Það eru alls ekki allar stjörnur einar á ferð í geimnum. A.m.k. helmingur allra stjarna á næturhimninum eiga sér systurstjörnu og eru hluti af sólkerfi þar sem eru tvær eða fleiri sólir, sem þyngdaraflið heldur á braut um sameiginlegan þyngdarpunkt.
Í innan við 20 ljósára fjarlægð héðan eru 16 tvístirni og tvö þrístirni.
Næsti nágranni sólarinnar er þrístirnið Alfa Centauri þar sem tvær sólir Alfa Cenauri A og B snúast hvor um aðra í mikilli nálægð, en þriðja og daufasta sólin, Proxima Centauri er nokkru fjær.
Tvístirni myndast í sama gas- og rykskýinu. Þessar stjörnur eru þess vegna úr nákvæmlega sömu frumefnum og líka jafngamlar. En stundum er massi þeirra misjafn og þær þróast því misjafnlega og verða ekki mjög langlífar. Massameiri stjarnan deyr fyrr.
Tvíburi sólarinnar okkar
Sumir vísindamenn telja meira að segja að allar stjörnur, sólin okkar þar meðtalin, myndist sem tvístirni.
Þessi mögulegi tvíburi sólarinnar kallast Nemesis og hefur þá fyrir milljörðum ára lent á braut, sem hefur þeytt henni út úr sólkerfinu.
Samkvæmt þessari hugmynd er Nemesis líklegast einhvers staðar í Vetrarbrautinni og að öllum líkindum brúnn dvergur, sem sé lítil og svöl stjarna, sem aldrei getur náð upp nægum hita til að hefja kjarnasamruna.
Þrjár aðferðir til að finna tvístirni
Tvístirni snúast um sameiginlegan þyngdarpunkt, en oft er aðeins ein stjarna sýnileg. Stjörnufræðingar beita því sérstökum aðferðum til að finna tvíburann.
1. Hreyfibreytingar
Sum tvístirni uppgötvast vegna þess að hreyfimynstur stærri stjörnunnar er óreglubundið. Dæmi um þetta eru Síríus og Síríus B í Stóra hundi.
2. Myrkvun
Í öðrum tilvikum liggja brautirnar þannig að stjörnurnar skyggja hvor á aðra héðan séð. Dæmi um þetta er Algol í Perseifi, en birta stjörnunnar dvínar greinilega þriðja hvern dag.
3. Litrófsmælingar
Tvær stjörnur, mjög nálægt hvor annarri, finnast oft ekki nema með litrófsgreini sem greinir ljósið frá stjörnunum. Með þessari aðferð tókst að afhjúpa Kastor í Tvíburunum, sem tvístirni.