Þotuflugmanninum Ian Watson brá heldur betur í brún í júní árið 1983. Þessum 25 ára gamla Breta hafði verið sagt að hefja sig til flugs frá flugmóðurskipinu HMS Illustrious í þotu af tegundinni Sea Harrier en Watson tók þá þátt í heræfingu NATO á Miðjarðarhafinu.
Honum var ætlað að finna franskt flugmóðurskip, ásamt starfsbróður sínum. Flugvélarnar tvær flugu sitt í hvora áttina meðan á flugferðinni stóð og þegar hinn reynslulitli Watson kom þangað sem þeim hafði verið ætlað að mætast fann hann engan starfsbróður.
Svitinn draup úr hverri svitaholu þegar hann áttaði sig á að hann væri einungis með nægilegt eldsneyti fyrir nokkurra mínútna flug.
Á síðustu stundu kom Watson auga á spænska gámaflutningaskipið Alraigo.
Flugvélar af gerðinni Sea Harrier geta lent úr lóðréttri stöðu og þegar Watson komst að skipinu tókst honum, áhöfn skipsins til mikillar furðu, að lenda ofan á gámunum.
Alraigo sigldi rakleitt til Tenerife, þar sem kænn skipstjórinn krafðist 570.000 punda björgunarlauna. Breski flotinn greiddi upphæðina vafningalaust, sneyptur þó.