Micheline Bernardini sýndi bikinífötin sást hún halda á eldspýtustokk í annarri hendi. Hann var sagður rúma sundfötin eins og þau lögðu sig.

Þegar baðfötin fyrst voru kynnt til sögunnar í París var það íturvaxna nektardansmærin Micheline Bernardini sem sýndi klæðalítil fötin.

 

Sjálfur lýsti hönnuðurinn Louis Réard sundfatnaðinum á þann hátt að hann leiddi í ljós „allt sem væri þess virði að vita um stúlkuna, utan skírnarnafn móður hennar“.

 

Fatahönnuðirnir tveir lögðu allt kapp á að kynna baðföt sín sem þau efnisminnstu sem sést hefðu. Heim réð m.a. flugmann til að fljúga yfir baðstrandarbæinn Cannes með fána sem bar auglýsingatextann „Frumeindin – minnstu baðföt heims“.

 

Örfáum vikum síðar endurtók Réard leik Heims, með textanum „Bikiní – efnisminna en minnstu baðföt heims“.

 

Réard lýsti baðfötum sínum á þann veg að þau mættu ekki vera efnismeiri en sem svo að þeim mætti troða í gegnum giftingarhring.

 

Páfinn fordæmdi bikiníið

Þegar þarna var komið sögu fór að gera vart við sig á Vesturlöndum uppreisn gegn siðavendni fortíðarinnar en djarfleg tískusundfötin voru engu að síður enn litin hornauga meðal almennings.

 

Einungis mjög frjálslyndar konur klæddust fyrir bragðið sundfötum Jacques Heims á ströndum Frakklands og enn færri baðfötunum sem Réard hannaði.

 

Réard gat þó hrósað sigri hvað eitt snerti, því eftir auglýsingabrellu hans voru nýju tvískiptu baðfötin nú aldrei kölluð annað en „bikiní“.

 

Bikiníin voru hins vegar fljótlega bönnuð bæði á Ítalíu og Spáni og árið 1949 var frönskum konum jafnframt bannað að láta sjá sig í nýju tvískiptu sundfötunum á mörgum ströndum.

 

Næstu árin á eftir var viðlíka banni komið á í mörgum löndum, m.a. í Portúgal, Ástralíu, Belgíu og sömuleiðis í mörgum fylkjum Bandaríkjanna.

 

Ekki reyndist auðvelt að framfylgja bikiníbanninu. Þegar 22 ára gömul sænsk fyrirsæta, að nafni Kiki Håkansson, var kjörin sigurvegari í fyrstu samkeppninni um fegurstu stúlku heims, steig hún fram á krýningarpallinn íklædd bikiníi. Fataval hennar olli gremju víðs vegar um heim.

 

Kvenréttindakonur gagnrýndu efnislítinn klæðnaðinn sem þær álitu lítillækka konur niður í „kynveru“ en kommúnistar fordæmdu fatavalið hins vegar með vísan í „úrkynjun auðvaldsins“.

 

Andstaðan gerði það að verkum að skipuleggjendur keppninnar ákváðu að banna þessi umdeildu sundföt. Síðar meir voru bikiní þó aftur tekin í sátt á svonefndri baðfatasýningu keppninnar.

Kiki Håkansson er eina fegurðardrottningin sem hefur látið krýna sig í bikiníi einu klæða í fegurðarsamkeppninni um Ungfrú Alheim.

Alvarlegasta gagnrýnin átti þó rætur að rekja til kristilegra samtaka og var það enginn annar en Píus 12. páfi sem fór þar fremstur í flokki en hann sagði sundfötin tvískiptu vera „syndsamleg“.

 

Í opinberu málgagni Vatíkansins, „L’Osservatore Romano“, var orðræðan enn heiftúðlegri en þar gátu guðhræddir kaþólikkar lesið að bikiní mætti líkja við reiðmennina fjóra sem eru boðberar heimsendis í Opinberunarbók Jóhannesar. Baðfötin fordæmdu myndu stuðla að tortímingu jarðar, ef marka mátti blaðið.

 

Meira að segja starfsbræður þeirra Heims og Réards sýndu nýtískulegu baðfötunum alls engan skilning. Hönnun mannanna tveggja uppskar algera þögn og þá sjaldan tískublöðin lögðust svo lágt að nefna bikiní var gagnrýnin vægðarlaus. Árið 1951 mátti lesa eftirfarandi í tískublaðinu Vogue:

 

„Við erum þess fullviss að lesendur okkar kæra sig engan veginn um hið skelfilega bikiní sem breytt hefur ströndum landsins í hneykslanlegar kabarettsýningar“.

 

Örfáum árum síðar gátu konur sem áhuga höfðu á tísku lesið eftirfarandi ávítunarorð í tímaritinu „Modern Girl Magazine“:

 

„Við sjáum enga ástæðu til að eyða orku og plássi í hið svokallaða bikiní því okkur finnst óhugsandi að nokkur sómakær stúlka myndi nokkurn tímann láta sjá sig í slíkum ósköpum“.

 

Saga bikinísins í myndum:

Kyntákn ruddu brautina

Mörg ríki höfðu bannað notkun bikinís en það leið ekki á löngu þar til löggjöfinni var breytt. Kvikmyndastjörnur eins og Marilyn Monroe, Ursula Andress og Raquel Welch breyttu ímynd hinna bölvuðu baðfata í vinsæla strandtísku.

1953: Fegurðardís íklæðist bikiníi

Hin 18 ára gamla franska leikkona, Brigitte Bardot, vakti svo sannarlega athygli á bikiníum þegar hún stillti sér upp í einu slíku rósóttu á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

1957: Strandgestur gerist lögbrjótur

Ung kona er sektuð fyrir ónógan fataburð á ítalskri ströndu. Á þessum tíma var bannað að íklæðast bikiníi opinberlega í mörgum Evrópulöndum.

1962: Bond-gella stígur upp úr hafinu

Í James Bond-myndinni „Dr. No“ kemur Ursula Andress upp úr sjónum sem kuðungaveiðarinn Honey Ryder. Salan á bikiníum jókst upp úr öllu valdi eftir frumsýningu myndarinnar.

1962 & 1964: Tímarit náðu til fjöldans

Bikiní sást í fyrsta sinn á forsíðu tímaritsins „Playboy“ árið 1962. Tveimur árum síðar fylgdi íþróttatímaritið „Sports Illustrated“ í kjölfarið með eigin bikiníforsíðu.

1964: Brjóstin beruð

Bandaríski tískuhönnuðurinn Rudi Gernreich kynnti til sögunnar ögrandi „neðrihlutabikiní“ sitt. Sundfatnaður þessi öðlaðist raunar engar vinsældir meðal almennings.

1966: Ódýrar kvikmyndir sannfærðu Bandaríkjamenn

Í kvikmyndinni „One Million Years B.C.“ er leikkonan Raquel Welch klædd „fyrsta bikiníi mannkynsins“. Áhorfendur voru að rifna úr hrifningu og sundfatnaðurinn öðlaðist gífurlegar vinsældir í Bandaríkjunum.

Kyntákn ruddu brautina

Mörg ríki höfðu bannað notkun bikinís en það leið ekki á löngu þar til löggjöfinni var breytt. Kvikmyndastjörnur eins og Marilyn Monroe, Ursula Andress og Raquel Welch breyttu ímynd hinna bölvuðu baðfata í vinsæla strandtísku.

1953: Fegurðardís íklæðist bikiníi

Hin 18 ára gamla franska leikkona, Brigitte Bardot, vakti svo sannarlega athygli á bikiníum þegar hún stillti sér upp í einu slíku rósóttu á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

1957: Strandgestur gerist lögbrjótur

Ung kona er sektuð fyrir ónógan fataburð á ítalskri ströndu. Á þessum tíma var bannað að íklæðast bikiníi opinberlega í mörgum Evrópulöndum.

1962: Bond-gella stígur upp úr hafinu

Í James Bond-myndinni „Dr. No“ kemur Ursula Andress upp úr sjónum sem kuðungaveiðarinn Honey Ryder. Salan á bikiníum jókst upp úr öllu valdi eftir frumsýningu myndarinnar.

1962 & 1964: Tímarit náðu til fjöldans

Bikiní sást í fyrsta sinn á forsíðu tímaritsins „Playboy“ árið 1962. Tveimur árum síðar fylgdi íþróttatímaritið „Sports Illustrated“ í kjölfarið með eigin bikiníforsíðu.

1964: Brjóstin beruð

Bandaríski tískuhönnuðurinn Rudi Gernreich kynnti til sögunnar ögrandi „neðrihlutabikiní“ sitt. Sundfatnaður þessi öðlaðist raunar engar vinsældir meðal almennings.

1966: Ódýrar kvikmyndir sannfærðu Bandaríkjamenn

Í kvikmyndinni „One Million Years B.C.“ er leikkonan Raquel Welch klædd „fyrsta bikiníi mannkynsins“. Áhorfendur voru að rifna úr hrifningu og sundfatnaðurinn öðlaðist gífurlegar vinsældir í Bandaríkjunum.

Smástirni tryggðu vinsældirnar

Eftir alla gagnrýnina í garð nýju sundfatatískunnar sáu Heims og Réard sig nauðbeygða til að hanna og framleiða hefðbundnari baðföt. En svo kom að því að hin umdeildu bikiní slægju algerlega í gegn en þetta gerðist á kvikmyndahátíðinni í Cannes vorið 1953.

 

Ljósmyndurum til mikillar ánægju kom kvikmyndastirnið Brigitte Bardot, þá 18 ára að aldri, sér fyrir á ströndinni íklædd rósóttu bikiníi einu fata.

 

Hún hafði þá nýverið leikið í kvikmyndinni „Manina: Stúlkan í bikiníinu“ og uppákoma hennar í Cannes átti stóran þátt í að skrá nýju baðfötin á spjöld sögunnar.

 

Næstu áratugi á eftir létu margar kvikmyndastjörnur taka myndir af sér í bikiníi, m.a. Marilyn Monroe.

 

Þegar svo hið fljótþornandi og teygjanlega fataefni „lycra“ kom til sögunnar árið 1958 jukust vinsældir bikinísins til muna. Nú var ekki lengur nauðsynlegt að ganga um í þungum, blautum sundfatnaði eftir sundferðina.

Marilyn Monroe var óhrædd við að vera í bikiní: „Snjöll stúlka þekkir sín takmörk, greind stúlka veit að hún hefur engin“.

Sundfötin sem áður voru svo umdeild, höfðu nú hlotið svo mikla viðurkenningu að tónlistarfólk þorði að semja sönglög um þau. Árið 1953 komst dægurlagið „Itsy Bitsy Teenie Weenie Yellow Polkadot Bikini“ í efsta sæti vinsældalista víða um heim en það söng bandaríski söngvarinn Brian Hyland.

 

Raggi Bjarna söng íslenska útgáfu lagsins inn á plötu árið 1960 en þar kemur bikiní raunar ekkert við sögu.

 

Tvískiptu sundfötin slógu fyrst í gegn fyrir alvöru árið 1962 þegar svissneska leikkonan Ursula Andress kom upp úr sjónum, íklædd hvítu bikiníi með kafarahníf, í James Bond kvikmyndinni „Dr. No“.

 

Njósnamyndin jók eftirspurnina eftir þessum tvískiptu sundfötum svo um munaði og þegar kynbomban Raquel Welch sýndi íturvaxinn, bikiníklæddan líkama sinn fjórum árum síðar í kvikmyndinni „One Million Years B.C.“ náði tískan einnig fótfestu í Bandaríkjunum.

 

Myndskeið: Sjáðu Ursulu Andress birtast upp úr sjónum í Bond-myndinn ,,Dr.No”.

Urmull þakkarbréfa

Ef marka má franska tískusagnfræðinginn Olivier Saillard urðu bikiní ekki vinsælustu sundföt heims sökum „tískuvaldsins, heldur kvennavaldsins. Lausn sundfata úr ánauð hefur ætíð verið nátengd lausn kvenna úr ánauð“.

 

Jacques Heim lést árið 1967 en hins vegar lést Louis Réard ekki fyrr en árið 1984, þ.e. mörgum árum eftir að bikiní höfðu slegið í gegn á heimsvísu.

Verkfræðingurinn Louis Réard tók við nærfataverslun móður sinnar árið 1940 og gerðist fatahönnuður.

Banninu gegn efnislitlu sundfötunum hafði verið aflétt á flestum stöðum og sala á bikiníum nam tuttugu hundraðshlutum af heildarsölu sundfata í Bandaríkjunum einum.

 

Louis Réard hafði orðið sér úti um einkaleyfi fyrir sínu bikiníi en þrátt fyrir mýmörg málaferli gegn eftirhermuhönnuðum átti hann aldrei eftir að hagnast á uppfinningu sinni.

 

Hins vegar átti bikiní eftir að tryggja dansmeynni Micheline Bernardini ævilanga frægð. Konan sem í dag er 94 ára gömul segist hafa fengið yfir 50.000 aðdáendabréf gegnum tíðina. Flest munu þau hafa verið skrifuð af karlmönnum sem kemur kannski ekki á óvart.

Lestu meira um bikiní

Patrik Alac: Bikini Story, Parkstone International, 2019

 

Kelly Killoren Bensimon: The Bikini Book, Assouline Publishing, 2006

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: ANDREAS EBBESEN JENSEN , ANDREAS ABILDGAARD

© Yann Forget,© Afp Photo/AFP/Ritzau Scanpix,© Pa/PA Images/Ritzau Scanpix,steeve-x-foto/Imageselect,Flickr.com,ullsteinbild.de,Ent_ssu83646/Allstar/Ritzau Scanpix,Amazon.com & vault.si.com,Topfoto/Ritzau Scanpix,Ent_sai32037/Allstar/Ritzau Scanpix,© The Picture Desk/AFP/Ritzau Scanpix,© Album/Fine Art Images/Imageselect,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Heilsa

Vísindamenn finna sjálfsmorðshnapp krabbans

Alheimurinn

Ný gerð geimhylkis snýr lendingu alveg á haus

Maðurinn

Er hægt að verða sólbrúnn í skugga?

Maðurinn

Gerið það sama og þúsundir gera á samfélagsmiðlum: Verið þakklát og lifið lengur

Maðurinn

Þannig getum við nýtt drauma okkar

Heilsa

Kostir þess að vera nátthrafn

Jörðin

Jörðin eftir manninn

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is