Lifandi Saga

Þungunarrof: Skömmin hrakti konur út í dauðann

Sprauta í legið, með mjög svo tærandi efni, gat reynst lífshættuleg fyrir þær konur sem vildu komast hjá barneignum fram yfir 1970. Þúsundir kvenna, m.a. á Norðurlöndum, völdu engu að síður þann kost að fara til skottulæknis til að lenda ekki í þeirri skömm að eignast barn utan hjónabands. Löglegar fóstureyðingar voru afar viðkvæmt málefni á Norðurlöndum, svo og um mest allan hinn vestræna heim, undir lok 7. áratugarins. Á myndinni má sjá kröfugöngu í Ósló hinn 1. maí árið 1968.

BIRT: 30/06/2022

Við skulum hverfa um stund yfir til frænda okkar Dana og reyna að sjá fyrir okkur fátæklegan stigagang í verkamannahverfi í Kaupmannahöfn, þar sem hin tvítuga Lisa er að leita að skottulækninum.

 

Unga konan fer lafhrædd milli hæða í hreysinu sem hún er stödd í og líður líkt og hún sé í þann veginn að fremja óheyrilegan glæp.

 

Hún finnur loks rétta nafnið sem hún einnig er með skrifað á miða sem hún felur inni í lófanum og hringir bjöllunni. Fullorðin kona kemur til dyra. Konan skipar Lisu að fara úr fötunum í eldhúsinu, leggjast upp á borð og glenna í sundur fóteggina. Konan sogar sápuvatn upp í sprautu og sprautar öllu innihaldinu inn í leg Lisu.

„Ég greiddi 250 (danskar) krónur og lá síðan á gólfinu“.

Lisa fór til skottulæknis að framkvæma þungunarrof.

„Ég greiddi 250 (danskar) krónur og lá síðan á gólfinu“, rifjar Lisa upp síðar meir.

 

Unga konan hafði látið gera á sér ólöglegt þungunarrof hjá skottulækni með þeirri aðferð sem algengust var í þá daga, þ.e. með sprautu af sápuvatni. Fullorðna konan er stutt í spuna og sendir Lisu strax heim. Næstu daga eftir þetta fær Lisa háan hita og það blæðir stöðugt úr leginu. Þessi aðferð sem felur í sér sprautu með sápuvatni, er þekkt fyrir að hafa í för með sér fylgikvilla en þetta er árið 1964 og Lisu bjóðast nánast engin önnur úrræði.

 

Þungunarrof er bannað, nema þá sérlegar ástæður liggi að baki, svo sem eins og blóðskömm. Líkt og milljónir annarra kvenna um gjörvallan heim þarf Lisa að grípa til örþrifaráða ef hún á ekki að missa vinnuna og verða fyrir aðkasti samfélagsins fyrir það eitt að eignast barn utan hjónabands.

 

Lisa fær að lokum svo óbærilegar kvalir að hún er lögð inn á sjúkrahús. Ólöglega fóstureyðingin var í þann veginn að draga hana til dauða.

Algeng þungunarrofsaðferð fólst í því að sprauta sérlegri sápu með fenóli upp í leg konunnar. Fenól er mjög svo tærandi sýra sem deytt getur fóstur.

Danskt mauk lét líkamann hafna fóstrinu

Áður en Lisa fór til skottulæknisins þennan örlagaríka dag hafði baráttan fyrir frjálsum fóstureyðingum staðið yfir áratugum saman. Konur í m.a. Danmörku, Austurríki og Bretlandi öðluðust kosningarétt árið 1915 en fengu þó ekki þann rétt að velja frjálsar fóstureyðingar. Einungis konur í kommúnistaríkinu Rússlandi öðluðust þann rétt árið 1920.

 

Kommúnistarnir vissu að verkamannastéttinni fylgdu stórir barnahópar og að barnmargar fjölskyldur áttu þátt í að kúga konurnar. Með því að leyfa þungunarrof var unnt að hafa hemil á barneignum og þannig mátti létta undir með foreldrunum. Raddir í Vestur-Evrópu voru undir áhrifum Rússanna og þar var farið að vekja máls á þungunarrofi og frelsi til barneigna.

 

„Konur verða ekki mæður af fúsum og frjálsum vilja ef þungunarrof verður ekki lögleitt í þeim tilvikum sem fæðing barns þykir ekki æskileg“, mælti hin danska Marie Nielsen sem stofnaði Upplýsingafélag verkakvenna árið 1925.

 

Félagið átti í víðtæku samstarfi við umbótahreyfingar í m.a. Englandi og Svíþjóð sem höfðu það að markmiði að stuðla að bættum getnaðarvörnum og kynfræðslu í skólum sem vakti mikla hneykslan. Umræðan um fóstureyðingar og getnaðarvarnir þótti beinlínis ósiðleg og til þess fallin að fylla börn og ungmenni af dónalegum hugsunum.

Kommúnistalandið Rússland heimilaði þungunarrof árið 1920 og hvattu barnshafandi konur til að fara til lækna í stað skottulæknis. Þetta plakat frá árinu 1925 sýnir hversu illa gæti farið fyrir konunum.

Kirkjan var að sama skapi mótfallin málefninu. Prestar álitu fóstur vera lifandi verur, allt frá getnaði og töldu fóstureyðingar fyrir vikið vera brot á því boðorði Biblíunnar sem kveður á um að „ekki skuli deyða“ og vera jafnframt synd gegn sköpunarverki Guðs.

 

Einstaka menn, á borð við lækninn Jonathan Leunbach, studdu fóstureyðingar. Þessi frjálslyndi danski læknir var þekktur á alþjóðavísu fyrir „mauk“ sitt úr vatni og sótthreinsandi karbólsápu sem þýskur apótekari átti hugmyndina að. Uppskriftin var þekkt meðal kvenna sem gátu útbúið maukið sjálfar og sprautað því inn í legið með sprautum sem þær fengu í apótekum.

 

Sápan gerði það að verkum að líkaminn hafnaði fóstrinu en aðgerðin gat leitt af sér sýkingu í legi, blæðingar og sótthita. Konur sem urðu þungaðar án þess að hafa ætlað sér það, gripu til þessa örþrifaráðs, einkum ef þær urðu þungaðar hvað eftir annað. Konur í Danmörku, svo og erlendis frá, sendu danska lækninum ógrynni bréfa þar sem þær grátbáðu hann um hjálp.

Á miðöldum var oft reynt að eyða fóstri með ýmsum jurtablöndum.

Læknar gerðu fóstureyðingar ólöglegar

Rétturinn til að láta eyða fóstri var nátengdur áliti manna á hvað væri álitið vera líf og m.a. því hvort fóstur teldist hafa sál. Á 19. öld komust læknar að raun um að fóstur teldist vera lifandi eftir getnaðinn og fyrir vikið var þungunarrof bannað.

 

Konur til forna gátu víða leitað fanga ef þær hugðust láta eyða fóstri, svo framarlega sem þær voru ekki farnar að skynja fóstrið. Með þessu var átt við 18. viku meðgöngunnar. Ef ekkert var að merkja í kviði konunnar, var fóstrið ekki á lífi, eða svo hljóðaði röksemdafærslan. Ein aðferðin til að eyða fóstri fólst í því að drekka seyði úr jurt sem nefnist þefrunni.

 

Þessar röksemdir voru enn við lýði eftir að kristni var lögleidd. Á 13. öld settu kristilegir heimspekingar, á borð við Tómas Aquinas, fram þá kenningu að fóstur væru sálarlaus dýr og enginn yrði fordæmdur fyrir að deyða þau.

 

Þegar læknar hins vegar fóru að nota smásjár á 19. öld varð aftur á móti unnt að færa sönnur á að fósturfrumur væru lifandi, meira að segja strax á fyrsta skeiðinu. Viðhorf til fóstureyðinga áttu eftir að breytast ört í kjölfarið. Á Vesturlöndum var farið að líta á fóstureyðingar sem dráp.

 

Margir læknar studdu lagabreytingarnar, því þeir vildu umfram allt vernda þær þunguðu konur sem leitað höfðu á náðir skottulækna og létu eyða fóstri við lífshættulegar aðstæður. Ófrískar konur iðkuðu það t.d. að drekka eitraðar mixtúrur sem ollu fósturláti, ellegar að fá sýkingu í legið þegar skottulæknir hafði krukkað í þær.

Þungunarrof gat leitt til dauðarefsingar

Þungunarrof var eftir sem áður refsivert athæfi. Í Bretlandi gat refsingin falið í sér ævilangt fangelsi en í hér á landi gat verið allt að átta ára hegningarvinna við að eyða fóstri.  Jonathan Leunbach var í fyrstu engan veginn meðmæltur þungunarrofi en þegar fram liðu stundir lét hann undan þrýstingi kvennanna. Þessum uppreisnargjarna lækni tókst að rjúfa alls 300 þunganir áður en honum var stungið í steininn í þrjá mánuði árið 1936 fyrir aðstoð við þungunarrof.

 

„Ég ákvað að hjálpa til sjálfur hvar sem ég gat. Þegar maður tekur slíka ákvörðun verður maður eðlilega að taka afleiðingunum og ég er tilbúinn til þess!“, sagði læknirinn þegar hann var fangelsaður.

 

Leunbach hlaut mjög vægan dóm, miðað við refsirammann sem vakti mikla athygli og gerði það að verkum að stjórnmálamenn í Danmörku fóru að hugsa sinn gang. Ári síðar, þ.e. árið 1937, fengu konur landsins rétt til að hljóta læknisaðstoð við þungunarrof og voru þær meðal fyrstu kvenna í heimi sem gátu farið fram á slíkt.

 

Árið 1935 voru sett lög hér á landi sem heimilaði þungunarrof af læknisfræðilegum ástæðum og 1938 var bætt við ákvæði sem heimilaði eyðinguna ef barnið kom undir við nauðgun eða sifjaspell, eða ef hætta þótti á vansköpun fósturs

Læknirinn Jonathan Leunbach (í miðjunni) var fagnað af dönskum konum fyrir framan fangelsið þegar hann hafði afplánað dóm sinn árið 1936. Á barnavagnana sína höfðu þau skrifað „Óskabarn“.

Sambærileg fóstureyðingalög voru samþykkt í Svíþjóð árið eftir og á norska þinginu var sett fram samsvarandi lagafrumvarp hinn 9. apríl 1940. Þýsku nasistarnir réðust svo inn í Noreg þann sama dag og samkvæmt þeirra lögum höfðu fóstureyðingar þá í för með sér allt að 10 ára fangelsi. Norska frumvarpið var fyrir vikið látið bíða afgreiðslu mörg næstu árin.

 

Meðan á seinni heimsstyrjöld stóð fóru konur í auknum mæli út á vinnumarkaðinn en rétturinn til að láta eyða fóstri var áfram talið vera nokkuð sem þær fengju engu um ráðið. Þvert á móti skrifaði bandaríska tímaritið „Ladies’ Home Journal“ árið 1942 að konur yrðu að „eignast mörg börn“ til að vinna upp öll mannslífin sem glötuðust í heimsstyrjöldinni.

Hin franska Marie-Louise Giraud var hálshöggvin opinberlega eftir að hún hafði verið dæmd fyrir 27 fóstureyðingar.

Undir nasistasinnaðri Vichy-stjórninni í Frakklandi var þungunarrof flokkað sem hryllilegur glæpur sem rændi landið komandi hermönnum þess. Fyrir bragðið var þjónustustúlkan Marie-Louise Giraud hálshöggin í gapastokknum árið 1943 fyrir að hafa framkvæmt alls 27 fóstureyðingar með sápuvatni í sprautu.

 

Að stríðinu loknu hélt læknirinn Leunbach áfram að aðstoða konur og ungar stúlkur en þetta fór nú fram með lögmætari hætti en áður, því konur gátu nú í mestu makindum látið mæla fyrir getnaðarvarnarlykkju og fengið tilsögn í að koma henni fyrir.

 

Getnaðarvörn þessi hafði verið tiltæk frá því undir lok 19. aldar en not hennar höfðu sætt ýmsum takmörkunum. Í Bandaríkjunum var t.d. ólöglegt að senda, flytja inn og upplýsa um lykkjuna. Það var svo ekki fyrr en eftir réttarhöldin sem nefndust „Bandaríkin gegn japönsku lykkjunum“ árið 1936 sem löglegt varð að flytja inn getnaðarvarnir.

„Þegar ég sé konur landsins misþyrma líkömum sínum í fávisku verð ég að gera það sem í mínu valdi stendur til að afstýra þessum slysum“.

Danski læknirinn Jonathan Leunbach sem stundaði ólöglegar fóstureyðingar.

Á Norðurlöndunum voru líflegar umræður um fóstureyðingar og getnaðarvarnir í lesendadálkum dagblaðanna og meðal heilbrigðisstarfsmanna. Andstæðingarnir töldu að konur yrðu lauslátar ef óæskileg þungun steðjaði ekki lengur að þeim. Þess í stað myndi ríkja „negralegt lauslyndi“, ritaði félagsfræðiprófessorinn Knud Asbjørn Wieth-Knudsen í hneykslunartóni í riti sínu „Þungunarlög, fósturdráp og barnamorð“ árið 1951.

 

Leunbach varði sig með fyrirlestrum og greinum: „Þegar ég sé konur í fávisku sinni misþyrma líkama sínum verð ég að gera það sem í mínu valdi stendur til að afstýra þessum hörmungum“.

 

Fyrst þeir gátu ekki boðið kvenkyns sjúklingum sínum löglegar fóstureyðingar, beittu bandarískir læknar á borð við Edgar Keemer „maukinu“ hans Keemers í leyni þegar vanfærar stúlkur með tárvot augu grátbáðu þá um að fjarlægja barn þeirra, líkt og þeldökki læknaaðgerðasinninn Keemer sagði seinna.

 

Ef marka má þennan bandaríska lækni tók aðgerðin aðeins tíu mínútur á bekknum og 18 klukkustundum eftir það hafði maukið svo gert það að verkum að líkaminn losaði sig við fóstrið. Sjálfur hafði hann verið mótfallinn fóstureyðingum framan af en hafði skipt um skoðun þegar ógift þunguð kona tók eigið líf eftir að Keemer hafði neitað henni um aðstoð.

Krókódílsskítur, ópíum og barsmíðar héldu börnum í burtu

Egyptar til forna útbjuggu getnaðarvarnarhettur úr krókódílsskít og hunangi. Blandan var notuð til að útbúa úr gúmmíhimnu sem lokaði fyrir leghálsinn þegar henni hafði verið komið fyrir í legi konunnar. Þessi getnaðarvörn var álitin vera sú sem besta raun gaf á sínum tíma.

Krókódílsskítur lokaði fyrir legið

Egyptar til forna útbjuggu getnaðarvarnarhettur úr krókódílsskít og hunangi. Blandan var notuð til að útbúa eins konar tappa sem lokaði fyrir legháls konunnar. Getnaðarvörn þessi var talin gefa góða raun.

Steiktum lauk ætlað að framkalla fósturlát

Indverskar konur sem urðu ófrískar gegn vilja sínum á 18. öld iðkuðu það að setjast naktar yfir skál af steiktum lauk. Gufan af matnum átti að eyða fóstrinu. Aðferðin átti ekki við nein rök að styðjast en henni var engu að síður enn beitt í Bandríkjunum á 20. öld.

Kramdir maurar vitagagnslausir

Þegar rómverskar konur leituðu til læknis vegna óæskilegrar þungunar mælti hann með blöndu af bjarnarfitu ásamt krömdum maurum og hjartarhárum. Blöndunni átti að smyrja á sköp konunnar en hún hefur tæplega gert neitt gagn.

Barsmíðar ollu fósturláti

Konur sem hafa orðið ófrískar gegn vilja sínum hafa löngum leitað á náðir barsmíða til að losa sig við fóstrið. Í Kína og Japan var algengt að beita höggum á kviðinn en raunar áttu óléttu konurnar þá á hættu að skaðast lífshættulega innvortis.

Ópíum og terpentína kraftaverkalækning

Á 20. öld drukku konur sem óvart höfðu orðið ófrískar blöndu úr terpentínu, amerískri olíu og kínínvatni. Aðrar þekktar blöndur voru gerðar úr gini með viðbættum járnspæni og ópíumi. Aðferðir þessar ollu veikindum í konunum en ekki er vitað hvort þær leiddu til fósturláts.

Samfélagið fordæmdi ógiftar, vanfærar konur

Konur sem höfðu orðið ófrískar utan hjónabands voru langstærsti hópur þeirra sem leituðust eftir að þungunarrofi. Það að fæða „óskilgetið“ barn fól ekki aðeins í sér óheyrilega skömm, heldur hafði það ýmsar afdrifaríkar afleiðingar í för með sér. Ógiftu konunum var sagt upp störfum eða þær reknar úr námi þegar þeim tókst ekki lengur að dylja stækkandi kviðinn.

 

Margar voru útilokaðar frá fjölskyldum sínum eða þær látnar dúsa á trúarlegum fæðingarheimilum á borð við Birdhurst Lodge í grennd við London.

 

„Ég á von á barni og nú er maðurinn minn farinn frá mér“, ritaði sorgmædd kona vinkonu sinni árið 1950 þegar hún var send til Birdhurst Lodge.

,,Ég sat lengi og gætti þess af ýtrustu varfærni að prjónninn færi ekki nema 2 cm inn í legið”.

Þunguð kona sem framkvæmdi eigið þungunarrof á fimmta áratugnum.

Þegar konur stóðu frammi fyrir því að þurfa að metta enn einn svangan munninn eða þá að verða brennimerktar sem einstæðar mæður, gripu þær oft til örþrifaráða til að koma af stað fósturláti. Sumar hoppuðu hvað eftir annað niður af eldhúsborðinu, aðrar innbyrtu ætandi, brennt kalk í von um að hrinda af stað fósturláti. Algengasta aðferðin var þó sennilega sú að stinga prjónum eða vírherðatré upp í legið til að gera gat á fósturhimnuna.

 

Mér fannst ég sitja í heila eilífð áður en mér tókst ætlunarverk mitt og gat myndaðist. Ég missti fóstrið líkt og foss hefði myndast“, segir ónafngreind dönsk kona sem beðin var um að rifja upp fóstureyðingu sem hún framkvæmdi á sjálfri sér á 5. áratugnum.

 

Röng stunga gat skemmt legið fyrir lífstíð en konurnar óttuðust skömmina meira en skemmdirnar á líkamanum. Eina önnur leiðin var að fara til skottulæknis eða þá að fara til læknis sem vitað var að framkvæmdi fóstureyðingar bak luktum dyrum. Nöfn þeirra og heimilisföng var ekki að finna í símaskránni, heldur gengu þau kvenna á milli á vinnustöðum þeirra, háskólum eða jafnvel hjá hárgreiðslukonunni.

Lífshættulegar fóstureyðingar með sokkaprjónum

Ófrískar konur eða skottulæknar stungu oddhvössum, mjóum hlutum í fósturhimnuna í því skyni að eyða fóstri. Aðferðin var einkar flókin og varasöm, því konan átti á hættu að deyja af völdum blóðmissis eða sýkingar.

 

Ein röksemdin fyrir því að banna fóstureyðingar var sú að þá gætu vændiskonur og aðrar lauslátar stúlkur stundað kynlíf með hverjum sem er án þess að óttast afleiðingarnar.

 

Læknisaðstoð var munaður

Bestu skottulæknarnir notuðu svonefndar andanefjur  Áhaldið var notað til að opna skeiðina þannig að unnt væri að koma auga á leghálsinn.

 

Skottulæknar þreifuðu sig áfram

Fæstir höfðu þó aðgang að lækningabúnaði og urðu þess í stað að halda skeiðinni opinni með fingrunum. Þeir þurftu þá að þreifa sig áfram jafnframt því sem þeir stungu prjónunum í átt að leghálsopinu.

 

Stinga þurfti á réttum stað

Án þess að sjá almennilega hvað var að gerast reyndist erfitt að stinga á nákvæmlega réttan stað. Væri stungið í skeiðarvegginn gat slíkt haft í för með sér hættulega sýkingu og sótthita.

 

Gat gert á fósturhimnuna

Prjónn skottulæknisins varð að komast gegnum leghálsopið og alla leið inn í legið. Næði að myndast gat á fósturhimnuna, varð fóstrinu eytt.

 

Lokaferlið var lífshættulegt

Næstu daga á eftir þurfti konan að bíða þess að fóstrið gengi niður um skeiðina. Þetta ferli fól í sér skelfilegan sársauka og lífshættulegar blæðingar.

Skottulæknar voru lífshættulegir

Í Bandaríkjunum fylgdist lögreglan með læknastofum. Konur sem voru grunaðar um að ætla að leita til læknis í því skyni að fá þungunarrof voru teknar höndum og yfirheyrðar. Engu að síður var þungunarrofi haldið áfram í laumi. Edgar Keemer sem áður hefur verið minnst á, vissi mæta vel að lögreglan fylgdist með læknastofu hans í Detroit en hann framkvæmdi engu að síður þúsundir fóstureyðinga, aðallega á fátækum, þeldökkum konum.

 

Árið 1956 lét lögreglan hins vegar til skarar skríða og réðst inn í læknastofu hans í Detroit. Keemer var dæmdur í 14 mánaða fangavist fyrir ólöglegar fóstureyðingar. Það sem olli hvað mestri hneykslan við réttarhöldin var að svartur læknir skyldi hafa snert kynfæri hvítra kvenna“.

 

Útlærðir læknar sem fengust til að eyða fóstri voru ekki á hverju strái og tóku auk þess offjár fyrir greiðann. Í Bandaríkjunum greiddu konur um 15 dollara fyrir fóstureyðingu sem samsvarar einum sextán þúsund krónum í dag. Konur á Norðurlöndunum greiddu gjarnan það sem samsvararði mánaðarleigu fyrir viðvikið. Fyrir bragðið urðu fátækar konur oftar en ekki að láta sér nægja að fara til skottulæknis eða að gera tilraunir sjálfar.

,,Hún læsti sig fyrir vikið inni á baðherbergi og þar blæddi henni hægt og rólega út“.

Bandaríski læknirinn Regine Stix tók viðtöl við u.þ.b. þúsund konur sem höfðu undirgengist ólöglega fóstureyðingu á fjórða áratugnum í New York.

 

Stix komst að raun um að innan við tíu prósent kvennanna fengu miklar blæðingar eftir fóstureyðingu sem var framkvæmd af lærðum lækni undir öruggum kringumstæðum. Ef konur reyndu sjálfar að eyða fóstrinu eða fengu sjálflærðan skottulækni til þess, jókst blæðingahættan upp í tæp 75%.

 

Í sumum tilvikum fengu aðgerðir þessar mjög sviplegan endi. Háskólastúdína lýsir ólöglegri fóstureyðingu skólasystur sinnar hjá skottulækni á þennan hátt:

 

„Hún var svo hrædd við að segja öðrum hvað hún hefði gert og þegar fylgikvillar gerðu vart við sig reyndi hún að greiða úr þeim sjálf. Hún læsti sig fyrir vikið inni á baðherbergi og þar blæddi henni hægt og rólega út“.

Bandarísk yfirvöld tóku hart á ólöglegu þungunarrofi á fimmta áratugnum. Lögreglan leitaði uppi konur sem grunaðar voru um að framkvæma þungunarrof. Þúsundir kvenna voru handteknar.

Á árunum milli 1950 og 1960 gerðu bandarískir læknar því skóna að hartnær ein milljón bandarískra kvenna fengi fóstureyðingu ár hvert. Af þeim hópi létust ekki færri en fimm þúsund, m.a. eftir að ætandi bleikingarefni hafði verið sprautað í þær. Obbinn af þeim konum sem létust voru fátækar, þeldökkar konur í sveitum, þar sem lítið var um lækna.

 

Þessar dapurlegu niðurstöður gerðu það að verkum að aðgerðasinnar á sviði fóstureyðinga, á borð við samtökin sem kölluðust „Jane“, kröfðust löglegra fóstureyðinga en höfðu ekki erindi sem erfiði. Þungunarrof á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum varð að hljóta samþykki nefndar sem stjórnmálamenn höfðu skipað í og var hún oftar en ekki skipuð trúarlegum meðlimum. Sjúkrahúslæknir einn í New York varð fyrir þeirri miður skemmtilegu reynslu, eftir að hann hafði mælt með þungunarrofi fyrir alvarlega veikar konur, að hann fékk upphringingu frá héraðslögmanninum sem benti honum á að „gæta að sér“. Eftir þetta símtal mælti læknirinn ekki með fleiri fóstureyðingum.

 

Þess í stað lærðu meðlimir samtakanna „Jane“ sjálfir að framkvæma þungunarrof. Þegar þunguð kona hringdi næst á skrifstofu hópsins og sagði „Jane“ var í raun um að ræða lykilorð sem táknaði að hún þyrfti á þungunarrofi að halda. Aðgerðirnar voru síðan framkvæmdar á heimilisföngum sem engir aðrir þekktu til.

Í stað ólöglegra fóstureyðinga reyndu fleiri konur að auka við fræðslu á getnaðarvörnum. Ein þeirra var hin enski kvennréttindafrömuður Marie Stopes sem stofnaði hreyfanlegar heilsugæslustöðvar þar sem konur gátu lært að nota getnaðarvarnir.

Svíþjóð ruddi brautina

Andstætt við flest Vesturlönd mildaði Svíþjóð fóstureyðingalöggjöfina aftur eftir stríðið. Frá og með árinu 1946 gátu unglingsstúlkur sótt um þungunarrof ef þær töldust ekki geta séð barni sínu farborða. Tíu árum síðar fylgdu Danir í kjölfarið með löggjöf sem leyfði fóstureyðingar meðal andlega vanstilltra kvenna.

 

Hér á landi voru lög sett árið 1975 sem víkkuðu heimild til þungunarrofs en gerðu hana ekki valfrjálsa að ósk móður.

 

Frjálslyndi Svía í fóstureyðingum laðaði að konur hvaðanæva að. Í hópi þessara kvenna var bandaríski barnatímastjórnandinn Sherri Finkbine. Hún varð ófrísk árið 1962 og tók inn lyfið talidómíð gegn morgunógleði á meðgöngunni og óttaðist síðan að fóstrið kynni að hafa orðið fyrir skaða af völdum lyfsins.

 

Þegar fóstrinu hafði verið eytt kom í ljós að á það vantaði báða fótleggi og annan handlegginn. Sænsku læknarnir lýstu því yfir að barnið hefði ekki lifað af fæðingu. Þegar Sherri sneri aftur til Bandaríkjanna varð hún fyrir miklum ágangi blaðamanna. Þegar hún var spurð að því hvers vegna hún hefði deytt barn sitt með fóstureyðingu, svaraði þessi landsþekkta sjónvarpskona: „Ef ég stæði frammi fyrir þessu vali aftur, myndi ég gera eins“.

 

Hneykslið ætlaði engan enda að taka en afdráttarlaust svar hennar átti þó þátt í að breyta almenningsálitinu. Skoðanakönnun sem gerð var í kjölfarið, leiddi í ljós að 52 hundraðshlutar Bandaríkjamanna töldu Sherri hafa gert rétt.

Þó að flestar ólöglegar fóstureyðingar hafi verið framkvæmdar af skottulæknum, þá voru til læknar framkvæmdu fóstureyðingar á eigin heilsugæslustöð. Hér eru myndir af sænskri þungunarrofsstofu frá árinu 1934.

Rétturinn til fóstureyðinga breyttist ekki einvörðungu í átt að vægari löggjöf á heimsvísu. Í Sovétríkjunum, þar sem ríkt hafði mjög frjálslegt viðhorf til fóstureyðinga á árunum upp úr 1920, var athæfið aftur á móti gert ólöglegt árið 1936. Í hamingjuríki kommúnistanna var nú að hafa nægilega fæðu fyrir stóra barnahópa, sögðu yfirvöld máli sínu til stuðnings. Raunin var hins vegar sú að stjórnmálamenn voru hræddir um að landið myndi dragast aftur úr á alþjóðavísu ef fólksfjölgunin yrði of hæg.

 

„Óreiða í kynferðismálum er alfarið sprottin af broddborgurunum. Þeir sem ekki líta hjónabandið alvarlegum augum og láta örlögunum eftir fæðingar barna eru iðulega jafnframt slæmir verkamenn“, upplýsti dagblaðið Pravda lesendur sína um.

 

Meira að segja í Danmörku og Svíþjóð ríktu enn miklar takmarkanir sem m.a. gerðu það að verkum að konur þurftu að sýna fram á að þær væru ófærar um að annast barnið. Í Danmörku sóttu 8.220 konur um þungunarrof árið 1960 en aðeins 3.611 fengu til þess leyfi. Ein þeirra sem var hafnað árið 1964 var hin tvítuga Lisa sem þurfti að leita á náðir skottulæknisins í fátækrahverfinu í Kaupmannahöfn.

 

„Ég var kvalin í 32 klukkustundir. Á sjúkrahúsinu var ég þráspurð um nafn þess sem hefði aðstoðað mig en ég hafði lofað þagmælsku og upplýsti ekki um nafnið“, sagði Lisa síðar meir. Til allrar hamingju lifði hún aðgerðina af, án þess að hljóta af varanleg mein.

Frá karlaveldi til frelsis

Skoðun fólks á fóstureyðingum hefur breyst frá því að láta sér fátt um fóstrið finnast yfir í það að beita dauðarefsingu fyrir það að deyða ófætt líf. Konur voru iðulega hálshöggnar fyrir fóstureyðingar.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Frjálst þungunarrof varð að réttindum

Getnaðarvarnarpillan var lögleidd í mörgum Vesturlöndum á árunum milli 1960 og 1970 og undir lok áratugarins duldist engum að hún hefði haft í för með sér kynlífsbyltingu. Brátt tók kvenréttindabaráttan að sama skapi stökk fram á við og þungunarrofslög áttu víða undir högg að sækja, því konur söfnuðust saman á öllum Vesturlöndum og kröfðust þess að fá sjálfar réttinn til að ráða yfir líkama sínum.

 

„Yfirráð yfir eigin kviði“, hafði hollensk kona skrifað með tússpenna á magann á sér í mótmælum árið 1971.

 

Í Bandaríkjunum mótmæltu aðgerðasinnar og kröfðust frjálsra fóstureyðinga, þar sem þeir einblíndu sérstaklega á allar þær fátæku, þeldökku konur sem létust eftir ólöglegar fóstureyðingar. Meðal þeirra sem mesta athygli vöktu á málstaðnum var læknirinn Edgar Keemer.

 

„Konur eiga að öðlast réttinn yfir eigin líkama, hvort heldur þær eru hvítar eða svartar á hörund“, skrifaði Keemer í dagblaðið Detroit Free Press.

Í lok 7. áratugarins fóru konur að mótmæla gerræðislegum þungunarrofslögum.

Í desember árið 1971 fylgdist allur heimurinn með þegar hæstiréttur Bandaríkjanna hóf fyrstu umræðurnar um réttinn til frjálsra fóstureyðinga. Ástæða umræðnanna var mál sem rekið var í Texas, þar sem 21 árs gömul kona að nafni Norma McCorvey, varð ófrísk í þriðja sinn og krafðist þess að fá að eyða fóstrinu. Löggjöfin í Texas heimilaði einungis fóstureyðingar ef lífi konunnar var ógnað af meðgöngunni og McCorvey varð að fæða barn sitt og gefa það til ættleiðingar.

 

Norma tók sér dulnefnið Jane Roe og höfðaði mál gegn héraðssaksóknaranum Henry Wade, þar sem hún áleit löggjöfina brjóta í bága við stjórnarskrána. Þessi tímamótaréttarhöld eru í dag þekkt sem málaferlin „Roe gegn Wade“, þar sem hæstiréttur dæmdi árið 1973, með sjö atkvæðum gegn tveimur, að lögin í Texas brytu í bága við rétt konunnar til sjálfsákvörðunar. Fóstureyðingar skyldu gerðar löglegar fyrstu þrjá mánuði af meðgöngu.

 

„Þessi hamlandi fóstureyðingalög sem gilda í mörgum ríkjum í dag, eru úr sér gengin“, lét hæstaréttardómarinn Harry Blackmun hafa eftir sér í kjölfar réttarhaldanna.

Norma McCorvey (t.v.), betur þekkt sem „Jane Roe“, bar sigur úr býtum í réttarhöldunum „Roe gegn Wade“ fyrir hæstarétti Bandaríkjanna árið 1973.

Þar með var brautin rudd fyrir fóstureyðingar á læknisfræðilegum grunni í Bandaríkjunum. Lífleg umræða um málefnið var í gangi í flestum Vesturlöndum, m.a. í Danmörku, þar sem frjálsar fóstureyðingar voru lögleiddar með naumum meirihluta þingsins árið 1972, eftir fimm ósamþykkt lagafrumvörp.

 

Lögin öðluðust gildi ári síðar og árið 1975 öðluðust sænskar konur að sama skapi réttinn til fóstureyðinga án nokkurra fyrirvara. Áður en nýr áratugur gekk í garð árið 1980 höfðu alls 36 lönd lögleitt fóstureyðingar, þar á meðal Noregur. Þess má geta að fóstureyðingar hafa verið heimilaðar í Mexíkó en þær voru hins vegar bannaðar á nýjan leik í Póllandi.

 

Hér á landi var  frumvarp um að lengja heimildina í 22 vikur samþykkt árið 2019

 

Konur hafa leyfi til frjálsra fóstureyðinga í um þriðjungi landa heims.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Bue Kindtler-Nielsen, Natasja Broström

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Maðurinn

Af hverju veldur ofnæmi kláða?

Náttúran

Milljarðar grameðlna hafa lifað á jörðinni

Heilsa

Vísindamenn finna sjálfsmorðshnapp krabbans

Alheimurinn

Ný gerð geimhylkis snýr lendingu alveg á haus

Maðurinn

Er hægt að verða sólbrúnn í skugga?

Maðurinn

Gerið það sama og þúsundir gera á samfélagsmiðlum: Verið þakklát og lifið lengur

Maðurinn

Þannig getum við nýtt drauma okkar

Heilsa

Kostir þess að vera nátthrafn

Jörðin

Jörðin eftir manninn

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is