Maðurinn hefur haft búsetu á ástralska meginlandinu í 50.000 ár og nú hefur fundist sönnun þess að menn gerðu þar nákvæmar klapparmyndir fyrir meira en 17.000 árum.
Tveggja metra löng mynd af kengúru undir klettasnös í Vestur-Ástralíu hefur nú verið aldursákvörðuð sem elsta mynd Ástralíu.
Yfirleitt er afar erfitt að greina aldur hellamynda af nákvæmni en bæði yfir og undir þessari mynd fundu vísindamennirnir leifar geitungabúa og í þeim lífrænar leifar af bæði plöntum og dýrum og C-14 aldursgreining á þeim gaf til kynna 17.100-17.500 ára aldur.
Af aldursgreiningunni má líka ráða að svæðið hafi á þessum tíma verið fremur þéttbýlt. Það þykir áhugavert vegna þess að þá ríkti enn ísöld í Ástralíu og loftslag var bæði kaldara og þurrara en nú.
17.100 ára gamalt er hellamálverk í norðausturhluta hins ósnortna Kimberley-svæðis í Vestur-Ástralíu.
Myndin er gerð í skáhallt loft opins hellis þar sem fólk hefur búið um þúsundir ára – og reyndar geitungar líka. Kengúrumyndin þykir dæmigerð fyrir myndir sem flokkast sem „misútfylltar dýramyndir“ en á þeim er ekki allur líkami dýranna litaður.
Eldri myndir e.t.v. til
Vísindamennirnir sem stóðu að aldursgreiningunni gera sér vonir um að þessi rannsókn geti átt þátt í bættum skilningi á tilurð menningar frumbyggja Ástralíu og hvernig hún þróaðist.
Vísindamennirnir segja myndina minna talsvert á hellamyndir sem fundist hafa á eyjum í Suðaustur-Asíu og aldursgreiningar hafa sýnt að eru meira en 40.000 ára gamlar.
Þetta gefur til kynna mögulegt samhengi og bendir til að ef til vill finnist enn eldri hellamyndir í Ástralíu.