Lifandi Saga

Búdda er vaknaður

Fyrir 2.500 árum gerði ungur maður uppreisn gegn ofurverndandi föður. Siddhartha Gautama yfirgaf hallir, dansmeyjar og gerðist meinlætamaður. Það hafði næstum kostað hann lífið en þá fann hann svarið við því sem hann leitaði að.

BIRT: 11/10/2023

Það fyrirfinnast ótal myndir og styttur af Búdda en enginn veit hvernig hann leit út í raun og veru.

 

Hann er oft sýndur sitjandi í lótusstellingu, ber að ofan, stundum með stóran og mikinn maga, stundum liggjandi, oft hlæjandi og sköllóttur.

„Ég var íklæddur silkijakka og þjónar mínir héldu hvítri sólhlíf yfir mér“.

Búdda um uppeldi sitt

Hver var hann? Þegar fólk spurði hann, veitti hann oft dularfull svör.


„Ert þú guð?“ spurðu sumir.


„Nei“, svaraði hann.


„Ertu engill?“ spurðu þeir síðan.


„Nei“, svaraði hann aftur.


„Ertu helgur maður?“ héldu þeir áfram en fengu aftur neitandi svar.


„Hvað ert þú þá?“ spurðu þeir að lokum.


„Ég er vaknaður“, svaraði hann.


Þetta svar varð nafn hans. Búdda er titill sem þýðir „sá upplýsti“ eða „sá sem er vaknaður“ upp af svefni fákunnáttunnar.


Rétt nafn hans var Siddhartha Gautama.

Afgönsk stytta af Búdda frá 5. öld e.Kr.

Afgönsk stytta af Búdda frá 5. öld e.Kr.

Sumir sérfræðingar, einkum á 19. öld, efuðust um að hann hafi í raun verið til en hægt er að sanna að hann hafi verið uppi.

 

Nýjar sögulegar staðreyndir, ekki síst áritanir fyrir okkar tímatal, hafa gert sagnfræðingum kleift að sýna það.

 

Það fyrirfinnast samt ekki margar öruggar upplýsingar um hann en nóg er til af ótrúlegum frásögnum og það er afar örðugt að greina á milli sögulegrar manneskju og goðsagnanna.

 

Mest af því sem vitað er, eru goðsagnir – margar um fæðingu hans og líf.

 

Flestir sérfræðingar í Evrópu, BNA og Indlandi telja að Búdda hafi verið uppi frá því um 563 til 483 f.Kr. Aðrir, einkum í Japan, staðhæfa að hann hafi verið uppi hundrað árum síðar.

 

Hann fæddist líklega þar sem nú er Nepal, nærri indversku landamærunum.

 

Faðir Búdda var konungur eða ættarhöfðingi.

 

Búdda ólst upp í miklum munaði. „Ég var íklæddur silkijakka og þjónar héldu hvítri sólhlíf yfir mér; Þrælar mínir komu alltaf frá Benares“, á hann að hafa sagt.

 

Mikil stéttaskipting

Þá var Indland ekki eins og það er í dag. Svæðið meðfram fljótinu mikla Ganges samanstóð af 16 borgarríkjum og þeim var stýrt af einstökum leiðtogum eða af ráði eldri manna.

 

Opinberu og trúarlegu lífi var stýrt af prestum, bramínum sem tilheyrðu efstu stétt manna.

 

Bramínar töluðu og rituðu á sanskrít sem að lægri stéttir máttu ekki tala. Þannig var tryggt að stéttaskiptingin væri kyrfilega föst í sessi í samfélaginu.

 

Í þessu stéttskipta samfélagi kom fram fjöldi annarra heimspekilegra kenninga.

 

Vísindamenn hafa borið kennsl á minnst 63 slíka heimspekiskóla.

 

Þeir kepptust innbyrðis en sameinuðust þó gegn bramínunum.

 

Flestir skólarnir liðu undir lok eða urðu þáttur af hindúisma sem á fjórðu öld e.Kr. þróaðist út frá kenningum bramína.

 

En búddismi varð að heimstrúarbrögðum.

Samkvæmt einni goðsögn dreymdi móður Búdda fyrir fæðingu hans, sem væri hún leiddi til Himalaya þar sem hvítur fíll fór inn í kvið hennar.

Frásögnin um fæðingu Búdda fylgir sögulegri hefð fyrir því hvernig miklum andans mönnum er lýst í helgiritum.

 

Faðirinn fékk eins konar opinberun um að hann myndi eignast son. Móður Búdda, Maya, dreymdi að fjórir konungar leiddu hana til Himalaya-fjalla, þar sem fjórar drottningar böðuðu hana og klæddu í himnesk klæði.

 

Búdda, í formi hvíts fíls, gekk þrjá hringi í kringum hana, snerti síðu hennar og hvarf inn í kvið hennar.

 

Einn helgur maður túlkaði drauminn fyrir hjónin. Framtíð barnsins fól í sér tvenns konar möguleg örlög.

 

Annað hvort yrði hann mikill konungur eða upplýstur andlegur leiðtogi – stór búdda.

 

Ef hann myndi velja konungdæmið myndi hann sameina Indland og kannski verða mesti drottnandi þess. Veldi hann að verða búdda myndi hann verða heimsendurlausnari.

 

Faðirinn ætlaðist til að Siddhartha yrði mikill konungur.

 

Ekkert var til sparað í þeim efnum. Þrjár hallir og 40.000 dansmeyjar stóðu prinsinum til boða svo að andlegt líf myndi ekki laða hann til sín.

Mikilvægustu kenningar Búdda

Lífið er hjól

Tilveran er full af þjáningu, sagði Búdda. Til þess að losna undan sársauka verður manneskjan fyrst að sjá að lífið endurtekur sig í sífellu með fæðingu og dauða, þar sem hugsanir okkar í einu lífi marka hið næsta.

 

Einungis með því að viðurkenna að lífið er hjól skapað af orsök og afleiðingu getum við brotist út úr því.

Langanir skapa þjáningar

Manneskjur eru fullar af löngun eftir hlutum, tilfinningum og upplifunum, sagði Búdda. Allir vilja fá það sem þeir geta ekki fengið og meira af því sem þeir hafa; t.d. vilja fátækir verða ríkir meðan ríkir vilja fá meiri peninga.

 

Manneskjur verða aldrei sáttar heldur klöngrast um lífshjólið í sífelldri endurtekningu. Þessi sífellda löngun veldur því að þjáningin heldur áfram.

Tómleiki leiðir til nirvana

Samkvæmt Búdda er gjörvallt lífið sjónhverfing sem samanstendur af hverfulum skynjunum og formum. Sjónhverfingunum skipti hann upp í þrjá flokka sem hann nefndi skandha og samanstanda af formi, skynjunum, skoðunum, vilja og meðvitund.

 

Allt er þetta þó óraunverulegt og viðheldur mönnum föstum í löngununum.

 

Til þess að losna við þjáningu verður manneskjan að viðurkenna þetta og losa sig við allan áhuga á sjónhverfingunum. Einungis þannig getur manneskjan hætt eilífu striti sínum eftir hlutum, viðurkenningu og efnislegum gæðum.

Síðan getur hún eða hann, með því að haga sér rétt og ærlega, náð hærra vitundarstigi.

 

Hæsta vitundarstiginu nær sá sem getur losað hugann við allt innihald. Þegar manneskja hefur náð því getur hún einnig náð nirvana, ástandi þar sem langanir eru ekki til staðar og manneskjan þjáist því ekki.

 

Tómleikinn frelsar einnig manneskjur frá því að fæðast aftur og þurfa að takast á við nýjar þjáningar.

Mikilvægustu kenningar Búdda

Lífið er hjól

Tilveran er full af þjáningu, sagði Búdda. Til þess að losna undan sársauka verður manneskjan fyrst að sjá að lífið endurtekur sig í sífellu með fæðingu og dauða, þar sem hugsanir okkar í einu lífi marka hið næsta.

 

Einungis með því að viðurkenna að lífið er hjól skapað af orsök og afleiðingu getum við brotist út úr því.

Langanir skapa þjáningar

Manneskjur eru fullar af löngun eftir hlutum, tilfinningum og upplifunum, sagði Búdda. Allir vilja fá það sem þeir geta ekki fengið og meira af því sem þeir hafa; t.d. vilja fátækir verða ríkir meðan ríkir vilja fá meiri peninga.

 

Manneskjur verða aldrei sáttar heldur klöngrast um lífshjólið í sífelldri endurtekningu. Þessi sífellda löngun veldur því að þjáningin heldur áfram.

Tómleiki leiðir til nirvana

Samkvæmt Búdda er gjörvallt lífið sjónhverfing sem samanstendur af hverfulum skynjunum og formum. Sjónhverfingunum skipti hann upp í þrjá flokka sem hann nefndi skandha og samanstanda af formi, skynjunum, skoðunum, vilja og meðvitund.

 

Allt er þetta þó óraunverulegt og viðheldur mönnum föstum í löngununum.

 

Til þess að losna við þjáningu verður manneskjan að viðurkenna þetta og losa sig við allan áhuga á sjónhverfingunum. Einungis þannig getur manneskjan hætt eilífu striti sínum eftir hlutum, viðurkenningu og efnislegum gæðum.

Síðan getur hún eða hann, með því að haga sér rétt og ærlega, náð hærra vitundarstigi.

 

Hæsta vitundarstiginu nær sá sem getur losað hugann við allt innihald. Þegar manneskja hefur náð því getur hún einnig náð nirvana, ástandi þar sem langanir eru ekki til staðar og manneskjan þjáist því ekki.

 

Tómleikinn frelsar einnig manneskjur frá því að fæðast aftur og þurfa að takast á við nýjar þjáningar.

Syni pakkað í bómull

Faðirinn skipaði fyrir að ekkert mætti trufla gleði drengsins.

 

Þegar Siddhartha vildi fara út fyrir höllina voru þjónar sendir á undan til að hreinsa leiðina svo að ekkert myndi raska hugarró hans.

 

En dag einn kom hann auga á veikburða gamlan tannlausan mann, gráhærðan og samankrepptan. Siddhartha brá mikið við þetta og uppgötvaði hann þarna ellina.

 

Faðir hans varð fokreiður. Fjölgað var í varðmannaliðinu.

 

Þrátt fyrir það mætti Siddhartha í annarri ferð veikri manneskju við vegarbrúnina sem einnig snart hann illa. Í þriðju ferðinni kom hann auga á lík.

 

Siddhartha sagði: „Er það svona sem allt lifandi endar? Og samt sem áður hafnar heimurinn allri angist? Snúið við vagni mínum! Þetta er hvorki tími né staður fyrir skemmtiferð!“

 

Í fjórða sinn sem Siddhartha hélt að heiman hitti hann merkilegan mann: Krúnurakaðan munk sem var klæddur í okkurgulan kirtil og með betliskál í hönd.

 

Nú ákvað Siddhartha að draga sig frá heimsins amstri.

 

Hann yfirgaf fjölskyldu sína og munaðarlíf sitt. Ein útgáfa greinir frá því að hann hafi yfirgefið foreldrana meðan þau voru sofandi.

 

Siddhartha leitaði nú uppi einfalt meinlætalíf til þess að ná andlegu innsæi og leið út úr hörmulegu hlutskipti manna.

 

Hann leitaði uppi helstu andlegu meistarana og hlýddi á visku þeirra.

 

Hann lærði jóga og heimspeki. En hann var einnig gagnrýninn. Þessi leit hans fullnægði alls ekki væntingum hans.

Kenningarnar dreifðust frá Indlandi

Búddismi dreifðist frá Indlandi til allrar Asíu

Kenningar Búdda eru mikilvægar víðs vegar í Asíu.

 

Núna er talið að um 500 milljón manns aðhyllist búddisma.

 

Búddisminn breiddist hratt út um Asíu með verslunarleiðum. Þar lá engin pólitík að baki líkt og átti við um kristniboð á sínum tíma.

 

Á annarri öld f.Kr. tók búddismi að breiðast út yfir Indland með friðsömum hætti þegar Ashoka keisari lét senda trúboða til Sri Lanka, suðurhluta Myanmar og Tælands.

 

Búddismi barst til Kína smám saman með verslunarleiðum.

 

Til Japans náði hann á 6. öld e.Kr. og til Tíbet fyrst á 7. öld.

 

Núna er að finna meira en 500 milljón búddista í heiminum sem gerir búddisma að fjórðu stærstu trúarbrögðum heims.

 

Í Indlandi eru samt flestir hindúistar og einungis um 0,7% kenna sig þar við búddisma.

Var nærri dauður úr hungri

Næsta skref hans fólst í að loka sig af með meinlætamönnum sem leituðu andlegrar uppljómunar með því að hafna öllum nautnum.

 

Sagt er að þegar þeir föstuðu hafi þeir borðað svo lítið sem sex hrískorn á dag.

 

Að lokum var Siddhartha orðinn svo veikburða að hann sundlaði. Ef ekki hefði verið fyrir fólk í nágrenni hans sem þvingaði smávegis af volgum hrísgrjónagraut í hann, hefði hann látið lífið.

 

Þessi reynsla kenndi honum hve haldlaust meinlætalíf er.

 

Hann var kominn með fyrsta meginstólpann í kenningu sína: Meðalhóf milli nautna og meinlætalífs – líf þar sem líkaminn fær það sem til þarf til þess að dafna vel en heldur ekki neitt meira.

 

Hann hafnaði þannig meinlætalifnaði og hófst þess í stað handa við að hugleiða.

 

Kvöld eitt í nágrenni Gaya í norðausturhluta Indlands settist hann undir fíkjutré. Staðurinn hlaut síðar nafnið „Staður óhreyfanleikans“, þar sem hann sat þar grafkyrr dögum saman.

 

Siddhartha fann hvernig hann efldist í hugleiðslunni og loksins kom uppljómunin: Feiknarleg hamingjutilfinning fékk hann til að vera á þessum stað í sjö daga.

Saffrangulur litur á klæðum Búddamunka táknar hreinleika og auðmýkt.

Saffrangulur litur á klæðum Búddamunka táknar hreinleika og auðmýkt.

Samkvæmt goðsögninni reyndi hann að standa upp á áttunda degi en þá fann hann aftur fyrir miklum svima.

 

Í 49 daga upplifði hann öfluga alsælu.

 

Svo opnaði hann sig fyrir heiminum. Siddhartha var umbreyttur og kynnti sig nú sem Búdda, „þann upplýsta“.

 

Hann hafði öðlast fulla innsýn í eðli náttúrunnar og heimsins og hvernig maður getur sigrast á löngunum og þjáningu.

 

Hann fékk einnig að vita að hann hafði fæðst mörgum sinnum og að hann og allar aðrar verur fæðast aftur vegna hátternis síns en jafnframt að hægt sé að stöðva endurfæðinguna.

 

Þetta var nefnt „hin fernu sannindi“. Uppljómunin var ófullkomið nirvana – hið fullkomna nirvana öðlast maður þá fyrst þegar maður deyr.

Forn búddistahof í Bagan, Myanmar

Búdda kallaði sig aldrei guð

Búddismi inniheldur ekki nokkra eiginlega guði og búddískir kennimenn nútímans benda á að Búdda hafi verið manneskja sem ekki beri að tilbiðja.

 

Engu að síður líta margir á Búdda sem „Guð guðanna“, æðri veru.

 

Aðrir guðir eru samkvæmt þessu sjónarhorni undirsátar Búdda.

 

Þrátt fyrir þessa skilgreiningu hefur búddismi sjaldan átt í átökum við önnur trúarbrögð.

 

Þess í stað hafa áhangendur Búdda aðlagað sig hefðum hvers staðar fyrir sig og af þeim sökum er að finna mörg afbrigði af búddisma.

 

Núna dafnar búddisminn við hliðina á öðrum trúarbrögðum. Oft við hlið frumstæðra hugmynda eins og t.d. trú á anda, miðla, spámenn og stjörnuspeki.

 

Það er einkum í klaustrunum sem búddismi finnst í sínu hreinasta formi.

Kenningar Búdda varðveittust munnlega

Sú kenning sem er eignuð Búdda barst munnlega mann fram af manni með lærisveinum hans.

 

Þess vegna er ekki hægt að segja með vissu hvað Búdda gerði eða hvað hann sagði.

 

Boðskap hans var oft miðlað þegar einhver nemandi sagði: „Þannig hef ég heyrt…“ Frásögnin var oft tengd þeim stað, þeim tíma og því samhengi þegar Búdda á að hafa mælt fram viðkomandi visku.

 

Elsta frásögn um Búdda-Buddhacarita („Verk Búdda“) – er skrifuð á annarri öld e.Kr. af hinum hindúíska Ashvaghosha.

 

Það er sett fram í ljóðaformi og felur í sér margvíslegan andlegan fróðleik en hefur lítið sagnfræðilegt gildi.

 

Goðsagnirnar skipta samt að sjálfsögðu máli: Búddisminn hefur jú þróast í kringum þær.

 

Það er ekkert sem útilokar að inntakið í frásögn Ashvagosha styðjist við sannindi á fyrstu árum Búddismans.

„Verið á komandi dögum ykkar eigið ljós, ykkar eigin lausn!“

Búdda á banabeðinu.

Frásagnir um líf Búdda voru ritaðar og endurritaðar á Indlandi og á þeim svæðum sem búddisminn náði fótfestu. Stundum var bætt við sögum og aðrar teknar burt.

 

Staðir sem voru mikilvægir pílagrímsstaðir en höfðu ekki verið nefndir í fyrri skrifum, urðu smám saman helgir, því að sagt er að Búdda hafi sótt þá heim.

 

Svæði sem búddismi náði til eftir dauða hans, eins og Sri Lanka, Casmir, Mianmar – fundu upp goðsagnir um að lærimeistarinn hafi með einhverjum dularfullum hætti heimsótt þá líka.

 

Í Nepal, Tíbet og Kína er ævisagan Lalita Vistara („Frásögnin um verk Búdda“) afar vinsæl.

 

Hún leggur lítið upp úr kraftaverkasögum en hefur verið innblástur fyrir listamenn innan búddismans.

 

Ein útgáfa virðist hafa verið þýdd yfir á kínversku árið 308 e.Kr.

 

Það er ekki til nein ein ævisaga um Búdda sem allar búddískar hefðir samþykkja.

Það er alltaf keppst um en ekki alveg vitað, hvaða Búddastytta er stærst í heiminum. Núna virðist það vera Ushiku Daibutsu, 50 km norðaustan af Tokýó sem er 120 metra há.

Það er alltaf keppst um en ekki alveg vitað, hvaða Búddastytta er stærst í heiminum. Núna virðist það vera Ushiku Daibutsu, 50 km norðaustan af Tokýó sem er 120 metra há.

Breyttar áherslur sagnfræðinga

Á síðustu tímum hafa fræðimenn reynt að öðlast skilning á hinum sögulega Búdda.

 

Hver var maðurinn á bak við allar goðsagnirnar? Vegna þess hversu langt er um liðið frá því hann var uppi og þar til fyrsta ævisaga hans kom út hefur það reynst þrautin þyngri.

 

Núna einbeita sagnfræðingar sér fremur að því að rannsaka hvernig ýmsir angar búddismans hafa breyst í tímanna rás.

 

Í stað þess að einblína á líf Búdda skoða þeir fremur hvernig kenningar hans hafa þróast.

 

Frá sjónarhorni sagnfræðinnar má líta á Búdda sem einn af mörgum áhrifamiklum lærimeisturum á Norður-Indlandi á árunum 300 – 400 f.Kr.

 

Eftir öllum ummerkjum að dæma leit hann sjálfur á sig sem endurreisnarmann sem vildi leiða fram upprunalegan sannleika sem hafði glatast eða verið ranglega túlkaður af bramínum, indverskum prestum.

 

Það er líklega blanda af sögnum um prinsinn Siddhartha Gautama og goðsögnum sem umluktu hann sem kom af stað þessari miklu trúarhreyfingu.

Kynnti meginhugmynd í fyrstu predikuninni

Fyrsta predikun Búdda sem hann hélt í Benares á Indlandi er alveg jafn mikilvæg búddisma eins og fjallræðan er kristnum. Í henni kynnti hann hinn áttfalda veg.

 

Hann samanstendur af réttri skoðun, réttri stefnu, réttu tali, réttri breytni, réttum lifnaðarháttum, réttri viðleitni, réttri íhugun og réttri einbeitingu.

 

Með því að fylgja þessum veg getur manneskjan leyst upp „ekki-uppljómunina“ sem er orsök þjáningar.

 

Manneskjan getur öðlast uppljómun og nirvana. Benares-predikunin er einnig tekin saman í ferns konar göfugum sannleika:

 

  • Allt er þjáning.

 

  • Orsök þjáningar er löngun.

 

  • Lönguninni má eyða.

 

  • Lausnin er að fylgja hinum áttfalda veg.

Síðasta máltíð hans var sú besta

Búdda lést þegar hann var um 80 ára gamall, 483 f.Kr.

 

Hann hafði verið nokkuð slappur í nokkra mánuði en sagt er að máltíð nokkur hjá manni að nafni Cunda hafi orðið honum að aldurtila.

 

Honum var boðið upp á þurrt villisvínakjöt og fékk heiftarlega matareitrun.

Tíbetskt málverk frá 8. öld greinir frá atburðum þegar Búdda dó.

Til þess að gestgjafi hans myndi ekki fá sektartilfinningu yfir því að Búdda væri að deyja sagði hann á banabeði sínum að af öllum máltíðum hans væru tvær sem hefðu verið bestar: Sú sem hafði gefið honum kraft til þess að öðlast uppljómun og þessi síðasta sem hafði opnað hliðið að nirvana.

 

Hann kallaði til sín sinn dyggasta lærisvein, frændann Ananda og aðra munka: „Ó, Ananda, ég er gamall og saddur af lífsins amstri og ferðalag mitt komið á leiðarenda.

 

,,Verið á komandi dögum ykkar eigið ljós, ykkar eigin lausn! Haldið fast í sannleikann, snúið ykkur ekki til annarra en ykkar sjálfra“.

 

Þessi búddíska sögn hefur verið krydduð með himneskum kraftaverkum eins og jarðskjálftum og blómaregni.

 

Hann hafði sigrast á dauðanum og myndi nú ekki endurfæðast heldur stíga inn í nirvana. Æviverk hans var á enda komið.

 

Áhangendur Búdda útnefndu engan nýjan leiðtoga að beiðni hans.

 

Líkami hans var brenndur og beinaleifar Búdda voru lagðar undir steinavörður á mismunandi stöðum.

 

Klaustur sem nú segjast geyma þessa helgidóma Búdda laða til sín fjölda trúaðra á ári hverju.

Lestu meira um Búdda

  • Hans Wolfgang Schumann: The Historical Buddha, 1988

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: SØREN WIBECK

© Bridgeman Images, Shutterstock, Getty Images,© Ritzau Scanpix

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Alheimurinn

NASA uppgötvar dularfullan hlut sem er 27.000 sinnum stærri en jörðin – hreyfist á 1,6 milljón km/klst.

Maðurinn

Lyktin afhjúpar öll þín leyndarmál: Lyktin er hið nýja fingrafar

Tækni

Líkami þinn er orkuver

Jörðin

Myndast skýstrókar í Norður-Evrópu?

Lifandi Saga

Hver var fyrsti þekkti guðinn?

Lifandi Saga

Hvenær fórum við að kyssast?

Maðurinn

Hvers vegna verður maður þreyttur eftir að hafa borðað?

Lifandi Saga

Hvers vegna eru til herra- og kvenreiðhjól?

Maðurinn

Lítið en mikilvægt atriði í uppeldinu getur haft mikil áhrif seinna á lífsleiðinni

Heilsa

Sérfræðingar í sykursýki: Jafnvel lítið magn af þessari tegund matar getur aukið hættuna um 15 prósent.

Maðurinn

Þú ert tveimur sekúndum frá því að springa úr reiði

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is