1. T. rex beit eins og krókódíll
Nýjar rannsóknir sýna að höfuðkúpa grameðlunnar var svipuð að byggingu og í krókódílum nútímans.
Kjálkaliðirnir voru stífir en ekki liprir eins og t.d. í fuglum sem eru afkomendur forneðlanna.
Vísindamenn hjá Missouriháskóla í BNA hafa reiknað út að grameðlan hafi haft bitstyrk upp á 7 tonn eða fjórfalt öflugra bit en krókódílarnir sem nú eiga metið.
2. Lítill og snöggur forfaðir
Í Utah í BNA hefur fundist 96 milljón ára steingervingur af lítilli ráneðlu.
Hún hefur hlotið heitið Moros Intrepidus og vóg aðeins 78 kg en vísindamennirnir telja þennan smávaxna hlaupara forföður stóru tyrannosaurus-eðlanna sem komu fram fyrir 81 milljón ára.
3. Holrúm kældu höfuðið
Grameðlan var með tvö stór holrúm efst í höfuðkúpunni og talið hefur verið að þar hafi verið vöðvar.
Nú hafa bandarískir vísindamenn uppgötvað að í samsvarandi holrúmum í alligatorum eru æðar sem losa dýrið við hita og álíta hið sama hafa gilt um T. rex.
4. Gat ekki sveiflað tungunni
Grameðlan, Tyrannosaurus rex, er oft sýnd reka tunguna út úr sér.
Fjölþjóðlegur hópur vísindamanna hefur borið tungubeinið saman við krókódíla og ýmsa fugla. Mest eru líkindin við krókódíla og tungan í T. rex hefur líklega verið nokkuð föst í neðri kjálkanum.