Lifandi Saga

Fjöldamorð SS leiddi til miskunnarlausrar hefndar

Þegar her Hitlers reynir árið 1944 að snúa stríðsgæfunni sér í vil með leifturárás í gegnum Ardennafjöll taka þýskir SS-liðar um 100 bandaríska stríðsfanga af lífi með köldu blóði. En félagar þeirra hefna sín grimmilega.

BIRT: 19/09/2022

Ískaldur vindurinn bítur í kinnar Virgils Larry þegar jeppi bandaríkjamannsins ekur í gegnum Vallóníu í Belgíu þann 17. desember 1944.

 

Daginn áður höfðu hermenn Hitlers hafið gagnárás í Ardennafjöllum og lautinant Larry og lest af jeppum og opnum vörubílum með hermönnum frá 285. stórskotaliðinu er á leiðinni frá bænum Malmédy til St. Vith til að styrkja varnir Bandaríkjamanna á austurbelgísku vígstöðvunum.

 

„Boches! Boches!“ hrópa nokkrir Belgar í vegarkantinum þegar lestin nálgast vegamót rétt rúmlega klukkan 13 við þorpið Baugnez. En Bandaríkjamenn hafa ekki hugmynd um að Belgarnir séu að vara þá við þýskum hermönnum í nágrenninu.

 

Skömmu eftir að hluti herflutningalestarinnar hefur farið yfir vegamótin rennur dauðans alvara upp fyrir Larry í fremsta jeppanum, þegar skot dynja á vörubílunum á bak við hann frá þýskum skriðdrekum. Mörg farartæki eyðileggjast meðan önnur velta um koll í atganginum.

 

Fjöldamorð hafið

Bandaríkjamenn kasta sér niður við vegakantinn og reyna að verjast. En um ofurefli er að etja og fjölmargir Tiger  og Panther skriðdrekar koma æðandi að þeim austan við Baugnez.

 

„Við neyðumst til að gefast upp“, hrópar Virgil Larry til manna sinna og innan tíðar skríða ríflega 100 Bandaríkjamenn úr skjóli sínu með hendurnar fyrir ofan höfuð.

 

Þjóðverjarnir sem tilheyra SS-Kampgruppe Peiper skipa föngunum út á engið einum af öðrum. Þrátt fyrir vetrarkuldann er jarðvegurinn þar krapað drullusvað.

 

Furðu lostinn tekur Larry eftir því hvernig skriðdrekarnir skerma Bandaríkjamennina nú af, þrátt fyrir að þeir standi allir með hendur upp í loft án þess að nokkur ógn stafi af þeim.

 

Þriðja farartækið stoppar mitt á veginum við akurinn, þar sem fjölmargir SS-hermenn hafa raðað sér upp.

 

Einn liðsforingi í faratækinu tekur skammbyssuna sína upp og beinir henni að föngunum. Skyndilega þrýstir hann á gikkinn. Byssukúla skellur á brjósti bílstjóra Larrys sem stendur rétt fyrir framan hann og lyppast niður. Bandarísku fangarnir stara óttaslegnir á landa sinn sem liggur stynjandi á akrinum. Skömmu síðar taka þýsku vélbyssurnar að gelta. Fjöldamorðið er hafið.

 

En þetta miskunnarleysi Þjóðverja gleymist ekki – hvorki hjá Bandaríkjamönnum né í sögunni.

Bandaríska herflutningalestin lenti saman nálægt bænum Malmédy við SS brynvarðsveitir Joachims Peiper, sem voru á hraðleið vestur með yfir 800 skriðdreka og önnur farartæki. Á hæla Peipers fylgdu aðrar SS-sveitir.

SS var tilbúið í blóðbað

Böðlarnir í SS-Kampgruppe Peiper voru hluti af 250.000 þýskum hermönnum sem í desember 1944 tóku þátt í gagnárás Hitlers í Ardennafjöllum.

 

Leifturárásin í gegnum belgísku skógana í átt að bandarísku víglínunni var síðasta tilraun Hitlers til þess að snúa stríðsgæfunni sér í hag.

 

Öllu máli skipti að fara hratt yfir og koma óvininum á óvart. Og hér var Kampgruppe Peiper með SS-Obersturnbannfürer Joachim Peiper fremstan í flokki og átti að þræða í gegnum Ardennafjöll til þess að ná valdi á mikilvægum brúm yfir Meuse-fljótið.

Joachim Peiper átti sér óhugnanlega fortíð

Að fyrirskipa dráp á varnarlausum mönnum var engin nýlunda fyrir Joachim Peiper. Þessi þýski SS-liðsforingi hafði gert það áður á Ítalíu, þar sem hann samkvæmt ákærum lét drepa almenna borgara.

 

Þrátt fyrir að aldrei hafði verið skorið úr því hvort Joachim Peiper hafi persónulega gefið skipun um að taka stríðsfanga af lífi í Malmédy-blóðbaðinu bendir margt til þess að þessi þýski SS-foringi hafi ekki hikað við að gefa slíka skipun.

 

Samkvæmt síðari ákærum var Peiper ábyrgur fyrir fjöldamorðum á Ítalíu árið 1943. Þar höfðu ítalskir skæruliðar nærri bænum Boves tekið þýska hermenn til fanga.

 

Peiper umkringdi Boves með liði sínu og lýsti yfir því að hann myndi eyðileggja bæinn væri föngunum ekki sleppt lausum. Prestur á staðnum stóð fyrir því að það væri gert.

 

Samkvæmt ákærum sem komu fram 25 árum síðar skipaði Peiper samt sem áður hermönnum sínum að eyðileggja Boves. Um 350 hús voru brennd til grunna og þeir íbúar sem ekki voru flúnir voru drepnir.

 

Meðal þeirra var 78 ára gömul kona sem brann inni þegar menn Peipers lögðu eld að húsi hennar. Alls voru 23 almennir borgarar drepnir í þessu fjöldamorði.

 

Árið 1968 gáfust bæði ítalskur og þýskur dómstóll upp á því að rétta yfir Peiper og mönnum hans vegna skorts á sönnunargögnum.

Hitler hafði fyrir árásina gefið skipun um að herdeildirnar skyldu berjast „miskunnarlaust“ svo að þær gætu ætt fram „í bylgju af skelfingu og ótta“. Foringinn lagði mikla áherslu á að hermennirnir skyldu ekki „sýna nokkra undanlátsemi“.

 

Samkvæmt Joachim Peiper tók hann tveimur dögum fyrir Ardenna-gagnárásina við skilaboðum frá höfuðstöðvum herdeildarinnar sem „buðu að stríðsfangar skyldu skotnir þegar bardagaaðstæður krefðust þess“.

 

Önnur vitni efuðust að stríði loknu um að hafa lesið svo beinskeytt tilmæli um aftökur en margir hermenn í SS-deildum báru vitni um að í Ardenna-gagnárásinni hafi yfirmenn þeirra hvatt þá til að gera út af við stríðsfanga.

MYNDSKEIÐ: Sókn Hitlers kom Bandaríkjamönnum á óvart

Þann 16. desember 1944 réðust yfir kvartmilljón þýskra hermanna inn í Belgíu í örvæntingarfullri tilraun til að sundra herafla bandamanna. Hér geturðu séð upprunalegt myndefni frá sókninni.

 

Ef þessi leifturárás Þjóðverja átti að heppnast gátu herdeildirnar ekki látið stríðsfanga tefja framrásina. Og þetta átti einkum við um hermennina í elítusveitinni Waffen-SS sem var innrætt að láta ekki siðferðilegar vangaveltur hindra árásina.

 

Liðsforingi hvatti sem dæmi sína menn til að „berjast í hinum gamla góða SS-anda“:

 

„Ég gef ekki beinar skipanir um að skjóta stríðsfanga en þið eruð allir þrautþjálfaðir SS-hermenn. Þið vitið hvað þið þurfið að gera án þess að ég þurfi að segja ykkur það“, bætti hann við.

Miskunnarleysi Waffen-SS var algert

Herdeildir frá SS samanstóðu af sannfærðum nasistum sem voru skólaðir í ákaflega miskunnarlausum hernaði. Waffen-SS herdeildirnar frömdu ótal fjöldamorð í stríðinu.

 

27. maí 1940

Bretar myrtir í Paradis

 

SS-herdeildin Totenkopf myrti árið 1940 alls 97 breska hermenn. Þeir höfðu gefist upp í franska bænum Le Paradis.

 

19. júní 1940

Blökkumenn sallaðir niður

 

Nærri Lyon skutu hermenn, m.a. frá þýsku SS herdeildinni Totenkopf árið 1940, meira en 100 fangaða Senegala í her Frakklands.

 

11. apríl 1941

Borgurum varpað í fjöldagröf

 

Í innrásinni í Júgóslavíu árið 1941 skutu SS-liðar um 200 borgara í Alibunar til að hefna fyrir drápið á einum þýskum hermanni.

 

17. febrúar 1942

Rússar voru brenndir lifandi

 

Brynvarða herdeildin Leibstandarte SS Adolf Hitler drap árið 1942 næstum 900 rússneska borgara – 240 þeirra voru brenndir inni í kirkju í bænum Jefremovka.

 

12. ágúst 1944

Eldvörpur á fórnarlömb

16.SS-Panzergrenadier herdeildin lokaði árið 1944 um 70 ítalska fanga inni í hesthúsi í bænum Vaccareccia. Fangarnir voru síðan myrtir með vélbyssum og eldvörpum.

Austuvígstöðvataktík endurvakin

Peiper var heldur ekki sú manngerð sem þjáðist af samviskubiti þegar það kom að harðhentri meðferð óvinarins. Þessi 29 ára gamli erkinasisti hafði þegar árið 1933 komið sem sjálfboðaliði til SS og starfaði á fyrstu árum stríðsins sem aðstoðarmaður SS-ríkisforingjans Heinrichs Himmler.

 

Þá hafði hann ásamt Himmler skoðað útrýmingarbúðir og verið viðstaddur þegar andlega sjúkir fangar voru teknir af lífi með gasi.

 

Peiper barðist síðast í Sovétríkjunum og sagt var að herdeild hans hikaði ekki við að misþyrma og skjóta fanga.

„Nú skulum við berjast eins og við gerðum í Rússlandi”.

Joachim Peiper við hermenn sína í Ardenna-gagnárásina.

Samkvæmt einum hermanni frá Kampgruppe Peiper var það þetta miskunnarlausa háttalag á austurvígstöðvunum sem liðsforinginn vildi nú sjá í Ardennafjöllum.

 

„Nú skulum við berjast eins og við gerðum í Rússlandi”. Þessar reglur sem hafa verið notaðar á Vesturlöndum fram til þessa skipta engu“, er hermt eftir Peiper fyrir bardagann.

 

Þegar hermenn Peipers stóðu skyndilega frammi fyrir ríflega 100 bandarískum föngum voru SS-hermennirnir því reiðubúnir. Hersveit þeirra var komin í tímaþröng og þurfti að hraða sér sem skjótast áfram.

 

Enginn veit hvort Peiper hafi sjálfur gefið skipun um fjöldamorðið. Hann hafði þá þegar ekið áfram með fremstu skriðdrekunum, þegar Bandaríkjamönnum var safnað saman á akrinum og fyrsta skotinu var hleypt af á akrinum við Baugnez.

 

Skot sem átti eftir að gera alla Bandaríkjamenn algjörlega brjálaða.

 

Þjóðverjar slátruðu föngum

Lautinant Virgil Larry hafði séð sér til mikillar skelfingar hvernig bílstjóri hans hneig niður á akurinn með kúlu í brjóstinu. Bandaríkjamaðurinn náði varla að bregðast við áður en þýskar skammbyssur, rifflar og byssur skutu sem óðast inn í flokk fanganna.

 

„Skothríðin varð sífellt ákafari. Þeir okkar sem voru ekki drepnir á staðnum köstuðu sér niður á jörðina. Ég féll með andlitið ofan í leirinn og heyrði sársaukaveinin frá særðum löndum mínum“, minntist Larry síðar.

 

Allir teknir af lífi

Í 3 – 4 mínútur fyllti hljóðið frá vélbyssugeltinu loftið meðan skotin tættu í sundur líkama fanganna. Larry fann hvernig ein kúla skaust í gegnum annan fótlegg hans meðan önnur beit sig inn í lærbeinið.

 

Þegar óhugnanlegt geltið frá vopnunum stöðvaðist loksins lágu margir sárir og veinandi af kvölum meðan aðrir voru grafkyrrir.

 

„Macht alle kaputt!“ heyrðist á þýsku ofan af veginum – allir eftirlifendur skyldu teknir af lífi.

 

Einn SS-liðinn sem var á staðnum viðurkenndi síðar í yfirheyrslu að hann hefði staðið með tveimur félögum sínum „í nokkrar mínútur og fylgst með Bandaríkjamönnm sem hreyfðu sig ennþá eða sýndu önnur lífsmerki.“

 

„Við þrír gengum þá þarna á milli þeirra til að skjóta þá. Ég skaut fjóra eða fimm særða bandaríska hermenn með skammbyssu minni. Ég sendi einungis eina kúlu í hjartað á hverjum og einum þeirra“.

„Ég beið skelfingu lostinn þess að líf mitt myndi enda“.

Lautinant Virgil Larry í vitnaleiðslum um fjöldamorðin.

Meðan Larry lá ennþá með andlitið ofan í moldinni skynjaði hann böðlana koma nær. Í hvert sinn sem þeir skutu þagnaði enn eitt sársaukaveinið á akrinum. Sjálfur gætti Larry þess að bíta á jaxlinn vegna sársaukans og þykjast vera dauður. Hann lá grafkyrr, stífur af ótta, þegar tvö stígvél stigu í leðjuna nærri honum.

 

„Tíminn stóð kyrr“, minntist lautinantinn sem heyrði eitt skot fara í gegnum höfuðið á manni sem lá við hliðina á honum.

 

„Ég beið skelfingu lostinn þess að líf mitt myndi enda“.

 

Eftirlifendur reyna flótta

Larry var ekki í nokkrum vafa um að dagar hans væru taldir. Honum þótti því það vera kraftaverki líkast þegar hann heyrði fótatak þýska SS-hermannsins fjarlægjast.

 

Skömmu síðar hætti öll skothríð. Þjóðverjarnir virtust vera sammála um að allir fangarnir væru dauðir. Dieselvélar voru ræstar á ný og skriðdrekar og brynvarin farartæki héldu áfram í suðurátt.

 

Aðeins eitt teymi þýskra varða var eftir og tók sér stöðu á krossgötunum í Baugnez, þaðan sem þeir stýrðu nýkomnum herdeildum til suðurs. Fyrir utan Larry voru 15 – 20 aðrir Bandaríkjamenn ennþá á lífi á akrinum.

 

Í hvert sinn sem hávær bílalest ók fram hjá þeim hvísluðu þeir hver til annars. Þar sem ljóst var að þeir myndu ekki lifa af frostkalda nóttina þá töluðu þeir saman um að reyna að komast í burtu lifandi.

 

„Núna er tími til kominn“, heyrðist frá einum Bandaríkjamanni þegar það tók að skyggja seinni part þessa dags.

LESTU EINNIG

Sárir og haltrandi flýttu þér sér yfir akurinn. Sumir hlupu í átt að skógi, aðrir inn í tómt kaffihús nærri vegamótunum.

 

Þýsku varðmennirnir uppgötvuðu fljótt flóttann og aftur fóru vélbyssur þeirra að gelta. Hópur flóttamanna náði inn í skóginn og slapp. Svo heppnir voru þeir sem höfðu leitað skjóls í kaffihúsinu þó ekki. Þjóðverjarnir kveiktu í byggingunni og þegar Bandaríkjamennirnir hlupu út voru þeir skotnir einn af öðrum.

 

Larry varð alls þessa var en hann var einn um að hafa leitað skjóls í skúr nærri húsinu. Sem betur fer leitaði enginn þýskur vörður í þessum skúr og þegar það var komið niðamyrkur læddist hann í norðvestur átt – í átt að bænum Malmédy sem var ennþá undir stjórn Bandaríkjamanna.

Árið 1946 sagði Lieutenant Virgil Lary frá upplifun sinni í Malmédy fjöldamorðunum. Vitnisburður hans var myndaður og er hægt að sjá hér.

„Sem betur fer var ég með áttavita. Ég vissi ekki nákvæmlega hvar Malmédy var, þetta voru um fimm kílómetrar. Þegar ég kom á stað þar sem að stóðu nokkur hús komu Belgar mér til aðstoðar og hjálpuðu mér til Malmédy. Þar tilkynnti ég strax um allt þetta fyrir yfirboðara á staðnum“.

 

Frásagnir Larry og annarra sem lifðu af blóðbaðið olli miklu uppnámi meðal bandarískra hermanna. Áður en dagurinn var úti vissi hver einasti hermaður í skotgröfunum í Ardennafjöllum af þessu fjöldamorði Þjóðverja sem var þó ranglega nefnt Malmédy-fjöldamorðin en ekki Baugnez-fjöldamorðin – líklega vegna þess að þessar hræðilegu frásagnir bárust frá Malmédy.

 

En bandarískum hermönnum var nokk sama um slíka landafræði. Það var bara eitt sem vakti fyrir þeim öðru fremur: Þessa þýska ódæðis skyldi rækilega hefnt.

 

Bandaríkjamenn hefna sín

Fréttin um fjöldamorðin gjörbreytti afstöðu Bandaríkjamanna í bardögunum í Ardennafjöllum. Þegar daginn eftir blóðbaðið sendi hæstráðandinn mikilvæga viðvörun til allra hermanna á vígstöðvum:

 

„Það er hættulegt á hvaða tíma sem er að gefast upp fyrir þýskum skriðdrekasveitum og einkum skriðdrekum sem eru ekki í fylgd fótgönguliðs eða að gefast upp fyrir sérhverri herdeild sem sækir hratt fram. Þessar herdeildir eru ekki búnar til að taka við föngum og leysa þann vanda með því að drepa þá einfaldlega á staðnum“.

Stórsókn Þjóðverja kom Bandaríkjamönnum algjörlega í opna skjöldu. Þýsku hersveitirnar voru því mjög farsælar í upphafi sóknarinnar. En stríðsgæfan snérsist brátt við.

Þannig hættu menn nú að kasta frá sér vopnum og teygja hendur upp í loft. Nú börðust Bandaríkjamenn til dauðans. En mesta breytingin fólst í því að nú voru Bandaríkjamenn ákaflega kaldrifjaðir þegar þeir mættu Þjóðverjum.
Öll miskunnsemi eða þekking um sáttmála í hernaði var grafin djúpt ofan í snjóinn sem var farinn að falla yfir Ardennafjöll.

 

Á næstu vikum eftir fjöldamorðin hikuðu Bandaríkjamenn ekki við að misþyrma þýskum föngum og ef einhver var í bandarískum skóbúnaði var hann skotinn á staðnum. Það gat nefnilega einungis þýtt að óvinurinn hafði sjálfur stolið skónum á föngnum eða dauðum Bandaríkjamanni.

 


Raunin var reyndar sú að í desember 1944 skorti þýska hermenn nánast allt – einkum góðan skóbúnað. Freistingin að taka hlýja fóðraða skó frá hinum látnu var því mikil.

Þýsku hermennirnir voru svo illa búnir að margir féllu fyrir þeirri freistingu að stela stígvélum frá látnum bandarískum hermönnum, eins og sést á þessari mynd af stígvélalausum fótum fremri Bandaríkjamannsins.

Flestir Bandaríkjamenn kærðu sig þó kollótta um þess konar pælingar enda voru þeir æfir yfir örlögum félaga sinna. Til þess að refsa þýskum fallhlífahermönnum sem þeir tóku til fanga neyddu Bandaríkjamenn þá til að ganga berfætta í snjónum klukkustundum saman.

 

Síðan voru fangarnir sendir aftur á sjúkrahúsin þar sem í sumum tilvikum þurfti að aflima kalna fætur þeirra.

„Enginn SS-liði eða fallhlífahermaður skal tekinn til fanga heldur skotinn undir eins“.

Skrifleg skipun frá 328. fótgönguliðinu.

 

„Það má vel kalla þetta hryllilegt athæfi en á þeim tíma taldi ég að þetta væri miskunnarlaus en skilvirk leið til að kenna Þjóðverjum sína lexíu: Svona gera menn ekki við okkar félaga“, sagði óbreyttur Frank Brumbaugh frá 82. herdeild flughersins.

 

Oft bar við að Þjóðverjar, klæddir bandarískum skóbúnaði, væru bara skotnir þar sem þeir stóðu. En þó þurfti ekki þjófnað til til að þetta hlutskipti biði Þjóðverjanna.

 

„Enginn SS-liði eða fallhlífahermaður skal tekinn til fanga heldur skotinn undir eins“, mátti lesa í athyglisverðri skriflegri skipun frá 328. fótgönguliðinu fjórum dögum eftir Malmédy-fjöldamorðin.

 

Blóðbað Bandaríkjamanna þaggað niður

Það voru þó ekki allir bandarískir liðsforingjar sem hvöttu til slíks framferðis. En ef hermaður skaut þýskan fanga af því að er virtist að ástæðulausu var hann samt ekki kærður. Menn horfðu bara í gegnum fingur sér varðandi hefndaraðgerðirnar sem fóru fram og þær voru fjölmargar í Ardennafjöllum.

 

Særðir þýskir skriðdrekahermenn voru skotnir og „Fritzer“ sem vildi gefast upp var drepinn með köldu blóði.

,,Við frömdum nú nákvæmlega sömu ódæðin eins og Japanir og Þjóðverjar gerðu“.

John Fague liðþjálfi um dráp á u.þ.b. 60 þýskum stríðsföngum.

Samkvæmt vitni sem barðist nærri Elsenborg-hæðardraginu í austurhluta Belgíu var í herdeild hans einn 19 ára gamall óbreyttur hermaður sem hafði gælunafnið „Junior“. Hann var alræmdur fyrir að drepa „hvern einasta Þjóðverja sem hann komst í tæri við, þar með talda alla stríðsfanga“.

 

„Junior þrammaði niður götuna. Þjóðverji sem hafði í 72 tíma leynst í húsi einu kom út úr því þar sem hann féll á kné og brosti með hendurnar fyrir ofan höfuð:“ „Kamerat! Kamerat!“ „Junior hægði ekki einu sinni á sér heldur dró fram skammbyssu sína og skaut manninn í andlitið þegar hann gekk fram hjá honum“, sagði vitni eitt um hefndarhug Juniors.

Eftir Malmédy-blóðbaðið tóku bandarískar herdeildir kerfisbundið að taka af lífi þýska hermenn sem þeir rákust á – einnig þrátt fyrir að þeir hefðu kastað frá sér vopnum.

Einhver skelfilegasta hefndin átti sér stað þann 1. janúar 1945 í bænum Chenogne. Eftir hatramman bardaga í rústum bæjarins tóku hermenn frá 11. brynvörðu deild BNA um 60 Þjóðverja til fanga – flestir þeirra kornungir hermenn – og skipuðu þeim upp við brekku rétt utan við bæinn.

 

„Vélbyssum var stillt upp. Þessa drengi átti nú að skjóta og myrða. Við frömdum nú nákvæmlega sömu ódæðin eins og Japanir og Þjóðverjar gerðu“, útskýrði John Fague liðþjálfi við 11. brynvörðu liðdeildina sem tók þó ekki sjálfur í gikkinn heldur sá hvað fram fór:

 

„Á leiðinni aftur til bæjarins tók ég eftir ökrunum þar sem þýsku drengirnir voru skotnir. Dökk líflaus form lágu út um allt í snjónum“.

 

Ekki er vitað hver skipaði þetta fjöldamorð á þýsku hermönnunum. Þetta miskunnarleysi er einn kaflinn í bandarískri hersögu en það var þaggað niður um leið og vélbyssurnar höfðu þagnað.

 

„Vissulega voru nokkur óheppileg atvik sem tengjast drápunum á föngum okkar. Ég vona að við getum sópað því undir teppið“, skrifaði hinn víðfrægi bandaríski hershöfðingi George Patton í dagbók sína.

Patton hershöfðingi (t.v.) fékk skilaboð um ódæði hermanna sinna en vildi þagga málið niður.

Yfirmaður alls herafla Bandamanna, Dwight D. Eisenhower, vildi láta rannsaka þetta þegar stríðinu lauk. En 11. brynvarða deildin neitaði samvinnu og lýsti þess í stað yfir: „Það er of seint; stríðinu er lokið og búið að leysa upp herdeildina“.

 

Fjöldamorðin voru þögguð niður og varla minnst á þau í skjalasafninu. Hins vegar voru Bandaríkjamenn óðir og uppvægir að rannsaka nákvæmlega sambærileg fjöldamorð Þjóðverja við Malmédy.

 

Líkin grafin upp

Það var ekki fyrr en mánuði síðar, eftir blóðbað Þjóðverja sem bandarískir hermenn náðu aftur yfirráðum á svæðinu við Baugnez, þar sem stríðsglæpirnir áttu sér stað.

 

Jörðin var nú gaddfreðin og hálfs metra lag af snjó yfir akrinum. En undir hvítri hulunni reyndist óhugnanlegur fundur sem kom smám saman í ljós.

 

„Bandarískir hermenn og nokkrir þýskir stríðsforingjar gengu um akurinn. Þeir grófu upp frosin lík hinna myrtu hermanna upp úr snjónum. Þeir voru frosnir með handleggi og fætur í óhugnanlegum stellingum“ minntist hermaðurinn Frank Brumbaugh sem fór þar hjá um miðjan janúar.

Mánuði eftir Malmédy-blóðbaðið fundu Bandaríkjamenn illa leikin lík félaga sinna undir snjónum.

Greftrunarteymi skráði niður staðsetninguna og tók myndir af líkunum sem mörg hver lágu með hendur yfir höfuð í augljósri uppgjöf. Augun voru farin úr mörgum þeirra, líklega vegna þess að krákur höfðu gætt sér á þeim. Þess í stað voru augntóftirnar fullar af snjó.

 

Frosin líkin voru flutt í vörubílum í járnbrautarbyggingu í Malmédy, þar sem þau voru látin þiðna. Þar fundu læknar skýrar sannanir um að fórnarlömbin höfðu verið myrt.

 

Fyrir utan uppréttar hendur mátti sjá skotgöt í höfðum, hjörtum eða hnakka og púðurbruni nærri skotholunum sannaði að skotið hafði verið af stuttu færi.

 

Alls voru 84 bandarískir fangar teknir af lífi á akrinum. Aðrir sem höfðu verið með í herflutningalestinni voru ýmist drepnir í bardögum eða þeim hafði tekist að flýja.

 

Bráðabirgðaskýrsla Bandaríkjamanna var tilbúin þann 7. janúar 1945 og síðari yfirheyrslur á þýskum stríðsföngum færðu sanninn um að böðlarnir að baki blóðbaðinu voru allir í Kampgruppe Peiper.

 

Þegar stríðinu var lokið var tími til kominn að refsa hinum ábyrgu.

 

43 voru dæmdir til dauða

Á meðan Bandaríkjamenn náðu að hylma yfir eigin hefndarblóðbað í Chenogne lögðu þeir nú áherslu á að refsa Þjóðverjum fyrir það fjöldamorð sem einn bandarískur öldungamaður lýsti sem „versta fjöldamorði í hernaðarsögunni“.

 

Árið 1946 ákærðu Bandaríkjamenn alls 73 þýska liðsforingja og SS-hermenn í miklum stríðsglæparéttarhöldum í fyrrum útrýmingarbúðum í Dachau. Fjölmörg vitni sem höfðu verið viðstödd fjöldamorðin voru kvödd til.

Alls fengu 73 SS-liðar fangelsisdóma eða dauðadóma fyrir fjöldamorðin í Malmédy, þar á meðal Joachim Peiper (nr. 42).

Dauðadæmdir morðingjar gengu frjálsir burt

Þrátt fyrir að 43 SS-hermenn hafi verið dæmdir til dauða fyrir þátttöku sína í Malmédy-fjöldamorðunum sluppu þeir síðar við gálgann. Þegar árið 1956 voru þeir allir frjálsir menn.

 

Dauði með hengingu hljóðaði dómurinn yfir Joachim Peiper og 42 SS-hermönnum í stríðsglæpadómstólnum við fyrrum útrýmingarbúðirnar í Dachau árið 1946.

 

Dauðadóminum var ekki fullnægt strax eftir réttarhöldin og árið 1948 kærðu hinir dauðadæmdu á móti bandaríska herinn.

 

Staðhæfingar um að SS-hermennirnir hefðu þurft að þola langvarandi einangrun og pyntingar til að ná úr þeim játningum náði í gegnum þýska fjölmiðla til bandarísku öldungardeildarinnar.

 

Bandaríkjamenn komu á laggirnar nefnd til að meta dómana og ásakanir þeirra um pyntingar. Hinn síðar alræmdi öldungadeildarþingmaður Joseph McCarthy var einn af þeim Bandaríkjamönnum sem ákærði herinn fyrir gróf mistök.

 

Þetta umdeilda mál þvældist í dómsölum um áraraðir þar sem dauðadómarnir voru á endanum mildaðir niður í fangelsisvist.

 

Vestur-Þýskaland hélt þó áfram að amast yfir dómunum og þegar Bandamenn hættu árið 1955 hersetu í Þýskalandi enduðu allir hinir dæmdu í Malmédy-fjöldamorðunum með að vera sleppt lausum innan eins árs.

Meðal þeirra var Virgil Larry sem gat bent á þann SS-foringja sem hafði skotið fyrstu tveimur skotunum. Ekki var hægt að slá á föstu hver hafði gefið fyrstu skipunina um fjöldamorðið þann 17. desember 1944.

 

En fleiri þýsk vitni kváðu Peiper mörgum sinnum áður hafa skipað þeim að taka stríðsfanga af lífi í árásinni í Ardennafjöllum. Hvað sem öðru líður var hann sem yfirmaður herdeildarinnar ábyrgur, rétt eins og hann var ábyrgur fyrir því að hafa innrætt þá hugmynd hermanna sinna um að stríðsfangar væru ónauðsynleg byrði.

 

Þann 11. júlí 1946 voru allir 73 þýsku hermennirnir dæmdir sekir í herdómstólum í Dachau um að hafa tekið þátt í að „hafa að tilefnislausu tekið af lífi bandaríska fanga“.

 

Peiper og 42 af SS-liðum hans voru dæmdir til dauða, 22 fengu ævilangt fangelsi og þeir síðustu 8 fengu fangelsisdóm upp á 10 – 20 ár.

 

Í fangelsinu fékk Virgil Larry tækifæri til að hitta Peiper. Lautinantinn spurði hann hvernig herdeild hans hefði getað framið slíkt illvirki. Svar hans var stutt og laggott:

 

„Við höfðum okkar skipanir. Ég tek fulla ábyrgð“, svaraði Peiper.

Hús Joachim Peipers í Frakklandi brann árið 1976 – og var hann sjálfur inni í því.

Hefndin bankaði á dyr Peipers

Joachim Peiper flutti 14 árum eftir að hann losnaði til Frakklands en franskir fjölmiðlar uppgötvuðu vistaskipti hans fljótlega. Peiper vissi að afhjúpunin myndi líklega kosta hann lífið en kaus að flýja ekki.

 

Í desember 1956 var Joachim Peiper sleppt úr fangelsinu í Landsberg. Á næstu 14 árum bjó hann í Vestur-Þýskalandi þar sem hann vann m.a. fyrir Porsche og Volkswagen.

 

Undir nýju nafni flutti Peiper síðan til litla franska sveitabæjarins Traves og hóf störf þar sem þýðandi.

 

Fjórum áður síðar fékk franska kommúnistatímaritið L´Humanité veður af því hver þessi hægláti íbúi í Traves væri í raun og veru.

 

Afhjúpunin varð til þess að margir blaðamenn héldu þangað og Peiper reyndist tilbúinn í viðtöl, þar sem hann sagðist hafa „greitt sitt gjald“ fyrir fortíð sína með því að afplána 12 ára fangelsisvist.

 

Það voru þó alls ekki allir sammála um að þessi fyrrum SS-herforingi hefði fengið sína refsingu. Á Bastellíudaginn þann 14. júlí 1976 lögðu óþekktir menn eld að húsi Peipers – mögulega eftir að hafa drepið hann.

 

Lík hans var óþekkjanlegt eftir brunann inni í húsinu. Enginn var dæmdur fyrir tilræðið en Peiper virtist vita að hefndin myndi koma yfir hann. Skömmu fyrir dauða sinn sagði hann að innan tíðar myndi hann njóta samvista með félögum sínum í Valhöll.

Malmedy-joachim-peiper-gammel

Joachim Peiper varð 61 árs að aldri þegar hann mætti örlögum sínum.

Lestu meira um Malmédy-fjöldamorðin

James J. Weingartner: Crossroads of Death, University of California, 1979


Charles Whiting: Massacre at Malmedy, Arrow Books, 1971

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Troels Ussing, Niels-Peter Granzow Busch

© Imageselect, © ullstein bild Dtl./Getty Images, © U.S. Army/Signal Corps/National Archives, © U.S. National Archives, © Shutterstock/Everett Collection, © Usis-Dite/Bridgeman Images, © U.S. National Archives, © Getty Images, © Keystone Press/Imageselect

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Heilsa

Fjöldi daglegra salernisheimsókna getur haft afleiðingar fyrir heilsuna

Maðurinn

Genagalli gerir albínóa hvíta

Maðurinn

Hið fullkomna morð er dautt

Lifandi Saga

Teþorstinn knésetti stórveldi

Náttúran

Fræðimenn rýna í innsta eðli risaeðlanna 

Menning

Saga kaffisins: Hinir syfjuðu loksins bænheyrðir

Lifandi Saga

Hervegir tengdu keisaradæmið saman 

Lifandi Saga

Barsmíðar og sektir Rómverja sköpuðu ósigrandi hersveitir

Lifandi Saga

Leynivopn Rómverja: Virkið var flutt meðferðis

Alheimurinn

Hvað verður um gaspláneturnar?

Læknisfræði

Hver var fyrsti kvensjúkdómalæknirinn?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is