Lifandi Saga

Cheka: Rauði ógnvaldurinn

Árið 1917 skipaði Lenín nýstofnaðri leyniþjónustu sinni – Cheka – að berja niður alla mótspyrnu byltingarinnar. Leiðtogi bolsévika óttaðist að byltingin yrði kæfð niður og sleppti því villimannslegustu mönnum sínum lausum. Ein miskunnarlausustu hermdarverk sögunnar hófust.

BIRT: 26/02/2023

Lenín leikur á als oddi þar sem hann heldur ræðu við Mikhelson-verksmiðjuna í Moskvu þann 30. ágúst 1918 og dásamar bolsévismann. 

 

„Hjá okkur er aðeins til ein leið: Sigur eða dauði“, lýkur Lenín ræðunni með steittan hnefa á lofti undir glymjandi fagnaðarlátum verkamannanna. 

 

Í tíu mánuði hefur bolsévikaleiðtoginn setið við völd í Rússlandi eftir að hann steypti sitjandi ríkisstjórn í Októberbyltingunni árið 1917. En bolsévikar óttast að völdin séu að renna þeim úr greipum, því í Rússlandi úir og grúir af andstæðingum þeirra.

Þeir hafa drepið hann! Þeir hafa drepið hann!

Hrópa verkamenn eftir morðtilræðið við Lenín.

Þess vegna snýr Lenín sér jafnan til verkamannanna, enda eru þeir hryggjarstykkið í bolsévismanum. 

 

Að ræðunni lokinni heldur leiðtoginn í átt að bíl sínum þegar ung kona stígur skyndilega fram, vopnuð skammbyssu. Þrír skothvellir hljóma við verksmiðjuna þar sem Lenín fellur niður milli þeirra verkamanna sem fylgdu honum áleiðis að bifreið hans. 

 

„Þeir hafa drepið hann! Þeir hafa drepið hann!“ hrópa verkamennirnir meðan þeir bera særðan flokksleiðtogann til bílsins sem hendist af stað í átt að spítalanum. 

Lenín var á leið inn í bíl sinn þegar Fanja Kaplan skaut þrisvar sinnum á hann – tvær byssukúlur hittu Lenín.

Á meðan grípur öryggisþjónusta Leníns tilræðiskonuna, hina 28 ára gömlu Fönju Kaplan. Hún lýsir strax yfir að tilræðið sé af pólitískum rótum runnið.

 

Þrátt fyrir að tvö skot Kaplans af þremur hitti Lenín og særi hann í hálsi og öxl lifir hann tilræðið af en þetta misheppnaða banatilræði á eftir að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir alla íbúa Rússlands. 

 

Fáum tímum eftir tilræðið greina bolsévikar frá þessari „huglausu tilraun til að drepa félaga Lenín“ og í einni yfirlýsingunni er tónninn uggvekjandi: Þessu verður svarað með „miskunnarlausri hefnd gegn öllum óvinum byltingarinnar“. 

 

Enginn í Rússlandi getur lengur talið sig öruggan. Þaulhugsuð og miskunnarlaus hermdarverk sem hin skelfilega leyniþjónusta Cheka stendur fyrir eiga nú að tryggja byltingu Leníns. 

Sinnissjúk kona hleypti skelfingunni af stað

Sú rjúkandi skammbyssa sem þann 30. ágúst 1918 skaut þremur kúlum að Lenín var í höndum Fönju Kaplan. Hún var strax handtekin og leidd til yfirheyrslu hjá leynilögreglunni.

 

„Ég var ein um verknaðinn. Ég mun ekki segja hvar ég fékk skammbyssuna. Ég vil ekki greina frá neinum smáatriðum. Ég hafði ákveðið að drepa Lenín fyrir löngu síðan. Ég lít á hann sem svikara byltingarinnar“, sagði Kaplan.

 

Í þrjá daga var hún yfirheyrð þar til Cheka gafst upp á að ná meira upp úr konunni sem samkvæmt ýmsum heimildum gekk ekki heil til skógar. Hún hafði setið í fangelsi í 11 ár meðan keisarinn var við völd og eftir afplánunina sýndi hún merki um að hafa bilast á geði.

 

Andlegt ástand hennar sáði síðar efasemdum um mögulega sekt hennar – kannski var hún einungis blóraböggull? Árið 1922 sagði einn fyrrum herforingi úr flokknum Sósíalísku byltingarsinnarnir þó að Kaplan hafi verið þar meðlimur og jafnframt að hann hafi valið hana til að fremja tilræðið.

 

Hin 28 ára gamla Kaplan var tekin af lífi opinberlega í Moskvu árið 1918 en líki hennar var komið fyrir í tunnu og það brennt.

Browning-skammbyssa fannst í fórum Fönju Kaplan þegar hún var handtekin.

Keisara kastað á dyr 

Einungis hálfu öðru ári fyrir tilræði Fönju Kaplans var Rússland allt annars konar land.

 

Á þeim tíma ríkti keisarinn Nikulás 2. yfir landinu en fjölskylda hans hafði stýrt landinu í margar kynslóðir. En ójöfnuðurinn í landinu var álíka mikill og fjarlægðirnar í þessu risastóra landi.

 

Bændur og verkamenn áttu svo erfitt uppdráttar á árunum fram til 1916, að það rétt dugði til að forðast hungurdauða en með fyrri heimsstyrjöldinni varð vöruskortur í öllu landinu og lægstu stéttirnar sultu. 

 

„Við viljum fá brauð!“ hljómaði í mótmælagöngum gegn keisaranum. 

 

Í mars 1917 var þrýstingurinn orðinn svo mikill að Nikulás 2. sagði af sér.

 

Bráðabirgðaríkisstjórn var komið á laggirnar en í nóvember 1917 tók leiðtogi bolsévika, Vladimir Lenín, málin í sínar hendur og í októberbyltingunni hrifsaði hann til sín völdin. 

 

„Þetta var álíka létt og að lyfta fjöður“, sagði Lenín síðar. 

 

Hins vegar var ekki jafn auðvelt að viðhalda völdum í þessu sundraða landi. Þar sem langflestir Rússar voru bændur og verkamenn mátti ætla að Lenín gæti í raun notið mikils stuðnings. En bolsévikar kröfðust þess að fá einir að stjórna landinu sem margir voru mótfallnir – jafnvel meðal byltingarsinna þar sem fyrrum pólitískir félagar, Sósíalískir byltingarsinnar, tóku skýra afstöðu gegn einræðistilburðum Leníns. 

„Við komumst ekkert áfram nema við grípum til hryðjuverka.“

Lenín, 1917

Óvini var hvarvetna að finna í umhverfi bolsévika og Lenín og kumpánar hans voru skjótir til að úthrópa sérhvern gagnrýnanda sem meindýr og að það bæri að eyða öllum slíkum.

 

Í nafni byltingarinnar var skýrt markmið að ráða niðurlögum svokallaðra stéttaóvina í yfirstéttinni og meðal borgara sem Lenín kallaði „kapítalíska unga“, „auðuga afturhaldsseggi“ og „hysteríska menntamenn“.

 

Og þessi nýi Sovétleiðtogi skirrðist ekki við að beita svívirðilegum aðferðum. „Við komumst ekkert áfram nema við grípum til hryðjuverka“, sagði Lenín við flokksmeðlimi sína, stuttu eftir valdatökuna.

 

Lenín þurfti nú bara að safna saman blóðhundum sínum og sleppa þeim lausum. 

Bolsévikar sáu óvini alls staðar

Lenín og bolsévikar sáu alls staðar ógnir gegn byltingunni í samfélaginu. Allir, allt frá yfirstéttarfólki til fyrrum félaga, voru stimplaðir sem óvinir.

Bolsévikar gátu varla gengið stuttan spöl í rússneskri borg án þess að sjá óvini á hverju götuhorni – bæði raunverulega og ímyndaða – því að tilheyrði manneskja ekki öreigunum eða bolsévikaflokknum var hann eða hún stimpluð sem andstæðingur.

Yfirstéttin og borgarastéttin voru „stéttaróvinir“, pólitískir andstæðingar voru „gagnbyltingarsinnar“ og væri einhver með öðrum hætti þyrnir í augum bolsévika og byltingar þeirra var viðkomandi samstundis stimplaður sem „óvinur ríkisins“.

Í stuttu máli: það var mun erfiðara fyrir Lenín og félaga hans að finna vini en óvini.

 

– Hvítliðarnir

Andkommúnistískur skríll

Hugtakið „hvítliðar“ náði yfir samsafn andkommúnistískra hópa. Þar voru t.d. borgaralegir demókratar, frjálslyndir lýðveldissinnar, þjóðernissinnar og hægrisinnaðir áhangendur keisarans.

 

– Prestarnir

Ræningjar í Guðs nafni

Bolsévikar voru eindregnir guðleysingjar og fyrirlitu kirkjuna. Meira en 200.000 prestar Rússlands voru því taldir vera helber þjófalýður sem með kirkjunni og trúna að vopni arðrændu þjóðina.

– Kapítalistarnir

Fégráðugir borgarar

Samtök sem jafnan tilheyrðu heldri borgurum voru samkvæmt bolsévikum meindýr samfélagsins. Þeir sátu að framleiðslutækjunum og þénuðu formúur á erfiði verkamanna.

 

– Kúlakkarnir

Gráðugu stórbændurnir

Stórbændur Rússlands gengu undir nafninu Kúlakkar og Lenín kallaði þá „blóðsugur“ sem þrautpíndu fátæka bændur. Sérhver bóndi sem neitaði að skila uppskerunni til bolsévika var einnig talinn til Kúlakka.

 

– Stuðningsmenn keisarans

Úrhrök fortíðar

Allir þeir sem gegndu stöðum undir keisaranum eða studdu keisaradæmið voru álitnir óvinir – sama hvort þetta voru liðsforingjar, embættismenn eða almennir borgarar sem höfðu starfað fyrir keisarann.

– Sósíalískir byltingarsinnar

Svikarar byltingarinnar

Flokkurinn Sósíalískir byltingarsinnar var upprunalega frændflokkur bolsévika. En þegar Lenín hrifsaði til sín völdin árið 1917 voru þessir fyrrum samstarfsfélagar stimplaðir sem „andbyltingarsinnar“.

 

– Menntastéttin

Yfirstéttarpakk með völd

Rússneska menntastéttin var samkvæmt Lenín handbendi kapítalista. Einnig stafaði ógn af þeim, þar sem vel menntað fólk var oft gagnrýnið á pólitíska valdhafa sem voru hér bolsévikarnir sjálfir.

– Útlensk yfirvöld

Erlendir óvinir

Bolsévikar óttuðust – og ekki að ástæðulausu – erlend yfirvöld. Samkvæmt áróðri Lenín voru það önnur ríki sem stjórnuðu „hvítliðum“. Fjölmörg lönd studdu líka beint og óbeint mótspyrnu hvítliðanna.

Járn-Felix skapaði ógnvald 

Í desember 1917 hittust leiðtogar bolsévika til að leggja á ráðin hvað gera skyldi við „gagnbyltingarsinna“, eitt af þeim fjölmörgu nöfnum um allt það fólk sem ekki studdi bolsévika.

„Við þurfum ekkert réttlæti núna. Við þurfum baráttu til dauðans!“

Felix Dzerzinsky, yfirmaður Cheka

Á fundinum tók Felix Dzerzinsky þátt sem vegna öfgafullra skoðana og miskunnarleysis gekk undir nafninu „Járn-Felix“.

 

Þessi grannvaxni bolséviki hafði farið fremstur í valdaráninu og var nú tilbúinn að láta óvinina finna til tevatnsins. 

 

„Við höfum enga þörf á réttlæti. Ég legg til – nei, ég krefst – að skipuð verði stofnun sem mun gera full reikningsskil við andbyltingarsinna“, þrumaði hann. 

 

Járn-Felix naut fulls stuðnings og þann 20. desember 1917 stofnaði ríkisstjórn Leníns öryggislögreglu – sem gekk brátt undir nafninu „Cheka“, leynilögregla bolsévika.

 

Dzerzinsky var skipaður yfirmaður þessarar nýju leyniþjónustu sem rétt eins og aðrar lögreglustofnanir fékk það verkefni að berja niður glæpamenn og þjófa.

 

En Cheka fékk líka annað og öllu sérhæfðara verkefni. Leyniþjónustan skyldi markvisst leita uppi stéttaróvini eins og presta, fyrirtækjaeigendur, stórbændur og smáborgara.

 

Cheka fékk heimild til að leggja hald á eignir og reka óvini frá heimilum þeirra. 

Felix Dzerzinsky náði að verða handtekinn af lögreglu keisarans sex sinnum. Reynsluna úr fangelsinu nýtti hann sér gegn óvinum byltingarinnar.

Járn-Felix skóp hermdarverkamaskínu

Foringi Cheka, Felix Dzerzinsky, var óþreytandi vinnusjúklingur sem beitti öllum brögðum í baráttunni fyrir byltinguna.

 

Fáir liðsmanna Leníns voru jafn tryggir byltingunni eins og Felix Dzerzinsky.

 

Þessi pólskættaði bolséviki hafði varið 11 árum sínum í fangelsum keisarans vegna byltingarkenndra hugmynda sinna áður en hann slapp út árið 1917 og lagði Lenín lið.

 

Hinn miskunnarlausi Dzerzinsky þekkti eftir dvöl sína í fangelsunum betur til kúgunartilburða keisarans en flestir aðrir. Og því lét Lenín hann stýra leyniþjónustu bolsévika á fyrstu árum sínum.

 

Sem leiðtogi Cheka, vann, borðaði og svaf Dzerzinsky á skrifstofu sinni og unni sér aldrei hvíldar.

 

Hann ferðaðist um allt Rússland til að afla liðsmanna og þjálfa Cheka-flokka á hverjum stað. Þetta átti einnig við um yfirheyrslutækni og pyntingar en sem fyrrum fangi þekkti hann vel til ógnarstjórnar frá dvölinni í fangelsum keisarans.

 

„Við þurfum ekkert réttlæti núna. Við þurfum baráttu til dauðans!“ þrumaði hann.

 

Samkvæmt Dzerzinsky var hætt við að ævafornt hatur milli öreiganna og efri stétta myndi enda í blóðugu uppgjöri: „Ég einbeitti mér að því að kerfisvæða hegningar byltingarinnar“, skrifaði hann í bréfi árið 1922.

 

Þrautseigja Cheka-foringjans varð til þess að hann hlaut gælunafnið „Járn-Felix“. Hann þótti einkar miskunnarlaus og státaði sig sjálfur af því að vera laus við alla samúð.

 

Dzerzinsky var sá maður byltingarinnar sem menn óttuðust hvað mest en naut jafnframt aðdáunar félaga sinna.

 

Þrátt fyrir mikil völd sín var ekki hægt að spilla Járn-Felixi og hann lifði sparlega allt þar til hann dó 1926, einungis 49 ára gamall.

Lagt var hald á eignir þegar undir lok 1917 þegar Cheka tók að sparka upp hurðum hjá „stéttaróvininum“.

 

Cheka-liðar stormuðu inn á heimili fjórir til fimm saman og tæmdu skartgripi og reiðufé úr skúffum hjá vel stæðum fjölskyldum.

 

Þá var einnig lagt hald á heilu húsin til þess að háttsettir bolsévikar eða liðsforingjar úr hinum nýstofnaða rauða her gætu flutt þar inn. 

 

Í desember 1917 fékk hin 19 ára gamla Galina Djurjagina að kenna á þessu þegar hún var í heimsókn hjá deyjandi móðurföður sínum í bæ nærri Úralfjöllum.

 

Fjölskyldan tilheyrði yfirstéttinni og sama dag sem gamli maðurinn var að skilja við var lagt hald á allan búgarð hans.

 

Síðar voru framkvæmdar tvær húsrannsóknir á heimili Galinu í Pern þar sem hún bjó með foreldrum sínum og systkinum.

 

Í fyrra skiptið stálu liðsmenn Cheka öllu silfri og í síðara skiptið var lagt hald á herbergi barnanna. 

 

Faðir Galinu var læknir og þar með einn af yfirstéttinni en þar sem starf hans var mikilvægt fékk fjölskyldan leyfi til að búa áfram í hluta hússins.

„Við munum eyða borgarastéttinni.

Martin Vladsis, yfirmaður Cheka í Úkraínu

Fyrir marga aðra í efstu lögum samfélagsins voru örlögin öllu verri. Leiðtogi Cheka í Úkraínu, Martin Vladsis, gerði strax lýðum ljóst að hin nýja öryggisleynilögregla væri „baráttustofnun“ með mikilvægt hlutverk: 

 

„Við munum eyða borgarastéttinni. Við leitum ekki eftir sönnunargögnum eða vitnum til að afhjúpa ódæði þeirra gegn Sovétríkjunum. Það fyrsta sem við spyrjum að er hvaða stétt viðkomandi tilheyrir. Hver er bakgrunnur hans, menntun og starf. Slíkar spurningar munu ráða örlögum hinna ákærðu. Þetta er kjarninn í rauðu ógninni“. 

Margir almennir Rússar klöguðu vini eða nágranna fyrir andbyltingarsinnaða starfsemi. 

Tilræðið hratt blóðbaði af stað

Þrátt fyrir aðgerðir Cheka við að bæla mótstöðu niður var óánægjan með bolsévika svo mikil að landið var í raun komið í borgarastyrjöld árið 1918.

 

Öðrum megin voru rauðliðar sem börðust fyrir ríkisstjórn Leníns en á móti þeim hvítliðar, þar af margir fyrrum stuðningsmenn keisarans.

 

Auk þess voru fjölmargir íbúar nærri landamærahéruðum sem ekki voru rússneskir, mótfallnir Lenín og kröfðust sjálfstæðis, meðan svonefndir grænliðar samanstóðu af uppreisnargjörnum bændum sem vildu hvorki sjá keisara né bolsévika við völd. 

 

Lenín hafði hvað mest völd á svæðunum við Petrograd (núverandi St. Pétursborg) og Moskvu og áfram suður að Kaspíahafi en í öllum austurhluta Rússlands voru áhrif rauðliða hverfandi.

Bolsévikar voru umkringdir óvinum

Þegar Lenín gerði friðarsamkomulag við Þýskaland árið 1918 braust út borgarastríð. Hvítliðar náðu á sitt vald stórum svæðum Rússlands og nutu m.a. stuðnings breskra og franskra herdeilda.

Yfirráðasvæði bolsévika í október árið 1919.

Herforingjar hvítliða leggja til atlögu bæði úr austri og vestri

Herdeildir frá m.a. Frakklandi, Englandi og BNA styðja hvítliða.

Bolsévikar voru umkringdir óvinum

Þegar Lenín gerði friðarsamkomulag við Þýskaland árið 1918 braust út borgarastríð. Hvítliðar náðu á sitt vald stórum svæðum Rússlands og nutu m.a. stuðnings breskra og franskra herdeilda.

Yfirráðasvæði bolsévika í október árið 1919.

Herforingjar hvítliða leggja til atlögu bæði úr austri og vestri

Herdeildir frá m.a. Frakklandi, Englandi og BNA styðja hvítliða.

Borgarastyrjöldin magnaði upp hryðjuverkin og veturinn 1918 tóku Cheka-liðar í Kiev um 6.000 manns af lífi – flestir þeirra voru liðsforingjar sem studdu ekki bolsévika. 

 

„Það hófst bókstaflega talað, sannkölluð slátrun á rússneskum liðsforingjum. Menn drógu þessa ógæfusömu menn út úr hótelum og íbúðum og leiddu þá á útvalda aftökustaði“, sagði einn sjónarvottur í Kiev: 

 

„Á göngum mínum í Vladimirskaja Gorka-garði rakst ég daglega á ný lík. Við múrinn umhverfis Tsarsky – og Kupertjesky – garðana lágu þúsundir af nöktum og hálfklæddum líkum í bunkum“. 

„Hefjið fleiri hryðjuverk! Ekki ein mínúta má fara til spillis!

Lenín í símskeyti, 1918

Sumarið 1918, þegar Cheka taldi heilar 113 deildir í mismunandi héruðum, tilkynnti Lenín að leynilögreglan skyldi ganga ennþá harðar fram: 

 

„Hefjið fleiri hryðjuverk! Ekki ein mínúta má fara til spillis! Þið verðið að nýta allt sem þið getið: Fleiri ákærur, aftökur fyrir vopnaburð og útrýmingu óæskilegra afla“, mátti lesa í símskeyti frá leiðtoganum þann 9. ágúst 1918 til eins Cheka-foringja í Nizjny Novgorod, 45 km austan við Moskvu. 

 

Lenín og ógnarstjórn Cheka-liða gerði þá að upplögðu skotmarki. Þann 17. ágúst skaut og drap ungur maður yfirmann Cheka í Petrograd, Moisei Uritsky.

 

Tæplega tveimur vikum síðar var það sjálfur Lenín sem fékk að finna fyrir hatri andstæðinga þegar byltingarkonan Fanja Kaplan særði hann eftir ræðuhöld hans við verksmiðjuna í Moskvu. 

 

Þessi tvö tilræði fengu bolsévika til að blása til hertrar baráttu gegn sérhverjum andstæðingi. Tímarit þeirra í Pedrograd, „Krasnaja Gazeta“ geisaði: „Nú er okkur skylt að bregðast við. Burt með alla tilfinningasemi manna sem óttast að úthella saklausu blóði!“ mátti heyra þann 31. ágúst. Tveimur dögum síðar lýsti tímaritið yfir því að bolsévikar myndu nú leita uppi óvini ríkisins og sjá til þess að „borgaralegt blóð streymi um göturnar“. 

„Undirbúið ykkur fyrir miskunnarlausa slátrun á óvinum byltingarinnar.“ 

Kommúnistablaðið Pravda

Kommúnistadagblaðið „Pravda“ lagði einnig sitt af mörkum til að hvetja til ofbeldisverka: „Undirbúið ykkur fyrir miskunnarlausa slátrun á óvinum byltingarinnar. Það þarf að hreinsa bæina af borgaralegri rotnun!“ 

 

Faðir Galinu handtekinn 

Einn af mörgum úr yfirstéttinni sem var fangelsaður á dögunum eftir drápið á Cheka-foringjanum Urtsky, var faðir Galinu Djurjagina. Nóttina þann 20. ágúst 1918 höfðu Cheka-liðar dregið föðurinn á brott og skilið fjölskylduna eftir skelfingu lostna. 

 

Snemma næsta morgun heimsótti þessi 19 ára gamla dóttir helstu ráðamenn borgarinnar sem tengdust Cheka, þar á meðal marga skólafélaga.

 

En það var hjá dyraverðinum á sjúkrahúsinu þar sem faðir hennar starfaði sem Galina fann hjálp. Vegna sambands síns við Cheka gat hann útvegað Galinu og móðurinni heimsókn í fangelsi leynilögreglunnar utan við borgina. 

 

Mæðgunum til mikillar skelfingar sáu þær ótal þekkt andlit á leiðinni í gegnum fangelsið. 

 

„Það var eins og búið væri að handtaka alla helstu listamenn hér“, skrifaði óttaslegin Galina í dagbók sína um kvöldið. 

 

Skelfing þeirra jókst til muna þegar þær komu auga á föðurinn. „Við gátum varla þekkt hann. Hann hafði breyst svo mikið á einungis tveimur dögum. Móðir mín fór að gráta“, ritaði Galina. 

 

Faðirinn var sem niðurbrotinn og hafði lítið til málanna að leggja. Enginn þorði að segja nokkuð því allt mátti nota gegn þeim – jafnvel þó eina sök föðurins væri að tilheyra yfirstéttinni. 

 

„Heimsókninni er lokið. Burt!“ öskraði einn hermaður og konurnar þurftu að halda heimleiðis án þess að vita hvað biði föðurins. 

„Hann er aðeins skugginn af sjálfum sér.“

Galina Djurjagina í dagbók sinni.

Næsta dag tilkynnti Cheka að margir borgarar yrðu skotnir til „að bæta fyrir félaga Uritsky“. Djurjagina-fjölskyldan var með böggum hildar – hugsa sér ef faðirinn væri einn þeirra! 

 

Klukkan tvö um nóttina þann 25. ágúst kom ein skólasystir Galinu sem hafði gengið í Cheka, með föður hennar sér við hlið.

 

Samkvæmt henni hefði hann verið skotinn ef hún hefði ekki gripið inn í. 

 

„Ég hljóp eins og brjálæðingur og kom á sama augnabliki og verið var að leiða föður ykkar út á aftökustaðinn. Ég bað um að honum yrði sleppt og gjörið svo vel, hér er hann“, útskýrði skólasystirin. 

 

Faðirinn var náfölur og stóð skjálfandi í dyrunum í sömu náttklæðum og þegar hann var handtekinn. 

 

Þegar næsta dag hélt hann til vinnu en hann var gjörbreyttur maður. 

 

„Hann er aðeins skugginn af sjálfum sér. Hann mælir ekki eitt einasta orð og við íþyngjum honum heldur ekki með spurningum“, skrifaði Galina í dagbókina. 

Miskunnarlausir Parísarbúar voru fyrirmynd Leníns

Lenín og aðrir háttsettir bolsévikar voru afar uppteknir af svonefndri Parísarkommúnu í Frakklandi sem náði völdum í skamma hríð í París árið 1871.

 

Byltingarstjórnin náði fram eftir að vinstrisinnaðir verkamenn gerðu uppreisn gegn yfirvöldum í höfuðborginni.

 

Byltingarsinnaðir Parísarbúar hrelldu kerfisbundið aðra samfélagshópa og tóku fjölmarga óvini af lífi án réttarhalda.

 

Þegar franska ríkisstjórnin endurheimti París í „blóðugu vikunni“, maí 1871 þá kostaði það minnst 25.000 verkamenn lífið.

 

Lenín kynnti sér vel Parísarkommúnuna, því verkamenn með andstöðu sinni gegn öðrum samfélagshópum höfðu framkvæmt byltingu eins og hans eigin.

 

Parísarkommúnan misheppnaðist samkvæmt Lenín vegna þess að það voru of margir menntamenn meðal byltingarmannanna. Þeir voru alltof miskunnsamir gagnvart óvininum. Verkamennirnir sýndu hins vegar enga miskunn – og það gerði Lenín ekki heldur.

Cheka pyntaði fanga

Það að þagga niður í svonefndum óvinum ríkisins, eins og föður Galinu Djurjagina var einn meginþáttur í rauðu ógninni.

 

Sérhver borgari – einkum þeir sem tilheyrðu menntastéttinni – þurfti stöðugt að óttast um líf sitt. Þannig tryggðu bolsévikar að sem fæstir myndu veita ríkisstjórninni mótspyrnu. 

 

Því var einnig mikilvægt að Cheka liðar sem árið 1918 uxu úr því að telja 12.000 menn í 40.000, stunduðu hrottafengin ódæði – bæði í borgum og á bakvið fangelsismúrana.

 

Cheka foringinn í Úkraínu, Martin Latsis, lagði enga dul á hvað hans menn þyrftu að gera:  „Þetta er sóðalegasta vinnan af öllum. Það er ekki hægt að framkvæma hana með silkihönskum“. 

„Þetta er refsingin fyrir að gefa dóttur minni slæma einkunn.“

Cheka-liði við kennara Galinu Djurjagina

Samkvæmt Cheka-foringjanum var starfinn svo ofbeldisfullur að það þurfti sífellt að finna nýja liðsmenn: „Starfið brýtur niður marga unga kommúnista með veikburða persónuleika“.

 

Cheka laðaði því til sín aðallega siðblint fólk. Fyrrum stærðfræðikennari Galinu fékk sjálfur að kenna á því hve kvalalosti Cheka liða gat verið mikill.

 

Henni var nauðgað af hópi manna og síðan leidd út í skóg með bindi fyrir augunum. Þessu næst þvinguðu þeir hana til að krjúpa á kné fyrir framan gröf. Einn mannanna tók í gikk á skammbyssu þannig að það small í. 

 

„Þetta er refsingin fyrir að gefa dóttur minni slæma einkunn“, sagði hrottinn áður en kennaranum var leyft að fara. 

„Cheka-liðar samanstóðu augljóslega af biluðu fólki.“

Hinn belgíski bolséviki Victor Serge

Og jafnvel innan bolsévískra kreðsa var vitað hvers konar manneskjur leituðu í leynilögregluna. 

 

„Cheka-liðar samanstóðu augljóslega af biluðu fólki sem sáu samsæri úti um allt. Ég veit fyrir víst að Felix Dzerzinsky leit á þetta lið sem „verulega bilað“, sagði Viktor Serge, Belgi sem gekk í lið með bolsévikum í Petrograd árið 1919. 

Cheka hafði frjálsar hendur til að pynta og myrða alla andspyrnuliða byltingarinnar – einnig án sannana. 

Allar aðferðir leyfilegar

Borgardeildir Cheka kepptust um að finna upp sem svívirðilegastar pyntingaraðferðir. Frásagnir um hryllileg uppátæki þeirra bárust frá óvinum sem áttu til að færa í stílinn en síðan hafa margar aðferðir liðsmanna Cheka verið staðfestar. 

 

Rottugildran

 Í Kiev stungu Cheka-liðar rottu í járnrör og var opna endanum þrýst að fanga. Þegar þeir hituðu hinn endann upp tók óttaslegin rottan að naga sig í gegnum fórnarlambið til að sleppa burt. 

Beinasögin

Cheka-liðar í Tsarbtsyn, núverandi Volgograd, lögðu fanga sína á bekki. Með beinsög söguðu þeir í kjöt og bein þar til fangarnir játuðu hvað sem var. 

Höfuðleðrið skorið af

Í úkraínsku borginni Kharkov þróuðu Cheka-liðar blóðuga pyntingaraðferð með því að húðfletta menn á höfði og höndum við yfirheyrslur. 

Kuldahrollurinn

Í Odessa, við Svartahafið, tóku Cheka fanga niður til strandar þar sem þeir voru þvingaðir niður í bala með snarpheitu vatni en þeim síðan kastað í ískalt vatn. Pyntingin var endurtekin hvað eftir annað. 

Fakírtunnan

Fórnarlömb Cheka í Voronezj í suðvesturhluta Rússlands voru settir naktir niður í tunnu sem var alsett nöglum að innanverðu. Síðan var tunnunni rúllað til og frá. 

Greftrunin

Cheka-liðar í Kiev nutu einnig þess að henda föngum sínum niður í kistur með rotnandi líkum. Kistan var síðan opnuð hálftíma síðar. 

Bræðsluofninn

Böðlar í Odessa stunduðu að binda fórnarlömbin föst við planka sem var hægt og rólega ýtt nær glóandi opi á bræðsluofni. 

Krýningin

Cheka-liðar í Voronezj nutu þess að „krýna“ kirkjunnar menn með kransi úr gaddavír þannig að gaddarnir boruðust djúpt inn í höfuðsvörðinn. 

Þess konar manngerðir voru nytsamlegar hvað varðaði handtökur og yfirheyrslur í fangelsum, þar sem pyntingar viðgengust ævinlega.

 

Pyntingarnar áttu að fá fanga til að segja til annarra andbyltingarsinna en þær fólu auk þess í sér mikinn fælingarmátt. Margar af pyntingaraðferðum Cheka-liða voru innblásnar af spænska rannsóknarréttinum.

 

Hinir handteknu voru sem dæmi hengdir upp á hvolf í lengri tíma eða látnir finna fyrir „höfuðkúpukremjara“ sem þrýsti smám saman hægt og rólega meira á höfuðið. Bolsévikarnir fundu einnig upp á nýjum skelfilegum aðferðum við að pína fórnarlömb sín. 

 

Í Orjol í vesturhluta Rússlands bundu Cheka-liðar sem dæmi fanga sína fasta við staur og helltu á þá vatni þar til fórnarlömbin enduðu sem lifandi klakastyttur.

 

Í Vologda norður af Moskvu yfirheyrði einungis tvítugur Cheka-liði í sífellu sína fanga meðan þeim var sökkt niður í ískalt fljót veturinn 1920 – sá var síðar úrskurðaður illa veikur á geði. 

 

Einn liður í ógninni fólst í því að aðrir fangar voru látnir hlusta á skelfingarópin þegar fangi var pyntaður.

 

Faðir Galinu Djurjagina sem var fimm daga í fangelsi árið 1908, var ekki sjálfur pyntaður en sú andlega þolraun að heyra sársaukaóp meðfanganna var nóg til að hræða úr honum líftóruna – ekki síst þegar hann seinna sá fórnarlömbin snúa aftur í klefana með brunameiðsli, blæðandi sár eftir svipuhögg eða sundurrifna húð. 

 

En þjáningarnar hjá andstæðingum Leníns áttu eftir að versna. Haustið 1918 útvíkkaði Sovétstjórnin heimildir Cheka og innan tíðar brast á sannkölluð slátrun.

 

Cheka gekk berserksgang 

Eftir tilræðin við Lenín og Uritsky jukust hryðjuverkin stöðugt.

 

Plaköt með slagorðum „Deyi borgarastéttin! Burt með Kapítalisma“ mátti sjá hvarvetna í borgum og Cheka liðar umkringdu heilu bæjarhlutana til að handtaka gagnbyltingarsinna. 

 

Fram til þessa höfðu svonefndir dómstólar byltingarsinna dæmt óvini ríkisins til dauða.

 

Í dómstólum þessum voru engir lögmenn, né var dæmt eftir lögunum, heldur bolsévikar sem felldu sína dóma út frá eigin skilningi á „samvisku byltingarinnar“.

 

Þrátt fyrir að dómstólarnir hafi ekki veitt hinum handteknu mikið réttaröryggi versnaði ástandið til muna haustið 1918.

 

Nú fékk Cheka völd til þess að dæma grunaða og refsa þeim með dauða eða þrælkunarvinnu.

 

Liðsmenn Cheka voru þar með ekki einungis lögregla, ákærendur, fangaverðir og böðlar, heldur núna einnig dómarar. 

 

Þrælkunarbúðir var nýtt tiltæki Leníns þar sem hægt var að „einangra stéttaóvini til að verja Sovéska lýðveldið“, eins og það hét í yfirlýsingu stjórnarinnar í september 1918. 

„Hendurnar og allur líkaminn er stíffrosinn í þessum nístandi kulda.“

Fangi um aðstæðurnar í Síberíu

Eiginlega voru búðirnar hugsaðar sem „endurmenntunarbúðir“ þar sem fangarnir voru fóðraðir með áróðri en enduðu sem þrælabúðir.

 

Fangarnir þurftu að strita 12 – 14 tíma í trekk – t.d. við að fella tré í nístandi kulda á Solovetsky-eyjunum í Hvítahafi eða grafa eftir kolum í Síberíu. 

 

„Maður stendur í snjónum upp að hnjám svo það er erfitt að hreyfa sig. Risastórir trjástofnar sem eru hoggnir niður með öxum falla stundum yfir fangana og drepa suma þeirra á staðnum. Klæddur í larfa, án vettlinga og einungis með bastskó á fótunum er maður varla fær um að halda sér uppréttum vegna vannæringar. Hendurnar og allur líkaminn er stíffrosinn í þessum nístandi kulda“, greindi einn fanginn frá. 

 

Í upphafi 1920 voru 34 slíkar búðir en einungis hálfu ári síðar réð Cheka yfir 117 þrælkunarbúðum með meira en 60.000 föngum.

 

Aftökurnar jukust einnig hratt. Haustið 1918 og þrjú næstu ár voru sífellt fleiri drepnir þegar Cheka-liðar gengu milli bols og höfuðs á íbúum sem pössuðu ekki inn í samfélagsímynd bolsévikanna. 

Hvarvetna í Rússlandi stóðu Cheka-liðar fyrir óhugnanlegum drápum, öðrum til viðvörunar. 

Harðast kom þetta niður á prestum og kirkjunnar fólki sem bar að refsa, því kirkjan hafði um aldaraðir arðrænt alþýðu manna. 

 

Cheka-liðar stóðu í röð til að toppa hver annan í villimannslegum aðferðum gegn kirkjunnar fólki. Í Petrograd uppgötvaði hópur Cheka-hrotta að prestur nokkur var að halda minningarathöfn fyrir fórnarlömb bolsévika í bænum.

 

Allir sem tóku þátt í athöfninni voru þvingaðir niður til strandar. Þar var presturinn neyddur til að gefa hverjum og einum síðasta sakramentið, áður en allir voru skotnir og þeim hent í vatnið. 

 

Í bænum Pern eltu Cheka-liðar þar uppi prest nokkurn sem var talinn styðja hvítliða.

 

Þeir skáru augun úr honum og létu hann ganga um göturnar sem aðvörun fyrir aðra íbúa áður en þeir grófu hann lifandi.

 

Margir aðrir prestar borgarinnar voru hlekkjaðir og þeim síðan hent í fljótið. Ef einhver hafði krafta til að komast upp á yfirborðið grýttu liðsmenn Cheka steinum í þá þar til þeir sukku endanlega. 

 

Talið er að allt að 9.000 prestar hafi verið drepnir milli 1918 og 1921 – rauði herinn stóði einnig fyrir ótal morðum eftir því sem teygðist úr borgarastyrjöldinni í Rússlandi. 

„Við þurfum engin sönnunargögn eða réttarhöld til þess að réttlæta aftöku.“

Cheka-liði í bænum Kungur

Aðrir hámenntaðir eða háttsettir meðlimir samfélagsins sem höfðu unað hag sínum vel undir keisaranum, voru einnig myrtir, oft með grimmilegum aðferðum.

 

Liðsmenn Cheka tóku oft fórnarlömb sín út í skóg þar sem þau voru látin grafa sínar eigin grafir áður en þau fengu kúlu í hnakkann. 

 

„Við þurfum engin sönnunargögn eða réttarhöld til þess að réttlæta þetta“, sagði einn Cheka-liði í bænum Kungur. 

 

Þá bar oft við að fólk væri skotið að ástæðulausu eða vegna þess að það bar sama nafn og einhverjir andspyrnumenn. Haustið 1918 heyrði Galina Djurjagina frá kunningja hversu viðbjóðslegir liðsmenn Cheka gátu verið. 

 

„Í dag hitti ég dóttur verkfræðingsins á götunni. Hún var eins og lifandi lík. Búið var að taka föður hennar og þrjá bræður. Fyrst voru þeir hýddir og síðan hent niður í brennandi heitt fljótandi járn í verksmiðjunni þar sem þeir unnu.

 

,,Ég trúi ekki að nokkru sinni fyrr í sögunni hafi verið gert eitthvað jafn hryllilegt eins og „rauða ógnin“ stendur nú fyrir”, skrifaði Galina næsta dag í dagbók sína sem hún faldi í loftræstistokk í húsinu: „Finnist þessi bók á mér er ég dauðans matur“. 

 

Síðast árið 1918 trúði Galina dagbók sinni fyrir því að fjölskyldan lifði í „stöðugri hættu á að verða skotin“. Þegar tækifæri bauðst flúðu þau frá böðlum Leníns. 

Andstæðingarnir voru alveg jafn grimmir

Á stórum áróðursspjöldum útmáluðu hvítliðar hina rauðu hvað eftir annað sem viðurstyggilega morðingja. Sjálfir voru þeir engu betri.

 

Lenín var ekki einn um að nýta hryðjuverk til að hræða óvininn. Gagnbyltingarsinnar beittu einnig óheftu ofbeldi og tóku menn af lífi til að sýna fram á að öll mótstaða gegn hvítliðum myndi verða dýrkeypt.

 

„Þess meiri grimmd, því stærri mun sigur okkar verða“, lýsti hvítliðinn og aðstoðarhershöfðinginn Lavr Kornilov yfir meðan hershöfðinginn Arte Mynv í Síberíu skýrði í smáatriðum fyrir hermönnum sínum í Hvíta hernum hvernig meðhöndla skyldi stuðningsmenn bolsévika.

 

„Ef bændur grípa til vopna gegn liði okkar, skal brenna alla bæi þeirra til grunna, skjóta alla karlmenn og leggja hald á allar eigur þeirra“, hljómuðu skipanir hans.

 

Kerfisbundin slátrun á bændum var algeng og einkum meðfram Baikal-járnbrautinni mátti finna fjöldagrafir hvarvetna, eins og bandaríski liðsforinginn John F. MacDonald vitnaði um sumarið 1919.

 

MacDonald sem var í bandarískri herdeild til stuðnings hvítliðum, fann fjöldagröf sem var einungis þakin með þunnu lagi af mold. Hann sá því greinilega fjölmörg lík sem villtir hundar voru að éta:

 

„Sum voru með afskorna fætur, eitt líkið var höfuðlaust og búið að skera kynfærin af öðru. Þetta leit alls ekki út fyrir að vera af völdum hundanna“, skrifaði liðsforinginn.

 

Þrátt fyrir að hvíta ógnin hafi ekki verið eins ofsafengin og sú rauða, kostaði hún líklega um 100.000 manns lífið.

Djurjagina-fjölskyldan skyldi allt eftir

Árið 1919 geisaði borgarastríðið milli rauðliða og hvítliða ennþá. Eftir skammvinnan árangur hvítliða um vorið, þegar meðal annars Pern var komið í hendur andstæðinga bolsévika, ruddist rauði her Leníns aftur fram.

 

Í byrjun júní var orðið ljóst að heimabær Galinu yrði brátt í höndum Cheka. 

 

Galina hafði ekki annað en fötin sem hún stóð í og dagbók sína þegar fjölskyldan stökk um borð í síðustu lestina sem ók frá Pern.

„Ef rauðliðarnir ná í okkur er betra að deyja.“

Faðir Galinu Djurjaginas

Ásamt þúsundum annarra flóttamanna lá leiðin til Síberíu sem bolsévikar höfðu ekki enn á sínu valdi. Í stöppuðum vagninum tók faðir Galinu fram fimm litlar flöskur. 

 

„Þetta hér er blásýra. Ef rauðliðarnir ná í okkur er betra að deyja en að falla í þeirra hendur“, sagði faðirinn. 

 

Fyrst eftir mánaðarlanga ferð í daunillum lestarvagni þar sem fjölmargir farþegar létust úr sjúkdómum, náði fjölskyldan til Irkutsk í suðausturhluta Síberíu.

 

En frelsi þeirra stóð stutt. Þegar haustið 1919 náðu rauðliðar völdum á stórum svæðum í Síberíu og örlög Djurjagina-fjölskyldunnar lágu nú í höndum bolsévika.

 

Faðirinn var þó ekki drepinn þar sem skortur var á læknum og enginn í fjölskyldunni tók inn blásýru. 

 

En fjölskyldan var nú hýst í gömlum lestarvagni í bænum Omsk þar sem faðirinn var neyddur til að sinna læknisstörfum. Í þessu nýja samfélagi ríkti ekkert réttlæti lengur. 

Í júlí 1926 lést stofnandi Cheka, Felix Dzerzinsky en síðan voru reistar fjölmargar styttur honum til heiðurs. Meðal kistuberanna var Jósef Stalín sem hafði lært eitt og annað af Felix. 

Cheka endurreist í nýjum klæðum

Undir lok ársins 1920 náðu bolsévikar undirtökum gegn hvítliðum og borgarastríðið tók enda.

 

Það var fyrst árið 1922 sem tókst að brjóta á bak aftur síðustu andspyrnuliðana meðal verkamanna og bænda sem vildu ekki sjá þá stjórn sem upprunalega hafði átt að sinna hagsmunamálum þeirra. 

 

Aðstæður almennings höfðu nefnilega versnað verulega á meðan á borgarastríðinu stóð, þegar ríkið þjóðnýtti allan iðnað og bannaði allt einkaframtak.

 

Bolsévikar lögðu hald á öll framleiðslutæki í landbúnaði og ef bændur eða verksmiðjueigendur neituðu að afhenda vörur sínar, var refsingin ýmist fangabúðir eða dauðinn.

 

Verkamenn sem fóru í verkfall vegna þessa hörmulega ástands var hótað af leynilögreglunni og þeir neyddir til að undirrita yfirlýsingu þar sem þeir lofuðu „að vinna samviskusamlega í framtíðinni“. 

 

Ógnarstjórn bolsévika hafði þannig brotið niður alla andstöðu meðal íbúa og átt sinn þátt í að tryggja stjórn rauðliða í öllu Rússlandi sem í desember 1922 hlaut nafnið Sovétríkin.

 

Það er ekki hægt að segja með vissu hversu mörg fórnarlömbin voru en sagnfræðingar áætla að frá 1917 til 1922 hafi Cheka tekið af lífi minnst 100.000 manns.

 

Þegar Lenín leysti upp Cheka árið 1922 störfuðu þar um 300.000 manns. 

 

Cheka hætti samt aldrei, heldur var nú nefnt „Pólitískt afl ríkisins“ (GPU) sem hélt áfram að handtaka fólk og aflífa það.

 

Síðar varð stofnunin hluti af hinu illræmda KGB. Íbúar í Sovétríkjunum losnuðu þannig aldrei undan járnhönd stjórnarinnar. 

 

Galina Djurjagina var þó ein af fáum sem slapp við þessi örlög. Árið 1925 yfirgaf hún Sovétríkin með austurrískum manni sínum – stríðsfanga sem hún hafði hitt við komuna til Omsk í Síberíu.

 

Hún lést árið 1991 – fáum mánuðum áður en Sovétríkin liðuðust í sundur. 

Galina gifti sig árið 1921 og eignaðist son. Litla fjölskyldan yfirgaf Rússland fjórum árum síðar. 

Lestu meira um rauða ógnvaldinn

  • S. Melgunov­: Red Terror in Russia, Hyperion Pr, 1975

 

  • G. Leggett: The Cheka, Clarendon Press, 1981

 

  • J. Ryan: Lenin’s Terror, Routledge, 2012

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Troels Ussing

Imageselect,© AKG-images/Ritzau Scanpix,© Judson Guns,© Ullstein Bild/Ritzau Scanpix,© Imageselect & Shutterstock,© De Agostini Picture Library/Bridgeman Images,© Zuri Swimmer/Imageselect, Shutterstock,© History and Art Collection/Imageselect,© SZ Photo/Scherl/Bridgeman Images,© Laski Diffusion/Getty Images,© Salzburgwiki

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Maðurinn

Hið fullkomna morð er dautt

Lifandi Saga

Teþorstinn knésetti stórveldi

Náttúran

Fræðimenn rýna í innsta eðli risaeðlanna 

Menning

Saga kaffisins: Hinir syfjuðu loksins bænheyrðir

Lifandi Saga

Hervegir tengdu keisaradæmið saman 

Lifandi Saga

Barsmíðar og sektir Rómverja sköpuðu ósigrandi hersveitir

Lifandi Saga

Leynivopn Rómverja: Virkið var flutt meðferðis

Alheimurinn

Hvað verður um gaspláneturnar?

Læknisfræði

Hver var fyrsti kvensjúkdómalæknirinn?

Maðurinn

Af hverju þreytumst við í hita?

Menning og saga

Hvað varð um Nefertítí drottningu?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is