Mýtan um ánamaka
„Ef þú slysast til að stinga skóflunni gegnum ánamaðk í garðinum, lifir hann bara áfram sem tveir ánamaðkar.“ Þetta hefur verið sagt lengi og margir trúað. En þetta er bara þjóðsaga.
Í langflestum tilvikum drepst ánamaðkur sem skorinn er í tvennt en endarnir geta hins vegar verið lengi á iði og því mætti kannski halda að þeir geti báðir lifað áfram.
Það kemur þó fyrir að framendinn nái að þroska nýjan afturhluta og geti lifað áfram og það er líka til að ánamaðkur sem hefur klofnað langsum að aftan nái að gróa og lifi áfram með tvo afturenda.
Ánamaðkur getur ekki orðið að tveimur einstaklingum
Ástæða þess að ánamaðkar geta ekki skipst í tvo lífvænlega ánamaðka er fólgin í líkamsbyggingunni. Þótt báðir endar séu svipaðir í útliti við fyrstu sýn er innihaldið mjög ólíkt.
Fremst er svokallaður taugahnútur sem er það sem kemst næst því að geta kallast heili. Þar er líka frumstætt blóðkerfi með fimm hjörtum og svo flókin æxlunarfæri. Ekkert þessara lífsnauðsynlegu líffæra er að finna í afturendanum sem er bara þarmur og getur því alls ekki lifað sjálfstæðu lífi.
Flatormur er nærri ódauðlegur
Að því er varðar hæfni til að endurskapa sig stenst ekkert dýr samanburð við flatorma. Hæfni þeirra til að skipta sér í fleiri einstaklinga hefur í áratugi verið rannsökuð í rannsóknastofum.
Hvort sem flatormur er skorinn þversum eða langsum, eða jafnvel í fleiri hluta, verður hver hluti að nýjum ormi. Tilraunir hafa sýnt að sumar tegundir má skera í allt að 279 stykki sem hvert um sig þróar sig upp í nýjan, lífvænlegan orm.