Síðan fyrsta fjarplánetan fannst 1995 hafa stjörnufræðingar uppgötvað um 4.500 plánetur á brautum um aðrar stjörnur en sólina.
Uppgötvun plánetunnar M51-ULS-1b markar þó mikil tímamót. Þetta er nefnilega fyrsta fjarplánetan sem finnst utan Vetrarbrautarinnar.
M51-ULS-1b snýst um tvístirni í „Hringiðuþokunni“ eða M51a sem er í um 28 milljón ljósára fjarlægð.
Langflestar fjarplánetur hafa uppgötvast með hjágönguaðferðinni:
Stjörnufræðingar fylgjast með birtumagni stjörnu í langan tíma og ef birtumagnið minnkar um fáeina þúsundustu hluta með reglulegu millibili, stafar það af því að pláneta gengur fyrir stjörnuna og skyggir örlítið á hana héðan séð.
Þessari aðferð er ekki unnt að beita úr svona mikilli fjarlægð. Birtumagnið er of lítið til þau tæki sem nú eru notuð ráði við að mæla svo litlar breytingar á svo litlu ljósi.

Stjörnuþokan M51 sem einnig kallast Hringiðuþokan er í um 28 milljón ljósára fjarlægð.
Vísindamenn hjá Harvard & Smithsonian-miðstöðinni leituðu þess í stað að tvístirni þar sem önnur stjarnan hefur fallið saman í nifteindastjörnu.
Í tvístirni sogar nifteindastjarna til sín efni frá hinni stjörnunni og hitinn sem því fylgir veldur öflugri röntgengeislun.
En röntgengeislunin berst frá litlu svæði og því getur stór pláneta valdið mælanlegri minnkun á þeirri geislun þegar hún skyggir á uppsprettuna, séð frá jörðu. Og það var einmitt þannig sem plánetan M51-ULS-1b fannst.
Vísindamennirnir notuðu gömul gögn frá gervihnettinum Chandra við þessa leit og komust þá skyndilega í feitt:
Þann 20. september 2012 slokknaði á röntgengeislun frá þessu sólkerfi í þrjá tíma. Bingó! Þar með var í fyrsta sinn fundin pláneta í annarri stjörnuþoku.
Vísindamennirnir hyggjast þó rannsaka hvort önnur ástæða en hjáganga plánetu gæti skýrt hvarf röntgengeislunarinnar.
En ef röntgen-hjágönguaðferðin virkar í raun og veru, verður trúlega unnt að finna fleiri ámóta fjarlægar plánetur í gögnum sem þegar eru til.