Náttúran

Einstein færði okkur uppskrift að alheiminum

Í 250 ár höfðu tími og rúm verið fastar stærðir en 1915 slógu dagdraumar skrifstofumanns þessa heimsmynd í tætlur. Við skrifborð sitt á einkaleyfastofunni hafði Albert Einstein upphugsað nýja og heildstæða kenningu um alheiminn. Kenningin sveigði rúmið, færði stjörnurnar nær okkur og gerði tímann afstæðan.

BIRT: 15/06/2023

Meðan jafnaldrarnir hlaupa um og leika sér eða sparka bolta, situr mjósleginn, dökkhærður strákur og grúfir sig ofan í þykkar bækur heima hjá sér í úthverfi í München.

 

Einhver í stórfjölskyldunni kallar hann aldrei annað en „leiðinlega frændann“ og Albert Einstein kýs reyndar miklu fremur að sitja og láta sig dreyma, lesa eða spila á fiðluna heldur en að klifra í trjám.

 

Í skólanum er hann alltaf hæstur á prófum, einfari sem fær hæstu einkunn í nánast öllum fögum. Öllum vökustundum ver hann í hauga af kennslubókum sem foreldrarnir bera í þennan fróðleiksþyrsta son sinn. Mest dálæti hefur hann á náttúrufræðum og fyrir því er einföld en sérkennileg ástæða.

 

Þegar hann var fimm ára og lá veikur í rúminu gaf faðir hans honum áttavita. Drengurinn sneri áttavitanum hring eftir hring en nálin sneri alltaf í sömu átt af ástæðu sem faðirinn sagði að héti segulafl.

Aðeins 16 ára fer Einstein árið 1895 í inntökupróf við Pólýtekníska skólann í Zürich, einn af fínustu náttúruvísindaháskólum álfunnar. Hann kolfellur – en hvorki í stærðfræði né eðlisfræði, heldur í bókmenntum og samfélagsfræði.

 

Skúffa tútnar af vísdómi

Ósigurinn veldur þó engri uppgjöf hjá þessum metnaðargjarna pilti. Honum gengur betur árið eftir og árið 1900 getur hann státað af háskólagráðu í eðlisfræði og stærðfræði.

 

Prófskírteinið reynist þó ekki vera virði pappírsins sem það er skrifað á. Án árangurs leitar Einstein að vinnu við kennslu í hinum og þessum háskólum en verður í staðinn að sætta sig við ýmis illa launuð störf sem tryggingasölumaður og íhlaupakennari. Mikilvægasta ástæðan er sú að Einstein er úr gyðingafjölskyldu á blómaskeiði gyðingahaturs í Evrópu.

 

Albert Einstein er stöðugt í peningavandræðum og honum finnst hann hafa orðið undir og í bréfi til eins af sínum nánustu segir hann að „það hefði sennilega verið betra ef ég hefði aldrei fæðst“ en hann getur þó að minnsta kosti glaðst yfir velgengni í kvennamálum.

„Þegar maður er í tilhugalífi við fallega konu virðist hver klukkustund aðeins vera ein sekúnda. Þegar maður situr á rauðglóandi kolamola virðist hver sekúnda vera heil klukkustund. Það er afstæði.
Einstein

Svo feiminn og hlédrægur sem Einstein var á barnsaldri, þá er hinn fullorðni Einstein sídaðrandi sjarmatröll og konur falla í röðum fyrir þessum myndarlega manni með þetta kraftmikla augnaráð.

 

En Einstein sér þó aðeins eina konu: fyrrum samstúdentinn Milevu Maric sem deilir brennandi áhuga hans á eðlisfræði, stærðfræði og tónlist.

 

Til lengdar getur hann þó ekki lifað á ást og kranavatni. Í júní 1902 útvegar faðir eins vinar hans honum fasta vinnu sem tæknisérfræðingur á einkaleyfastofu Sviss í Bern og þar sest nú hinn 23 ára Einstein við skrifborð og tekur til hendinni.

 

Sér til mikillar gleði uppgötvar Einstein að hann þarf ekki nema tvo tíma til að ljúka verkefnum hvers dags. Þannig losnar gríðarmikill tími fyrir það sem Einstein kallar fræðilegu eðlisfræðideildina – dagdraumana.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Hverja lausa stund notar hann til að velta fyrir sér hugmyndum sem hafa flögrað um í huganum árum saman og smám saman fer skrifboðsskúffan að tútna út af vísindaritgerðum sem allar eru niðurstöður þeirra snilldarhugmynda sem eiga eftir að verða eins konar vörumerki hans.

 

Á hugarflugsferðum sínum út að ystu mörkum náttúruvísindanna sannfærist hann um að eðlisfræðina þurfi að hugsa upp á nýtt. Spurningar um tilvist frumeindanna, eðli ljóssins og tengsl massa og orku eru meðal þeirra flóknu viðfangsefna sem hann sekkur sér ofan í.

 

Einstein sekkur sér svo djúpt í hugleiðingarnar að hann gengur um í leiðslu og gleymir öllu í kringum sig. Á leið heim úr vinnu gengur hann um göturnar án þess að veita umhverfinu minnstu athygli og oft er hann kominn út í sveit áður en hann áttar sig.

„Vísindin eru stórkostleg, ef maður bara þarf ekki að hafa lifibrauð af þeim.“
Einstein

Sjálfum finnst Einstein að hann sé í einhvers konar geðrænni úlfakreppu en staðreyndin er sú að snilldarhugmyndirnar eru orðnar svo margar í höfðinu að það liggur við að sjóði upp úr. Og eftir nánast ofurmannleg hugarátök gefur hann árið 1905 út fjórar greinar sem hver um sig gæti sæmt hvaða höfuðsnillingi sem vera skyldi og sannkallað dýnamít inn í eðlisfræði samtímans.

 

Ein greinin fjallar um sértæku afstæðiskenninguna – kenningu sem síðar á eftir að öðlast rökstuðning og hefur afgerandi þýðingu fyrir skilning manna á alheiminum. Hugsunarháttur samtímans er hins vegar ekki tilbúinn fyrir snilld Einsteins.

 

Meðan sumarið líður að hausti og haustið að vetri bíður Einstein eftir viðbrögðum hinna hálærðu en hann fær ekkert lófatak, heldur bara ískalda þögn. Sú þögn er ekki rofin fyrr en undir árslok þegar einn af mestu hugsuðum samtímans klappar honum vingjarnlega á öxlina.

 

Þýski eðlisfræðingurinn Max Planck hrósar greinum Einsteins og sér í lagi greininni um sértæku afstæðiskenninguna sem „strax vakti athygli mína“.

 

Myndskeið: Einstein kemur til Bandaríkjanna í góðu skapi:

Einstein sveigir alheiminn

Þótt Einstein hafi með þessum fjórum greinum boðað dagskrá eðlisfræðinnar á 20. öld og fengið doktorsgráðu fyrir frammistöðuna, þarf hann enn að bíða án árangurs eftir atvinnutilboði á sviði rannsókna.

 

Hann fær ekki einu sinni stöðu sem menntaskólakennari en einkaleyfastofan verðlaunar hann þó með stöðuhækkun úr 3. gráðu tæknisérfræðings í 2. gráðu sérfræðings.

 

Að venju situr Einstein við skrifborðið sitt alla daga nema sunnudaga og þótt hann hafi nú fyrir fjölskyldu að sjá – 1904 eignuðust hann og Mileva son – þá tekst honum í hverri viku að gefa sér tíma til að spila í strengjakvartett.

 

Það er þó sama hvað hann tekur sér fyrir hendur, hann losnar ekki við þá nagandi ónotatilfinningu að eitthvað vanti í afstæðiskenninguna.

 

Einstein dreymir um að útvíkka kenninguna þannig að hún nái líka að skýra þyngdarkraftinn og þar sem hann situr yfir vinnublöðum sínum síðdegis dag nokkurn árið 1907 skýtur upp í kollinum á honum hugsun sem hann á síðar eftir að lýsa sem mestu hamingjustund sinni.

„Tvennt er óendanlegt, alheimurinn og mannleg heimska en ég er reyndar ekki viss um alheiminn.“
Einstein

Skyndilega upplýkst honum sá veruleiki að sé maður staddur í frjálsu falli, finni maður ekki fyrir eigin þyngd – maður fyndi bara þyngdarleysi. Þessi einfalda hugmynd kemur Einstein á óvart og kemur honum líka á spor alveg nýrrar kenningar um þyngdarkraftinn: Almennu afstæðiskenninguna.

 

En frá fæðingu hugmyndarinnar og til fullbúinnar kenningar með öllum sínum glæsileika eiga eftir að líða mörg ár. Framundan er gríðarleg vinna og margvísleg hugarleikfimi.

 

Frænka og unnusta

Fjórum árum eftir að Einstein gjörbylti vísindunum fær hann fyrsta tilboðið um kennslu við háskóla. Haustið 1909 verður hann lektor við háskólann í Zürich og nú verður leiðin greiðari.

 

Augu vísindaheimsins hafa loksins opnast fyrir greinum Einsteins og snilligáfu hans. Nú streyma til hans úr öllum heimshornum tilboð um háar stöður.

 

Frá Zürich liggur leiðin til Prag 1911, ári síðar fer hann aftur til Zürich og 1914 er þetta 35 ára undrabarn eðlisfræðinnar handvalið til að gegna prófessorsstöðu og öðlast sess í prússnesku vísindaakademíunni í Berlín.

 

Í fyrsta sinn gefst Einstein nú tækifæri til að sökkva sér niður í kenningu sína um þyngdaraflið en rannsóknafrelsið og góð laun eru ekki það eina sem freistar hans í Berlín: Þar býr líka Elsa Löwenthal sem er frænka hans – og unnusta.

Í febrúar 1919 skilur Einstein við Milevu Maric. Þremur mánuðum síðar kvænist hann frænku sinni, Elsu (mynd)

Hjónaband hans og Milevu hefur lengi verið erfitt og í bréfi tilkynnti Einstein konu sinni að hún væri „óvinsamleg og skapill manneskja sem ekki kynni að meta gæði lífsins og slekkur lífsgleði annarra með nærveru sinni einni saman.“

 

Mileva og Einstein eiga nú tvo syni en þeir eru líka það eina sem þau eiga sameiginlegt ef frá eru talin hin eilífu rifrildi. Mileva er afbrýðisöm yfir velgengni manns síns, vinahópi hans og starfi en frænkan Elsa er þvert á móti hugulsöm, horfir stolt á Einstein og strýkur honum blíðlega.

 

Þegar Einstein er veikur, sér Elsa um hann. Hún gefur honum hárbursta til að hann geti hamið hárið á sér sem gjarnan leitar til allra átta samtímis og hún þvær og straujar fötin hans til að hann geti verið vel til fara í fínum matarveislum. Þegar Einstein grúfir sig yfir vinnuna og gleymir öllu í kringum sig, stingur hún upp á hreyfingu, hvíld og hollum mat.

,,Sá sem aldrei hefur gert mistök hefur aldrei prófað neitt nýtt.“
Einstein

En slík hollráð hrjóta af Einstein eins og vatn af gæs.

 

„Ég ætla að reykja eins og strompur, vinna eins og hestur, borða án umhugsunar og ekki fara út að ganga nema í verulega góðum félagsskap.“

 

Steypir Newton af stalli

Nótt sem nýtan dag sekkur Einstein sér niður í að betrumbæta upphaflegu afstæðiskenninguna og oft líða heilu vikurnar án þess að hann komi út undir bert loft. Kunningi sem kemur í heimsókn segir að Einstein sé með hugann allt annars staðar og líkist helst síðhærðu ljóni nýlega sem hafi fengið hastarlegt rafstuð.

 

Oft er hugur hans svo bundinn við vinnuna að hann gleymir bæði að sofa og borða og í íbúðinni sem vissulega er stór en ekki jafn ríkulega búin húsgögnum, eru öll gólf þakin þéttskrifuðum blöðum með þéttskrifuðum stærðfræðitáknum og formúlum.

Einstein brýtur heilann, hann hugsar og hugsar en áttar sig loks á því að stærðfræðikunnátta hans er ekki nægjanleg fyrir það verkefni sem hann ætlar sér að leysa.

 

„Ég er farinn að bera djúpa virðingu fyrir stærðfræðinni en sum atriði hennar hef ég í fákunnáttu minni álitið lúxus hingað til,“ skrifar hann í bréfi til kunningja síns.

 

Hin klassíska rúmfræði dugar einfaldlega ekki til að lýsa skilningi Einsteins á alheiminum og hann lendir hvað eftir annað í vandræðum með jöfnur sínar.

 

Með hjálp annarra, m.a. gamals vinar og stærðfræðings, Marcels Grossmann, tekst honum engu að síður að ná svo langt að 1913 getur hann kynnt til sögunnar uppkast að kenningu sem kippir undirstöðunum undan heimsmynd samtímans.

 

Rúmið er ekki flatt og stöðugt eins og Ísak Newton, einn þekktasti náttúruvísindamaður sögunnar, hélt fram.

 

Þvert á móti er það sveigt og þyngdaraflið er sveigja á alheiminum, segir Einstein en viðurkennir jafnframt að enn sem komið er sé kenning hans ekki annað en tilgáta – og gæti meira að segja verið nokkuð hæpin, eins og efasemdarmenn benda staðfastlega á.

„Við getum ekki leyst vandamálin með því að hugsa eins og við gerðum þegar við sköpuðum þau.“
Einstein

Þegar Einstein heldur fyrirlestur um afstæðiskenningu sína fyllast sumir hrifningu en flestir fordæma þessa kenningu sem þeim þykir ekki aðeins stríða gegn heilbrigðri skynsemi, heldur einnig snúa á haus öllum viðteknum kenningum um hugtök á borð við hreyfingu, rúm og tíma.

 

Sjálfur er Einstein fullviss um að hann hafi rétt fyrir sér en til að eyða öllum efasemdum stingur hann upp á framkvæmanlegri tilraun.

 

Standist kenning hans sveigir ljós fjarlægrar stjörnu dálítið af leið, þegar það fer þétt fram hjá þyngdarsviði sólarinnar – og einmitt þetta á að vera hægt að sanna með ljósmyndum af stjörnum sem ber þétt við sólina við almyrkva á sólu.

 

Heimsstyrjöld tefur fyrir

Næsti almyrkvi á sólu verður 21. ágúst 1914 og sjáanlegur frá suðurhluta Rússlands. Einstein hvetur stjörnufræðinga til að reyna á kenninguna.

 

„Meira er ekki unnt að gera á hinu fræðilega sviði. Í þessu máli eru það einungis þeir, stjörnufræðingarnir sem á næsta ári geta gert hinni fræðilegu eðlisfræði ómetanlegan greiða,“ skrifar hann síðsumars 1913.

  Einstein gekk ekki í sokkum. Hann þoldi ekki tilhugsunina um að slíta göt á þá.

Ungur stjörnufræðingur í Berlín, Erwin Freundlich, lýsir sig fúsan til að taka áskorun Einsteins en hann vantar peninga. „Bara að halda áfram og panta glerplöturnar,“ svarar Einstein og bætir við að hann sé reiðubúinn að leggja fram eitthvað af sínu eigin takmarkaða sparifé ef með þurfi.

 

En þess reynist ekki þörf því auðmenn standa allt í einu í röðum og þann 19. júní 1914 tekur Freundlich stefnuna á Krímskaga ásamt fjölmörgum öðrum.

 

Stríðsátök standa hins vegar skyndilega í vegi fyrir verkefninu, 20 dögum fyrir sólmyrkvann, þann 1. ágúst 1914, lýsa Þjóðverjar stríði á hendur Rússum og á Krímskaga taka rússneskir hermenn Freundlich og félaga hans til fanga og gera búnað þeirra upptækan.

 

Þegar tunglið hefur innreið sína inn yfir sólarkringluna situr Freundlich bak við lás og slá. Hann er að vísu látinn laus eftir fáeinar vikur en möguleikinn á að nýta sólmyrkvann er liðinn hjá og þar með situr Einstein aftur einn eftir í baráttunni við að sanna kenningu sína.

 

Síðasti punkturinn

Það sem eftir lifir árs 1914 og mestallt árið 1915 einangrar Einstein sig í vinnuherberginu þar sem hann heldur áfram vinnunni við stórvirki sitt. Meðan stríðið geisar í Evrópu situr hann við og sinnir engu öðru. Þessi 36 ára gamli eðlisfræðingur er úttaugaður af þreytu og á barmi taugaáfalls í lok nóvember 1915, þegar honum tekst loks að setja síðasta punktinn aftan við eina merkustu eðlisfræðiuppgötvun allra tíma, almennu afstæðiskenninguna.

„Ef þú getur ekki útskýrt eitthvað á nógu einfaldan hátt, hefurðu ekki skilið það nógu vel.“
Einstein

„Þessi kenning er óviðjafnanleg fegurð,“ segir Einstein uppfullur af stolti við einn vina sinna og við annan aðdáanda segir hann: „Þetta er verðmætasta uppgötvun sem ég hef gert á ævinni.“

 

Nú er ekkert eftir nema að ná fram hinni endanlegu sönnun þess að kenningin komi heim og saman við veruleikann. Einstein þarf aftur á sólmyrkva að halda.

 

Ný stjarna glitrar á himni sögunnar

Aftur og aftur hefur Einstein skorað á stjörnufræðinga að prófa þá forsögn sína að greina megi sveigju ljóss í þyngdarsviði við sólmyrkva og þegar virtur, breskur stjörnufræðingur, Arthur Eddington, sér loks tækifæri til þess, þá hikar hann ekki.

 

Meðal vísindamanna er Eddington talinn einn sárafárra sem í raun og veru skilji kenningar Einsteins. Hann er fullur aðdáunar á afstæðiskenningunni og hefur meira að segja skrifað skýringu á henni á ensku. Árið 1919 siglir hann frá London til eyjarinnar Principe vestur af Afríku til að taka myndir af almyrkva á sólu sem sést þaðan þann 29. maí kl. 15.13.

Þegar stóri dagurinn rennur upp er Eddington fyllilega reiðubúinn. Hann hefur stillt upp öllum ljósmyndunarbúnaði sínum á 150 metra hárri hæð við norðurströnd eyjarinnar, sem sagt í allra fremstu sætaröð. En klukkustundirnar fyrir sólmyrkvann ríkir sorti bæði á himni og í huga Eddingtons.

 

Himinninn er því nær alskýjaður og virðist ætla að byrgja fyrir útsýni til þessa sjaldséða fyrirbrigðis. En svo er engu líkara en töfrasprota hafi verið veifað og himinninn verður alveg heiðskír á þeim kafla þar sem sólin er nú stödd. Og tæpara mátti það ekki standa því nú birtist ysta rönd mánans yst á sólskífunni. Sjálfur hefur Eddington engan tíma til að njóta almyrkvans þær fimm mínútur sem hann stendur yfir.

 

Hann hefur nóg að gera við að skipta um ljósmyndaplötur til að skrásetja viðburðinn. Og þegar glerplöturnar eru loksins allar komnar í ljósþéttan kassa, er starfinu langt í frá lokið. Nú tekur við margra mánaða vinna við að túlka myndirnar og ákvarða hvort þær séu yfir höfuð nothæfar.

 

Ljósið á villustigum

Í Berlín bíður Einstein spenntur eftir niðurstöðum Eddingtons. Út á við reynir hann að láta sem sér komi þetta eiginlega ekkert við en í rauninni finnst honum tíminn óendanlega lengi að líða. „Það er enn ekkert að frétta af sólmyrkvanum,“ skrifar hann í bréfi til móður sinnar 2. september 1919.

„Ef óreiða á skrifborði merkir óreiðukenndan huga, hvað merkir þá autt skrifborð?“
Einstein

Viku síðar á hann erfitt með að hemja sig í samtali við rannsóknafélaga í Hollandi: „Það vill ekki svo til að þú hafir frétt um ensku rannsóknina á sólmyrkvanum?“

 

Þegar niðurstöðurnar eru loks kunngerðar á fundi hjá konunglegu vísindafélögunum í London 6. nóvember 1919, hefur heimurinn breyst í eitt skipti fyrir öll. Á einum degi er Einstein ekki lengur óþekkt skrifstofublók heldur ofurstjarna á heimsvísu.

 

„Eftir nákvæmar rannsóknir á hinum ljósnæmu upptökum er ég reiðubúinn að fullyrða að það leikur enginn vafi á því að forsögn Einsteins reyndist rétt,“ segir stjörnufræðingurinn Frank Dyson ákveðinn á fundinum, þar sem raunar aðeins eitt mál var á dagskrá: niðurstöður sólmyrkvans.

 Skrifborð Einsteins daginn sem hann dó – í óreiðu eins og venjulega.

Næstu daga eru almenna afstæðiskenningin og strýhærður höfundur hennar forsíðuefni blaða víðast hvar í heiminum:

 

„Bylting í vísindum. Ný kenning um alheiminn. Hugmyndir Newtons fallnar,“ básúnar forsíðan á The Times í Englandi. „Ljósið er á villigötum um himinhvolfin,“ tilkynnir New York Times.

 

Fyrir Einstein sjálfan er þessi staðfesting mikill sigur, jafnvel þótt hann hafi sjálfur aldrei efast.

 

Og þótt aðeins örfáir skilji nákvæmlega hvernig Einstein breytti alheiminum, verður hann sú hetja sem heimurinn þarfnast svo sárlega einmitt núna. Eftir tilgangslaus morð í skotgröfunum árum saman þyrstir mannkynið í góðar fréttir.

 

Jafnt blöð sem allur almenningur horfa í forundran á þennan hrokkinhærða og úfna snilling sem bæði getur spilað á fiðlu og stráð í kringum sig fyndnum spakmælum, fólk dáist að þessu langa og stríða hári og þá venju hans að rissa jöfnur á borðdúka og vinsældir hans aukast enn vegna þess hve óformlegur og alþýðlegur hann er í fasi – ljósárum frá því sem vænta mætti af manni sem hefur gjörbylt heimsmynd eðlisfræðinnar.

 

Fé til höfuðs Einstein

Árið 1922 fær Einstein Nóbelsverðlaunin, viðurkenningu sem hann hefur lengi beðið eftir – en fyrir kaldhæðni örlaganna fær hann þau ekki fyrir afstæðiskenninguna, heldur fyrir greinina um ljósröfunaráhrif sem hann birti 1905.

 

Heiðurinn og frægðin virðast engan enda ætla að taka og Einstein er nú kominn í hóp fræga fólksins, ásamt kóngafólki, leiðtogum ríkja og annars fólks sem ljósmyndarar blaðanna sækjast eftir. Hann heimsækir forseta Bandaríkjanna, hann fer líka í heimsókn til japönsku keisarahjónanna og sést á rauða dreglinum með Charlie Chaplin.

 

En hann gefur sér líka tíma til að halda á lofti boðskap sínum sem friðarsinni og er í hópi þeirra sem tala fyrir nýrri miðstöð gyðinga í Palestínu.

Arthur Eddington tók að sér það verkefni að sanna kenningar Einsteins.

Þegar nasistar ná völdum í Þýskalandi 1933 segja blöðin frá því að nafn Einsteins sé á lista yfir þá sem nasistar vilja feiga og 20.000 mörk hafi verið lögð til höfuðs honum.

 

„Ég vissi ekki að ég væri svona verðmætur,“ sagði Einstein af sínu alkunna skopskyni um þennan orðróm.

 

En Einstein var gyðingur og botnlaust hatur nasista fór ekki fram hjá honum. Þegar Hitler fær embætti kanslara ríkisins 1933, rýfur hann öll tengsl við Þýskaland og sest að í Princeton í BNA.

Því sem eftir er ævinnar ver Einstein sem goðsögn í lifanda lífi og 1952 munar minnstu að hann geti bætt titlinum „forseti“ á ferilskrána. Þegar fyrsti forseti Ísraels, Chaim Weizmann, deyr er Einstein boðið að taka við embættinu.

 

„Ég er ekki rétti maðurinn og ég get þetta ekki,“ svarar vísindamaðurinn sem nú er orðinn 73 ára og hefur strítt við margvíslega sjúkdóma um áraraðir.

 

Og vornótt eina árið 1955, hættir einn af merkustu heilum sögunnar að hugsa. Æðasjúkdómur verður Einstein að bana kl. 01.15, þar sem hann liggur í sjúkrarúmi á Princetonspítala.

 

Á skrifborðinu hans liggja að venju staflar af pappírum með ókláruðum útreikningum en sínum merkustu útreikningum hafði hann lokið fyrir löngu og með þeim færði hann mannkyninu alveg nýjan skilning á alheiminum.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Stine Overbye

© Getty Images

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

NÝJASTA NÝTT

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Vinsælast

1

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

2

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

3

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

4

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

5

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

6

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

1

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

2

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

3

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

4

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

5

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

6

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Jörðin

Leiða loftslagsbreytingar til fleiri jarðskjálfta?

Maðurinn

Heilsa okkar ræðst af blóðinu

Náttúran

Topp 5: Hvaða dýr stunda lengsta mökun?

Lifandi Saga

Sósíaldarwinistarnir lýstu yfir stríði gegn fátækum

Maðurinn

Er siðblindingi á vinnustaðnum þínum?

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

Maðurinn

Eru fingraför óhjákvæmilega ólík?

Maðurinn

Frestar þú leiðinlegum verkefnum? Samkvæmt vísindamönnum er það slæm hugmynd

Læknisfræði

Hversu gamalt er Viagra?

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

Maðurinn

Við getum lifað án heilastofns

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Er sólarvarnarkrem eina leiðin til að verjast geislum sólar eða eru til matvörur með sólarvörn?

Maðurinn

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is