Flamingóar dansa með góðum árangri

Nákvæmlega æfðar danshreyfingar og rauður húðlitur eru þau brögð sem flamingóar beita í makaleit. Fullvaxinn fugl ræður við rösklega eitt hundrað ólík dansþrep.

BIRT: 28/11/2022

LESTÍMI:

3 mínútur

Bellibrögð við makaleit

Hópurinn dansar í takt.

Á fengitímanum stíga flamingóar í vænginn við væntanlegan maka með dansi sem felur í sér að þeir spígspora í kring á meðan þeir reigja sífellt höfuðið, snúa því leiftursnöggt og blaka vængjunum. Fuglunum fer stöðugt fram og þegar þeir nálgast 20 ára aldurinn ráða þeir við ein 136 ólík dansspor.

Skrautsýki

Fjaðrirnar eru litaðar rauðar.

Fuglar fegra sig með farða. Bæði karl- og kvenfuglar nota farða sem gerður er úr rauðleitum vökva sem þeir framleiða í kirtli rétt við stélið. Fuglarnir nota svo gogginn til að smyrja vökvanum á fjaðrirnar. Fagurlega litaður fjaðurhamur er til marks um ofgnótt.

Einbirni

Hreiðrið líkist reykháf.

Fuglarnir fjölga sér í hópum en kvenfuglinn verpir eggi sínu ofan á leirhreiður sem minnir á reykháf. Þegar svo hvítur dúnhnoðrinn kemur úr egginu fóðra foreldrarnir hann á svokallaðri sarpmjólk en um er að ræða seyti sem framleitt er í slímhimnum vélindans.

Ungfuglaleikskóli

Fullorðnu fuglarnir gæta unganna í sameiningu.

Foreldrar koma ungunum fyrir í ungfuglaleikskólum, þar sem ungarnir dvelja ásamt öðru ungviði fuglahjarðarinnar. Öll fullorðnu dýrin eiga þátt í að gæta unganna og að vernda þá fyrir rándýrum á borð við erni. Ungarnir verða fleygir þriggja mánaða gamlir.

Litarefni

Krabbadýr gefa lit.

Fæðan inniheldur smásæ krabbadýr og þörunga sem innihalda mikið magn af náttúrulegu rauðu litarefni sem ljær fuglunum einkennandi bleikan litinn. Í dýragörðum blanda dýragæslumennirnir litarefninu kantaxantíni í fóðrið til að fuglarnir fái rétta litinn en áður var m.a. notuð paprika í þessu skyni.

Vinátta

Aðeins fáir nánir vinir.   

Aðrir fuglar sömu tegundar verða að halda sig í minnst einnar hálslengdar fjarlægð, með mikilvægum undantekningum þó: Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að fuglarnir stofna til náinna og áralangra vináttubanda. Flamingóar eiga sér tvo til þrjá nána vini og engir aðrir en þeir mega koma alveg nálægt þeim.

Hvíld

Fuglinn hvílist best á öðrum fæti.

Fuglinn hvílist best þegar hann stendur á öðrum fæti en þegar flamingóar standa á báðum fótum nota þeir fleiri vöðva og vaggast frekar. Vísindamenn hafa komist að raun um að liðamót og vöðvar í fótunum læsast nánast þegar fuglinn stendur á tiltekinn hátt.

BIRT: 28/11/2022

HÖFUNDUR: STINE OVERBYE

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: © Claudio Contreras/Nature Picture Library, © Shutterstock,

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.